25.02.1988
Sameinað þing: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4889 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

294. mál, utanríkismál

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Skýrsla um utanríkismál liggur fyrir allmiklu fyrr á þessu þingi en verið hefur á undanförnum þingum og reyndar lengi. Ég hef lagt á þetta áherslu til þess að nægur tími megi verða til umræðu um þessi mikilvægu mál. Er ég forseta þakklátur fyrir að hann hefur ráðstafað í þessu skyni deginum í dag og á morgun. Er það von mín að umræður um utanríkismál geti orðið gagnlegar og nægur tími til að ræða það sem hv. þm. kjósa að fjalla um.

Skýrslan er í hefðbundnu formi. Að vísu mætti breyta ýmsu í þessu formi, en ég hef ekki séð ástæðu til þess nú. Ég veit að ýmislegt sem þarna kemur fram er nokkuð fjarlægt því sem við ræðum fyrst og fremst í sambandi við utanríkismál, en ég tel þó allt gagnlegur fróðleikur. En ég hef í huga að formi skýrslunnar verði að einhverju leyti breytt áður en hún er lögð fram að nýju.

Þegar rætt er um utanríkismál ber að sjálfsögðu að leggja til grundvallar vissar staðreyndir.

1. Þær samþykktir sem Alþingi hefur gert.

2. Ákvæði stjórnarsáttmála.

3. Breytt ástand í heimsmálum.

Á síðasta sviðinu hefur meiri breyting orðið á undanförnum árum en dæmi eru til áður. Raunar má segja að orðið hafi bylting og mætti út af fyrir sig lýsa henni í langri ræðu. En í fáum orðum sagt hygg ég að megi segja að heimurinn hafi með nýrri tækni í samgöngumálum og fjarskiptum breyst frá því að vera stór í það að verða lítill og við höfum færst frá því að vera í útjaðri stórrar veraldar inn í miðju lítils heims.

Þetta hefur að sjálfsögðu haft gífurleg áhrif á alla þróun mála hér á landi. Við erum orðnir langtum háðari því sem gerist í kringum okkur. Við erum langtum háðari t.d. í viðskiptamálum en við vorum áður, enda mun um það bil helmingurinn af okkar þjóðarframleiðslu vera fluttur úr landi nú og einnig um það bil helmingur af okkar þjóðartekjum.

Ég hef stundum orðað það svo að sérhverri þjóð beri í raun skylda til að reyna að hafa þau áhrif á gang heimsmála sem þjóðin getur og skiptir þá ekki máli hvort hún er lítil eða stór. Þetta hefur jafnframt orðið til þess að þjóðir heimsins hafa hópast saman í stærri markaðssvæði og reyna að tryggja sína hagsmuni á þann máta. Þetta þýðir að sjálfsögðu að við verðum að leita samninga um þau mikilvægu viðskiptamál sem ég hef aðeins nefnt.

Á fáum sviðum hefur þó orðið meiri breyting en á sviði hernaðarkapphlaupsins sem ég hygg að flestir geti verið sammála um að er komið út í algera öfga og ég hygg að við getum öll verið sammála þeim breytingum sem á þessu sviði virðast nú fram undan og að sumu leyti orðnar og reyndar æðimargir orðnir langþreyttir af biðinni eftir þeim breytingum. Einnig á þessu sviði ber okkur skylda til að beita okkar áhrifum, þótt sumum kunni að þykja þau lítil þannig að sem fyrst verði snúið af braut vígbúnaðarkapphlaupsins.

Ég ætla síðan að fara yfir ýmsa kafla þessarar skýrslu og mun þá leitast við að draga fram þau atriði sem ég tel hvað mikilvægust. Ég vil byrja á því sem ég rétt lauk við að nefna, þær breytingar sem hafa orðið í vígbúnaðarkapphlaupi fyrst og fremst stórveldanna en sem vitanlega hefur haft sín áhrif um heim allan.

Við Íslendingar eigum þar nokkuð merkan þátt með Reykjavíkurfundinum í október 1986. Á fjölmörgum fundum sem ég hef sótt og hlustað á t.d. utanrrh. Bandaríkjanna eða í því sem við höfum lesið og haft er eftir forustumönnum í Sovétríkjunum er sá fundur ætíð nefndur sem sá mikilvægasti sem þjóðarleiðtogar stórveldanna hafa átt. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna orðaði það svo á einum slíkum fundi að öll þau mál sem eru nú til umræðu á milli stórveldanna á sviði afvopnunar hefðu í raun verið sett fram á fundinum í Reykjavík, í raun og veru væri öll vinnan framhald af þessum fundi í Reykjavík.

Fyrsti árangur þessarar viðleitni kemur fram í því samkomulagi sem undirritað var í Washington nýlega á leiðtogafundi og gerir ráð fyrir því að meðaldrægar eldflaugar og kjarnorkuvopn verði með.öllu fjarlægð. Þetta er út af fyrir sig ekki stórt skref í eyðingu kjarnorkuvopna því að þessi vopn munu aðeins vera 3–4% af kjarnorkuforðabúri stórveldanna eða heimsins. En þetta samkomulag er fyrst og fremst mjög mikilvægt í því sambandi að það þýðir breytingu frá því kapphlaupi sem verið hefur og vonandi fráhvarf frá því kalda stríði sem verið hefur á milli stórveldanna undanfarin ár og jafnvel áratugi.

Gert er jafnframt ráð fyrir að þessu samkomulagi fylgi annað samkomulag og reyndar fleiri en eitt, samkomulag um helmingsfækkun langdrægra eldflauga, samkomulag um útrýmingu efnavopna og svo ýmis nánari sundurliðun á heimild stórveldanna til kjarnorkuvopna á landi, í flugvélum og á og í hafinu. Að vísu er gert ráð fyrir því að kjarnorkuvopnabirgðir stórveldanna verði eftir sem áður 6000 kjarnaoddar hjá hvoru og utanríkisráðherra Bandaríkjanna orðaði það nýlega að þessar birgðir væru í raun nægar til að eyða heiminum öllum á hálftíma. Því er æðilangt í land, jafnvel þótt þetta samkomulag náist nú, að séð sé fyrir endann á þeirri kjarnorkuógnun sem að heiminum hefur steðjað á undanförnum árum og áratugum.

Slíkt samkomulag er þó langtum stórstígara en samkomulag um eyðingu meðaldrægra kjarnorkuvopna og ég tel að við hljótum að geta fagnað þessu samkomulagi sem annarri staðfestingu á því að horfið er af braut kalda stríðsins og kjarnorkuvopnakapphlaupsins.

Eitt hið allra mikilvægasta í þeim viðræðum sem nú fara fram á milli stórveldanna er það traust sem virðist fara vaxandi á milli þeirra og hefur komið mjög glöggt fram, t.d. á þeim fundum sem utanrrh. Bandaríkjanna hefur haldið með utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsríkjanna undanfarna mánuði. Það kemur m.a. fram í litlum samningi um fiskveiðiréttindi fyrir bandarísk skip í sovéskri lögsögu og kemur líka fram í þeim árangri sem virðist vera að nást á ýmsum sviðum mannréttinda sem hafa ætíð verið nátengd viðræðum á milli stórveldanna og í umræðu innan Atlantshafsbandalagsins um afvopnun. Á öllum þeim fundum sem haldnir hafa verið hafa mannréttindamálin í raun verið fyrsti liðurinn á dagskrá og ánægjulegt er að sjá að nú virðist á þessu verða nokkur breyting í Sovétríkjunum og ef rétt reynist, sem ég efa ekki, að Sovétríkin draga herafla sinn frá Afganistan, er það eitt út af fyrir sig mikið skref í þá átt að draga úr þeirri tortryggni sem ríkir á milli þjóða.

Einnig hefur náðst töluverður árangur í því að leyfa meiri fjölda óánægðra íbúa Sovétríkjanna að flytja þaðan. Hefur orðið töluverð aukning á þeim heimildum en á það er lögð mjög mikil áhersla af hálfu Vestur-Evrópuríkja og Bandaríkjanna að breytingar verði einnig á því sviði.

Ég lít því svo á, þegar á heildina er litið, að um sé í raun miklu meiri breytingu að ræða en kemur fram einfaldlega í þeim tölum sem eru birtar um fækkun kjarnorkuvopna. Við Íslendingar höfum eðlilega haft áhyggjur af því að samfara þessum breytingum og fækkun kjarnorkuvopna á landi fjölgi kjarnorkuvopnum í og á hafinu. Ég hef því lagt á það áherslu þar sem ég hef tekið þátt í umræðum um þessi mál að gæta þurfi einnig að því að takmarka slík vopn í og á hafinu. Undir þetta hafa fulltrúar Noregs tekið mjög ákveðið og ég lít svo á að í þeim samningum sem eru fram undan verði þessa gætt. Þó eru þar viss mjög erfið svið eins og fyrst og fremst svonefndar stýriflaugar sem eru þess eðlis að mjög erfitt er að hafa með þeim eftirlit. En að því er nú einnig unnið.

Því verður heldur alls ekki neitað og er ekki borið á móti því að á undanförnum árum hefur orðið gífurlega mikil uppbygging á norðurslóðum og sérstaklega Kola-skaga. Þar er líklega í dag orðið eitthvert öflugasta hernaðarhreiður kjarnorkuvopna sem til er í heiminum og veldur það miklum áhyggjum hjá þeim þjóðum sem í nálægð þess eru. Því er mikilvægt að við og Norðurlöndin sameiginlega beitum áhrifum okkar eins og við frekast getum til þess að norðurslóðir verði í þeirri umræðu og í þeim samningum sem nú er unnið að um fækkun kjarnorkuvopna og til að draga úr kjarnorkuvopnakapphlaupinu.

Þetta dregur að sjálfsögðu hugann að umræðu um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Á vegum utanrrn. hafa menn á virkan máta tekið þátt í þeirri umræðu á milli Norðurlandanna. Hins vegar verður að segjast að þær viðræður ganga nokkuð hægt og virðast þar vera ýmis ljón á vegi. Því er ekki að neita að sjálfsögðu að hugmynd um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd tengist mjög náið þeirri almennu umræðu sem nú fer fram um fækkun kjarnorkuvopna og margir eru þeirrar skoðunar að sérhver ákvörðun um slíkt hljóti að takast í tengslum við víðtækari umræðu og hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði á milli Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins. Þau þrjú ríki Norðurlandanna sem eru í Atlantshafsbandalaginu hljóta svo að sjálfsögðu að hafa nokkra sérstöðu og verða að fjalla um þessi mál í nánu samráði við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins. Án þess að ég ætli að ræða þátt þinga Norðurlandanna í þessu máli vil ég þó geta þess að allmiklir fundir hafa verið og liggja þar þegar fyrir hugmyndir sem mjög er vert að skoða. Í þessu sambandi öllu verður þó að undirstrika nokkra sérstöðu okkar Íslendinga sem erum staðsettir fjær, eins og ég þarf út af fyrir sig ekki að rekja, öðrum Norðurlöndum. Mikið hafsvæði er á milli og er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að samfara þessari hugmynd, ef hún kemur til framkvæmda, nái fram að ganga hugmyndir um mjög mikinn samdrátt a.m.k., ef ekki útilokun, kjarnorkuvopna í hafinu í kring.

Í allri umræðu um afvopnun hefur sérstök áhersla verið lögð á eftirlit og raunar má segja að það hefur verið eins og rauður þráður í þeim skýrslum sem ég hef fengið og á þeim fundum sem ég hef þegar nefnt og mun einhver mesti tími í þessum viðræðum á milli stórveldanna hafa farið í að fjalla um þessi mál. M.a. var talið að þetta mál hafi leyst með því að útrýma meðaldrægum kjarnaflaugum alveg. Miklu auðveldara er að hafa eftirlit með því sem ekki á að vera til heldur en hinu sem takmarkað er við einhvern fjölda. Í því sambandi eru fjölmörg mál sem eru enn óleyst. En á þeim fundi sem utanrrh. Bandaríkjanna hélt í Brussel nú fyrir tveimur dögum og ég hef fengið skýrslu um kemur fram að ýmis þessi vandamál virðast nú leysanlegri en áður var talið og lofar það góðu.

Ég nefndi áðan að unnið er að samkomulagi um útrýmingu eiturvopna eða efnavopna. Slíkt samkomulag er mjög miklum erfiðleikum háð því efnavopn má framleiða eins og einn maður sagði, nánast í eldhúsinu heima eða m.ö.o. þau eru mjög auðframleidd og munu vera því miður æði útbreidd um heiminn. Því er alveg ljóst að til að slíkt samkomulag um eyðingu efnavopna verði virt er nauðsynlegt að kveðja til langtum fleiri þjóðir en hefur verið gert.

Mér þykir rétt að fara í þessu sambandi nokkrum orðum um ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE). Það eru fundir sem haldnir eru og hafa verið haldnir undanfarin ár á milli Evrópuþjóða um bætta sambúð og öryggi þessa svæðis. Þessir fundir eru í framhaldi af Helsinki-samkomulaginu, Stokkhólmsfundinum og fleiri fundum sem haldnir hafa verið. Þessir fundir eru orðnir ákaflega viðamiklir og raunar hefur verið. afar erfitt fyrir okkur að taka þátt í þeim eins og ég lít á að okkur beri nánast skylda til. Þeim fundi sem nú er haldinn í Vín á að ljúka á þessu sumri en í beinu framhaldi af þessum fundi er gert ráð fyrir öðrum fundi og jafnvel tveimur. Umræður á þessum fundum um öryggi og samvinnu í Evrópu eru mjög víðtækar og skiptast í allmarga málaflokka. Þarna er ekki aðeins um að ræða hernaðarlegt jafnvægi og öryggi heldur er einnig rætt þarna ítarlega um mannréttindamál og fleira sem er beint framhald af Helsinki-samþykktinni sem ég nefndi áðan.

Utanrrn. hefur leitast við að leysa þessi mál með því að senda þangað fulltrúa héðan að heiman eða frá sendiráðum erlendis. Þeir hafa setið þar einir skamman tíma og að mínu mati unnið gott starf. Íslendingar eru orðnir þátttakendur í flutningi fjölda tillagna og hafa gegnt sínu hlutverki, sýnist mér, miklu betur en hægt er í raun og veru að gera ráð fyrir við þessar aðstæður. Allar aðrar þjóðir hafa skipað sérstakan sendiherra til þess að fjalla um afvopnunarmálin og þá alveg sérstaklega þessa fundi og þessir sendiherrar eru að sjálfsögðu með fjölmennt starfslið. Ég geri ekki ráð fyrir því að við getum falið mörgum að vinna að þessum málum en ég nefni í skýrslunni á bls. 11 að það hljóti að koma til athugunar að við Íslendingar skipum sérstakan sendiherra í afvopnunarmálin sem hafi yfirumsjón með þátttöku okkar í þessum fundum um öryggi og samvinnu í Evrópu sem og annarri umræðu um afvopnunarmál og þátttöku okkar á þeim sviðum. Þetta eru atriði sem ég mun taka mjög fljótlega til athugunar en fróðlegt væri að heyra sjónarmið hv. þm. varðandi þetta.

Næsti kafli skýrslunnar fjallar um alþjóðastofnanir. Ég skal aðeins minnast á fáein atriði þar. Sameinuðu þjóðirnar eru sú stofnun sem við Íslendingar höfum ætíð í okkar samþykktum lagt einna mesta áherslu á. Við höfum ætíð stutt Sameinuðu þjóðirnar eins og við höfum getað og viljað efla þær og gert okkur vonir um að þær gætu orðið leiðandi ef ekki ákvarðandi um bætta þróun í heiminum og vissulega hefur mjög margt gott komið frá Sameinuðu þjóðunum og ekki síst hinum ýmsu sérhæfðu stofnunum þeirra sem hafa tekist á við ákveðin vandamál. Þó hygg ég að ástæða sé til að lýsa nokkrum vonbrigðum með starfsemi t.d. allsherjarþingsins og Öryggisráðsins. Allsherjarþingið hefur orðið meiri og meiri vettvangur pólitískra deilna, oft á milli þjóða sem dregist hafa í ákveðna flokka og oft með fyrir fram ákveðnar skoðanir. Öryggisráðið hefur orðið langtum veikara í sínum ákvörðunum vegna þess neitunarvalds sem þar er. Engu að síður er að sjálfsögðu allsherjarþingið mikilvægur vettvangur fyrir skoðanaskipti og eftir því tekið sem þar er gert og á þann máta hefur það haft sín áhrif.

Eins og áður hefur komið fram í umræðu hér á Alþingi og í fjölmiðlum ákvað ég breytingar á afstöðu okkar Íslendinga í níu málum sem lágu fyrir 42. allsherjarþingi. Þessar ákvarðanir byggðust á athugunum á þeim grundvallaratriðum sem ég nefndi í upphafi míns máls, þ.e. í fyrsta lagi á samþykktum Alþingis, í öðru lagi á stjórnarsáttmála, í þriðja lagi á samstöðu okkar með bandalagsþjóðum og þá ekki síst innan Atlantshafsbandalagsins og í fjórða lagi á samstöðu okkar með þjóðum Norðurlanda. Einnig og ekki síst byggðist afstaðan á breytingum þeim sem orðið hafa í alþjóðamálum sem, eins og ég nefndi, hafa orðið gífurlega viðamiklar. Ég lít t.d. svo á að Alþingi hafi gefið skýra stefnumörkun í samþykkt sinni frá maí 1985 sem fjallar um almenna afvopnun. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnorkuvopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni“ o.s.frv.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þá umræðu sem hér hefur orðið um þessi mál en vil geta þess að eftir atkvæðagreiðslu í nefnd gerði ég utanrmn. grein fyrir atkvæðagreiðslunni þar og komu ekki fram athugasemdir. Fjallað var nokkuð um nýja tillögu sem fram kom á allsherjarþinginu sem var áskorun til meðlimaríkja að gera sitt ýtrasta til þess að framkvæma samþykktir allsherjarþingsins enda væri eftirlit traust og samstaða um slíka framkvæmd.

Við Íslendingar greiddum atkvæði með þessari tillögu enda sýnist mér hún vera í fullu samræmi við þann þunga sem við höfum lagt á starfsemi Sameinuðu þjóðanna og þær vonir sem við þá starfsemi. eru bundnar.

Af einstökum stofnunum Sameinuðu þjóðanna vil ég nefna UNESCO eða Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa verið miklar deilur og voru þær af ýmsum raktar til framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Við Íslendingar studdum kosningu nýs framkvæmdastjóra, og náði það fram að ganga eftir harðar deilur og margar atkvæðagreiðslur.

Von okkar er að þetta verði til þess að starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar eflist á ný með þátttöku sem flestra ef ekki allra þjóða heims.

Af öðrum alþjóðastofnunum vil ég nefna Atlantshafsbandalagið. Þátttaka okkar í störfum þess hefur verið aukin. Fyrirrennari minn í starfi utanrrh. hóf það verk, m.a. með því að við erum nú orðnir aðilar að fleiri nefndum og ráðum sem þar starfa. Í sumum tilfellum erum við ekki fullir aðilar heldur eins konar aukaaðilar að þeim störfum eins og t.d. í störfum nefndar sem fjallar um kjarnorkuvígbúnað. En ég tel ákaflega mikilvægt að fylgjast með öllum þessum störfum þannig að við getum mótað okkur sjálfstæða skoðun á þeim ráðherrafundum sem æðstir eru í starfsemi Atlantshafsbandalagsins og látið þar koma fram okkar skoðanir og haft þau áhrif sem atkvæði okkar leyfir.

Fundir Atlantshafsbandalagsins upp á síðkastið hafa einkennst mjög af viðræðum stórveldanna. Ég hef þegar nefnt að þar hafa verið margir fundir með t.d. utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem hefur lagt á það mikla áherslu að halda slíka fundi eftir hvern fund sem hann á með utanríkisráðherra Sovétríkjanna. Ég hef getað mætt á þremur af fjórum slíkum fundum, sá mér ekki fært að mæta á þeim síðasta. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti tveimur slíkum fundum þar til nýr leiðtogafundur verður haldinn í Moskvu í lok maí eða júní og mun ég leggja áherslu á að sækja þá fundi. Ég tel mikilvægt að sæti Íslands sé skipað á þeim fundum og þannig komi fram sá áhugi og sú áhersla sem við leggjum á þessar afvopnunarviðræður.

Því er ekki að neita að þessi þróun hefur valdið nokkrum skjálfta innan Atlantshafsbandalagsins sem er ekki einkennilegt þegar mörg ríki eiga hlut að máli og hagsmunir ríkjanna eru allbreytilegir. Þó sýnist mér í raun aðdáunarvert hvað tekist hefur að ná breiðri samstöðu um þá meginstefnu sem fylgt er. Og á þeim fundum sem ég hef sótt hjá Atlantshafsbandalaginu hefur komið fram mjög eindreginn stuðningur við þær afvopnunartilraunir og tilraunir um fækkun kjarnorkuvopna sem nú fara fram.

Hinu er svo ekki að neita að þarna eru skiptar skoðanir um hve langt á að ganga í þessu sambandi og virðist vera töluverður ótti hjá ýmsum ríkjum Vestur-Evrópu ef kjarnorkuvopn, m.a. þau vopn sem notuð eru á vígvöllum, þ.e. vígvallarvopn, eru með öllu fjarlægð. Í þessu sambandi tel ég að mikilvægasta skrefið á næstunni muni verða samkomulag um jafnvægi í hefðbundnum vígbúnaði. Þar hallar mjög á ríki Vestur-Evrópu. Og mér sýnist að kunni að vera jafnvel vonlaust að ná mikið lengra með eyðingu kjarnorkuvopna í Evrópu ef ekki er þegar orðið samkomulag um jafnvægi í hefðbundnum herbúnaði. Þær viðræður fara fram á fyrrnefndum fundum um öryggi og samvinnu í Evrópu og eru reyndar orðnar viðamestu umræðurnar á þeim vettvangi.

Ég tel því að leggja beri mjög mikla áherslu á að ná árangri í samkomulagi um jafnvægi í hefðbundnum vopnum og hefðbundnum herbúnaði. Ég er alls ekki einn um þessa skoðun. Mér virðist hún vera ákaflega ríkjandi hjá fjölmörgum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins.

Evrópuráðið er önnur stofnun sem ég vil lauslega nefna. Evrópuráðið eru þau pólitísku samtökin í Evrópu, ef ég má orða það svo, sem við erum virkir þátttakendur í. Starfsemi Evrópuráðsins hefur verið með hefðbundnum hætti. Áhrif þess eru tvímælalaust langsamlega mest á ýmsum sviðum mannréttinda. Evrópuráðið vinnur þar mjög þarft starf. Athygli mína hefur vakið að Evrópuráðið hefur nú tekið í vaxandi mæli á dagskrá sína bætta sambúð austurs og vesturs í Evrópu. M.a. hefur aðalframkvæmdastjóri þess ferðast til Austur-Evrópuríkjanna og greint á fundum frá athyglisverðum viðræðum sem hann hefur átt við lönd þar, m.a. um hugsanlega eins konar áheyrn að a.m.k. einhverri starfsemi innan Evrópuráðsins.

Ég tel þetta mikilvægt og vona að það geti orðið til þess með tímanum að fella það járntjald sem því miður hefur verið á milli Austur- og Vestur-Evrópu. Og vitanlega er ekkert annað ásættanlegt en að Austur- og Vestur-Evrópa geti starfað saman í sátt og samlyndi.

Um Norðurlöndin ætla ég ekki að fjalla hér mikið. Þar hefur að sjálfsögðu samstarfið verið mjög innan Norðurlandaráðs sem er á vegum þinga þessara landa. En samstarfið hefur einnig verið mikilvægt á sviði utanríkismála. Fundir utanríkisráðherranna hafa verið hefðbundnir og menn hafa þar borið saman sínar bækur.

Grænland er þó eitt af Norðurlöndunum sem vert er að ræða nokkuð. Við erum næstu nágrannar þessa stóra landsvæðis og höfum allt frá því að Grænlendingar tóku í vaxandi mæli við heimastjórn boðið Grænlendingum samstarf á fjölmörgum sviðum. Því miður þykir mér að þetta hafi þróast of hægt. Á því eru ýmsar skýringar. Það er gífurlegt verkefni sem Grænlendingar hafa tekið sér á hendur í þessu stóra landi en fámenna. Óttast ég að langt sé frá að séð sé fyrir endann á því viðfangsefni. Við hljótum að sýna Grænlendingum fullan skilning í þessu sambandi, en jafnframt verðum við að vænta þess að tvíhliða samningar náist um þau miklu auðæfi sem þessi tvö lönd deila í hafinu á milli. Þar hafa orðið vonbrigði.

Ekki hefur tekist að ná samkomulagi um skiptingu á loðnustofninum, því miður, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Á síðasta fundi sem haldinn var 1986 komu Grænlendingar fram með mjög auknar kröfur um hlutdeild í loðnustofninum þrátt fyrir að allar athuganir hafa sýnt að loðnustofninn er jafnvel enn meir íslenskur fiskstofn en áður var talið. Sömuleiðis hefur ekki tekist að ná samkomulagi um veiðar á rækjustofni þeim sem er á milli landanna á Dornbanka. Það er stórt hagsmunamál hygg ég fyrir okkar rækjusjómenn og á einnig að vera fyrir Grænlendinga, ekki síst með tilliti til þess að þeir hafa fengið heimild til að athafna sig í íslenskum höfnum. Þá heimild veitti ég á sínum tíma þegar ég var sjútvrh. og leit á það sem fyrsta skrefið í samkomulag um nýtingu á þessum rækjustofni.

Hins vegar hafa viðskipti á milli þjóðanna stórlega aukist og voru á síðasta ári um 100 millj. kr. í beinum vöruviðskiptum. Samstarf hefur einnig aukist á öðrum sviðum. M.a. hafa íslenskir verktakar í vaxandi mæli tekið að sér ýmiss konar framkvæmdir á Grænlandi og munu þær nú vera um 320 millj. kr. að verðmæti. Einkum er það í sambandi við uppbyggingu á frystihúsum og fiskvinnslustöðvum.

Um hinn fjarlægari heim mætti margt segja. Þar eru því miður átök mjög víða. Ég ætla aðeins að nefna fjögur svæði.

Ég hef reyndar þegar nefnt Afganistan þar sem fram hafa farið mannvíg sem enginn getur afsakað á nokkurn máta. En eftir ítarlegar viðræður nú í Genf virðist sjá fyrir endann á þeim átökum og eru nú miklar vonir bundnar við að Sovétríkin fjarlægi sinn her frá Afganistan samkvæmt því samkomulagi sem er langleiðina komið í höfn. Verður að sjálfsögðu mjög fylgst með því og því sem á eftir fylgir.

Hins vegar sér ekki fyrir endann á átökum Írans og Íraks þrátt fyrir viðleitni Sameinuðu þjóðanna og m.a. samþykkt þeirra þar sem mjög eindregið er skorað á aðila að hætta átökum. Ég lýsti þeirri skoðun í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að þessari samþykkt bæri að fylgja eftir með samþykkt um vopnasölubann til þessara ríkja. Mér sýnist að eftir að Öryggisráðið hefur stigið fyrsta skrefið að þessu leyti hljóti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að stíga næsta skref ef fyrri samþykkt nægir ekki.

Því miður hefur ekki orðið samkomulag um slíka samþykkt hjá Öryggisráðinu þótt í viðræðum stórveldanna sé einnig fjallað um þessi mál og leitað eftir samkomulagi um aðgerðir. Að sjálfsögðu er alls ekki ljóst hvort vopnasölubann gæti orðið til þess að ljúka þessum miklu átökum. Því miður virðast vopnasalar engu að síður á hverju horni. En slík samþykkt mundi þó sýna vilja og viðleitni Sameinuðu þjóðanna og í kjölfar hennar væri hægt að fylgja því eftir, sem erfitt er nú, að stöðva vopnasölu til þessa svæðis.

Mið-Ameríkuríkin hafa verið mjög í umræðunni og ekki að ástæðulausu því að þar eru einnig deilur miklar og mannvíg, ekki aðeins í Nicaragua heldur jafnvel víðar.

Ég lýsti því í ræðu minni á allsherjarþinginu að tvímælalaust bæri að stuðla að því að samkomulag það, sem þessi ríki gerðu með sér sl. sumar, næði fram að ganga og hverri þjóð bæri skylda til að stuðla að slíku. Þetta er helsta vonin til þess að friður megi verða á þessu svæði. Framkvæmd þessa samkomulags er mjög háð því hvernig Bandaríkjamenn bregðast við og við hljótum að lýsa þeirri eindregnu von okkar að það stórveldi á vesturhveli jarðar beiti sínum mætti til þess að þetta samkomulag megi stuðla að friði á svæðinu.

Þá vil ég að lokum nefna þau hroðalegu átök sem nú eiga sér stað í Ísrael. Við Íslendingar höfum í gegnum árin stutt mjög ákveðið rétt Ísraelsríkis og staðið að samþykktum í þá veru aftur og aftur á þingum Sameinuðu þjóðanna. Við höfum einnig stutt sjálfstætt ríki Palestínubúa. Við höfum hins vegar lagt á það mikla áherslu að leitað verði eftir heildarlausn á þeim miklu vandamálum sem eru í þessum heimshluta. Og við höfum fært rök fyrir því í okkar málflutningi hjá Sameinuðu þjóðunum að í raun sé málið langt frá því að vera leyst með einstökum afmörkuðum lausnum, heldur verði að ná um það heildarsamstöðu á svæðinu.

Ég hygg að allir þeir sem stutt hafa tilverurétt Ísraelsríkis hljóti að hafa orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með það sem gerist nú á herteknu svæðunum. Mér sýnist ekki unnt að líkja því við neitt annað en hin verstu hryðjuverk. Þessi verk hafa verið sýnd alheimi af þeim fjölmiðlum sem hafa komist inn á þessi svæði, oft í óþökk stjórnvalda, ef ekki alltaf. Þau eru því okkur miklu nálægari en annars væri. Engin þjóð, enginn einstaklingur, óháð stuðningi við rétt Ísraelsríkis til sinnar tilveru, getur stutt morð á börnum, ófrískum konum, gamalmennum o.s.frv., eins og þarna á sér stað.

Við hljótum að fordæma slíkt og ég geri fastlega ráð fyrir að umræða um þessi mál verði á næsta fundi utanríkisráðherra Norðurlanda sem verður í Noregi eftir u.þ.b. þrjár vikur. Ég mun beita mér fyrir því að Norðurlöndin móti sameiginlega stefnu í þessum málum og fordæmi þann yfirgang sem þarna er um að ræða.

Mér er ljóst að ástandið á þessu svæði er ákaflega viðkvæmt. Og erfitt er að setjast í dómarasætið. Mér sýnist þó að það sem þarna gerist nú sé langt umfram þau mörk sem þolað verður.

Sem betur fer eru innan Ísraels öflug samtök sem vilja allt aðra leið í þessum málum. Mér er kunnugt um það að frjálslynd stjórnmálasamtök þar og sömuleiðis jafnaðarmenn vilja leita annarra leiða. Þeir hafa boðað sjálfstæði herteknu svæðanna og treysta sér til að fallast á sjálfstætt ríki Palestínubúa, en um það hefur því miður ekki náðst samstaða og virðist ekkert nær nú en áður hefur verið. Hafnað hefur verið samþykkt Sameinuðu þjóðanna um ráðstefnu sem fjalli um lausn þessara vandamála í heildinni séð.

Þetta er mál sem við hljótum að láta til okkar taka eins og við getum á alþjóðlegum vettvangi.

Ég kem þá að kafla um utanríkisviðskipti.

Á því sviði hafa orðið miklar breytingar í utanrrn. Samstaða varð um það á milli stjórnarflokkanna að flytja útflutningsmálin til utanrrn. Það er í samræmi við það sem er í flestum okkar nágrannaríkjum, m.a. Norðurlöndunum og t.d. Kanada og er að sjálfsögðu gert með það í huga að nýta utanríkisþjónustuna sem best í þágu þessa mikilvæga þáttar í okkar þjóðarbúskap. Þessi þróun hófst áður en ég tók við starfi, m.a. lét fyrirrennari minn setja á fót sendiráð í Brussel sem fyrst og fremst sinnir hinum mikilvægu störfum okkar í tengslum við Evrópubandalagið. Sú skrifstofa í utanrrn., sem fer með þessi mál, er ekki fjölmenn enn sem komið er. Þar vinna fjórir sérfræðingar. Verkefnin eru hins vegar gífurlega mikil eins og ég mun ræða nokkuð nánar. Ég geri mér vonir um að þetta reynist vel. Samstarfið við Útflutningsráð er ágætt og ég geri mér vonir um að það muni mjög auka starfskraftana á þessu sviði. Útflutningsráði ætla ég að sjá sem sjálfstæðast um veigamikla þætti. T.d. er Útflutningsráði ætlað að velja menn, viðskiptafulltrúa, sem sitji við hin ýmsu sendiráð okkar erlendis. Slíkir fulltrúar eru nú í Kaupmannahöfn, í Vestur-Þýskalandi og í New York. Ég geri mér vonir um að þeim muni fjölga. Viðskiptafulltrúi var í London en er ekki nú. Vegna fjárskorts hefur ekki verið talið fært að senda þangað á ný viðskiptafulltrúa.

Ég geri ráð fyrir að lög um Útflutningsráð verði endurskoðuð nú á næstunni. Ætíð var gert ráð fyrir að þau yrðu skoðuð þegar nokkur reynsla væri af þeim fengin. Ég tel afar mikilvægt að tryggja Útflutningsráði öruggari tekjustofn en þann sem það hefur nánast til bráðabirgða nú, m.a. af þeim uppsafnaða söluskatti sem endurgreiddur hefur verið a.m.k. að verulegum hluta til fiskvinnslunnar. Sömuleiðis eru allháværar raddir um það að aðild að Útflutningsráði þurfi að vera víðtækari og ég tel mikilvægt að um það geti orðið samstaða. Af kynnum mínum af Útflutningsráði sýnist mér þar unnið hið ágætasta starf. Þar er áhugasamt starfslið og verkefnin hafa vaxið hröðum skrefum.

Ég ætla ekki að ræða hér um viðskiptajöfnuð og þá hluti, en í skýrslunni eru allítarlegar upplýsingar um slíkt. Ég þarf ekki að nefna þá staðreynd að því miður varð verulegur viðskiptahalli á árinu 1987. Er það veruleg breyting sem varð frá árinu 1986. Jafnframt samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar að óbreyttu þá verður viðskiptahalli enn meiri á þessu ári, jafnvel allt að 5% landsframleiðslu, eða um 10 milljarðar. Vitanlega verður að stemma stigu við þessu og það er von mín að það verði gert með þeim efnahagsráðstöfunum sem að sjálfsögðu eru fram undan.

Ég vil hins vegar ræða nokkuð um þær miklu breytingar sem augljósar eru á ýmsum sviðum viðskiptamála og þá sérstaklega sem tengjast þeirri breytingu eða þróun sem er innan Evrópubandalagsins. Ég hygg að menn séu nokkuð sammála um það eftir árangursríkan fund leiðtoga landa Evrópubandalagsins nú nýlega í Brussel að hinn svonefndi innri markaður megi kallast í höfn. Að vísu er þar gífurlega mikið starf óunnið, en stærstu tálmarnir eru úr vegi og ríkir nú miklu meiri bjartsýni. Rík ástæða er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með því sem er að gerast innan Evrópubandalagsins. Það er orðinn okkar stærsti viðskiptaaðili. Við flytjum meira en helming af okkar útflutningi þangað og sömuleiðis inn af okkar innflutningi, og má segja að þessi viðskipti vaxi hröðum skrefum. Ég vildi því strax hefja viðræður við forustumenn þar og átti í byrjun desember ágæta fundi með aðalframkvæmdastjóra Evrópubandalagsins, de Clercq. Ég gerði skýrslu um þann fund sem ég lagði fyrir ríkisstjórn og utanrmn. og var hún þar rædd. Sömuleiðis var fundur ráðherra Fríverslunarbandalags Evrópu í desember haldinn í Genf. Og raunar er varla hægt að ræða þessi mál án þess að fjalla um Evrópubandalagið og Fríverslunarbandalagið í einu lagi.

Evrópubandalagið stefnir að því að mynda innri markað og með því ekki aðeins að afnema allar þær tálmanir sem eru nú á flutningi varnings innan meðlimaríkjanna. Þær eru satt að segja ótrúlegar. Mér er t.d. tjáð að það hafi a.m.k. allt til síðustu stundar þurft 12 skjöl og uppáskriftir til að flytja vörur frá Vestur-Þýskalandi til Ítalíu landleiðina. Allt slíkt á að afnema og reyndar er í þessu sambandi nú talað um hin fjögur frelsi, þ.e. fullkomið frelsi til viðskipta, fullkomið frelsi í flutningi fjármagns, fullkomið frelsi í allri þjónustustarfsemi og fullkomið frelsi í flutningi mannafla. Þetta er mikið og háleitt markmið sem ég hygg að ýmis ríki utan Evrópubandalagsins hljóti að staldra við og þá á ég við ríki sem hafa þarna mikilla hagsmuna að gæta.

Á fundum ráðherra Fríverslunarbandalags Evrópu skýrði ég frá því að áreiðanlega yrði mjög erfitt fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í fullkomnu frelsi fjármagns og fullkomnu frelsi í flutningi á vinnuafli. Raunar hef ég aldrei farið leynt með þá skoðun mína að full aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina, hún henti okkur ekki. Ég hef rætt þetta bæði í utanrmn. og í ríkisstjórn og vil skýra frá því að bæði utanrmn. og ríkisstjórn telja fulla aðild að Evrópubandalaginu ekki vera á dagskrá.

Það breytir hins vegar ekki hinu að við þurfum að fylgjast mjög náið með því sem þarna er að gerast. Til að ná þessum innri markaði er Evrópubandalagið að samhæfa staðla, reglugerðir, lög og ýmsar kröfur á fjölmörgum ólíkum sviðum. Ég er þeirrar skoðunar að við hljótum að leita eftir nánum samningum við Evrópubandalagið eða þann innri markað sem upp úr því sprettur. Við hljótum að leita eftir góðum samningum við það. Við megum þó aldrei gleyma því að við höfum sem betur fer nú óvenjugóða samninga við Evrópubandalagið. Þetta sýnist mér stundum gleymast. Við höfum betri samninga við Evrópubandalagið en ég hygg nokkurt ríki sem utan þess stendur. Ég vil einnig leggja á það áherslu að þessir samningar eru ekki tímabundnir, þeir eru að vísu uppsegjanlegir, en þeir eru ekki tímabundnir. Í þeim viðræðum sem ég hef átt við aðalforstjóra Evrópubandalagsins kom fram að hann telur þessa samninga vera jákvæða fyrir okkur og lýsti engri hættu á því að þeim yrði sagt upp.

Ég er þeirrar skoðunar að Evrópubandalaginu sé töluvert kappsmál að halda okkur í tengslum við bandalagið með samningi eins og við höfum nú eða jafnvel eitthvað betri samningi. Við leitum fyrst og fremst eftir því að fá vissar sjávarafurðir viðurkenndar sem fríverslunarvöru og vegur þar langsamlega þyngst saltfiskurinn sem þegar samningurinn var upphaflega gerður var ekki okkar áhyggjumál því að Spánn og Portúgal voru þá utan Evrópubandalagsins. Var því ekki lögð á það sú áhersla sem gert er nú að fá fullkomið verslunarfrelsi. Nú hafa bæði Spánn og Portúgal, eins og allir vita, gengið í bandalagið og því hefur þessi mikilvægi markaður okkar færst inn fyrir tollmúrana.

Nú hagar þannig til að samkvæmt ákvæðum GATT eru 25 þús. lestir af saltfiski tollfrjálsar en öll viðbót er háð ákvörðun Evrópubandalagsins sjálfs.

Í viðræðum mínum lagði ég að sjálfsögðu fyrst og fremst áherslu á að við hefðum mikinn áhuga á því að saltfiskur nyti sama tollfrelsis og aðrar okkar sjávarafurðir. Mér var svarað að vonlaust væri að fara fram á slíkt á þessari stundu á meðan Evrópubandalagið væri að móta sinn innri markað. Eða eins og sá fulltrúi sem þar fer með sjávarútvegsmál sagði: Ég treysti mér ekki til og reyndar er það vonlaust að fara með slíkt mál á þessu stigi fyrir tólf sjávarútvegsráðherra. Hins vegar var því ekki neitað að þetta gæti orðið á síðari stigum eftir að Evrópubandalagið hefur náð markmiði sínu með innri markað.

Mér þótti athyglisvert það sem de Clercq aðalforstjóri sagði: Leitið eftir fullri fríverslun fyrir fisk innan Fríverslunarbandalags Evrópu og komið þannig sameinaðir með það málefni til Evrópubandalagsins. - Kem ég að því nánar síðar.

Ég lagði jafnframt áherslu á að opnað yrði fyrir þennan tollfrjálsa kvóta, 25 þús. lestir, sem fyrst. Því var vel tekið og það var gert í desembermánuði. Ég lagði jafnframt áherslu á að viðbótarkvóti yrði ákveðinn fyrr en verið hefur því það hefur oft dregist fram á vor og valdið verulegum vandræðum þar sem saltfisk-„vertíð“, ef ég má kalla það svo, er þá iðulega langt gengin. Þessu var einnig vel tekið og hefur nú verið ákveðið miklu fyrr en áður hefur verið að veita 45 þús. lesta viðbótarkvóta með 5% tolli.

Til að aðlagast þessum nýja markaði, sem ég legg eindregið til að við gerum, og stefnum að góðum samningum við Evrópubandalagið, þurfum við að vinna mikið starf. Við þurfum að aðlagast breytingunum. Ég hygg að um 20 starfshópar séu eða verði starfandi á hinum ýmsu sviðum. Þegar hefur verið ákveðið að taka þátt í einu slíku starfi sem fjallar um samræmingu á rafbúnaði sem, eins og allir þekkja sem ferðast um þessi lönd, eru ekki eins frá einu landi til annars. Þetta er mikilvægt skref. En þau eru mörg, mörg önnur málin sem verður fjallað um.

Því hefur á vegum Fríverslunarsambands Evrópu verið lögð á það mikil áhersla að þau sex ríki sem þar eru enn vinni sameiginlega að aðlögun að því sem er að gerast innan Evrópubandalagsins. Núverandi framkvæmdastjóri EFTA hefur unnið mjög gott starf á þessu sviði og er þegar hafin starfsemi innan EFTA á mörgum sviðum sem fjarlæg eru fríverslun. Ég nefni t.d. menntamál þar sem augljóslega er mikilvægt að samræma hugmyndir og kröfur. Samræming á ýmsum sviðum laga sem einnig er hafin hjá EFTA. Samræming á ýmsum innflutnings- og útflutningsreglum er nauðsynleg og samþykkt hefur verið hjá EFTA að meðlimaríkin veiti skrifstofu samtakanna í Genf upplýsingar um allar reglur og reglugerðir sem varða inn- og útflutning. Gert er ráð fyrir að veittur verði þriggja til sex mánaða frestur til að skoða slíkar hugmyndir og benda á annmarka sem menn þykjast á þeim sjá og þá með það í huga að samræma slíkar reglur innan landa Fríverslunarsamtakanna í Evrópu og þá að sjálfsögðu því sem verið er að gera innan Evrópubandalagsins.

Hér er því um mikið starf að ræða sem ég sé ekki fram á að verði unnið af því fámenna starfsliði sem nú er. Í sendiráði okkar í Genf er einn sendiherra og einn sérfræðingur fyrir utan aðstoðarfólk. Þeir sinna einnig að sjálfsögðu GATT þar sem mjög mikilvægir hlutir eru að gerast sem við verðum að fylgjast með.

Þá vil ég geta þess að við Íslendingar munum taka við formennsku í EFTA á næsta ári og þar með einnig í ýmsum sérnefndum á vegum EFTA sem við skoruðumst undan síðast þegar við tókum við formennsku. Þar er t.d. um að ræða nefnd sem er ætlað að samræma störf EFTA og EB á næstu árum og er í Brussel. Sendiherra okkar þar tekur við formennsku í þeirri nefnd. Að mínu mati kemur ekki til mála að skorast undan slíkri ábyrgð. Ef við ætlum að taka virkan þátt í því starfi sem þarna er unnið, þá verðum við að vera í því heilir. Ég hygg að öllum hljóti að vera ljóst að þegar að þessu kemur á næsta ári, þá reynir mjög á það starfslið sem í þessu verður og er áreiðanlegt að því verður að fjölga.

Við eigum einnig fram undan afar mikið óunnið verk hér heima. Því fer víðs fjarri að samráð sé jafnvel á milli ráðuneyta hér um reglur og reglugerðir. Ekki hefur þess verið krafist hér að einstök ráðuneyti beri reglugerðir, sem eru tvímælalaust í þess verkahring, undir önnur ráðuneyti. Það hefur ekki verið talið nauðsynlegt. Ef við hins vegar ætlum að samræma slíkt, ekki aðeins innan lands heldur að þeirri þróun sem er fram undan erlendis, þá verður slíkt samráð að verða traust hér heima. Ég hef því gert ráð fyrir að einn af starfsmönnum viðskiptadeildar utanrrn. fái það verkefni að koma á nauðsynlegu samstarfi og samráði við stjórnvöld hér heima og við ýmsar stofnanir, útflutningsaðila, samtök þeirra, sem starfa utan Stjórnarráðsins.

Ég er þeirrar skoðunar að mjög sé unnt að grisja þann frumskóg alls konar reglna og kvaða sem eru hér hjá okkur og hafa verið lengi og í raun og veru eru bæði óþarfar eða ganga ekki upp í þeirri stöðu sem við erum nú.

Í þessu sambandi vil ég svo minnast á fiskinn sem ég hef lauslega minnst á áðan og vil geta þess að í þingmannanefnd EFTA hefur verið unnið hið ágætasta starf. Þar hefur hv. þm. Kjartan Jóhannsson setið og fengið því framgengt að þingmannanefndin hefur mælt með því við ráðherranefnd EFTA að fiskur verði fríverslunarvara. Þetta var í raun eina deilumálið á síðasta ráðherrafundi EFTA í desember í Genf. Svíar hafa lagst mjög hart gegn þessu og vildu strika þessi meðmæli þingmannanefndarinnar algjörlega út. Það kom í minn hlut að andmæla þessu en Norðmenn studdu það vel. Við fengum samþykkt að málið yrði áfram á dagskrá, yrði skoðað nánar og verði rætt, og ég vona ítarlega, á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna sem halda á í Finnlandi 14. og 15. júní nk.

Ég er þeirrar skoðunar að leiðin með fisk inn í fulla fríverslun sé í gegnum EFTA. Að vísu eru nokkuð skiptar skoðanir um það. Og ég er þeirrar skoðunar eftir viðhorf Svía að leiðin inn í EFTA kunni að vera í gegnum Norðurlandaráð. Ég vil því beina þeim tilmælum til okkar fulltrúa þar, sem ég hef reyndar rætt við um þessi mál, að þeir hreyfi þessum málum kröftuglega innan Norðurlandaráðs. Innan Norðurlandanna er talað um Norðurlöndin sem einn markað eða heimamarkað og að sjálfsögðu er tilgangslaust fyrir okkur að taka þátt í slíkum markaði ef við fáum þar ekki fullt frelsi fyrir okkar meginafurð, fiskinn. Þetta mál þarf að taka upp á Norðurlandaráðsþingi sem haldið verður nú mjög fljótlega.

Ég skal nú stytta mál mitt um þennan mikilvæga málaflokk, en læt þess að lokum getið að þetta verður að mínu mati eitt okkar allra stærsta mál á næstu árum og við megum ekkert til spara að sinna þessum málum mjög vel.

Ég kem þá að þróunarsamvinnu sem við hljótum að viðurkenna að er nokkurt feimnismál í þessum sölum. Ég þarf ekki að minna á það að fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi samþykktu Sameinuðu þjóðirnar áskorun til hinna efnaðri meðlimaríkja að verja a.m.k. 1% þjóðartekna til þróunaraðstoðar. Ýmis lönd hafa náð þessu. Ég hygg að Noregur sé þar fremstur í flokki og sé kominn nokkuð fram yfir þetta. Ég heyrði nýlega að við séum á síðasta ári líklega með næsthæstu þjóðartekjur í heimi, en við erum líklega lægstir þróaðra landa eða hinna efnuðu landa í þróunaraðstoð. Með því að telja allt saman, bæði það sem Þróunarstofnun Íslands fær á fjárlögum og það sem veitt er til ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna m.a., sumt sem er vafasamt að telja allt til þróunaraðstoðar, og bæta því við sem Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauði krossinn og aðrir slíkir aðilar safna og veita í frjálsum framlögum, þá sýnist mér að framlag okkar til þróunaraðstoðar sé um 0,05–0,06 % þjóðartekna. Þróunarstofnunin fær 40 millj. kr. á fjárlögum.

Ég hef séð ríka ástæðu til að skoða þessi mál og sótti því fund í Arusha í Tanzaníu nú í lok janúarmánaðar til að kynnast þeirri gífurlega miklu þróunaraðstoð sem það svæði fær. Mér fannst þetta nauðsynlegt vegna þess að fyrrv. utanrrh. hafði ákveðið að við tækjum þátt í einum þætti þess verkefnis, þróun á sviði fiskveiða í hinum risastóru vötnum sem á þessu svæði eru. Ég tel að sú ákvörðun hafi verið rétt, en hins vegar er ljóst að sú ákvörðun leggur töluverðar skyldur á okkar herðar. Getum við sinnt þessu verkefni?

Ákveðið hefur verið að íslenskur sérfræðingur taki að sér samræmingu á aðstoð Norðurlandaþjóðanna á sviði fiskveiða á þessu svæði og mun aðsetur hans verða í Malawi. Til upplýsinga vil ég geta þess að á þessum fundi í Arusha upplýstist að Norðurlöndin hyggjast verja á næstu fjórum árum 4 milljörðum dollara í þróunaraðstoð við ríkin norður af Suður-Afríku eða hin suðlægari lönd í Afríku. Þetta eru að sjálfsögðu eins og öllum er ljóst gífurlegar upphæðir. Þetta er á ári hverju um 36–37 milljarðar ísl. kr. Það sem við getum lagt í þessa aðstoð í ár verður líklega 5–6 millj. ísl. kr. Hins vegar er alveg ljóst að sú ákvörðun að ráðast í þetta verkefni mun krefjast aukins fjármagns á næstu árum. Við getum ekki setið þarna með einn mann. Við hljótum að þurfa að setja verulega mikið meira fjármagn í þetta verkefni. Mér hefur því þótt rík ástæða til að marka ákveðna stefnu í okkar þróunaraðstoð. Ég tel að við Íslendingar eigum að leggja áherslu á ákveðin, afmörkuð verkefni. Það er í raun og veru eins og að kasta fjármagni út um gluggann, ef ég má orða það svo, að veita þessar litlu fjárhæðir okkar í stór sameiginleg verkefni. Við sjáum í raun og veru aldrei neinn árangur af slíku. Við eigum að takmarka okkar þróunaraðstoð við þau svið þar sem við höfum þekkingu. Við höfum þekkingu á sviði fiskveiða og sjávarútvegs. Þeirri þekkingu getum við miðlað.

Ég heimsótti Grænhöfðaeyjar sem forsrh. og var afar ánægður með það sem verið er að gera þar fyrir okkar takmarkaða fjármagn. Þar hefur tekist að meta ákveðna fiskstofna sem lítt voru veiddir áður og þar verður haldið áfram, að vísu af veikum mætti, að þjálfa íbúa Grænhöfðaeyja í veiðum á þessum fiskstofnum og aðstoða þá við að vinna og markaðssetja þessa afurð. Ef við gætum sinnt eins og tveimur, þremur svona verkefnum, þá liggur eitthvað marktækt eftir okkur.

Ég tel einnig að við eigum að skoða það sem við getum gert á sviði jarðvarmans. Þar erum við viðurkenndir með mikla þekkingu og höfum dálítið komið inn í þau mál, t.d. í Kenýa. Ég notaði tækifærið og heimsótti utanríkisráðherra Kenýa og ræddi sérstaklega við hann um þau mál. Þar eru gífurlega stór verkefni. Þróunarstofnunin hefur ákveðið að veita 1 millj. kr. til þess að tveir sérfræðingar megi fara þangað og skoða hugmyndir um nýtingu jarðvarma, í öðrum tilgangi en til raforkuframleiðslu. Þar vinna ýmsar þjóðir að nýtingu j arðvarmans og vissulega höfum við tekið þátt í umræðu um það og voru miklar vonir við það bundnar fyrir rúmu ári að við fengjum stóran hluta af þeim verkefnum. Það hefur því miður brugðist að langmestu leyti. Það brást af þeirri ástæðu að við höfum ekki haft, eins og þessar þjóðir tala um, ódýrt fjármagn til að - hvað eigum við að segja - malbika veginn að þessum verkefnum. Í öllum slíkum tilfellum er ákveðið forstarf af því tagi nauðsynlegt. Ný-Sjálendingar tóku af okkur verkefnið með slíku þróunarframlagi.

Nú skal ég viðurkenna að vissulega getur það verið umhugsunarvert að steypa sér út í mjög stór verkefni og ætíð spurning hvað sú þjóð hagnast sem vinnur verkið. Hins vegar eru ýmsar leiðir til þessa og ég lærði mikið um það á fundinum í Arusha. T.d. hafa Danir þá reglu að 25% af því fjármagni sem þeir veita skuli varið til að kaupa tæki í Danmörku. Reyndar var mér sagt þarna að mjólkurbúin dönsku séu einhver er.n í kössunum og búin að vera í mörg ár. Og sum mjólkurbú hafa verið reist þar sem vantar kýrnar eða mjólk er lítil. Þannig að mér sýnist að ýmislegt af þessari tækniaðstoð hafi verið mjög ómarkvisst. Það er m.a. af þeirri ástæðu sem ég tel að við eigum að leggja áherslu á afmörkuð svið þar sem við höfum þekkingu og fyrst og fremst stefna að því að koma þekkingunni til skila. Við getum ekki gert okkur vonir um að héðan verði keypt mikið af tækjum. Þróunarsamvinnan er stórt mál sem við verðum að taka til mjög alvarlegrar athugunar á næstu árum og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

Þá kem ég að kafla sem fjallar um öryggis- og varnarmál og mætti fara mörgum orðum um þau, en ég skal reyna að stikla á stóru. Að sjálfsögðu hafa orðið nokkrar breytingar á þessu sviði með byggingu flugstöðvarinnar og ekki síst með flutningi girðingar utan um það svæði sem herinn hefur haft til afnota og lagningu nýs þjóðvegar að flugstöðinni. Í sambandi við þær breytingar hef ég ákveðið að eftirlit lögreglu með hinum nýjum vegi að flugstöðinni verði í höndum Keflavíkurlögreglunnar. Hann er í beinu framhaldi af öðru svæði þessarar lögreglu og því eðlilegt að hún hafi þar allt eftirlit.

Ég hef einnig rætt um það við sveitarfélögin, þ.e. Njarðvík og Keflavík, að ráðstafa til þeirra afnota meginhluta þess svæðis sem er nú kominn, við flutning girðingarinnar, út fyrir svæði varnarliðsins. Þetta er mjög mikilvægt byggingarsvæði fyrir þessi sveitarfélög sem eru orðin afar aðþrengd og ég sé enga ástæðu til þess að halda því innan varnarsvæða. Þetta er á umræðustigi og hef ég þegar tilkynnt forustumönnum þar þessa ákvörðun mína. Ég geri ráð fyrir því að umræður um það fari fram á næstunni.

Hjá lögreglustjóraembættinu hafa að sjálfsögðu orðið þær breytingar að umferð um hlið inn á varnarsvæðið, inn á völlinn eins og sagt er, hefur mjög dregist saman við flutning flugstöðvarinnar. Því er öðru hliðinu nú lokað á nóttunni og aðeins einn lögregluþjónn í hliðunum með amerískum lögreglumanni. Að öðru leyti get ég ekki sagt að þarna hafi orðið breytingar. Ég geri ráð fyrir því að efla eins og frekast er kostur a.m.k. allt samstarf á milli tollgæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og annarrar tollgæslu hér á landinu. Ég vil nefna það að rætt hefur verið um hvort flytja eigi tollgæsluna alfarið undir tollgæslustjóra ríkisins. Ég hef ekkert viljað hafna því. Ég hef viljað skoða þetta mál með opnum huga, en hins er þó að gæta að þessir tollverðir hafa einnig eftirlit með öllum innflutningi varnarliðsins og það hygg ég að hljóti samkvæmt lögum frá 1954 að teljast hjá utanrrn. Flugmálastjórn hefur flutt í hina nýju flugstöð og hefur að sjálfsögðu yfirumsjón með rekstri hennar.

Um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið svo mikið rætt hér að það væri að bera í bakkafullan lækinn að ræða mikið um hana. Ég vil geta þess að samkvæmt áætlun sem ég hef látið gera og nýlega fengið um rekstur flugstöðvarinnar bendir allt til þess að hann geti orðið í jafnvægi á þessu ári og munu þá nægja þær tekjur sem fást af lendingargjöldum o.fl. í þann rekstur, en þess ber þó að gæta að sjálfsögðu að ekki er um afborganir að ræða á þessu ári nú af lánum sem til flugstöðvarinnar falla.

Um bygginguna hefur fyrst og fremst verið rætt hér og ég gat þess í þeirri umræðu að samkvæmt síðustu áætlun sem ég hef látið gera og látið tína allt til sem sérfróðir menn telja óhjákvæmilegt á einhverju stigi á næstunni, þá eru þau verk sem þar eru eftir upp á 241 millj. kr. Hluti af því eða 150 millj. kr. var í þeirri upphæð sem ég nefndi þá, þ.e. í bókfærðum kostnaði að viðbættri áætlun yfir það sem umsamið er en ólokið. Ég hef rætt í ríkisstjórninni um þessi verkefni og m.a. hve mikilvægt er að ljúka sumum þeirra. Sum eru samningsbundin eins og t.d. lagning endanlegrar hitaveitu á svæðið. Því er mjög mikilvægt að ljúka því byggingum fjölgar þar og bráðabirgðalögn mun ekki geta annað þeim byggingum öllum í umtalsverðum kuldum. Ég hef einnig vakið athygli á því að samningsbundið er að ljúka og koma upp þeim listaverkum sem ákveðin hafa verið á svæðinu. Sömuleiðis eru viðgerðir eða lagfæringar á útihurðum o.fl. sem ekki verður komist hjá.

Ekki hefur orðið samstaða í ríkisstjórninni um innlenda lántöku sem ég hef farið fram á í þessu skyni. Hér vil ég taka skýrt fram að ekki er um neinar viðbótarframkvæmdir að ræða. Ég tel að ef um þetta gæti orðið samstaða þá ætti að sjálfsögðu að ræða það við fjvn. Þetta vil ég láta koma fram því að mér þykir ákaflega illt ef ekki verður unnt að standa við samningsbundin verk og það geti orðið til mjög mikilla vandræða í sambandi við rekstur flugstöðvarinnar á næsta vetri. Mér þykir ófært að standa ekki við samninga við listamenn, en sé ekki, því miður, ráð til þess eins og nú horfir og verður þá að greiða þeim skaðabætur, sýnist mér ljóst.

Um varnarliðið sjálft skal ég ekki fara mörgum orðum, en minnast þó á fáein atriði. Varnarliðið hefur eins og fyrr einnig gegnt ákveðnu björgunarhlutverki og verið æðioft kallað út. Í skýrslunni er getið um björgun á vegum varnarliðsins. Árið 1984 voru þær nítján, 1985 fjórar, 1986 fimm og 1987 þrettán. Sem betur fer hefur hin nýlega þyrla Landhelgisgæslunnar komið í mjög vaxandi mæli inn í þau störf og hljótum við að stefna að því að geta sinnt þessu sem mest sjálfir. Þó er það sannarlega þakkarvert að unnt er að leita til varnarliðsins þegar á þarf að halda.

Kostnaður við rekstur varnarliðsins er rakinn í þessari skýrslu. Kemur þar fram að kostnaðurinn á árinu 1987 að öllu meðtöldu var 5,6 milljarðar kr. Af þeim kostnaði er 1,4 milljarðar kr. laun, 4,2 milljarðar kr. eru greiðslur til verktaka, þ.e. bæði launagreiðslur þeirra og allt annað sem á þeirra vegum hefur verið. Varnarliðið keypti á síðasta ári landbúnaðarafurðir fyrir 40,7 millj. kr.

Fjöldi í varnarliðinu hefur verið mjög svipaður og undanfarin ár og skal ég ekki fara um það fleiri orðum.

Mér þykir hins vegar ástæða til að ræða um það mjög alvarlega slys sem varð á varnarsvæðinu. Eins og menn vita láku úr leiðslum varnarliðsins á geymslusvæði þess fyrir neðan völlinn 75 þús. lítrar af olíu. Strax og vart varð við þetta var brugðist skjótt við, sett á fót samstarfsnefnd allra aðila sem hlut eiga að máli, bæði að sjálfsögðu varnarliðsins, ráðuneytisins og þeirra sem eru á svæðinu, bæjarfélaganna og sérfræðingar tilkvaddir. Hefur ekkert verið til sparað að skoða og leita leiða til að koma veg í fyrir tjón af þessu slysi. Ætlunin var fyrst að fjarlægja jarðveg. Menn töldu að olían hefði lekið skammt niður. En fljótlega kom í ljós að svo var ekki og berg, sem þarna var talið vera nokkuð ósprungið undir, reyndist mjög sprungið og olía hafði farið æðihratt niður úr jarðvegi og niður úr berginu og niður í grunnvatnið. Boraðar hafa verið holur á þessu svæði samkvæmt ákvörðun sérfræðinga í straumstefnu, fyrst 30 metra frá lekastaðnum og síðan nú holur töluvert lengra frá. Kemur í ljós að vatnsflæði þarna er ákaflega hægt en þó nokkuð að sjálfsögðu og jafnframt hefur komið í ljós að olían virðist dreifast í aðra átt en sérfræðingar töldu áður, meira í áttina til Keflavíkur en til Njarðvíkur.

Einnig hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að loka holum, reyndar var einni holu lokað um tíma áður en borað var og menn vissu ekki hvernig olían hafði dreifst, og þá jafnframt að tengja vatnsveitur þessara byggðarlaga fram hjá þessu svæði í önnur vatnsból sem gætu sinnt þörfinni a.m.k. til bráðabirgða.

Ég hef að sjálfsögðu fjallað allítarlega um þetta mál bæði við sérfræðinga og við heimamenn og ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að engin önnur lausn sé á þessum vanda en að sækja vatn lengra inn á heiðina eða innar á heiðina á svipað svæði og Hitaveita Suðurnesja sækir sitt ferska vatn. Og ég hygg ég megi segja að um þá lausn er fullkomin samstaða á milli utanrrn., íslenskra sérfræðinga og sveitarstjórnarmanna á svæðinu. Ég hef því falið mönnum að gera áætlun í samráði við sveitarstjórnarmenn um slíka vatnslögn og jafnframt að athuga á hvaða svæði vatnið yrði tekið. Það munar æðimiklu í kostnaði með fjarlægð og þarf því að athugast vel.

Jafnframt hefur verið samþykkt að gera mjög ítarlega grunnvatnsathugun á öllu svæðinu og munu Bandaríkjamenn kosta þá athugun að öllu leyti. Hún verður framkvæmd af bandarískum og íslenskum aðilum. Þetta hygg ég að sé reyndar löngu orðið tímabært því að vatnstaka á svæðinu er gífurlega mikil og allt of lítið vitað í raun um vatnsflæði eða vatnsmagn sem þarna má taka.

Sömuleiðis hefur verið ákveðið að fram fari á vegum heilbrigðisyfirvalda athugun á öllum hugsanlegum mengunarvöldum á þessu svæði og þeir eru mjög margir. Þeir eru miklu fleiri en olíuleki eins og hér um ræðir eins og öllum má vera ljóst. Á þessu svæði eru notuð alls konar efni. Þarna er að sjálfsögðu olía notuð á allar vinnuvélar og á flugvélar. Þarna eru notuð efni til þess að eyða ís af vélum og af flugbrautum. Hvað verður um þessi efni? hljótum við að spyrja. Þetta er orðið eitt af meiri háttar athafnasvæðum þessa lands og vatn er tekið við jaðar þess. Ég held að slíkt geti aldrei nokkurn tímann liðist til lengdar. Því er orðið ákaflega tímabært að taka þessi mál föstum tökum.

Ég hef einnig lýst því við amerísk stjórnvöld, þ.e. bæði sendiherra og flotamálaráðherra Bandaríkjanna sem hingað kom (hefur reyndar sagt af sér síðan), að ég telji enga lausn vera aðra en nýja vatnstöku og að sjálfsögðu hljóti Bandaríkjamenn að taka verulegan þátt í þeim kostnaði. Varnarliðið er samkvæmt samningi skaðabótaskylt og þær skaðabætur gætu orðið gífurlegar ef þessi olía fer inn í leiðslur á svæðinu. Þessu hefur alls ekki verið hafnað, en þeir hafa talið sér nauðsynlegt að fá gleggri upplýsingar um flæði olíunnar og um svæðið í heild. Þessu verður fylgt eftir. (SJS: Sagði ráðherrann af sér út af þessu?) Það vona ég nú ekki, en hann sagði af sér að því að mér skilst af því að hann fékk ekki nægilegt fjármagn. Kannski hann hafi ekki fengið aurana í þetta.

Ég vil einnig taka fram að ég hef að sjálfsögðu rætt þetta mál í ríkisstjórninni og þar er full samstaða um þessa lausn á vandamálinu.

Sala landbúnaðarafurða hefur verið nokkuð á dagskrá og er nýlega búið að gera nýjan samning þar sem nokkur aukning er. Varnarliðið kaupir nú öll egg innlend. En því er ekki að neita að okkur hefur gengið illa að koma lambakjötinu ofan í varnarliðsmennina og sömuleiðis höfum við lent í vandræðum með kjúklingana, m.a. orðið að biðjast undan því að uppfylla þann samning sem gerður var á síðasta ári vegna sýkla sem allir kannast við í kjúklingum. Þetta er alls ekki einleikið mál, en að því er unnið að auka þessa sölu og hún hefur aukist verulega.

Ratsjármálin hafa verið hér nokkuð til umræðu og skal ég fara fljótt yfir sögu. Þó er þar um mjög mikil mál að ræða. Eins og hv. þm. vita var samþykkt fyrir nokkrum árum að byggja tvær nýjar ratsjárstöðvar á Norðurlandi eystra og á Vestfjörðum og jafnframt að endurbyggja þær stöðvar sem verið hafa um langt skeið á Suðvesturlandi og Suðausturlandi. Jafnframt var þá ákveðið að byggja nýja stjórnstöð. Þessar ratsjárstöðvar eða ratsjár sem þar verða eru allar af nýrri gerð, mjög sjálfvirkar. Eins og ég hef sagt áður er lögð á það rík áhersla af íslenskum stjórnvöldum að þetta séu ratsjárstöðvar eingöngu af þeirri gerð sem ekki sjá yfir sjóndeildarhringinn, ef ég má orða það svo. Þeirra svið er u.þ.b. 200 mílur. Talið var nauðsynlegt að reisa þær til að loka því gati sem er í flugumsjón yfir Norður-Íslandi og þar norður af. Sett voru þau skilyrði að íslensk flugmálayfirvöld fengju fullan aðgang að merkjum frá þessum stöðvum og gjörbreytir það að sjálfsögðu flugumsjón á hinu íslenska yfirráðasvæði og ekki síst yfir Íslandi þar sem ekki hefur verið slíkt öryggiseftirlit yfir stórum hluta landsins.

Einnig var sett það skilyrði að meginþorri starfsmanna yrði íslenskur. Á þessu hefur síðan orðið sú breyting að þeir verða allir íslenskir sem í stöðvunum starfa og verða á bilinu 8–10, hygg ég, á hverri vakt. Eftir að þetta var ákveðið setti fyrirrennari minn á fót svonefnda ratsjárstofnun, sem má segja að sé til bráðabirgða innan Varnarmáladeildar, en ég hef sett menn til að gera drög að lögum fyrir þá stofnun þannig að hún verði staðfest með lögum frá Alþingi. Umsvif þessarar stofnunar eru mjög mikil, verða yfir 320 millj. kr. á þessu ári sem er að öllu leyti greitt af varnarliðinu. Þegar hafa verið ráðnir 18 starfsmenn, sem hafa verið sendir til þjálfunar erlendis, og samið við erlend fyrirtæki að aðstoða í fyrstu við rekstur ratsjárstöðvanna. M.a. er gert ráð fyrir því að Íslendingar taki fyrr en áður var ætlað við rekstri ratsjárstöðvarinnar á Suðausturlandi.

Í sambandi við þessar stöðvar er ráðgerður mjög kostnaðarsamur hugbúnaður sem mun vera nálægt einsdæmi. Þær verða tölvustýrðar. Leitað hefur verið eftir því við varnarliðið að íslenskir kerfisfræðingar starfi við þróun, eftirlit og alla meðferð á þessum hugbúnaði. Ég lít svo á að um það sé orðið samkomulag. Félag ísi. iðnrekenda hefur verið til aðstoðar í þessu sambandi og ýmis hugbúnaðarfyrirtæki hafa sameinast um að bjóða í hönnun þessa hugbúnaðar sem er gífurlega stórt mál, líklega hátt í 200 millj. dollara þegar allt er með talið þó að hugbúnaðarhlutinn einn kunni að vera eitthvað minna. Ekki eru þá taldar ratsjárnar sjálfar sem eru þegar boðnar út og ameríska fyrirtækið General Electric mun framleiða.

Hér er því um að ræða ákaflega mikil tæknimál. M.a. er um það talað að við Háskóla Íslands þurfi að koma upp deild á hugbúnaðarsviðinu. Þeir menn sem við þetta munu starfa taka að sjálfsögðu upp störf í þjóðfélaginu á ýmsum sviðum. Ég get staðfest eftir viðræður mínar við hugbúnaðarfyrirtæki að það er mjög mikill hugur í mörgum þeirra að takast á við þetta verkefni.

Ég veit að ratsjárnar eru umdeildar. Um það höfum við rætt, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ég, en á það vil ég leggja ríka áherslu að þessar ratsjár eru eingöngu til eftirlits. Þetta hef ég rætt við menn. Öll gerð ratsjánna, sem þarna eiga að verða, segja mér menn sem ég treysti, er þess eðlis að þær eru alls ekki nothæfar til árása, eins og hér hefur verið haldið fram. Þær ná, eins og ég sagði áðan, aðeins út að 200 mílum.

Um framkvæmdir á vegum varnarliðsins er fjallað. Talin eru upp verkefni sem öll eru samþykkt áður og greint frá öllum áður í skýrslu utanrrh. nema, eins og ég sagði fyrr í dag, líklega eitt verkefni, þ.e. æfingasvæði fyrir slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli sem er mjög lítið í sniðum. Framkvæmdirnar eru heldur minni í dollurum og krónum talið en áður hefur verið. Það sem Aðalverktakar hafa samið um en sem menn verða að athuga að alls ekki verður allt unnið í ár, er upp á 55,2 millj. bandaríkjadala en var á sl. ári 59 millj. bandaríkjadala. Frestað er einum áfanga við olíuhöfnina í Helguvík eins og kemur fram í skýrslunni. Framkvæmdir á vegum Keflavíkurverktaka eru einnig nokkru minni, þ.e. nú 9,2 millj. bandaríkjadala í stað 9,9 millj. áður. Öll verk á vegum Keflavíkurverktaka eru viðhaldsverkefni.

Næsti kafli skýrslunnar fjallar um hafréttarsamninginn og skal ég fara þar fljótt yfir sögu. Þess er þó vert að minnast að aðeins 35 aðilar hafa staðfest samninginn og er þar Ísland með talið, en hann þarf staðfestingu 60 aðila til að ná fullgildingu. Það er athyglisvert að við erum þeir einu vestrænna ríkja sem höfum fullgilt samninginn. Önnur vestræn ríki telja sig bíða eftir árangri af starfi nefndar sem vinnur að undirbúningi alþjóðabotnsstofnunar og hafréttardómstóls. Það er vitanlega góðra gjalda vert og við bíðum einnig eftir slíku en hljótum að leggja á það áherslu þar sem við getum að sem flest ríki staðfesti þennan samning sem fyrst.

Hatton-Rockall svæðið hefur verið nokkuð til umræðu og ber þar hæst þá rannsókn sem á þessu svæði fór fram í fyrra og var samvinnuverkefni Íslendinga, Dana og Færeyinga. Bretum og Írum var boðin þátttaka í því rannsóknarverkefni, en þeir þáðu það ekki. Þó sýnast mér nú merki um að ná megi a.m.k. samkomulagi um viðræður við Breta og Íra um þessi mál. Við munum standa fast á þeim rétti sem Hafréttarsáttmálinn gefur okkur á þessu svæði, en að sjálfsögðu er öllum ljóst að afar mikilvægt er að geta náð samkomulagi um þessi mál og leyst þau þannig. Raunar er engin lausn í sjónmáli nema samkomulag verði og er því lögð á það mikil áhersla. Geri ég mér vonir um að eitthvað miði í þá átt á næstunni.

Einnig hefur farið fram athugun á þeim rétti sem við kunnum að eiga á norðurslóðum í samræmi við ákvæði Hafréttarsáttmálans. M.a. beitti utanrrn. sér fyrir fundi í Reykjavík 25. og 26. jan. um þau mál með þjóðum hér í kring sem þarna eiga einnig hagsmuna að gæta.

Ég þarf ekki að geta þess að formaður utanrmn. hefur verið sá maður sem fylgt hefur þessum málum best eftir og utanrrn. notið hans ráðgjafar í einu og öllu í þessu sambandi.

Um hvalamálið er fjallað og hefur það verið mikið rætt. Í fáum orðum sagt hygg ég að í því máli hafi orðið nokkur breyting á sl. hausti, m.a. eftir fundi sem ráðgerðir voru í Ottawa í september en urðu ekki. Eftir bréfaskipti á milli forsrh. og forseta Bandaríkjanna gerðum við ráð fyrir að háttsettur fulltrúi utanrrn. bandaríska yrði í forustu í umræðum við okkur um málin. Svo varð ekki. Ég sá því ekki annan kost en að hafna að mæta á þeim fundi. Embættismenn tóku hins vegar við hugmyndum sem síðan var unnið úr og urðu grundvöllur að samkomulagi í þremur liðum sem síðan hefur verið lagt til grundvallar í þeim viðræðum sem fram hafa farið milli Íslendinga og Bandaríkjamanna um málið.

Ég vil einnig láta koma fram að á fundi sem ég átti með Shultz utanríkisráðherra Bandaríkjanna 23. sept. sl. í New York lagði ég á það ríka áherslu að viðræður um þetta mál gætu orðið langtum fyrr en verið hefur. Þær hafa yfirleitt orðið eftir fundi í Alþjóðahvalveiðiráðinu, þegar hlutirnir hafa verið komnir í vandræði. Við þessu var orðið og hefur sjútvrh. átt nýlega góðan fund í Washington um málið.

Ég vil leggja á það áherslu að ég tel að við höfum e.t.v. lagt dálítið vafasaman skilning í hvalveiðimálið, Íslendingar. Mér finnst við hafa lagt of mikla áherslu á að réttlæta vísindaveiðar. Við höfum ekki lagt nægilega áherslu á þann skilning, sem ég veit að er langflestra eða allra Íslendinga, að vitanlega á hvalurinn sinn rétt og vernda ber hvalastofninn. Við höfum reyndar sýnt það í verki þegar við stöðvuðum hvalveiðar frá 1915 til 1935 þegar tvímælalaust var gífurleg ofveiði á hval hér við land.

Við eigum að taka þátt í þessum verndaraðgerðum, vera virkir í þessum verndaraðgerðum, en við hljótum hins vegar að halda fram þeirri sannfæringu, a.m.k. margra okkar, að gæta þurfi viss jafnvægis í lífríkinu og það sé engum til góðs, hvorki hvalnum né manninum, að friða hvali svo að þetta jafnvægi raskist. Ég hygg að mönnum sé að verða þetta stöðugt ljósara. Þetta hefur komið fram t.d. í því jafnvægisleysi sem skapast hefur víða á selaslóðum og hefur horft til mjög stórra vandræða. Nægir þar að nefna Norður-Noreg og ýmis svæði í Kanada þar sem kanadísk stjórnvöld sáu sig tilneydd til þess að láta drepa 50 000 seli á sl. vetri. Ég held að þetta sé hlutur sem við megum alls ekki horfa fram hjá. Ef náðst gæti samkomulag um ákveðna stofnstærð hinna ýmsu hvalategunda og síðan nýtingu á þeim hvalastofnum innan marka jafnvægis í náttúrunni og verndun hvalastofnsins sýndist mér mikið unnið. Við eigum að stefna að því að það geti orðið niðurstaða t.d. hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu og öðrum þeim aðilum sem um þessi mál fjalla.

Herra forseti. Ég hef gerst nokkuð langorður um þessa skýrslu og meira en ég ætlaði. En utanríkismálin eru sannarlega mikill þáttur og vaxandi þáttur í okkar þjóðarbúskap og okkar þjóðlífi.

Ég vil aðeins að lokum vekja athygli á því að í lok skýrslunnar er fjallað nokkuð um utanríkisþjónustuna sem slíka. M.a. kemur þar fram hver fjöldi starfsmanna utanríkisþjónustunnar er. Í utanrrn. starfa nú 23 embættismenn og 17 aðrir starfsmenn eða alls 40 manns. Erlendis starfa í okkar sendiráðum samtals 28 embættismenn, 17 útsendir ritarar, 9 staðbundnir ritarar og 12 aðrir starfsmenn eða samtals 66 manns. Samtals eru því starfsmenn utanríkisþjónustunnar 106. Á vegum utanríkisþjónustunnar starfa síðan 200 ólaunaðir ræðismenn. Ég hygg að öllum muni vera ljóst að þetta er afar fámennt starfslið. Sendiráð og fastanefndir eru samtals 12 og auk þeirra eru að vísu tveir heimasendiherrar sem fara með stóran hluta heimsins, Asíu, Ástralíu o.fl. Það hefur víða vakið athygli hvað þeim er ætlað að sinna mörgum löndum og stórum svæðum.

Ég hef sannfærst um það eftir að ég hóf störf við utanríkisþjónustuna að þarna starfar mjög gott fólk. Þarna er mikill áhugi á þessum störfum, þarna er mikil kunnátta til staðar, ótrúlega mikil miðað við það hvað menn þurfa að skipta sér á mörg störf, og þarna er vel unnið og samviskusamlega. Ég held hins vegar að með mjög vaxandi umsvifum þurfi að endurskoða starfsemi utanríkisþjónustunnar. Ég hef t.d. gert ráð fyrir því að sérhæfing verði meiri í utanríkisþjónustunni en verið hefur. Menn verði ekki fluttir, eins og nauðsynlegt hefur reynst, á milli ólíkra starfa. Ég hygg að við fáum þannig enn betri störf unnin. Staðreyndin er vitanlega sú að sum svið eru orðin svo viðamikil að sérhæfing er möguleg. Ég nefni t.d. viðskiptasviðið og öryggismálin.

Ég tel einnig og vil leggja á það áherslu að endurskoða þurfi upplýsingamiðlun frá utanríkisþjónustunni og hef gert ráðstafanir til þess. Er verið að koma á fót sérstakri upplýsingadeild sem verður í hinni almennu skrifstofu utanríkisþjónustunnar. Gert er ráð fyrir að upplýsingamiðlun, ekki aðeins til annarra landa, sem hefur verið töluvert mikil að beiðni þaðan, verði einnig stórlega aukin innan lands þannig að landsmenn fái tækifæri til þess að fylgjast glöggt með því sem fram fer.

Ég hef einnig athugað skrifstofuskipan utanríkisþjónustunnar sem þarf að vera nokkuð ákveðin og föst. Þar er að sjálfsögðu starfandi alþjóðaskrifstofa, skrifstofa varnarmála, skrifstofa viðskiptamála og almenn skrifstofa auk sendiráða erlendis. Í utanrrn. er starfandi einn svonefndur prótókollsstjóri sem ég hef ekki fundið gott íslenskt nafn á. En ef þm. geta hjálpað mér þá er ég þakklátur. (GHelg: Siðameistari.) Nei, ég vil ekki það orð, ómögulegt orð. Sömuleiðis er þar starfandi þjóðréttarfræðingur sem segja má að þjóni hinum ýmsu deildum. Þá er skrifstofa Norðurlandaráðs í utanrrn. og þó að hún sé velkomin þar er hún nokkuð sérstæð að því leyti að hún heyrir undir annan ráðherra en það hefur allt leyst með sátt og samkomulagi.

Herra forseti. Ég vona að ég hafi dregið fram þau meginatriði skýrslunnar. Mér er fullkomlega ljóst að þar eru fjölmörg önnur sem mætti ræða og verða rædd. Ég vona að þm. taki þau mál upp eins og þeim sýnist nauðsynlegt. Ég mun leitast við að svara spurningum sem fram koma. Ég vona jafnframt að þessir tveir dagar verði mikilvægir fyrir utanríkisstarfsemina sjálfa, að héðan komi ýmsar mikilvægar ábendingar sem verða skoðaðar.