25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4886 í B-deild Alþingistíðinda. (3398)

240. mál, hernaðarframkvæmdir

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í febrúar 1949 var haldinn fundur í Pentagon. Þann fund sátu fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar, utanrrh., flugmálaráðherra, viðskrh. (Gripið fram í.) 1949. Þar sat hæstv. ráðherra Steingrímur Hermannsson að sjálfsögðu ekki. - Á þessum fundum var rætt um aðildina að Atlantshafsbandalaginu og um herstöðina á Íslandi. Þá sagði forustumaður Bandaríkjahers, sem þá var viðstaddur, að það væri mjög erfitt að greina á milli eftirlits, varna og árása. Þá sagði íslenskur ráðherra samkvæmt fundargerðum sem Bandaríkjamenn hafa gefið út: Já, en við viljum auðvitað gjarnan hafa það þannig að þetta líti frekar út sem varnir vegna þess að hitt er óvinsælt á Íslandi.

Ég óttast að í viðræðum við hæstv. núv. utanrrh. hafi Bandaríkjamenn beitt sömu röksemdum, en menn hafi viljað reyna og vilji reyna að láta hlutina líta þannig út að um sé að ræða varnir. Auðvitað er ákaflega mjótt þarna á milli og staðreyndin er sú að Keflavíkurherstöðin er í seinni tíð orðin hluti af kjarnorkuvígbúnaðarkerfi Bandaríkjanna á norðurhveli jarðar. Það er ekki nokkur leið að neita því.