25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4861 í B-deild Alþingistíðinda. (3359)

268. mál, endurgreiðsla á söluskatti til erlendra ferðamanna

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fsp. þessar eru í nokkrum liðum. Fyrst er spurt hvort áform séu uppi um að notfæra sér heimild til að endurgreiða erlendum ferðamönnum söluskatt þegar þeir hverfa af landi brott. Svarið við því er já. Þau áform eru uppi.

Í annan stað er spurt: Ef svo er, er undirbúningur hafinn og hvenær er áætlað að hefja endurgreiðslur? Svarið við þessu er að undirbúningur er hafinn, en hann er ekki svo vel á veg kominn að unnt sé að svara því nákvæmlega hvenær framkvæmd geti hafist.

Áður en ég svara seinni fyrirspurnunum er rétt að vekja athygli á nokkrum almennum atriðum. Í fyrsta lagi að talið er að í fyrra, árið 1987, hafi erlendir ferðamenn eytt yfir 2,4 milljörðum kr. hér á landi í gistingu, veitingar og aðrar vörur og þjónustu. Auk þess er ætlað að fargjaldatekjur flugfélaganna af erlendum ferðamönnum hafi verið hátt í 2 milljarðar króna. Í ár eru samsvarandi tölur 3 milljarðar áætlaðar að því er varðar almenna eyðslu erlendra ferðamanna og áætlað að hver erlendur ferðamaður eyði að meðaltali um 25 þús. kr.

Það er rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að víðast hvar í grannlöndum okkar er endurgreiðsla virðisaukaskatts kerfisbundin og partur af þjónustu ferðamannaiðnaðar þessara landa. Þetta á sér nokkra forsögu í sumum löndum en er nýtilkomið í öðrum. Þá er einnig ástæða til að vekja athygli á því að þegar vara er flutt úr landi þá er ekki greiddur söluskattur af henni. Þetta á jafnt við um afurðir sjávarútvegs og iðnaðar en þegar vara er seld erlendum ferðamönnum hér á landi þá er greiddur af henni söluskattur. Erlendir ferðamenn kaupa að líkindum fyrir a.m.k. 300 millj. kr. í íslenskum verslunum í ár eða fyrir um 25 þús. kr. á mann og greiða a.m.k. 50–60 millj. í söluskatt af þessum vörum sem væri þá tekjutapið sem um væri að ræða.

Þegar spurt er: Hvernig verður staðið að endurgreiðslunni? og það er spurt: Verður hún bundin við lágmarksupphæð? þá er svarið það að í þeim hugmyndum sem við nú vinnum með er gert ráð fyrir því að hún verði bundin við lágmarksupphæð en hins vegar ekki við tilteknar vörutegundir heldur verði það almennt.

Spurningin um það hver muni annast greiðslur, ríkissjóður verslanir eða einkaaðilar, þeirri spurningu er á þessu stigi málsins ekki svarað. Það er kannski meginatriði málsins. Ef hér er um að ræða tiltekið valdaframsal af hálfu ríkisins að því er varðar álagða skatta, þá hefur sú spurning verið vakin upp hvort hér þurfi sérstaka löggjöf ef um það væri að ræða að velja þá leið að fela einhverjum tilteknum einkaaðila einkaleyfi til þessarar starfsemi og þeirri spurningu hefur enn ekki verið að fullu svarað.

Að því er varðar áætlað tekjutap, sem spurt er um í þriðja lið fsp., þá er svarið það að samkvæmt tölum sem fengnar eru frá Verslunarráði Íslands er vörusala til erlendra ferðamanna áætluð á árinu 1987 um 300 millj. kr. og af því væri þá um að ræða söluskatt að fjárhæð 50–60 millj. kr. Jafnframt má áætla að einhver kostnaður verði við endurgreiðslurnar, en á móti kæmi hins vegar að reyna að meta veltuaukningu sem væri þessu samfara og ætti að skila ríkissjóði tekjum á móti. Erfitt er að spá í það á þessu stigi málsins hver hún þyrfti að vera en þó er ljóst að veltuaukning upp á 200–300 millj. mundi vega tekjutapið upp.

Þá er spurt: Telur ráðherra að endurgreiðsla söluskatts til erlendra ferðamanna leiði til aukinnar sölu á íslenskum varningi? Já, ég tel svo vera og styðst þá við fyrst og fremst erlenda reynslu. Og spurt er: Hyggst hann beita sér fyrir sérstakri kynningarherferð af þessu tilefni með það fyrir augum að laða frekar að erlenda ferðamenn? Það er rétt að leggja áherslu á það að endurgreiðsla söluskatts til erlendra ferðamanna mundi líklega leiða til aukinnar sölu á íslenskum vörum og verða almennt séð hagstæð og hvatning fyrir íslenskan ferðamannaiðnað og heimsóknir erlendra ferðamanna. Spurningin um það hvort fyrirhuguð sé af hálfu fjmrn. sérstök kynningarherferð af því tilefni, því kann ég nú ekki að svara. Það er kannski ekki beinlínis á verksviði þess ráðuneytis heldur væri það liður í almennu kynningarátaki að því er varðar ferðamannaþjónustu og þá á vettvangi annarra ráðuneyta.

En til þess að draga saman þá eru svörin við þessum spurningum jákvæð í þeim skilningi að það eru áform uppi um þetta. Það er verið að vinna að málinu. Það hefur ekki öllum spurningum verið svarað, fyrst og fremst er ósvarað þeirri spurningu hvort nauðsyn sé á sérstakri löggjöf verði farin sú leið sem hv. fyrirspyrjandi lýsti sig fylgjandi, þ.e. að fela einhverjum tilteknum einkaaðila að annast framkvæmdina og þá hins vegar um það hvort endurgreiðslan verði þar með takmörkuð við það þegar ferðamenn fara brott af landinu en verði ekki, eins og sums staðar er, strax innt af hendi við búðarborð í þeim verslunum sem ferðamenn eiga viðskipti við.