25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4860 í B-deild Alþingistíðinda. (3358)

268. mál, endurgreiðsla á söluskatti til erlendra ferðamanna

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Á þskj. 567 leyfi ég mér að leggja eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. fjmrh.:

„1. Hefur ráðherra í huga að notfæra sér nýfengna heimild til að endurgreiða erlendum ferðamönnum söluskatt er þeir hverfa af landi brott? Ef svo er, er undirbúningur hafinn og hvenær er áætlað að hefja endurgreiðslurnar?

2. Hvernig verður staðið að endurgreiðslunni? Verður hún bundin við lágmarksupphæð, tilteknar vörutegundir og hver mun annast greiðslurnar (ríkissjóður eða verslanir)? [Og hér hefur fallið út einkaaðilar. ]

3. Hvert er áætlað tekjutap ríkissjóðs af endurgreiðslunni?

4. Telur ráðherra að endurgreiðsla söluskatts til erlendra ferðamanna leiði til aukinnar sölu á íslenskum varningi? Hyggst hann beita sér fyrir sérstakri kynningarherferð af þessu tilefni með það fyrir augum að laða frekar að erlenda ferðamenn?"

Hæstv. forseti. Í flestum ef ekki öllum nágrannalöndum okkar er söluskattur eða virðisaukaskattur endurgreiddur til erlendra ferðamanna af þeim vörum er þeir taka með sér úr landi, enda er í rauninni um innlendan neysluskatt að ræða og því ekki sanngjarnt að láta erlenda ferðamann greiða hann. Ég hef alla tíð rið því fylgjandi að slík endurgreiðsla yrði heimilu og fagna því þeirri heimild sem ráðherrann hefur í þessum málum og hvet hann eindregið til að notfæra sér hana.

Ég er í engum vafa um að ef þessu verður komið á mun það auka stórlega verslun útlendinga hérlendis og því alls ekki verða þess valdandi að tekjutap verði heldur þvert á móti.

Þá vil ég einnig láta koma fram þá skoðun mína að þessi þjónusta á ekki að vera í höndum ríkisins heldur í höndum einkaaðila eins og víðast gerist erlendis.