25.02.1988
Sameinað þing: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4912 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

294. mál, utanríkismál

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur nú hér lagt fram og mælt fyrir.

Skýrsla hæstv. utanrrh. að þessu sinni er fyrir margra hluta sakir athyglisverð. Ef hún er skoðuð og borin saman við skýrslur fyrri utanrrh. liggur við að mönnum detti orðið „glasnost“ í hug. Í skýrslu utanrrh. á síðasta ári segir t.d., með leyfi forseta:

„Árið 1986 flugu F15-orustuþotur varnarliðsins til móts við 170 sovéskar herflugvélar sem komið höfðu inn á íslenska loftvarnarsvæðið. Sovéskar herflugvélar komu að meðaltali á tveggja daga fresti inn á íslenska loftvarnarsvæðið.“

Núv. hæstv. utanrrh. nefnir þetta sovéska herflugvélager að engu og verðum við því að ætla að varnarliðið og hæstv. þáv. utanrrh. hafi endanlega hrakið það á brott. Almennt víkur hæstv. utanrrh. heldur vinsamlega að þeim Sovétmönnum eða nánar til tekið á svipaðan hátt og öðrum helstu viðskiptaþjóðum okkar. Þetta er nokkur nýjung í skýrslum íslenskra utanrrh.

Annað það atriði sem athygli vekur er hversu persónuleg skýrslan er. Ráðherra talar oft í fyrstu persónu en ekki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar, enda taldi Morgunblaðið sér skylt að róa vini sína með leiðara í gær þar sem því er velt upp hvort breyting sé að verða á meðferð utanríkismála og afstöðu Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ekki eru þar bein svör við því, en áhersla lögð á hversu flókin og margbrotin viðfangsefni utanrrn. séu og löng og mikil skýrsla geti leynt aðalatriðum. Án þess að skýrslan sé gagnrýnd berum orðum gefur Morgunblaðið í skyn að hún sé hættulaus, en hafa beri auga á starfsemi utanrrn. og hæstv. utanrrh.

Það er e.t.v. ekki að undra þó að þeim Morgunblaðsmönnum hnykkti við þegar þeir lásu upphaf skýrslunnar. Þar stendur nefnilega, með leyfi forseta:

„Við getum ekki lengur látið þróun heimsmála afskiptalausa. Jafnvel smáþjóð eins og við Íslendingar á ekki aðeins þann rétt heldur ber skylda til að hafa þau áhrif sem hún getur til að þoka þróun heimsmála á rétta braut.“

Þetta er athyglisvert og beinlínis áfellisdómur yfir fyrri hæstv. utanríkisráðherrum, svo sannarlega réttmætur. Íslendingar hafa um árabil hangið aftan í Ameríkönum á alþjóðavettvangi og lítið þjóðlegt sjálfstæði sýnt. Því ber að fagna ef þetta er að breytast. En nokkuð ber þó á að hæstv. utanrrh. sé ekki sjálfum sér samkvæmur í umfjöllun sinni á alþjóðamálum og verður vikið að því seinna.

Hvað sem því líður ber skýrsla hans ekki þau kennimerki ofstækis og fordóma sem fyrri skýrslur hafa einkennst af. Því ber að fagna og það ber að þakka honum.

Hæstv. utanrrh. fagnar fyrsta samningi risaveldanna um fækkun kjarnorkuvopna og útrýmingu mikils magns meðaldrægra kjarnorkuvopna. Það gerum við alþýðubandalagsmenn einnig. Flokkur okkar hefur alla tíð einn flokka haft afdráttarlausa stefnu gegn vígbúnaði og herrekstri, gegn erlendum her á Íslandi og gegn þátttöku í hernaðarbandalögum.

Sú barátta um allan heim er nú að bera árangur. Æðstu ráðamenn hafa loksins skilið ákall heimsbyggðarinnar um líf í friði við menn og umhverfi. Alþingismenn skildu þetta ákall einnig og þáltill. sú um gagnkvæma alhliða afvopnun sem Alþingi samþykkti 23. maí 1985 braut í blað í sögu þingsins. Flokkur okkar hafði um langt árabil flutt till. í þessa átt og á allra síðustu árum einnig þm. annarra flokka, einkum Framsfl. og Kvennalista.

Sú staðreynd að Alþingi náði samstöðu um áðurnefnda till. var sögulegur viðburður sem óhugsandi hefði verið fyrir örfáum árum. Þessi barátta hefur borið árangur hér sem víða annars staðar um heim.

Það er óumdeilanlegt að þíðan heldur áfram.

Í fyrradag hittust þeir George Schultz og Shevardnadze. Hittu þeir hvor sitt hernaðarbandalag til að gefa skýrslur um viðræður risaveldanna tveggja um fækkun hefðbundinna vopna og útrýmingu meðal- og skammdrægra kjarnorkuvopna sem einnig verða meginumræðuefni á fundi ráðamanna NATO-ríkja í Brussel í næsta mánuði. Talið er víst að sovétmenn dragi herlið sitt út úr Afganistan m.a. til þess að koma til móts við viðsemjendur sína um friðar- og afvopnunarmál.

En þó að vonir manna hafi vissulega glæðst um varanlegan frið er víða ófriðvænlegt í heiminum. Grimmileg stríð eru háð og afleiðingarnar sjáum við dag hvern á sjónvarpsskermum okkar heima í stofu. Hyldýpi mannlegra þjáninga, hungur, ástvinamissi, örkuml og vonleysi. En hvert örstutt spor í átt til friðar er fagnaðarefni og hæstv. utanrrh. segir um áðurnefnda samþykkt Alþingis um afvopnun, með leyfi forseta:

„Þetta er athyglisverð ályktun og mikilvægur grundvöllur á að byggja í utanríkismálum. Ég hef lagt á það áherslu að sýna í verki þann vilja sem Alþingi hefur lýst. Það hefur verið gert hjá Sameinuðu þjóðunum með breyttri afstöðu í allmörgum málum og hvarvetna þar sem rödd Íslands heyrist.“ Hér kveður vissulega við nokkuð nýjan tón.

Skal nú vikið nánar, herra forseti, að einstökum efnisatriðum skýrslunnar.

Getið er um þá breytingu sem orðið hefur á verkefnum utanrrn. við það að útflutningsviðskipti hafa nú færst frá viðskrn. til utanrrn. og sagt er frá opnun sérstakrar skrifstofu í Brussel sem annast skal viðskipti við Efnahagsbandalag Evrópu. Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki þurfi að endurskoða við hvað sé stuðst þegar sendiherrar verða ráðnir í framtíðinni. Óneitanlega hafa ekki verið gerðar aðrar kröfur hingað til en að sendiherrar þjóðarinnar væru frambærilegir menn á almannafæri, kynnu sig við opinberar athafnir og kynnu einhver skil á erlendum tungumálum og hefðu til að bera almenna þekkingu um þær þjóðir sem þeim var falið að annast. (SJS: Sterkan hægri handlegg.) Stundum hafa þessi embætti næstum gengið í erfðir. Nú kynni að vera ástæða til að krefjast nokkurrar þekkingar á alþjóðaviðskiptum, markaðssetningu og markaðsleit svo að ekki þurfi til að koma fjöldi nýrra embætta í utanríkisþjónustunni. Hið sama ætti að gilda um annað starfsfólk sendiráðanna. Það væri sannarlega mál til komið að sá endemis kauðaháttur, sem einkennt hefur tilraunir Íslendinga við sölu á íslenskum varningi erlendis, yrði aflagður og nútímaaðferðum beitt í samskiptum við erlenda viðskiptaaðila. Á þessu þarf meginbreyting að verða. En nýleg afskipti ríkisstjórnarinnar af boði Gorbatsjovs til forseta Íslands urðu ekki beint til að kveikja þær vonir. Slíkur afkáraskapur og nesjamennska ætti helst ekki að eiga sér stað aftur.

Í kaflanum um einstök alþjóðamál er þess getið að umhverfismálaráðherrar allra Norðurlandanna hafi borið fram formleg mótmæli gegn kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Dounreay í Skotlandi. Þess er hins vegar ekki getið að Alþingi hefur nýlega samþykkt till. hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar og fleiri þm. um sama efni. Ekkert er heldur minnst á ágæta frammistöðu Íslendinga á fundum um mengun hafsins, svo sem það að Íslendingar greiddu einir Norðurlandaþjóða tillögu Íra um lokun kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield, sem áður hét Windscale, atkvæði sitt sl. sumar. Siglingamálastjóri og starfsmenn hans hafa lagt mikla vinnu í þessi mál og eiga heiður skilið fyrir.

Hugleiðingar hæstv. utanrrh. í kaflanum um Washington-samkomulag risaveldanna vekur ýmsar spurningar. Þar telur hann upp nokkrar meginástæður fyrir mikilvægi samkomulags Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um fækkun kjarnavopna. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi halda Bretar og Frakkar að svo stöddu óskertum kjarnavopnaherafla sínum. Það var Atlantshafsbandalagsríkjunum mikið áhyggjuefni á sínum tíma að Sovétríkin væru að reyna að reka fleyg milli Evrópuríkjanna og Bandaríkjanna.“

Við hljótum að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað merkir þetta? Er ráðherra að fagna því að meginhluti herafla Breta og Frakka er nú kjarnorkukafbátar? Það er erfitt að sjá annað en að hann telji eðlilegt að þeir auki þann herafla sinn og er það mjög í blóra við það sem hæstv. ráðherra segir annars staðar um áhyggjur sínar af auknum kafbátahernaði á höfum úti.

Einnig segir í þessum sama kafla: „Í fimmta lagi náðist samkomulagið vegna þess að Atlantshafsbandalagsríkin héldu fast við þá stefnu sem mörkuð var fyrir átta árum um að endurnýja skammdrægar og meðaldrægar flaugar á landi í Evrópu en semja um leið við Sovétríkin um eyðingu þessara vopna (Dual Track Decision).“

Ég spyr aftur: Hvað þýðir þetta? Er hæstv. ráðherra að fagna niðursetningu meðaldrægra kjarnorkuvopna? Er hann að lýsa ánægju sinni með staðsetningu Pershing-flauga á evrópsku landi? Það er ákaflega erfitt að álykta annað við lestur þessarar greinar.

Þá segir einnig í kaflanum um takmörkun vígbúnaðar á norðurslóðum, með leyfi forseta:

„Nokkuð hefur verið rætt um það undanfarna mánuði hvaða leiðir Atlantshafsbandalagið geti farið til að bæta sér upp missi þeirra flauga sem upprættar eru með samningunum.“ Ég játa hreint út að ég skil ekki alveg hugsanagang hæstv. ráðherra þarna og vildi biðja hann að skýra það nánar út fyrir okkur á eftir.

Herra forseti. Ég mun ekki gera kaflann um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd að umræðuefni hér. Það mun hv. þm. Svavar Gestsson gera hér á eftir þar sem hann er fulltrúi flokksins í þingmannanefndinni um þau mál. Hið sama gildir um kaflann um Sameinuðu þjóðirnar, en hann sat síðasta allsherjarþing. Ég vil þó nota tækifærið til að lýsa ánægju minni með það að þm. eru ekki lengur titlaðir varamenn embættismanna utanrrn. í skýrslu um þátttöku Íslands í 42. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna eins og áður tíðkaðist heldur fulltrúar þingflokkanna. Það tel ég mikla framför.

Ég mun því flytja mig aftur í kaflann um Atlantshafsbandalagið á bls. 17. Við erum auðvitað ósammála flestu því sem þar er sagt. Við teljum ekki að þátttaka í Atlantshafsbandalaginu sé grundvöllur öryggis- og varnarstefnu Íslands né að markmið hernaðarbandalags sé að koma í veg fyrir styrjöld, því síður að það hafi tryggt okkur frið og öryggi í 40 ár. Hernaðarbandalög eru ævinlega ógnun við frið og herforingjar Atlantshafsbandalagsins og a.m.k. ein aðildarþjóðin, Bandaríki Norður-Ameríku, hefur haldið styrjöldum gangandi í öðrum heimshlutum öll þessi ár með samþykki og samábyrgð Íslendinga. Herstöðin í Keflavík er liður í hernaðarkeðju Bandaríkjanna og þá fyrst er von um frið og öryggi í þessu landi þegar öllum eyðingarvopnum verður útrýmt og hernaðarbandalög aflögð. Vopnaframleiðslan kallar á styrjaldir, framleiðsluvaran verður að seljast og hún hefur selst með því að sjá um að sífelld eftirspurn sé eftir henni til styrjaldarreksturs víða um heim.

Það sem vekur þó mesta athygli við lestur þessa kafla er frásögnin um kjarnorkuáætlunarnefndina. Þar segir að Íslendingar hafi í fyrsta skipti setið fund nefndarinar í Monterey í Kaliforníu 3. og 4. nóv. sl. Þetta er sú nefnd, og nú bið ég þm. að hlusta, sem raunverulega tekur allar ákvarðanir um pólitísk og hertæknileg mál sem tengjast kjarnavopnaherafla NATO-ríkjanna, bæði uppbyggingu og endurnýjun hans og afvopnun og fækkun kjarnavopna. Með þessari fundarsetu hafa Íslendingar gerst formlegir aðilar að ákvörðunum um hertæknileg efni sem er vægast sagt kyndugt þar sem þjóðin hefur aldrei rekið her eða átt vígvélar. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvort fulltrúar Íslands hafi látið færa til bókar afstöðu sína á fundinum. Vísast hvílir leynd yfir því sem þarna fer fram, en hæstv. ráðherra leggur áherslu á að megintilgangur þátttöku í störfum nefndarinnar af Íslands hálfu sé að vinna að friði og afvopnun. Því spyr ég: Var sú afstaða færð til bókar? Tóku fulltrúar Íslands þátt í ákvörðunum um uppbyggingu og endurnýjun gjöreyðingarvopna? Þetta bið ég hæstv. ráðherra að upplýsa þingheim um. Jafnframt hvort áhersla hafi verið lögð á að aldrei verði kjarnavopn leyfð á íslensku landi, hvorki í stríði né friði. Við þessum spurningum verður þingheimur að fá skýr og afdráttarlaus svör.

Í kaflanum um Evrópuráðið kemur fram að á síðasta ári hafi farið fram undirbúningur að svonefndu norður-suður átaki ráðsins árið 1988 um samskipti Evrópuráðsríkja og ríkja þriðja heimsins, en ráðgjafarþingið hafi áður beitt sér í málinu. Þingheimi til upplýsingar ber að taka fram að þetta starf er framkvæmd á tillögu Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns Alþb., sem hann flutti á fundi ráðsins í Lissabon árið 1984. Er gleðilegt að þetta starf skuli vera hafið. En fróðlegt væri að heyra hugmyndir hæstv. ráðherra um hvern hlut Íslendingar ætla sér í þessu starfi, hvað er fyrirhugað að gera af Íslands hálfu. Bið ég hæstv. ráðherra að skýra nánar frá því.

Ég mun ekki gera Norðurlandasamvinnu ítarleg skil hér þar sem skýrsla Íslandsdeildar ráðsins verður ekki lögð fram nú eins og venja er þegar skýrsla utanrrh. er lögð fram. Ég á nokkra sök á þessu. Ég óskaði eftir því við þessa umræðu á síðasta ári að skýrsla Norðurlandaráðs yrði lögð fram sérstaklega svo umræða um hana hyrfi ekki í skuggann af hinni skýrslunni. Ég tel að allt of lítil umræða sé hér í þingsölum um samstarf Norðurlandanna og að það starf hafi nánast verið einkamál okkar sem í ráðinu sitjum. Ég er næsta viss um að aðrir hv. þm. eru harla ófróðir um það mikla starf sem þar er unnið. Ég tók eftir því að hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir gat þess í þessari umræðu á síðasta þingi að hún hefði gert sér grein fyrir gildi þessa samstarfs er hún sat þing Sameinuðu þjóðanna. Allt sem hún sagði um það var rétt, en þm. ættu ekki að þurfa að ferðast til annarra landa til að sannfærast um gildi norrænnar samvinnu. 36. þing Norðurlandaráðs hefst í Osló 7. mars nk. Fyrir þinginu liggja fjölmörg mál, en næsta víst er að hæst mun bera umræðuna um hlut Norðurlandanna í efnahagssamvinnu Evrópuríkja. Afstaða til Efnahagsbandalagsins eftir að sýnt er að framtíð EFTA verður æ ótryggari, eftir að æ fleiri EFTA-lönd hafa sótt um inngöngu í Efnahagsbandalagið, hefur breyst og önnur og ný lota um þau mál hefur nú hafist.

Það er hárrétt, sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, að við megum ekki liggja á liði okkar þar. Á síðasta þingi Norðurlandaráðs lagði ég til að Norðurlandaráð kæmi sér upp einhverju liði af starfsmönnum sem væru vel menntaðir og hæfir á sviði alþjóðapeningamála. Ég tel að ráðið hafi yfir of fáu starfsliði að ráða er þá þjálfun hefur. Ég held að hvert land fyrir sig og Norðurlandaráð í heild þurfi að sinna þessum málum miklu betur og fylgjast miklu nánar með hvað er að gerast suður í Brussel og í þessum alþjóðastofnunum.

Þá liggur fyrir þinginu tillaga um norrænt átak í menningarmálum en hv. þm. Eiður Guðnason er formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs, hefur verið það undanfarin ár eins og kunnugt er eða þar til þessu þingi lýkur, en þá verður hann að víkja vegna breytinga í síðustu kosningum.

Þá hef ég ásamt öðrum fulltrúum Íslands í Norðurlandaráði og raunar nokkrum hópi norrænna þm. flutt tillögu um norrænt átak til að hreinsa norræn hafsvæði og strandir sem von er til að verði samþykkt. Kann ég starfsfólki Siglingamálastofnunar miklar þakkir fyrir stuðning við tillöguna, ekki síst Gunnari H. Ágústssyni sem lagt hefur verulega til þess að tillagan hljóti jákvæða afgreiðslu.

Loks hefur hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson, sem nú hefur tekið sæti í samgöngunefnd ráðsins, lagt fram tillögu um tölvumál sem nú er í afgreiðslu í stofnunum ráðsins.

Tímarit ráðsins, Nordisk kontakt, hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum eins og ég vænti að menn hafi tekið eftir. Ég hef veitt stjórnarnefnd ritsins forustu þessi ár og vil nota þetta tækifæri til að þakka ritstjóra Nordisk kontakt, Einari Karli Haraldssyni, frábært starf við þessa breytingu.

Ég tel að óhætt sé að halda því fram að fulltrúar Íslands í Norðurlandaráði hafi verið virkir þátttakendur í störfum ráðsins og haft forgöngu um fjölmörg mál sem of langt mál yrði upp að telja, en það verður gert þegar skýrsla ráðsins verður tekin til umræðu.

Vegna orða hæstv. utanrrh. áðan um hafréttarmál vil ég jafnframt taka fram að ég hef einmitt lagt inn nú fsp., sem borin verður upp á komandi þingi, um ástæðuna fyrir því að norrænar þjóðir hafa ekki staðfest alþjóðahafréttarsáttmálann. Vegna þeirrar hvatningar hans að við sinntum þessum málum vildi ég upplýsa hann um þetta.

Kaflanum um málefni fjarlægra heimshluta mun ég ekki gera skil hér, enda verður svo stutt mál um svo stóran hluta heimsbyggðarinnar óhjákvæmilega yfirborðslegt svo vægt sé til orða tekið. Þó verður ekki hjá því komist að nefna vingulshátt íslenskra stjórnvalda gagnvart Suður-Afríku. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hafa ítrekað samþykkt sameiginlegar refsiaðgerðir vegna aðskilnaðarstefnu suður-afrískra stjórnvalda og hætt viðskiptum við landið. Íslensk stjórnvöld hafa ekki treyst sér til að fylgja þessum aðgerðum eftir þó að þau viðskipti séu svo óveruleg að refsiaðgerðir hefðu einungis „symbólska“ þýðingu. - Bið ég nú þm. afsökunar á slettunni.

Fyrir þessu þingi liggur þáltill. frá hv. 4. þm. Norðurl. e. o.fl. um bann við innflutningi á framleiðsluvörum frá Suður-Afríku og ætti þingið að sjá sóma sinn í að samþykkja hana. Þegar IBM, General Motors, Honeywell og Eastman Kodak treysta sér ekki til að halda áfram rekstri fyrirtækja sinna í þessu landi af siðferðisástæðum ættu Íslendingar að hafa siðferðisþrek til jafns við þau.

Hv. þm. Svavar Gestsson mun hér á eftir fjalla um málefni Mið-Ameríku og dellurnar í Mið-Austurlöndum. Ástæðu sé ég þó til að undrast vangaveltur hæstv. ráðherra um skoðun Pakistana á því að ef gagnkvæm ógnun kjarnavopna tryggi frið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sé rökrétt að líta svo á að kjarnavopn Pakistana og Indverja gætu tryggt frið milli þeirra. Finnst ráðherranum hið sama gilda um Írak og Íran, um Ísrael, Palestínu eða ríki heimsins almennt þar sem ágreiningur er uppi? Á þessu tel ég þurfi að koma skýring.

Alþb. hefur margítrekað hækkun á framlagi Íslendinga til þróunaraðstoðar í þriðja heiminum. Árið 1985 samþykkti Alþingi að framlagið skyldi verða 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu og stefnt skyldi að því í áföngum. Reyndin er hins vegar sú að nú er svo komið að þetta framlag er komið niður í 0,05%. Hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur Sigfússon hefur við sérhverja afgreiðslu fjárlaga reynt að fá framlagið hækkað en hlotið lítinn stuðning. Það er þjóð okkar til mikils vansa, eins og hæstv. ráðherra raunar tók fram, hversu aumlegt þróunarframlag okkar er, einkum nú á tímum æ meiri þjóðarframleiðslu. Úr þessu verðum við að bæta.

Herra forseti. Að lokum mun ég víkja að þeim kafla skýrslunnar sem nefndur er Öryggis- og varnarmál. Hermangið á Miðnesheiði lifir góðu lífi og dafnar og ekki sjáanlegt að íslensk stjórnvöld deili draumum hæstv. ráðherra um frið og afvopnun í náinni framtíð. Framkvæmdir bandaríska hersins aukast í sífellu og teygja sig nú í auknum mæli til annarra landshluta. Unnið er að nýjum ratsjárstöðvum á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli og endurnýjun stöðvanna á Miðnesheiði og Stokksnesi. Hugmyndin um uppsetningu svonefndrar „Over the Horizon“ ratsjár eða OTH-ratsjár á Íslandi hefur enn skotið upp kollinum, en það er ratsjá þar sem bylgjurnar eru sendar upp í jónahvolfið sem virkar eins og spegill svo að geislinn fer langt út fyrir sjóndeildarhringinn. Þannig má fylgjast með ferðum t.d. skipa, kafbáta og flugvéla miklu lengra en áður. Sjóndeildarhringurinn takmarkar ekki lengur útsýnið. Í eintaki af fréttabréfi sem ég hef undir höndum frá „United States Information Service“ eða upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna kemur þetta fram.

Þegar þetta var fyrst rætt kom í ljós að gömlu góðu norðurljósin rugluðu eitthvað virkni þessa merka vita, en nú mun vera búið að bæta úr því. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvernig þessi mál standa nú. Þetta fréttabréf, sem ég minntist á hér áðan, er reyndar frá 1985. Eins og allir vita hér í salnum er afar erfitt að fylgjast með umræðu um þessi mál í Bandaríkjunum. Það hefur aldrei verið séð nein ástæða til, þó margsinnis hafi verið um það beðið, að við fengjum útskrift úr þingtíðindum þeirra Bandaríkjamanna þegar fjallað er um íslensk málefni. Eina leiðin til þess að verða sér úti um það er að hver og einn sé að hringja heiminn á enda til að reyna að nálgast þetta.

Stjórnstöð hefur verið ákveðið að reisa og er í byggingu, segir á bls. 46. Ekki er hún samt á listanum á bls. 49 um framkvæmdir sem samþykktar voru á ársþingi byggingardeildar sjóhersins í Norfolk í október sl. Stjórnstöð þessi er hið magnaðasta mannvirki að sögn. Sem dæmi er það á þann veg útbúið að sérhannað loftræstikerfi er innan við þykka múra hússins svo að úrval bandaríska hersins geti hafst þar við í sjö daga eftir að kjarnavopn hafa þurrkað út allt mannlíf á suðvesturhorni landsins. - Ekki ónýtt það.

Ekki er að finna upplýsingar um hvaða fyrirætlanir eru uppi um varaflugvöll fyrir bandaríska herinn. Væri áhugavert að heyra hvar það mál er nú á vegi statt.

Þá er að finna gagnmerka nýjung í hernaðarbrölti Bandaríkjanna á Íslandi á bls. 46 sem kom mér vægast sagt á óvart. Þar segir: „Þessi eftirlits- og varnarviðbúnaður er jafnframt mikilvægur hlekkur í varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Tengsl annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins við varnarliðið hafa verið treyst á undanförnum árum og starfa nú liðsforingjar frá Kanada, Danmörku, Hollandi og Noregi við yfirstjórn varnarliðsins og til athugunar er að breskur liðsforingi komi einnig til starfa þar.“

Um hollensku flugsveitina var okkur fullkunnugt. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær var þessi ákvörðun tekin? Ekki skal ég harma að þeir sem nær okkur standa í heiminum komi þarna til rétt eins og þeir góðu Bandaríkjamenn, en annaðhvort hef ég fylgst afar illa með eða þessi ákvörðun hefur farið afar leynt og hljótum við að fá skýringu á því frá hæstv. ráðherra á eftir.

En merkilegra þykir mér nú framhaldið: „Ef til átaka drægi er ljóst að varnarliðið þyrfti aukinn liðsafla. Hersveit í varaliði bandaríska landhersins hefur verið þjálfuð og búin undir að koma til landsins á hættu- eða ófriðartímum. Hluti hennar tók þátt í umfangsmiklum æfingum í Kanada í sumar og fylgdust fulltrúar varnarmálaskrifstofu með þeim æfingum.“ - Ég bið góðan guð að hjálpa mér. - „Til að slík þjálfun komi að fullu gagni er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hafi hönd í bagga og tryggi að allar varnaráætlanir séu í sem bestu samræmi við íslenska hagsmuni og staðhætti.“

Ég hlýt að spyrja: Hvernig hafa stjórnvöld hönd í bagga með æfingum liðsafla bandaríska hersins sem sérþjálfaður er til að koma þjóðinni til bjargar á hættu- eða ófriðartímum? Leggur hæstv. utanrrh. á ráðin um æfingaprógramm? Hverjir eru sérfræðingar íslenska ríkisins við þjálfun víkingasveita bandaríska hersins? Eru það þessar sveitir sem eiga að verða eftir í stjórnstöðinni þegar við hin erum öll dauð? Ég vænti þess að ráðherra upplýsi okkur nánar um þessa tilburði úti í Kanada og þarf ekki mikla kímnigáfu til að sjá fyrir sér æfingar og áhorfendalið frá varnarmálaskrifstofunni á Íslandi.

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt. Um nýju flugstöðina hyggst ég ekki ræða. Við umræðu um skýrslu utanrrh. á síðasta þingi lýsti ég því yfir að það væri óþolandi að flugstöðin, sem stendur utan varnarsvæðisins, skuli heyra undir utanrrn. en ekki samgrn. og minnist ég þess að undir það tók hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson. Tollgæslan heyrir einnig undir utanrrn. eins og hæstv. ráðherra minntist á áðan en ekki fjmrn. Má það fáránlegt teljast að samgöngutæki þetta, sem tengir Ísland öðrum fremur við umheiminn, skuli teljast til hernaðarmannvirkja en ekki samgangna.

Þá vil ég víkja aðeins að samanburði á listum yfir framkvæmdir ársins 1986 og 1987. Þá kemur undarlegt ósamræmi í ljós enn á ný. Í síðustu skýrslu var getið um 250 íbúðir sem samþykktar voru á fundi byggingarnefndar hersins í fyrra. Þær er ekki að sjá á listanum núna og ég hlýt því að spyrja: Eru þær fullbyggðar eða var hætt við að byggja þær?

Ratsjárstofnun Íslands er sögð hafa verið sett á laggirnar og þegar búið að standa í samningum við Bandaríkjamenn um rekstur og viðhald ratsjárstöðvanna. Einn örlítill hængur er á því. Í lok kaflans stendur: „Í undirbúningi er frv. að lögum um ratsjárstofnun.“ Tekur því úr þessu að standa í lagasmíð, hæstv. ráðherra? Stofnunin er orðin til og farin að semja. Búið er að ráða 18 tæknimenn og þeir sendir til þjálfunar í meðferð ratsjárbúnaðar í Bandaríkjunum í tvo mánuði sl. haust. Sú þjálfun hélt áfram í Stokksnesi eftir heimkomu. Síðan upplýsti ráðherra hæstv. í morgun að hann hefði þegar heimilað einhverja merkustu hugbúnaðarstöð sem til er einmitt fyrir þessa sömu stofnun. Ég hlýt að spyrja: Hvað eigum við að gera með að sjá svo eitthvert lagafrv. löngu seinna um þessa ágætu stofnun? Ég hefði gjarnan kosið að sjá það nokkru fyrr. Og gaman væri að vita hver tók ákvörðun um stofnun þessa, hæstv. utanrrh. Hvers vegna þarf blessun þingsins nú til að koma þegar a!lt er búið og gert? Hæstv. ráðherra talar hvað eftir annað um mikilvægi þess að við séum sjálfstæð þjóð. Er þetta í hans huga að vera sjálfstæð þjóð sem byggir tilveru sína á lýðræði og þingræði? Vill hæstv. ráðherra svara því hér á eftir?

Herra forseti. Allt er þetta hermang andstyggilegt og ólíðandi. Á bls. 43 hnaut ég um málsgrein sem ég skil ekki og bið um skýringu á. Þar stendur í lok VI. kafla: „Innheimtar tekjur til ríkissjóðs voru sem næst 320 millj. kr. eða rösklega 99 af hundraði tekna. Veruleg lækkun hefur orðið á tekjum frá fyrra ári og stafar það fyrst og fremst af lægri álagningu opinberra gjalda á Íslenska aðalverktaka.“

Vel kann að vera að þetta sé með öllu eðlilegt, en um það er mér ókunnugt og tókst ekki að afla mér upplýsinga um það og því bið ég hæstv. ráðherra að upplýsa hvað olli því að þessi lækkun kom til.

Ég mun ljúka máli mínu, herra forseti, innan stutts tíma.

Svo oft hef ég átt orðastað við hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála um hvalveiðideiluna og nú síðast í morgun að um hana mun ég ekki fjölyrða. En hitt er víst, að með aukinni þekkingu mannsins á umhverfi sínu hefur orðið æ ljósara hversu afdrifaríkt það kann að reynast ef einstakir hlekkir í lífkeðju jarðarinnar bresta. Íslendingar hafa tekið virkan þátt í samstarfi þjóða heims um verndun lífríkisins, varnir gegn mengun landa, lofts og lagar og þáttur Íslendinga í gerð hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna var Íslandi til sóma, enda hefur enginn ágreiningur verið um sjálfsagðan þátt okkar í Sameinuðu þjóðunum um umhverfismál fyrr en tekist hefur að gera okkur að viðundri á alþjóðavettvangi vegna hvalveiðimálsins sem nú sýnist komið í óleysanlegan hnút. Varla verður með sanni sagt að við þessu hafi ekki verið varað á Alþingi, þó engan veginn nægilega að mínu mati, en sjálf hef ég alla vega reynt að gera það eins og alkunna er, en e.t.v. höfum við gert of lítið af því að skýra eðli málsins fyrir almenningi þó að vissulega hafi það verið reynt. Þess vegna hættir mörgum til að ruglast á aðalatriðum og aukaatriðum þessa máls.

Þetta mál hefur alla tíð í mínum huga snúist um heiðarleg samskipti þjóða og að standa við það sem fallist hefur verið á að standa saman um. Þá hlið málsins, sem snýr að því hversu mikilli hættu hvalastofnarnir eru í, skal ég látið ósagt um, en ef aðrir mér færari, vísindamenn og aðrir, hafa einhverjar áhyggjur af því ber okkur að fara varlega. En víst er að Ísland hefur sett niður á alþjóðavettvangi vegna þessara klaufalegu hvalveiða.

Það gladdi mig þess vegna að heyra áðan í ræðu hæstv. utanrrh. að hann er ekki eins sannfærður um réttmæti þessara svokölluðu vísindaveiða og samráðherra hans, hæstv. sjútvrh. Það satt að segja gladdi mitt gamla hjarta, fékk þar óvæntan stuðning.

Það er þó ekki alltaf hárnákvæm samkvæmni í málflutningi hæstv. utanrrh. í þessari skýrslu. Eftir allt hermangið sem skýrsla hans sýnir einungis toppinn á er ekki að sjá að hann hyggist vinna ötullega að brottför hersins að sinni. Það er aðeins eitt mál sem minnir hæstv. ráðherra öðru hverju á að ekki sé sjálfgefið að á Íslandi verði um aldur og ævi erlendur her. Það er þegar flokksbróðir hans og samráðherra, hæstv. sjútvrh., stendur í höm með embættismönnum sínum undir veggjum bandaríska viðskiptaráðuneytisins og bíður eftir að vera hleypt inn í hlýjuna. Þá fyllist hreint hjarta hæstv. utanrrh. heitri ættjarðarást og hann hótar brottför hersins á stundinni, ef Hvalur hf. fær ekki að veiða hval þrátt fyrir hvalveiðibannið sem Alþingi mótmælti ekki.

Breska skáldið W. H. Auden orti eitt sinn ágætt kvæði um Winston Churchill og þátt hans í síðari heimsstyrjöldinni. Í lok þess kvæðis segir í lauslegri þýðingu að hann hafi fengið siðmenningunni borgið á alröngum forsendum eða orðrétt, með leyfi herra forseta: „The old sod saved civilization all for the wrong reasons“. Eigi hvalurinn að stökkva bandaríska hernum úr landi er betra að hann sé lifandi. Dauður gerir hann það varla.

Við alþýðubandalagsmenn höfum aldrei velkst í neinum vafa um afstöðu okkar til þessara mála. Á landsfundi flokksins í nóvember sl. var samþykkt ályktun um utanríkismál. Við höfum alla tíð barist gegn þeirri óværu á andliti landsins sem hersetan er. En við höfum jafnframt fylgst með þróun heimsmála og lagað og endurskoðað stefnu okkar í utanríkismálum að raunhæfum kostum. Ég vil því að lokum, herra forseti, rifja upp með þingheimi helstu atriði í ofannefndri ályktun virðulegum forseta og hv. þm. til andlegrar uppbyggingar áður en ég lýk máli mínu. Í þessari ályktun eru þessi atriði helst:

„Unnið verði að uppsögn herstöðvarsamningsins. Endurskoðun fari fram á öllum samskiptum við herinn og endurskipulagning þeirra mála í stjórnkerfinu. Afnumið verði alræðisvald utanrrh. í meðferð þessara mála og lýðræðisleg umfjöllun og ákvarðanataka tryggð m.a. með beinni þátttöku þingsins. Dregið verði úr umsvifum hersins og fækkað í herliðinu jafnt og þétt. Allur tækjabúnaður, sem nota mætti til árásaraðgerða, verði fluttur burt. Herskip eða önnur farartæki komi ekki inn í landhelgi Íslands nema tryggt sé og yfirlýst að þau beri ekki kjarnorkuvopn innanborðs.

Herinn verði algerlega einangraður. Stefnt skal að því að verktakar og aðrir sem þjónusta herinn dragi úr starfsemi sinni í áföngum þannig að slík samskipti við hann verði engin innan tiltekins tímabils og sú einangrun haldist meðan herinn dvelst í landinu. Samfara einangrun hersins verði hrint í framkvæmd öflugri áætlun um uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum og annars staðar þar sem menn hafa haft atvinnu af þjónustu við herinn. Tryggt verði að allt það starfsfólk sem áður vann við störf er tengdust hernum fái þjóðnýt störf við hæfi.

Hafinn verði undirbúningur að úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Boðið verði til alþjóðlegrar ráðstefnu á Íslandi til að skipuleggja og undirbúa samningaviðræður um afvopnun í Norðurhöfum. Sérstaklega þarf að berjast gegn áformum um stórfellda aukningu kjarnorkuvopna í höfunum og þeirri hættu að þeim fjölgi enn í framhaldi af samningum stórveldanna um fækkun eldflauga með kjarnorkusprengjur á landi. Áhersla er á mótun sjálfstæðrar óháðrar utanríkisstefnu sem grundvallast á virkri friðarviðleitni og þjóðlegri reisn, einnig á auknum framlögum til þróunarsamvinnu og samstöðu með þróunarríkjum og stuðningi við frelsishreyfingar og sjálfstæðisbaráttu alþýðu hvarvetna gegn arðráni og kúgun.“

Ég fyrir hönd þingflokks Alþb. lýsi því yfir að við erum hvenær sem er tilbúin til að taka höndum saman við hæstv. utanrrh. svo og alla aðra hv. þm. sem kynnu að vilja vinna að framgangi þessarar stefnu í utanríkismálum.