25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4876 í B-deild Alþingistíðinda. (3381)

259. mál, fiskvinnsluskólar

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Það er spurt í fyrsta lagi: Hvað hyggst menntmrh. koma á fót mörgum fiskvinnsluskólum á Norðurlandi?

Svar mitt er að menntmrh. hefur ekki tekið neina ákvörðun um stofnun margra fiskvinnsluskóla á Norðurlandi. Skv. frv. til laga um framhaldsskóla, sem ég hef nýverið lagt fram á Alþingi, er það Alþingi sem á að ákveða stofnun nýrra skóla á framhaldsskólastigi, sbr. 3. gr. frv. Fjöldi skóla hlýtur því, ef þetta frv. verður að lögum, að vera háður ákvörðun Alþingis og fjöldinn byggður á þörfum fyrir þá menntun sem um ræðir hverju sinni. Hitt er svo annað mál hvort heimiluð er kennsla á fiskvinnslubraut við starfandi skóla. Það fer með þetta nám eins og annað, að sé þörf á auknu námsframboði vegna þarfa atvinnulífsins eða af öðrum ástæðum verður ráðuneytið að sjálfsögðu að taka slíkt til athugunar.

Að undanförnu hefur verið í athugun að koma á fót kennslu í fiskvinnslu á Dalvík, en bæjarstjórnin þar óskaði eftir því fyrir ári að athugað yrði hvort möguleikar væru á því að bjóða upp á nám í fiskvinnslu í framhaldsdeild Dalvíkurskóla. Sérstakur starfshópur hefur verið að kanna málið, bæði er varðar aðstöðu til kennslu og kennsluskipulag, og tillögur hans munu verða tilbúnar innan skamms. Verður þá tekin ákvörðun um hvort gerð verður tilraun með kennslu þar sem ákvarðast auðvitað af því hvort eftirspurn verður eftir náminu á Dalvík, aðstaða verði fullnægjandi og hæfir kennarar fáist til starfa. Þótt nefndarstarfi sé ekki formlega lokið hafa undirtektir verið jákvæðar og hef ég heitið bæjar- og skólayfirvöldum á Dalvík fulltingi mínu við að koma þessu námi á fót ef sú verður tillaga nefndarinnar. Það gerði ég á fundi með bæjarstjórn og skólayfirvöldum á Dalvík fyrr í vetur en ekki á fundi sjálfstæðismanna á Dalvík eins og hv. fyrirspyrjandi sagði áðan.

Spurt er í öðru lagi: Hvenær hyggst menntmrh. snúa sér að því verkefni að framkvæma vilja Alþingis, sem fram kom í samþykkt þess 30. mars 1973, um að koma á fót fiskvinnsluskóla á Siglufirði?

Hér er spurt af ónákvæmni. Þann 30. mars 1973 samþykkti Alþingi svohljóðandi tillögu:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta kanna grundvöll að stofnun og rekstri fiskiðnskóla á Siglufirði.“

Fyrirrennarar mínir í embætti menntmrh., en þeir eru sjö talsins frá því þessi tillaga var samþykkt, ég er sá áttundi, munu eitthvað hafa athugað þetta mál þótt það hafi ekki leitt til ákvörðunar um stofnun fiskvinnsluskóla í Siglufirði, enda hefur verið á þessum tíma unnið að því að koma Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði á laggirnar og hefur það kostað ríkið nokkurt fjármagn.

Ragnhildur Helgadóttir, fyrrv. menntmrh., lét gera forathugun á aðstæðum til reksturs fiskvinnsluskóla í Siglufirði haustið 1984. Annaðist Stefán Ólafur Jónsson, deildarstjóri í menntmrn., það verk. Hann kynnti sér aðstæður á staðnum, ræddi við bæjarstjórn og forustumenn í fiskvinnslufyrirtækjum, athugaði möguleika á húsnæði til kennslu og heimavistar fyrir aðkomunemendur og þjálfunaraðstöðu fyrir nemendur í fiskvinnslufyrirtækjum. Niðurstaða Stefáns Ólafs var sú að það væri ávinningur fyrir Siglufjörð að þar yrði stofnaður fiskvinnsluskóli, en nauðsynlegt væri að gera ítarlega athugun á ýmsum þáttum málsins áður en ákvörðun yrði tekin. Ekki hefur frekar verið unnið að þessu máli í menntmrn., enda hefur þurft á þessum tíma verulegt fjármagn til Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði sem ekki var fullsetinn.

Við þetta er því að bæta að ég er þeirrar skoðunar að það sé úreltur hugsunarháttur að hugsa sér að setja á fót fiskvinnslu- eða sjávarútvegsskóla, þ.e. fullkominn skóla í þessum greinum, á mörgum stöðum. Ég tel hins vegar að brautum í þessum greinum, hvort sem það er í fiskvinnslu eða skipstjórn, eigi að koma á laggirnar við ýmsa skóla sem fyrir eru, fjölbrautaskóla eða framhaldsdeildir við grunnskóla, og síðan eigi menn kost á framhaldsnámi t.d. í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði sem verði þá eins konar landsskóli. Hitt verði t.d. tvö stig eins og fyrirhugað er á Dalvík.

Á Dalvík hefur verið rekin skipstjórnarbraut við þessa framhaldsdeild grunnskólans sem nú veitir nemendum kost á tveimur stigum og síðan fá nemendur ákveðin starfsréttindi eftir það nám, en ljúka síðan, þeir sem vilja, námi hér við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Ég held að þetta fyrirkomulag eigi að vera nokkuð til fyrirmyndar. Við eigum að koma slíkum brautum upp sem víðast um landið þar sem þörf er á, en síðan geti menn fullnumið sig í skóla þar sem tryggt er að menn geti fengið góða framhaldsmenntun. Þessu vildi ég bæta við þau beinu svör sem ég gaf við fsp. hv. þm.