25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4869 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

266. mál, afnám bankastimplunar við innflutning

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Auðvitað var ráðherra fullkunnugt um hvað fsp. snerist þannig að hann gat alveg sleppt þessum formála að sinni ræðu.

Hann bendir á að mikill innflutningur hafi verið og mikil aukning og það bendi ekki til þess að það torveldi innflutning. Það er enginn að tala um það að það sé eitthvað erfitt að flytja hér inn. Það er einfaldlega verið að tala um að það skortir heimild til að fá að taka hér erlend skammtímalaun, vörukaupalán svonefnd. Og hvað er það sem vinnst með því? Það er fyrst og fremst að það lækkar vöruverð í landinu. Það er enginn að tala um að það sé erfitt að flytja inn hitt og þetta. Við verðum líka að hugsa um neytendurna af og til.

Með því að þessi heimild verði gefin, mönnum verði gefið frjálst að semja við sína erlendu umbjóðendur, vinnst ansi margt. Það má nefna hérna nokkra punkta. Það má t.d. nefna að innflytjendur geta þá notað sín samtök og sína hæfileika til samninga til fulls. Það má benda á að aðsókn í lánsfé hér innan lands muni minnka. Vaxtabyrði fyrirtækja mundi minnka. Meira fjármagn yrði því til ráðstöfunar. Það eykur samkeppni banka, það ógnar tilveru okrara, það stuðlar að hagkvæmum innkaupum og kostnaðarauki ríkisins er enginn. Sá sem í rauninni græðir á þessu þegar upp er staðið er neytandinn og á tímum matarskatts held ég að það veiti ekki af því að hugsa til hans af og til.