25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4871 í B-deild Alþingistíðinda. (3372)

258. mál, Menningarsjóður útvarpsstöðva

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Hve mikið fé hafa útvarps- og sjónvarpsstöðvar greitt í Menningarsjóð útvarpsstöðva til 1. febr. 1988? Hve mikið er útistandandi og hvernig skiptist það á greiðendur? Hvernig skiptist það fé sem greitt hefur verið úr sjóðnum?"

Ég vil minna á í þessu sambandi að með útvarpslögunum, sem samþykkt voru 1985, var Ríkisútvarpið svipt þeirri einkaaðstöðu sem það hafði haft í þessu landi. Þá þótti og eðlilegt að létta af því einhverju af þeim kvöðum sem það hafði einnig haft vegna sinnar sérstöðu. Þar var þyngst sú kvöð að greiða vissan hluta af rekstrarkostnaði við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Með menningarsjóðnum var tvíþættur tilgangur: annars vegar að tryggja að allar þær stöðvar, sem nytu auglýsingatekna á Íslandi, greiddu fé til Sinfóníuhljómsveitarinnar og einnig að tryggja með þessum hætti menningarlegri dagskrárgerð í útvarpsstöðvum hvort sem þær væru hljóðvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar.

Nú leikur mér mikil forvitni á að vita hvernig þetta hefur verið framkvæmt, hvort þarna hafi verið gengið fram af sæmilegu réttlæti milli stöðva eða hvort mönnum hafi dottið í hug að misnota þetta á þann hátt að færa fjármagn frá Ríkisútvarpinu yfir til einkastöðvanna, sem hafa risið, og í reynd hafi þetta orðið til þess að Ríkisútvarpið sitji eitt með þá kvöð að greiða með Sinfóníuhljómsveitinni og einnig hafi verið fært fé til dagskrárgerðar hinna stöðvanna á þeirri forsendu þá að þær séu menningarlegri en dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.