25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4882 í B-deild Alþingistíðinda. (3392)

269. mál, Rás 2

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Okkur er tjáð að það standi til að endurskoða lögin um hljóðvarp og útvarp og þar með stöðu Ríkisútvarpsins. Hér gefur hæstv. menntmrh. stefnumarkandi yfirlýsingu um að losa Ríkisútvarpið við Rás 2. Ég mótmæli þessu af pólitískum ástæðum og ég mótmæli sérstaklega vinnubrögðum raðherrans í þessu efni. Ég tel að það hefði verið eðlilegra að hann hefði lagt fram frv. um breytingu að útvarpslögunum eða um ný útvarpslög áður en teknir eru fyrir einstakir þættir þessa máls með þeim hætti sem hann hér gerir. Bendi ég á í því sambandi að í gær var vísað til ríkisstjórnarinnar í Ed. frv. Borgarafl. um breytingu á útvarpslögum með þeim rökum að málið væri ekki tímabært þar sem þessi mál væru til endurskoðunar. Nú kveður við annan tón. Það á að selja Rás 2, það á að veikja Ríkisútvarpið sem er alvarleg yfirlýsing af hæstv. menntmrh.