25.02.1988
Sameinað þing: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4887 í B-deild Alþingistíðinda. (3401)

270. mál, leigukjör Stöðvar 2

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst af athygli með þessum orðaskiptum hæstv. ráðherra og fyrirspyrjanda, en ég er ekki alveg ánægður með svar við síðustu spurningunni, því eftir því sem mér hefur skilist hefur Stöð 2 fengið að nýta svokallað VHF-band til sjónvarpssendinga. Mun hafa verið um að ræða vararás á því sviði sem ekki var ætluð til almennra sjónvarpssendinga. Komi önnur sjónvarpsstöð til yrði hún að fara upp á hátíðnibandið, UHF-bandið; eftir því sem ég hef heyrt. Því spyr ég: Er þá ætlast til þess að Stöð 2 fylgi þar á eftir og flytji sig upp á UHF-bandið eða fær hún ein áfram að sitja að sendingum á VHF-bandinu sem að sjálfsögðu býður upp á miklu, miklu ódýrara dreifikerfi?