25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4855 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

237. mál, raforkuverð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að láta heyra í mér um þetta mál. Hér erum við sjálfsagt að takast á við eitt það viðkvæmasta mál sem varðar fólk úti á landsbyggðinni og ástandið hefur því miður versnað miklu meira en menn gerðu ráð fyrir við síðustu hækkun frá RARIK. En tilefni þess að ég vildi koma upp til að sýna fram á þennan mismun er að ég var að fá í hendur reikning fyrir 61 dags notkun vestur í Ólafsvík til að kynda hús sem er 120 m2. Reikningurinn upp á 61 dag í húshitun er 16 025 kr., sem sagt rúmar 8 þús. kr. á mánuði. Á sama tíma borga ég reikning fyrir sömu stærð íbúðar í Reykjavík til Hitaveitu Reykjavíkur sem er 4 180 kr. fyrir 61 dag. Þarna sjá menn svart á hvítu hver þessi munur er og hann hefur því miður vaxið miklu meira en menn gerðu ráð fyrir við síðustu hækkun hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Hvað sem líður fortíðinni og þeim samþykktum sem gerðar hafa verið er þetta mál sem þolir ekki lengur bið og þó að við höfum samþykkt síðustu fjárlög miðað við þær kröfur sem þá voru lagðar fram um stöðu mála er ekki þar með sagt að það þurfi ekki að taka þetta mál upp aftur. Þetta er stórt mál og eitt stærsta byggðavandamálið í dag sem verður að finna lausn á.