25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (3371)

266. mál, afnám bankastimplunar við innflutning

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. 5. þm. Reykv. að það er æskilegt að samskipti manna í viðskiptum milli Íslands og annarra landa geti verið sem frjálsust og sem líkust því sem er á milli sams konar aðila innan lands. Ég tel að það væri til hagsbóta þegar til lengdar lætur. En í þessu máli togast á eins og oft vill verða viðleitnin til að gera viðskiptin frjálsari og viðleitnin til að halda jafnvægi í okkar viðskiptum við önnur lönd. Það er eina ástæðan fyrir því að enn hefur ekki verið gert almennt heimilt að taka vörur til landsins með þeim greiðslufresti sem um semst milli einkaaðila. Það má vel vera að það sé ekki jafnhættulegt og sumir hafa haldið að rýmka þarna um. Ég hef þegar lýst minni skoðun, að ég vilji stefna að því í áföngum að gera þessar reglur almennar þannig að allir sitji við sama borð. Þetta er þegar hafið með þeirri breytingu sem gerð var 1. febr., en ég bið hv. þm., þann 5. úr Reykjavík og þann 5. úr Vesturlandi, að hafa nokkra biðlund.

Ég bendi á að í máli hv. 5. þm. Vesturl. kom fram að hann taldi að veruleg þensluáhrif mundu fylgja því ef greiðslufrestur yrði almennt heimilaður. Hann benti á að þessi þensluáhrif væru líklega minni en þau sem fylgdu kaupleigunum og breyttum reglum um erlendar lántökur í fyrra. Ég get tekið undir þetta með honum, en það er bara sá galli á málinu að þessi áhrif mundu bætast við þau sem fyrir væru og þótti þó nóg komið. Þetta er vandinn í hnotskurn.

Ég hef ekki fleira um málið að segja, en lýsi þeim ásetningi mínum að endurskoða þessar reglur í þá átt sem fsp. og athugasemdir hv. þm., hins 5. úr Reykjavík og hins 5. úr Vesturlandi, hafa hnigið.