25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4864 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

283. mál, tvísköttunarsamningar við erlend ríki

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það er spurt um hvað liði undirbúningi tvísköttunarsamnings við Frakkland og Bretland og hvort slíkir samningar séu í undirbúningi við fleiri lönd. Svarið er þetta: Hinn 8. okt. sl. voru undirrituð drög að samningi milli ríkisstjórna Íslands og Frakklands þess efnis að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur. Síðan hefur verið unnið að þýðingu samningsdraganna á íslensku og yfirlestri á franska textanum. Þessu starfi mun ljúka mjög bráðlega af Íslands hálfu og mun þá verða ákveðið hvenær samningur verði undirritaður.

Að því er Bretland varðar þá er áformað þann 21. mars nk. að halda fyrsta fund með samninganefndum Íslands og Bretlands þar sem unnið verði að drögum að samningi til að komast hjá tvísköttun. Á þessari stundu er ekki unnt að segja til um það hvenær unnt verður að undirrita drög að slíkum samningi en reikna má með því að það verði á þessu ári.

Að því er varðar önnur lönd þá liggja ekki fyrir neinar formlegar ákvarðanir um að taka upp viðræður við önnur lönd um samninga til að koma í veg fyrir tvísköttun. Hins vegar má geta þess að landsstjórn Færeyja hefur í bréfi frá 9. okt. sl. greint frá því að Færeyingar hafi í hyggju að gerast aðilar að marghliða samningi Norðurlandanna til þess að koma í veg fyrir tvísköttun tekna og eigna.