25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4863 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

283. mál, tvísköttunarsamningar við erlend ríki

Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja eftirfarandi fsp. til fjmrh.:

„Hvað líður undirbúningi tvísköttunarsamninga við Frakkland og Bretland? Eru tvísköttunarsamningar við fleiri lönd í undirbúningi?"

Ég held að það sé öllum ljóst sem hafa fylgst með umræðum hér á Íslandi undanfarin missiri að það er mjög líklegt að það muni á næstu árum stofnast til nánari samvinnu milli íslenskra aðila og ýmissa erlendra aðila. Í þessu sambandi koma upp í hugann þær umræður sem hafa farið fram um það sem er að gerast innan Efnahagsbandalags Evrópu og nauðsyn þess fyrir okkur Íslendinga að vera vel á verði gagnvart því sem þar fer fram.

Tvísköttunarsamningar sem nú þegar eru í gildi við nokkur ríki, Norðurlönd, Bandaríkin, Vestur-Þýskaland og Sviss, að ég hygg, hafa reynst afskaplega hagkvæm tæki til þess að auðvelda og greiða fyrir eðlilegum samskiptum, bæði einstaklinga og fyrirtækja, milli þessara landa. Ég tel að það sé mjög brýnt að koma á slíkum samningum við fleiri lönd og hef þess vegna leyft mér að grennslast fyrir um það hjá fjmrh. í formi þessarar fsp. hvar þessi mál eru á vegi stödd.