25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4854 í B-deild Alþingistíðinda. (3347)

237. mál, raforkuverð

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það er svolítið furðulegt að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon koma hér og tala af heilagri vandlætingu. Það gefst einhvern tíma tækifæri til þess þó það sé ekki unnt í fyrirspurnatíma að rekja afskipti hans flokks af þessum málum þegar hann fór með þessi mál. Það verður áreiðanlega hægt hér og gæti orðið býsna sögulegt.

En ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. - Ég sé að ókyrrist nú fyrrv. formaður Alþb. og kveður sér hljóðs. Þeir hafa sitthvað að verja í þessum efnum og ekki kannski alveg nógu góðan málstað ef grannt er skoðað. - Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Ég ætla ekki að hefja neitt karp við hann um hver beri hér sök. Við vitum alveg nákvæmlega báðir jafn vel hvernig er staðið að afgreiðslu fjárlaga og hvernig er staðið að því að afgreiða tillögur stjórnarandstöðunnar. Við vitum það og skulum ekkert vera að fjölyrða um það. Ég efast ekki um góðan vilja hans í þessu máli og hann er áreiðanlega fyrir hendi hjá fleiri ráðherrum og í fjvn., enda þótt ekki hafi verið tök á því að fara aðrar leiðir þá en farnar voru.

Ég vildi með þessari fsp. vekja athygli á þessu máli. Hér er um jafnréttismál að ræða. Hér er mikið misrétti ríkjandi og það hallar mjög á landsbyggðina og ekki bara í þessu máli. Einnig í mörgum öðrum málum. Þetta hefur komið mjög skýrt í ljós að undanförnu. Hér þarf að verða breyting á og ég veit að þetta er ekkert einfalt mál eða auðvelt að leysa.

Ég hygg að þegar við berum saman þennan hitunarkostnað megi vel vera að Hitaveita Reykjavíkur hafi hækkað um 50% í prósentum á einhverju ákveðnu árabili eins og hæstv. ráðherra sagði. Ég veit það hins vegar að það kostar 1500 kr. að hita 500 m3 hús með Hitaveitu Reykjavíkur á mánuði þegar það kostar svona 8–9 þús. kr. kannski úti á landsbyggðinni að hita með raforku. En það eru líka ódýrar hitaveitur úti á landi. Þær eru til þó ekki séu þær margar og ekki stórar.

Menn þurfa ekkert að vera hissa á því þó að fólk flytji til Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins í stórum stíl þó ekki væri nema vegna orkukostnaðarins eins. Það skyldu menn hafa í huga að þeir fólksflutningar eru þjóðinni dýrir. Það kostar nefnilega töluvert að láta landið sporðreisast og það er ekki víst að það verði svo auðvelt að rétta það af aftur.