25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4878 í B-deild Alþingistíðinda. (3384)

259. mál, fiskvinnsluskólar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. menntmrh. hversu réttilega og vel hann hefur brugðist við þeirri málaleitan að fiskvinnsluskóli skuli koma á Dalvík. Ég get ekki séð að hæstv. menntmrh. sé á neinn hátt ámælisverður þó hann með þessum hætti byggi upp skólastarf í hjarta Eyjafjarðar á því svæði sem þessi skóli er. Ef við tökum svæðið frá Húsavík til Ólafsfjarðar býr þar um tíundi hver maður og næsta undarlegt að heyra það af einum af þm. Norðlendinga að hann skuli geta hugsað sér að segja í þessum stól að rétt sé að slá á frest uppbyggingu fiskvinnsluskóla á Dalvík, fremur eigi að byrja annars staðar. Við höfum reynt, þm. Norðlendinga, að standa saman um okkar mál. Við höfum í Norðurlandi eystra reynt að standa á bak við þá uppbyggingu sem verið hefur fyrir vestan og ég vil vænta þess að svo verði áfram. Við verðum í sameiningu að standa að uppbyggingu menntastofnana á Norðurlandi, hvorum megin sem það er við Tröllaskaga, því ég tel það einmitt mjög þýðingarmikið að menningarstofnanir eflist sem víðast úti á landi. Ég held að það sé einhver heilbrigðasta byggðastefna sem við getum framfylgt.