25.02.1988
Sameinað þing: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4949 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

294. mál, utanríkismál

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa skýrslu utanrrh. og það tækifæri sem gefst til að ræða utanríkismál hér á þinginu. Jafnframt vil ég þakka samstarfið í utanrmn., en þar hef ég setið sem áheyrnarfulltrúi í vetur en Kvennalistinn á þar ekki aðalfulltrúa á þessu þingi.

Eitt stærsta málið fyrir þjóð eins og okkur Íslendinga eru samskiptin við aðrar þjóðir. Þessi samskipti eru bæði mikil og margþætt og varða margs konar samstarf, svo sem á sviði vísinda, menningar og viðskipta. Í þessu samstarfi og samvinnu er mikilvægt að við höldum vöku okkar við varðveislu þjóðmenningar okkar og tungu, töpum ekki yfirráðum yfir auðlindum okkar, missum ekki fjárhagslegt sjálfstæði og seljum ekki landið og sjálfstæði okkar í hendur útlendinga.

Við erum smáþjóð á norðurhjara sem getur haft kosti í för með sér. Menning og tunga okkar fámennu þjóðar hefði ekki varðveist nema vegna einangrunarinnar í gegnum aldirnar. Fjarlægð frá mengandi iðnaði hefur einnig orðið okkur til góðs og höfum við því að mestu sloppið við þá miklu eyðileggingu sem orðið hefur í iðnríkjum vegna andvaraleysis í mengunarmálum.

Á seinni árum höfum við áþreifanlega orðið vör við breytingar í þessum málum. Ísland hefur færst nær umheiminum með auknum og bættum samgöngum og byltingu í fjölmiðlun.

Mengun sjávar ógnar afkomu Íslendinga um leið og hún er ógnun við allt líf á jörðinni. á síðustu árum hefur komið í ljós að hafið hefur verið notað sem ruslakista. Eiturefnum og alls konar úrgangi er kastað í hafið án þess að hugsað hafi verið um afleiðingarnar. Öll mengun er ógnandi og hættuleg, en sú mengun sem öllu mannkyni stendur nú mikil ógn af og er e.t.v. einna erfiðust að ráða við er geislamengun. Nú stendur til að stækka kjarnorkuendurvinnslustöðina í Dounreay í Skotlandi með tilheyrandi mengunarhættu. Og kjarnorkustöðin í Sellafield er einnig geislamengunarvaldur eins og dæmin sanna. Í samanburði við hættuna frá þessum stöðvum stafar okkur þó enn meiri hætta af aukinni umferð kjarnorkuknúinna kafbáta í hafinu umhverfis Ísland. Mengun þekkir engin landamæri. Eitt slys getur ógnað öllu lífi í hafinu umhverfis Ísland.

Örar breytingar í alþjóðamálum undanfarið vekja vissar vonir. Fyrir Reykjavíkurfundinn haustið 1986 stóðu risaveldin grá fyrir járnum andspænis hvort öðru. Ekkert mátti gera, allt var frosið fast, og engin viðleitni var til afvopnunar. Vígbúnaðarkappið var í algleymingi og eyðileggingarmáttur kjarnorkuvopna slíkur að hægt var, og er reyndar enn, að eyða mannkyninu, ekki bara einu sinni heldur mörgum sinnum.

Á bls. 8 í skýrslu utanrrh. stendur, með leyfi forseta:

„Aukin áhersla Sovétmanna tengist efnahagserfiðleikum, m.a. eftir áratuga kostnaðarsamt og umfangsmikið vígbúnaðarkapphlaup.“

Það er alveg ljóst að gífurlegum fjármunum hefur verið sóað í vígvélar í gegnum tíðina og aldrei meir en síðustu áratugi, jafnvel svo að það er að sliga ríkustu þjóðir. Vopnaframleiðendur hafa kynt undir og reynt að viðhalda óvinaímyndum og selt svo öllum vopn til að hver gæti ógnað öðrum. Mér finnst það nöturlegt ef að því er virðist friðarvilji og vilji til fækkunar vopna, jafnvel afvopnunar, er einungis tengdur efnahagserfiðleikum. Ég vona svo sannarlega að þau merku tímamót sem urðu með Reykjavíkurfundinum eigi sér dýpri rætur en einungis efnahagslegar.

Næsta skref eftir Reykjavíkurfundinn var undirritun samninga um útrýmingu allra meðal- og skammdrægra kjarnaflauga á landi. Ég vek athygli á því að þarna var aðeins samið um fækkun vopna á landi. Það er mikil ástæða til að óttast að um leið og vopnum fækkar á landi muni þeim fjölga í og á höfunum.

Í skýrslunni rekur hæstv. utanrrh. hvers vegna hann telur samkomulagið milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna mikilvægt. Þar segir m.a., með leyfi forseta, á bls. 9 þegar hann telur upp það sem hann telur vera mikilvægt við þennan samning:

„Í öðru lagi eru staðfestingarákvæði þessa samkomulags afar ströng og fela m.a. í sér að eftirlit er hægt að framkvæma með mjög litlum fyrirvara. Slíkt gæti einmitt orðið til þess að auka trúnaðartraust milli ríkjanna og styrkja frekar þann grunn sem aðrir samningar gætu hvílt á.“

Ég lít á þetta sem mjög mikilvægt atriði þar sem talið hefur verið hingað til að ekki sé hægt að semja um takmarkaða afvopnun vegna þess að ekki hefur verið hægt að koma við eftirliti og ekki væri hægt að treysta ríkjum til að halda slíka samninga. M.a. hafa þessi rök heyrst gegn hugmyndum um yfirlýsingu um kjarnorkuvopnaleysi Íslands og Norðurlanda. Þrátt fyrir þá samninga sem gerðir hafa verið á milli risaveldanna um fækkun kjarnorkuvopna heldur hernaðaruppbygging áfram á öðrum kjarnorkuvopnakerfum. Má þar nefna geimvopnaáætlunina sem dæmi og enn er haldið áfram kjarnorkuvopnatilraunum.

Ef lesið er aðeins áfram í skýrslu utanrrh., þar sem talin eru upp fleiri atriði er varða mikilvægi samningsins milli risaveldanna frá í desember, þá stendur, með leyfi forseta:

„Í fimmta lagi náðist samkomulag vegna þess að Atlantshafsbandalagsríkin héldu fast við þá stefnu sem mörkuð var fyrir átta árum að endurnýja skammdrægar og meðaldrægar flaugar á landi í Evrópu en semja um leið við Sovétríkin um eyðingu þessara vopna.“

Þarna stendur það því svart á hvítu að enn er verið að framleiða kjarnorkuvopn og því fyllsta ástæða til að Ísland beiti sér sérstaklega fyrir stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins, eða því sem oft hefur verið nefnt „frysting“, á alþjóðavettvangi. Ég vil í því sambandi minna á að þingkonur Kvennalistans lögðu fram í upphafi þessa þings till. til þál. um frystingu kjarnorkuvopna. Utanrmn. hefur nú þessa till. til meðferðar, svo og till. varðandi bann við geimvopnum.

Það er ekki nóg að banna eina tegund vopna á meðan önnur gereyðingarvopn eru framleidd jafnóðum.

Íslendingar hafa aldrei borið vopn á aðrar þjóðir. Því er eðlilegt að við gerumst boðberar friðar og afvopnunar í heiminum og látum til okkar taka á alþjóðavettvangi sem friðflytjendur, ekki síst vegna þess að við búum mitt á milli risaveldanna tveggja.

En við verðum einnig að líta okkur nær. Í skýrslunni kemur ekkert fram hvert stefna skuli til frambúðar. Erum við búin að gera upp við okkur hvort við ætlum að hafa hér hernaðaraðstöðu til frambúðar? Einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh. og formaður Alþfl., virðist vera búinn að gera það upp við sig að hér skuli vera her til frambúðar og m.a.s. finnst honum að því er virðist sjálfsagt að selja hernaðaraðstöðu fyrir aðgang að mörkuðum. Ég er algjörlega andvíg öllum slíkum hugmyndum. Við eigum að vinna að afvopnun, einnig hér á Íslandi. Við erum einn möskvinn í hernaðarneti stórveldanna. Á undanförnum árum höfum við flækst æ fastar í því neti. Hernaðarumsvif hafa aukist verulega á seinni árum. Nýjar vígvélar, olíuhöfn, ratsjárstöðvar og flugskýli sem þola kjarnorkuárás sýna hvernig Ísland er notað sem víghreiður.

Kvennalistinn er andvígur hugarfari hermennskunnar. Okkur ber að stöðva allar hernaðarframkvæmdir hér á landi þegar í stað og stefna að friðlýsingu Íslands án vígbúnaðar í heimi án hernaðarbandalaga. Við verðum að hugsa málið og gera upp við okkur hvert við ætlum að stefna. Í mínum huga er eins og ég sagði áðan enginn vafi hvert við eigum að stefna og ég er viss um að meiri hluti þjóðarinnar er mér sammála. Það má benda á það að skoðanakannanir sýna að um 90% þjóðarinnar er fylgjandi yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Herra forseti. Afstaða Íslendinga á alþjóðavettvangi á undanförnum árum hefur verið okkur til háborinnar skammar. Utanríkisráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, núv. hæstv. utanrrh., urðu að viðundri er þeir greiddu atkvæði á þingi Sameinuðu þjóðanna gegn tillögum um afvopnunar- og friðarmál og stríddu gegn vilja þjóðarinnar og Alþingis sem kemur m.a. fram í ályktun þingsins frá 23. maí 1985. Það er því ánægjulegt og góðra gjalda vert að nú hefur hæstv. utanrrh. breytt afstöðu Íslendinga á alþjóðavettvangi. Furðu vekur þó að hann skyldi ekki hafa beitt sér fyrr fyrir breyttri afstöðu sem forsrh. í síðustu ríkisstjórn. Það er ekki nóg að vera með fögur orð og yfirlýsingar. Það eru aðgerðirnar sem skipta máli.

Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér fyrir því að koma viðskiptabanni á Suður-Afríku til að mótmæla kynþáttaaðskilnaðarstefnu stjórnvalda þar. Mörg ríki hafa samþykkt viðskiptabann á Suður-Afríku, m.a. Norðurlandaþjóðirnar nema Íslendingar. Íslendingar hafa ekki mikil viðskiptaleg tengsl við Suður-Afríku og mundi því viðskiptabann af Íslands hálfu ekki hafa mikil efnahagsleg áhrif. Það er þó ekki aðalatriðið í þessu sambandi, heldur hitt að með yfirlýsingu um viðskiptabann lýsum við stuðningi við baráttu blökkumanna í Suður-Afríku fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Þeir hafa lagt áherslu á að þótt bannið hafi ekki áhrif til að draga úr öllum viðskiptum sé pólitíski stuðningurinn þeim mjög mikilvægur.

Á það ber þó að leggja áherslu að mannréttindi eru víða brotin og þurfum við að beita okkar áhrifum alltaf og alls staðar gegn slíku. Tilraun sameinuðu þjóðanna til að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs hafa ekki borið árangur. Hörmulegar fréttir háfa borist frá þessum heimshluta síðustu vikur. Ég tel fyllstu ástæðu til að Íslendingar fordæmi ofsóknir Ísraelsmanna á hendur Palestínumönnum sem eru samkvæmt fréttum farnar að líkjast þeim ofsóknum sem gyðingar urðu fyrir á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Við getum ekki horft upp á þetta aðgerðarlaus.

Ísland hefur nú um allmörg ár verið aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Við höfum þar náð tiltölulega hagstæðum samningum þótt við þurfum að vinna áfram á þeim vettvangi að okkar málum. EFTA-löndin hafa haft samskipti við Evrópubandalagið um viðskiptasamninga. Íslendingar hafa nú tiltölulega hagstæða samninga við Evrópubandalagið en þar skiptir mestu fyrir okkur verslun með fisk. Við verðum að halda vöku okkar varðandi þróun innan Evrópubandalagsins og reyna að styrkja stöðu okkar gagnvart því. Við megum þó ekki halda þannig á málum að við missum þá stöðu sem við höfum gagnvart bandalaginu. Ég tel alls ekki koma til greina að sækja um inngöngu í Efnahagsbandalagið vegna þess að með því er hætta á að við missum sjálfstæði okkar, m.a. vegna þess að við inngöngu í Efnahagsbandalagið fá öll aðildarríki aðgang að fiskimiðum hvers annars. Ég tel heldur ekki koma til greina að tengja á neinn hátt samninga um aðgang að mörkuðum Efnahagsbandalagsins við aðgang að fiskimiðunum. Menn eru vonandi ekki búnir að gleyma baráttu okkar fyrir stækkun landhelginnar, árin síðan eru varla orðin svo mörg. Ég tel fráleitt að „selja“ landið fyrir aðgang að mörkuðum Efnahagsbandalagsins eins og formaður Alþfl. vill nú ólmur gera.

Í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Samvinna við þróunarlönd verður aukin í anda samþykktar Sameinuðu þjóðanna um þróunaraðstoð.“

Það er langt síðan Sameinuðu þjóðirnar beindu því til betur megandi þjóða að þær verðu sem svaraði 1% af þjóðarframleiðslu til aðstoðar við þær þjóðir sem minna mega sín. Á 107. löggjafarþinginu var samþykkt ályktun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að á næstu sjö árum skuli með reglubundinni aukningu framlaga ná því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum verði 0,7% af þjóðarframleiðslu.“ - Það er því lítil reisn yfir þeim 0,05–0,06% af þjóðarframleiðslu sem við vörðum til þróunaraðstoðar á árinu 1987. Því miður virðist ekki eiga að verða á þessu nein breyting með nýrri ríkisstjórn því að áætluð framlög á árinu 1988 eru ekki hærri en sl. ár. Við þurfum því að taka okkur á í þessu efni.

Herra forseti. Á alþjóðavettvangi, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, höfum við flutt og samþykkt fjölmargar tillögur sem varða konur sérstaklega. Einnig höfum við gerst aðilar að samningi um afnám alls misréttis gegn konum. Í þessum samningi og tillögum sem við höfum samþykkt er lögð áhersla á mikilvægi þess að konur taki þátt í þjóðfélaginu á öllum sviðum. Ríkjum er falið að vinna að því að konur fái jafnan rétt og jafna stöðu í þjóðfélaginu á við karla. Ríkjum er bent á hvað þurfi að gera til að slíkt geti orðið að veruleika. Ég skora því á hæstv. utanrrh. að lesa vel samninginn um afnám alls misréttis gegn konum, sem Ísland er aðili að, og gera ríkisstjórninni grein fyrir á hvern hátt vinna beri að þessu markmiði samkvæmt því sem stendur í samningnum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig lagt áherslu á hlutverk kvenna í því að stuðla að friði í heiminum. Ein af þeim tillögum sem samþykktar voru á síðasta allsherjarþingi var tengd samþykkt yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1982 um þátttöku kvenna í því að stuðla að friði í heiminum. Í tillögunni kemur fram hvatning til ríkisstjórna til að kynna yfirlýsinguna og koma í framkvæmd boðskap hennar. Ég hef ekki orðið vör við framkvæmd þessarar tillögu hér á landi.

Valdbeiting, ofbeldi og virðingarleysi við það sem lífsanda dregur hefur um of verið ríkjandi við stjórn heimsins. Að baki liggur hugarfar sem er í hrópandi andstöðu við menningu kvenna sem þiggur lífskraft sinn frá endurnýjun lífsins, verndun þess og viðhaldi. Það er því engin tilviljun að Sameinuðu þjóðirnar leggja áherslu á þátttöku kvenna í friðarstarfi. Út um allan heim starfa friðarhreyfingar sem að mestum hluta eru bornar uppi af konum. Auðvitað eru karlar þar einnig virkir þátttakendur. Hlutverk kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins er mikilvægt, en hlutverk þeirra til að stuðla að friði í heiminum er nýr tónn í friðarbaráttu og við hann bindum við miklar vonir. Við verðum að rísa gegn þeirri hernaðarhyggju sem mótar afstöðu þeirra sem fara með völdin. Við getum ekki falið örfáum mönnum lif okkar og framtíð. Því tökum við afstöðu með þeim sem vinna að friði í heiminum og stefna að friðlýsingu Íslands án vígbúnaðar í heimi án hernaðarbandalaga.