25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4868 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

266. mál, afnám bankastimplunar við innflutning

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvenær ráð sé fyrir því gert að afnema bankastimplun almennt hjá innflytjendum svo að þeir sitji allir við sama borð hvað varðar greiðslusamninga við erlenda umbjóðendur. Með bankastimplun er væntanlega átt við það ákvæði í lögunum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, að óheimilt væri að tollafgreiða vörur nema fyrir lægi staðfesting gjaldeyrisbanka, bankastimpill, á því að greiðsla hafi verið innt af hendi eða greiðsla tryggð með öðrum hætti, t.d. með lántöku eða greiðslufresti. Þetta ákvæði var fellt úr gildi með lögum dags. 27. mars 1987 og samkvæmt þeim var bankastimplun afnumin 1. sept. 1987. Um þetta leikur enginn vafi. Mér virðist því að fyrirspyrjandinn blandi saman í spurningunni og reyndar í málflutningi bankastimpluninni sjálfri, því sem ég vitnaði til, og reglum um greiðslufrest vegna innflutnings til landsins því þótt bankastimplun hafi verið felld niður breytti sú ákvörðun engu um reglur um erlendar lántökur og nú síðast um lántökugjöld og um greiðslufresti.

Þótt ríkisstjórnin telji æskilegt að innflutningsreglur verði sem almennastar og frjálsastar er óhjákvæmilegt við núverandi ástæður í okkar þjóðarbúskap að halda aftur af erlendum lántökum og notkun greiðslufrests. Lántökugjaldið var einmitt sett á í því skyni. Á síðasta ári jókst innflutningurinn um 28% og það bendir ekki beinlínis til þess að núgildandi reglur torveldi mjög innflutning til landsins.

Hinn 1. febr. sl. gaf viðskrn. út að nýju auglýsingu um innflutning með greiðslufresti svo og um aðrar erlendar lántökur. Meginmarkmiðið með þessum auglýsingum var eitt: að aðlaga fyrri auglýsingar nýrri tollskrá, en jafnframt voru reyndar rýmkaðar og samræmdar reglur um greiðslufrestinn og bætt við nokkrum vöruflokkum sem heimilt var að taka til landsins með greiðslufresti. Þá var líka sú almenna breyting gerð að nú er birtur listi yfir vörur sem ekki er heimilt að flytja inn með greiðslufresti í stað auglýsingar um innflutning sem leyfður er með greiðslufresti.

Ég veit að í þessu fólst engin veruleg breyting, en ég bendi á að ástæðurnar fyrir því að halda þessum reglum eru aðhald að innflutningi en ekkert annað. Ég hef í hyggju að endurskoða þessar reglur í heild í frjálsræðisátt. Ég geri ráð fyrir að það megi gera þetta í áföngum án þess að það valdi vandræðum. Ég hef gefið fyrirheit um að við þessa endurskoðun verði haft samráð við þá aðila sem þarna eiga hlut að máli, fyrst og fremst samtök verslunarinnar. Þessi endurskoðun er enn ekki hafin, en hún er í undirbúningi.