25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4885 í B-deild Alþingistíðinda. (3396)

240. mál, hernaðarframkvæmdir

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Þau urðu mér að vísu talsvert mikil vonbrigði því það kom í raun ekkert fram um að hæstv. utanrrh. hefði á prjónunum neinar nýjar áherslur að nokkru leyti í þessum málum. Því miður virðist það vera svo að „glasnost“ og „perestrojka“ hæstv. utanrrh. sé fyrst og fremst til nota á erlendri grund og fari vel í ræðum vestur í Kanada eða Bandaríkjunum eða austur í Moskvu. En þegar kemur heim til Íslands er komið og farið er að ræða málefni hersins og vígbúnaðinn hér situr allt við sama farið, því miður.

Ég kunni utan að þessa ræðu um stjórnstöðina. Þetta var nákvæmlega sama ræðan og hæstv. fyrrverandi utanrrh. Geir Hallgrímsson og síðan hæstv. ráðherra Matthías Á. Mathiesen fluttu á árum áður og fer nú ekki mikið fyrir reisninni, að mínu mati, þegar hæstv. núv. utanrrh. og formaður Framsfl. fær að láni gömlu ræðurnar kaldastríðsstílsins sem þeir fluttu hæstv. fyrrverandi ráðherrar.

Um stjórnstöðina veit ég ýmislegt, hæstv. utanrrh. Það er að vísu rétt að ef kjarnorkusprengja dytti ofan á þakið á henni mundi hún sennilega ekki þola það, en hún er byggð samkvæmt NATO-stöðlum eins og sprengjuheldu flugskýlin sem eru þannig að svo fremi sem ekki sé um að ræða svonefnt „direct hit“, þ.e. að sprengjan falli beint á húsið, á hún að þola höggbylgjuna og þola efnahernað. Ef hér á einungis að vera um varnarstarfsemi að ræða, hæstv. utanrrh., hlýtur maður auðvitað að spyrja: Hvað á að verja, e.t.v. eftir fimm daga gjöreyðingarstyrjöld? Hvaða Íslendinga á að verja með starfsemi í þessari stjórnstöð? Auðvitað er það þannig að þetta er hluti af síðari tíma átökum í kjarnorkustyrjöld og hluti af varnarhlekk bandaríska kjarnorkuvígbúnaðaraflans í þeim efnum en ekki í okkar Íslendinga þágu. Þá væri nær að reisa þarna einfalda byggingu á yfirborði jarðar úr bárujárni eða þess vegna úr múrsteini eða steypueiningum. Það mundi væntanlega þjóna þessu varnarhlutverki jafn vel. Hér er um það að ræða að örfáir yfirmenn herafla geti haldið úti í sérstöku mannvirki og stjórnað þaðan árásum kjarnorkukafbáta og stýriflauga og sprengjuflugvéla mörgum sólarhringum e.t.v. eftir að allt er horfið af yfirborði jarðar.

Það eru mér mikil vonbrigði að hæstv. utanrrh. virðist ekki á nokkurn hátt ætla að hverfa frá kaldastríðsáherslum forvera sinna í þessum efnum.