26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4966 í B-deild Alþingistíðinda. (3413)

294. mál, utanríkismál

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil hefja máls á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og ekki síst að hún skuli vera svo snemma á ferðinni gagnstætt því sem oft áður hefur verið þegar við höfum þurft að ræða um þessi mikilvægustu mál á síðustu dögum þings í þeim önnum sem þá eru og tími hefur varla unnist til þess að ræða ítarlega um málin. Ég vil einnig þakka bæði honum og forseta fyrir að ætla nú tvo daga til þessarar umræðu. Ég held að það sé ekki of í lagt þó að við helgum tvo daga af þinghaldinu árlega til þess að ræða um utanríkismálin þannig að allir geti komið að sjónarmiðum sínum, sem það vilja, og við getum skipst á skoðunum, enda er þess ekki að vænta að við getum verið sammála í einu og öllu þótt við reynum nú venjulega og höfum góðu heilli um langa tíð reynt að koma fram sem sameinuðust út á við þegar um sérstök hagsmunamál Íslendinga hefur verið að ræða eins og t.d. hafréttarmálin.

Mig langar í upphafi að ræða lítið eitt um störf hv. utanrmn. en þar hafa starfshættir nokkuð breyst á liðnum árum. Nefndin er nú u.þ.b. að verða sextug, nú í aprílmánuði, og hefur alltaf haldið fundi sína fyrir luktum dyrum. Ég held að þeir sem stóðu að stofnun nefndarinnar á sínum tíma hafi gjarnan viljað geta ræðst við án þess að utanaðkomandi aðilar fylgdust með því sem þar færi fram og væntanlega hefur okkar barátta fyrir fullveldi og frelsi átt í því þátt að þessi háttur var á hafður. Þetta er enn svo, að nefndin starfar fyrir luktum dyrum. Í þingskapalögum segir um nefndina, með leyfi forseta: „Til utanrmn. skal vísa utanríkismálum. Utanrmn. starfar einnig milli þinga og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma. Nefndatmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.“

Þetta hafa menn haldið vel og lengi. Það hefur verið hægt að treysta því að það sem færi fram á nefndarfundum yrði ekki á allra vitorði. Þess vegna hefur verið tiltölulega auðvelt að stilla saman strengina og ná sameiginlegri niðurstöðu í hinum mikilvægustu málum. Út af þessu hefur af slysni aðeins brugðið, en það er ekki orð á því gerandi.

Að öðru leyti hefur það nú verið tekið upp í fyrsta skipti að utanrmn. hefur farið til funda við erlenda aðila og er þá fyrst að nefna ferð nefndarinnar á fund Evrópubandalagsins og Evrópuþingsins í septembermánuði sl. Til þeirrar ferðar var boðið af hálfu Evrópubandalagsins og eftir alllanga íhugun og umræður í nefndinni var ákveðið að breyta nú til og í fyrsta skipti að fara til útlanda, enda mikið í húfi að ná góðu samkomulagi og samningum við Efnahagsbandalagið eins og rætt var í gær og margrætt er og á allra vitorði.

Þá er þess að geta að heimboð hefur borist frá breska þinginu til formanns nefndarinnar og tveggja manna annarra úr nefndinni að heimsækja þingið og er sú ferð ráðgerð nú um miðjan marsmánuð og voru menn sammála um að þiggja þetta boð. Það er nokkur nýlunda að það sé boðið mönnum úr sérstakri nefnd fremur en þinginu sjálfu, en ég hafði um þetta að sjálfsögðu samráð við forseta Sþ. og var það okkar niðurstaða að ekkert væri óeðlilegt við að þiggja boð þó það væri með þessum hætti.

Þá hefur það borið við fyrir réttum hálfum mánuði að ávarp hefur borist frá utanríkismálanefndum sambandsráðs og þjóðarráðs í Æðsta ráði Sovétríkjanna sem snýr sér til samsvarandi nefnda í þjóðþingum Danmerkur, Íslands, Noregs, Finnlands, Svíþjóðar, Bandaríkjanna og Kanada. Var það líka með nokkuð sérkennilegum hætti að þetta skyldi berast utanrmn. beint, en auðvitað tíðkast það, þótt það hafi lítt tíðkast hér, að menn snúi sér ekki beint til utanríkisþjónustunnar heldur til ákveðinna nefnda.

Þetta mál höfum við rætt nokkuð í nefndinni. Mín fyrstu viðbrögð eftir að ég hafði tekið við þessu ávarpi voru að sjálfsögðu að greina forseta Sþ. frá því svo og hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. Hér er að vísu um talsvert mikið nýmæli að ræða því að í þessu ávarpi segir, með leyfi forseta:

Að okkar mati væri í þessu efni æskilegt að halda í náinni framtíð vinnufundi (seminar) eða ráðstefnur svo og að koma á fót sjónvarpsbrú þar sem fram kæmu fulltrúar utanrmn. og annarra samsvarandi nefnda á þjóðþingum landanna í Norður-Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada til að ræða mögulegar leiðir til að blása lífi í sameiginlegar aðgerðir þeirra. Fyrir okkar leyti leggjum við til að árið 1988 verði haldinn í Moskvu fundur fulltrúa þjóðþinga allra þeirra landa sem hlut eiga að máli þar sem rætt verður um ráðstafanir sem nauðsynlegt er að gera til að vernda umhverfið o.s.frv.

Eins og ég sagði hefur þetta mál komið fyrir í nefndinni en lítt verið rætt þar, enda ljóst að við hljótum að hafa samráð við aðra þá sem ávarpi þessu er beint að og þá ekki kannski síst okkar nánustu frændur og nágranna. Var einmitt í hv. utanrmn. rætt um það og utanrrn. beðið að sjá til þess að við fengjum upplýsingar frá öðrum þeim sem ávarpið hafa fengið og ekki síst Norðmönnum og hefðum þá hugsanlega samráð við formann utanrmn. norska þingsins sem er nú enginn annar en Káre Villoch sem við á sínum tíma, bæði ríkisstjórn og utanrmn., studdum til framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins þó að á annan veg færi um úrlausn þeirra mála. Þessa vildi ég geta hér til þess að menn átti sig á að þarna er kannski að verða breyting á störfum nefndarinnar og skal ég játa að ég var einna íhaldssamastur í þessu efni og efaðist um að breyttir starfshættir að þessu leyti væru heppilegir, en ég hef breytt um skoðun á því eftir förina til Evrópubandalagsins og Evrópuþingsins sem ég tel að hafi verið geysimikilvæg og fróðleg fyrir okkur og kem ég að því síðar í minni ræðu.

En ef ég vík að skýrslu utanrrh. hnýt ég fyrst um takmörkun vígbúnaðar á norðurslóðum. Ég hef haft af því áhyggjur hve gífurlegur hernaðarþrýstingur er að færast yfir okkar höf, Noregshaf, Íslandshaf, Grænlandshaf, sem eru auðvitað höf sem hafa um aldirnar verið höf þeirra ríkja sem að þeim liggja. Þessi þrýstingur kemur auðvitað frá hinu mikla víghreiðri á Kola-skaga. Þess vegna þurfum við að fylgjast mjög náið með allri framvindu mála hér um slóðir.

Menn hafa óttast það líka að fjölgun kjarnavopna yrði á þessum slóðum þegar þeim fækkaði annars staðar. Að vísu hafa stórveldin eða risaveldin ekki sagst mundu flytja vopnin sem niður verða tekin eða sambærileg vopn út á höfin í stað þeirra sem eytt verður, en allur er varinn góður í þessu efni og að því hlýtur athygli okkar að beinast á komandi árum að því hvernig þessi framvinda verður og að því víkur einmitt hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni á bls. 9 og er það vel.

Þá er einnig vikið að ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 sem stendur óbreytt sem stefna Íslendinga í afvopnunarmálum og í þessum alvarlegustu kjarnorkumálum og hermálum heimsins. En nauðsynlegt er að undirstrika það rækilega, þegar talað er um þá ályktun, að hafa verður hliðsjón af grg. þeirri sem henni fylgdi til þess að menn forðist allan misskilning um meiningar, þar sem mér hefur fundist að stundum bryddaði á. Þess vegna ætla ég að rifja það upp hvað sagt var um þessa till., hvað ég sagði úr þessum ræðustól um þessa till. sem formaður og frsm. nefndarinnar þennan dag 23. maí 1985, með leyfi forseta:

„Ekki var í lítið ráðist þegar allir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga, ákváðu í fyrravetur að freista þess að nefna til fulltrúa sem könnuðu hvort þess kynni að vera kostur að ná sameiginlegri niðurstöðu um eina ályktunartillögu er varðaði afvopnunar- og kjarnorkumál í stað þess að bitist yrði um þær margar. Þingi lauk þó án þess að þessar tilraunir bæru fullan árangur. Nú á þessu þingi var talið rétt að skipuð yrði undirnefnd til að fjalla um afvopnunarmálin og skilaði hún áliti í tillöguformi til hv. utanrmn. 6. þ.m. Þar hefur till. þessi verið samþykkt óbreytt eftir nokkrar umræður en þó, ég endurtek, en þó með skýringum sem mér er falið að greina hér frá svo að forðast megi allan hugsanlegan misskilning.“

Og skýringarnar eða grg. sem öll nefndin stóð að og fól mér að flytja er svohljóðandi: „Allmiklar umræður urðu í utanrmn. um fyrri málsl. 6. mgr. ályktunartill. og skilning á honum. Ýmsum hugmyndum var varpað fram um orðalag breytinga, en á það var fallist að halda orðalagi undirnefndarinnar óbreyttu en formanni falið að koma á framfæri fyrir hönd nefndarinnar eftirfarandi skýringum er hann mælti fyrir till.:

1. Sá landfræðilegur skilningur væri réttur að Norður-Evrópa næði a.m.k. yfir Norðurlönd, eyjar á norðanverðu Atlantshafi og Norður-Þýskaland, þ.e. Norður-Evrópusléttuna og allt frá Grænlandi til Úralfjalla.

2. Sá skilningur sem fram kom í eftirfarandi hugmynd um breytingu á upphafi 6. mgr. væri réttur. Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaus svæði í Norður-Evrópu sem nái til aðildarríkja Norður-Atlantshafsbandalagsins, Varsjárbandalagsins og hlutlausra ríkja jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því. Samningur þessi verði liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu.“

Hér lýkur þeirri grg. sem mér var falið að flytja á þessum degi. (Gripið fram í.) Á ég að endurtaka? Nei, nei ég er bara að lesa grg. sem undirnefndin samþykkti. (SvG: Það vantar smávegis. Ég les þá meira á eftir.) Ég get lesið aðeins í viðbót:

„Samkomulag er um það í utanrmn. að með till. sem hér er lögð fram sé lokið afgreiðslu fjögurra tillagna um afvopnunar- og kjarnorkumál sem fyrir nefndinni hafa legið, en þær till. þekkja allir hv. þm."

Er þetta nóg eða á ég að halda áfram, hv. þm.? (Gripið fram í.) Nei við skulum láta þetta nægja í bili.

Það er ánægjulegt, held ég, fyrir alla að þessi stefna, sem þarna er mörkuð um Norður-Evrópu, hefur verið áréttuð og tekin upp m.a. af leiðtogum Sovétríkjanna, sem einmitt ræða nú um þetta svæði í heild, að það sé ekki hægt að einangra neitt kjarnorkuvopnalaust svæði við Norðurlönd ein. Það hefur margkomið fram í ræðum, jafnvel sjálfs Gorbatsjovs eins og menn vita, Múrmansk-ræðunni, að nú er farið að tala um miklu stærra svæði. Ávarpinu sem ég var að geta um áðan er einmitt beint til þjóðanna á norðurslóðum allra og auk þess raunar Bandaríkjanna og ég tel að það sé hyggilega gert af ráðamönnum í Ráðstjórnarríkjunum að beina málinu einnig til þeirra. Milli þessara Atlantshafsbandalagsríkja og reyndar ríkja utan bandalagsins hlýtur að verða náið samráð þegar svör verða gefin við málaleitan þessari.

En það er líka athyglisvert að á raðstefnu um öryggi í Evrópu, sem íslenskir embættismenn kalla RÖSE, þar er í júlí sl. getið um það að hins vegar væri tillaga gerð um sérviðræður þeirra 23 ríkja sem tilheyra NATO og Varsjárbandalaginu. Þar verði fjallað um hvernig koma megi á jafnvægi á sviði hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu frá Úralfjöllum vestur á Atlantshaf. Þetta er sem sagt samþykkt af Varsjárbandalagsríkjum engu síður en Atlantshafsbandalagsríkjum. Hvort það er fyrir áhrif frá tillögu okkar og þeirri greinargerð sem ég var að lesa hér upp eða ekki skal ég láta ósagt, en menn eru þó að átta sig á að það er tilgangslaust að lýsa yfir kjarnorkuvopnalausu svæði þar sem engin kjarnorkuvopn eru og enginn hefur boðað að slíkt yrði. Að sjálfsögðu þarf þetta að ná til miklu víðtækara svæðis. Um það er ekki deilt lengur nema þá deilur kynnu að upphefjast um það hér á Alþingi Íslendinga á ný. Það er ekki um þetta deilt. Skilningurinn er réttur og það staðfesta m.a.s. risaveldin og Varsjárbandalagsríkin.

Ég ætla þá að hyggja nokkuð að kaflanum um hafréttarmál. Þar er allt rétt og vel sagt, en má kannski einhverju við bæta.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að á þessu sviði í hafréttinum hafa tíðindi gerst svo ótt og títt að menn hafa varla fylgst með. Við leiðum hugann að því að það er fyrst 1. sept. 1973 sem Íslendingar sjá á skermi sjónvarpsins 200 mílurnar dregnar og aðeins þrem árum síðar höfðum við helgað okkur 200 mílurnar að fullu og öllu um eilífð. Menn ráku upp stór augu og jafnvel hlátrasköll þegar farið var að tala um 200 mílur í miðjum 50 mílna slagnum, en svo ör var þróunin að flestar þjóðir höfðu á næstu þrem árum helgað sér 200 mílurnar. Það voru nokkrar þjóðir sem voru seinar til, þar á meðal nágrannaþjóðir okkar, svo sem eins og Bretar og Norðmenn. Þar að auki voru Ráðstjórnarríkin nokkuð sein til, en þetta mjakaðist áleiðis. Suður-Ameríkuríkin voru í fararbroddi og innan mjög fárra ára voru 200 mílurnar orðnar alþjóðalög og við höfðum á örfáum árum horfið frá 4 mílum og komumst alla leið í 200.

Yfir þessu getum við glaðst. En þetta var enginn lokasigur. Við héldum það, fulltrúar Íslands á hafréttarráðstefnu, lengi vel að nú væri lokasigur unninn. Við áttuðum okkur satt að segja ekki á því kannski nægilega tímanlega að aðrar þjóðir, svo sem eins og Kanadamenn, Ástralíumenn o.fl. voru þegar byrjaðar að hugsa um hafsbotninn utan 200 mílnanna, en það var árið 1978 á Genfarfundi að fram var lagt kort um hafsbotnssvæðin sem sýndu hafsbotnslínur og annað slíkt og þá rann upp fyrir okkur ljós að hér væri mikilla hagsmuna að gæta af Íslands hálfu. Þessir hagsmunir voru á Reykjaneshrygg, Jan Mayen svæði, Hatton-Rockall svæði og svo á norðurslóðum eða því svæði sem nú nýlega er tekið að ræða um við Norðmenn og Dani að þessar þjóðir helgi sér.

Um Reykjaneshrygginn er það að segja að þar gátum við einungis farið 350 mílur út, þ.e. 150 mílur út fyrir efnahagslögsöguna, þó að segja megi að Reykjaneshryggurinn og Norður-Atlantshafshryggurinn séu náttúrlegt framhald af Íslandi sem er hæsta svæðið á þessum hrygg á Norður-Atlantshafi. En svona til gamans má greina frá því að það voru okkar fulltrúar og fulltrúar Ráðstjórnarríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum sem áttu um það viðræður lengi vel hve langt mætti fara út á neðansjávarhryggjum. Fulltrúar Ráðstjórnarríkjanna bentu á að við værum miklir heimsvaldasinnar, ætluðum að teygja okkur suður eftir öllu Atlantshafi. Við sögðum auðvitað að það hefðum við aldrei ætlað okkur. En við spurðum hvað þeir gætu hugsað sér að mætti setja takmörk fyrir útfærslu á neðansjávarhryggjum. Ég man eftir því að þeir nefndu kannski 100 mílur til viðbótar efnahagslögsögu, segjum 300. Við sögðum 400 og sættumst svo á 350. Það fór þráðbeint inn í hafréttarsáttmálann og allir guðsfegnir að þurfa ekkert að vera að rífast meira um það. En þannig ganga málin fyrir sig oft og tíðum á ráðstefnum sem menn halda að séu að öllu leyti gífurlega merkilegar og hlutirnir grandskoðaðir. Stundum ákveða menn þetta með einhverri þumalputtareglu.

Jan Mayen deiluna muna menn. Það tók líka tiltölulega skamman tíma að leysa það mál. Það var 29. júní 1979 sem ráðamenn Norðmanna komu hingað til lands með mjög stuttum fyrirvara, hvorki meira né minna en þrír ráðherrar, Frydenlund utanríkisráðherra, Jens Evensen hafréttarráðherra og Eyvind Bolle sjávarútvegsráðherra með forstöðumanni réttardeildar utanríkisráðuneytisins og fríðu föruneyti og buðu þá að ef Íslendingar samþykktu fullan eignarrétt Norðmanna að hafsvæðunum umhverfis Jan Mayen og hafsbotni mundu þeir verða tilbúnir að leyfa okkur að veiða 60 þúsund tonn af loðnu, hækkuðu sig raunar í 70, á ári í tvö ár. Sá fundur stóð í tvo daga og endaði með því að menn skildu lítt sáttir. En aðeins ári síðar hafði náðst samkomulag um að við hefðum 85% af loðnustofninum, að við hefðum að mínu mati, þó að það sé ekki orðað beint, helming af öllum öðrum fiskstofnum á þessu svæði og sérstaklega ætti að taka tillit til íslenskra hagsmuna. Þarna er sem sagt um sameign að ræða og samnýtingarrétt í mjög merkum samningi. Og ári síðar er gert samkomulag um að við eigum líka helmingsréttindi í öllum þeim hafsbotnssvæðum þar sem talið er hugsanlegt að geti leynst olía og gas og slík verðmæti. Þarna leystu tvær þjóðir á mjög merkan hátt deilumál sín og ágreiningsmál og eru það fyrstu samningarnir á grundvelli hafréttarsáttmálans þar sem slíkt sameignarfyrirkomulag er ákveðið.

Við höfum haldið áfram okkar baráttu eftir að þessu lauk og nú beinast augu manna fyrst og fremst að Hatton-Rockall svæðinu og í öðru lagi að norðurslóðum. Að því er Hatton-Rockall svæðið varðar hafa Bretar verið heldur tregir til formlegra viðræðna við okkur, en þó var haldinn formlegur viðræðufundur árið 1980 eða 1981 í Genf og síðan hafa formleg nótuskipti farið fram á milli ráðuneytanna þannig að málið hefur ekki legið dautt. Nú er auðvitað komið að því að við knýjum mjög fast á að Bretar og Írar, ef því er að skipta, þó að þeir eigi nú lítil réttindi þarna, kannski engin, og Bretar kannski ekki heldur, setjist að samningaborði í samræmi við 83. gr. hafréttarsáttmálans þar sem þjóðum, sem lenda í slíkum árekstrum eða ágreiningi, er skylt að setjast niður og reyna að leysa sín mál með samkomulagi eða þá að ákveða að vísa því til einhvers konar gerðardóms, sáttanefndar eða þá Alþjóðadómstólsins.

Bretar hafa borið fyrir sig að hafréttarsáttmálinn sé ekki genginn í gildi þar sem einungis 35 þjóðir hafa undirritað hann, en 60 þjóðir þarf til þess að hann öðlist lagagildi (á lagamáli de jure). Hitt er ljóst mál að sá sáttmáli hefur öðlast fullt gildi sem alþjóðalög de facto, eða í raun og gerði það raunar fyrir meira en áratug, eins og sigrarnir í landhelgismálinu bera vott um. 200 mílurnar voru auðvitað byggðar á uppkastinu að hafréttarsáttmála þótt hann væri þá ekki samþykktur og auðvitað kom aldrei til greina, a.m.k. ekki af minni hálfu, að bíða eftir því að hafréttarráðstefnunni lyki og samningar yrðu undirskrifaðir því að hafrétturinn eins og alþjóðaréttur yfirleitt, og það verðum við að horfast í augu við, hefur byggst á því sem strandþjóðirnar gerðu, ef við tökum hafréttinn, og það sem hafði gerst í heiminum. Rétturinn skapaðist í raun hvað sem einhverjum bókstöfum leið. Þess vegna höfum við, að ég hygg, haldið rétt á þessum málum.

Um norðurslóðir er það að segja að könnun á því hvaða réttindi við gætum haft þar og Norðmenn og Danir fyrir hönd Grænlands hefur verið framkvæmd núna á síðustu árum og niðurstaðan er sú að þar sé um mjög mikil og mikilvæg réttindi að ræða. Þau byggjast á einni reglu í 76. gr., sem fjallar um hafsbotninn, sem er á þann veg að strandþjóðir megi færa út hafsbotnsréttindi sín að svokölluðum brekkufæti eða hlíðarrót, hvort sem menn vilja nú nota, foot of the slope heitir það á enskunni, en það er þar sem mesti brattinn niður í hafdýpin endar, og síðan megi fara 60 sjómílur út fyrir þá línu. Það er það sem við höfum nú lagt til við Norðmenn og Dani að þessar þjóðir geri í sameiningu, þar yrði þá um sameign að ræða á þessu svæði í einhverjum hundraðshlutum, og að full samstaða næðist í því efni.

En þá spyrja menn: Eftir hverju er að slægjast? Nú vitum við auðvitað ekki hvaða verðmæt jarðefni kynnu að finnast á þeim svæðum sem við erum að helga okkar, en hvað sem því líður tilheyra hafsbotninum eftir reglum hafréttarsáttmálans allar lífverur sem á honum eru, þ.e. krabbadýr, skelfiskur og annað slíkt, og þegar tímar líða munu réttindi þess sem botninn á án efa aukast. En þó ekkert af þessu væri fyrir hendi er hitt þó alveg ljóst að það er óheimilt að henda á þennan botn óþverra og rusli, eiturefnum o.s.frv., öllu sem sekkur til botns. Það er hægt að neita því því að þjóðirnar sem helga sér hafsbotninn gera það með þeim hætti að þær hafa fullveldisrétt yfir botninum. Þess vegna er engum heimilt að snerta hann. Það er ekki nokkrum manni heimilt að stunda þar t.d. botnvörpuveiðar eða henda þar rusli. Þetta eru því miklu mikilvægari málefni en menn kannski í fljótum hasti hafa gert sér grein fyrir.

Þegar ég segi að það má enginn snerta þennan botn, hvorki koma upp með skel né stein, er það ekki lítils virði því að við vitum að á Reykjaneshrygg, t.d. á þessu 150 sjómílna belti utan 200 mílnanna, hafa verið stundaðar mjög miklar karfaveiðar. Stundum hafa skip þar skipt tugum. Við höfum ekki hreyft við þessu á neinn hátt og við höfum ekki nytjað þessa auðlegð þrátt fyrir kvótakerfi og fiskskort hér. Sama er raunar að segja um þau réttindi sem við eigum á Jan Mayen svæðinu til annarra fisktegunda en loðnunnar. Við höfum ekki sinnt því sem skyldi og heldur ekki rannsakað Hatton-Rockall svæðið nægilega, en upplýsingar liggja fyrir um að þar hefur a.m.k. á stundum verið gífurlegur afli, bæði þorskafli, ýsuafli o.s.frv. Þetta eru framtíðarmálefni.

Þá dettur mér það í hug að því miður höfum við alþm. ekki borið gæfu til þess að styrkja landhelgisgæslu nægilega. Hún hefur ekki haft fjármagn sem skyldi. Það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum okkar hvað sem líður öllum niðurskurði og sparnaði að tryggja að landhelgisgæslan yrði efld en ekki látin grotna niður, ef ég má nota það orðalag, því að við eigum enn mikilla hagsmuna að gæta ekki bara innan 200 mílnanna heldur utan þeirra líka. Þetta tækifæri vil ég nota til að vekja á þessu athygli.

Það eru mörg fleiri hafréttarmál sem óleyst eru. Okkur hefur gengið erfiðlega að ná nægilega traustu sambandi við Grænlendinga. T.d. er enn óútkljáð hvort miðlína eigi að gilda á milli Jan Mayen og Grænlands eða hvort Grænlendingar eða Danir fyrir þeirra hönd fá fullnægt kröfu um að færa út í 200 mílur frá Grænlandsströndum. Þessi krafa hefur verið rökstudd með því að við Íslendingar höfum fengið fullar 200 mílur í átt að Jan Mayen, en það byggðist á allt öðru en venjulegum reglum hafréttarins. Það byggðist á sögulegum rökum og ekki síst á bréfi því sem Jón Þorláksson sendi árið 1927, þegar Norðmenn fyrst fóru að hugsa sér til hreyfings að byggja veðurathugunarstöð á Jan Mayen áskildi hann sér fyrir Íslands hönd allan sama rétt og borgurum hvers annars lands á þessari eyju. Hún var allt eins talin íslensk eins og norsk. Þess vegna var þetta málamiðlun. En miðlínuregla er aðalregla í tilfellum eins og þessum. Íslendingar styðja auðvitað að þarna verði almennar reglur því að við eigum gífurleg réttindi sameiginlega við Norðmenn á þessu svæði. Það eru slík mál sem þessar nágrannaþjóðir þurfa að leysa og umræður um þau eru auðvitað miklar, bæði í utanrrn. og í hv. utanrmn.

Svo eru það samskiptin við Færeyjar. Þegar samkomulag varð um að þeir fengju núna nokkuð auknar veiðar frá því sem áður var og það var einróma samþykkt í nefndinni var vakin athygli á því að þeir yrðu að forðast að spilla fyrir okkar hagsmunum vegna loðnuveiða á þessu svæði, sem ég var að ræða um, við Jan Mayen og hafa um það fullt samráð við okkur ef þeir væru að afla sér réttinda þar eða kaupa þau t.d. af Grænlendingum. Eins var vakin athygli á því að 66. gr. hafréttarsáttmálans, sem fjallar um laxveiðar, bannaði í rauninni Færeyingum allar laxveiðar í sjó. Þó að við höfum glapist til að fara í samtök sem byrjuðu á því að heimila þeim nokkrar veiðar verði að halda við þessa meginreglu sáttmálans. Færeyingar byrjuðu ekki að veiða lax í sjó fyrr en 1979 og juku þær síðan á árunum þar á eftir, en sú grein, sem ég vitnaði til, bannar allar slíkar veiðar nema þær séu hefðbundnar og það væri efnahagslegt áfall fyrir viðkomandi ríki ef þau yrðu svipt öllum slíkum veiðum. Engu slíku er til að dreifa að því er Færeyinga varðar þótt öðru máli varði um Grænlendinga sem stundað hafa þessar veiðar lengi.

Kaflinn um varnarliðið í skýrslunni sýnist mér vera með ágætum og þarf ég ekki að fara langt út í það mál. Það er ánægjuefni að það eru minni dellur nú en oftast áður um varnarliðið, um varnarliðsframkvæmdir og stöðu okkar innan Atlantshafsbandalagsins. Það er eðlilegt. Menn hafa áttað sig á því að við eigum engra annarra kosta völ en að halda okkar striki þar til þá að eitthvað rofar betur til í heimsmálunum en hingað til hefur orðið. En við gleðjumst auðvitað yfir þeim skrefum sem þar hafa náðst.

Ég vík aftur að Hatton-Rockall málinu og vil gjarnan greina frá því hér að þegar boð barst um það til hv. utanrmn. eða formanns hennar að hann og tveir aðrir úr nefndinni kæmu í boði breska þingsins til Bretlands, það var held ég í ágústmánuði í fyrra, var það samdóma álit nefndarmanna að því boði yrði ekki tekið á því stigi og ekki svarað því að þá stóð fyrir dyrum að ný utanrmn. yrði kosin þegar Alþingi kæmi saman, en þá var þetta boð ítrekað og ákveðið að þiggja það. Ég hef getið þess margsinnis við sendiherra Breta að ég færi auðvitað ekki til Bretlands og kannski enginn úr nefndinni nema það væri alveg ljóst að þar yrðu deilumál okkar út af Hatton-Roekall rædd bæði við háttsetta embættismenn og þingmenn og leitast við að ná einhvers konar samkomulagi þó það sé auðvitað ekki samninganefnd, það er utanrrn. sem annast þau mál, en að leitast við að ná einhverjum skilningi um sæmilega samstöðu þannig að ríkin gætu helgað sér þetta svæði. En gerist þetta allt saman er svo komið að Norður-Atlantshaf allt frá Noregs- og Skotlandsströndum og alla leið vestur til Kanada, en Kanadamenn eru einmitt að tryggja sér hafsbotnsréttindin, er orðið í eignarhaldi þessara nágrannaþjóða og hægt að friða meira og minna öll þessi gífurlegu hafsvæði, nytja þau, rækta þau og verja fyrir ágangi, vonandi. Það er því ekkert smámál sem hér er um að ræða.

Ég held að Bretar hljóti að gera sér grein fyrir því að þeir geta ekkert annað gert en sest að samningaborði. Þannig segir t.d. merkur breskur fræðimaður í mikilli grein, sem rituð var árið 1986, í niðurlagsorðum að það sé eðlilegt að þjóðirnar sem um þetta deila leiti einhverra sáttaumræðna eða þá að þær ákveði sameiginlega að vísa málinu til gerðardóms, alþjóðadóms, sáttanefndar o.s.frv.

Þegar árið 1978 benti prófessor E.D.Brown við Wales-háskóla á það í mjög merkri grein að mjög vafasamt væri að Bretar og 1rar ættu nokkur réttindi á Hatton-svæðinu og The Times í London, stórblaðið, vék að þessu í grein fyrir 2–3 árum. Niðurlagsorðin voru á þann veg að svo gæti farið í dómsmáli að kröfugerð Breta væri 200 milljón árum á eftir tímanum, two hundred million years out of date. Þannig er auðvitað ljóst að þessar þjóðir verða að setjast niður og leitast við að ná samkomulagi.

Þá er ég kominn að lokakafla í þessari ræðu minni, en það er Evrópubandalagið, og langar mig að fara um það nokkrum orðum því að það er nú víst að komast í brennidepil umræðan um það hér. Við hefðum kannski fyrr mátt ræða málið nánar. Við höfum að vísu gert það mjög oft í hv. utanrmn. Utanrrh. núv. og forverar hans hafa auðvitað tekið þátt í umræðum um það mál, en utanrrh. mætir ætíð á fundum nefndarinnar. Ég held að ég megi segja að fundir nefndarinnar á síðustu árum hafi verið miklu oftar en áður var og samband milli nefndarinnar og hæstv. ráðherra hafi verið miklu meira og betra. Ég get ekki annað en glaðst yfir samstarfi við þá alla, núv. hæstv. utanrrh. og þá sem sátu á síðasta kjörtímabili í því virðulega sæti. Þar hefur engan skugga borið á.

En það var sem sagt rétt, sem hæstv. samgrh. greindi frá í umræðunum í gær, að þegar de Clercq, sem er nokkurs konar utanríkisráðherra Evrópubandalagsins, var hér á ferðalagi og á fundum sumarið 1986 orðaði hann það við mig hvort hugsanlegt væri að utanrmn. vildi koma í boði bandalagsins til viðræðna til að skiptast þar á skoðunum. Það var reyndar úti í guðsgrænni náttúrunni sem þetta var fyrst orðað en endurtekið síðan í ræðu í kvöldverðarboði. Ég tók því kannski sem kurteisi fyrst og fremst en ekki að það væri alvara, en því var síðan fylgt eftir með formlegum hætti af hálfu utanríkisþjónustu. Niðurstaðan varð sú að nefndin ákvað að rétt væri að þiggja þetta boð. Ætla ég þá aðeins að víkja að því hvernig mál æxluðust þar.

Þetta var viku boð og við vorum á stanslausum fundum frá kl. 9 á morgnana og langt fram eftir kvöldi því það fylgdu hádegisverðarboð og kvöldverðarboð og þar var umræðum auðvitað haldið áfram. Þetta voru því ekki bara formlegir fundir heldur margháttaðar viðræður. Það er skemmst frá að segja að við sem vorum þarna frá öllum stjórnmálaflokkum vorum algerlega samstiga í einu og öllu. Ég held að það hafi vakið athygli viðmælenda okkar, sem voru æðimargir, að við skyldum mæta frá öllum stjórnmálaflokkum Íslands og vera sammála í einu og öllu því að öll tókum við meiri og minni þátt í þessum umræðum sem stundum voru mjög formlegar eins og t.d. fyrsta morguninn þegar við vorum á viðræðufundi með þingmannanefnd þeirri frá Evrópuþinginu sem fer með málefni Norðurlanda. Þá var fundur í fundaherbergi álíka stóru og þessum sal og með fullt af túlkendum og þýðendum o.s.frv.

Ég nefni þennan fund sérstaklega vegna þess að þar bar það við að þegar fundurinn var nýbyrjaður, og hann átti að vera til þess að ræða okkar málefni og óskir og við áttum að kynnast bandalaginu, voru þeir komnir þar í háarifrildi út af því hvort Evrópubandalagið og Evrópuþingið að einhverju leyti skyldu verða beinir þátttakendur í vörnum, þ.e. hvort Evrópubandalagið ætti að þróast yfir í það að verða líka einhvers konar varnar- eða hernaðarbandalag. Þegar þetta þóf hafði staðið nokkra tíð og hörkurifrildi á milli ónafngreindra fulltrúa þjóða, það voru ekki bara Skandinavar þarna, þetta var nefnd Evrópuþingsins sem átti sérstaklega að athuga viðskipti við Norðurlöndin, þá sá ég mig knúinn til að biðja menn að vera ekki að ræða þetta að okkur viðstöddum, við værum ekki hingað komnir til þess að taka þátt í dellum um hvort Evrópubandalagið ætti að verða hernaðarbandalag eða eingöngu efnahagsbandalag, en við gleddumst auðvitað yfir því ef það styrktist og efldist á efnahagssviðinu og við værum hér til þess að kynnast þeirri hlið málanna og reyna að kynna okkar sjónarmið. Það var þá beðist afsökunar á því að þetta skyldi hafa blandast inn í umræðuna og allt fór á hinn besta veg. Þetta sýnir hve hættulegt er að við förum að skipta okkur af þeirri kannski heitustu deilu í Evrópubandalaginu hvort það eigi jafnframt að vera hernaðarbandalag eða ekki. Það held ég að við eigum að forðast eins og heitan eldinn að nefna einu orði. Það er alveg vísasti vegurinn til þess að á okkur verður ekki hlustað ef við ætlum að fara að skipta okkur af þeirri hlið innbyrðis mála í Evrópubandalaginu.

Raunar er þá komið að þungamiðju málsins. Ég held að það sé alrangt að nokkrar raddir heyrist héðan frá Íslandi um að við séum að sækjast eftir inngöngu í Efnahagsbandalagið. Engin rödd hefur heyrst um það t.d. í utanrmn. þar sem þetta er margrætt. Ég held að þar séu allir sammála um að það komi alls ekki til greina að við förum að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið. Og hvers vegna? Ekki bara vegna þess að við getum ekki leyft neinar fiskveiðar í okkar landhelgi og getum heldur ekki leyft ótakmarkaða fólksflutninga o.s.frv. Það er ekki það eina. Hitt er kannski meira atriði, að ef við segðum að við værum á leið inn í bandalagið væru þeir auðvitað ekki til viðræðna um neina nýja samninga við okkur. Þeir segðu bara: Gerið þið svo vel. - Það er mitt mat. Þó að þeir leggi megináherslu á núna að styrkja sitt innra skipulag held ég að þeir mundu geta ósköp vel sagt bara: Gerið þið svo vel, og kannski gefið okkur allar mögulegar undantekningar í fyrsta umgangi. En ég er hræddur um að það mundi breytast þegar fram í sækti.

En ég hef fulla ástæðu til, og get rökstutt það, að segja hér og hvar sem er að ég er sannfærður um það eftir þessa dvöl þarna úti að við eigum þar að mæta mjög miklum velvilja og við þurfum engu því að fórna til að ná hagstæðum samningum við Evrópubandalagið sem menn nú óttast og eru að hafa á orði.

Þetta kom fram í ræðum margra þar. Það sem við lögðum megináherslu á var að við værum Evrópuþjóð, hefðum verið það og vildum vera það. Til Evrópu hefðum við sótt okkar menningu og okkar vistir og flutt út okkar varning um aldirnar. Það fór ekkert á milli mála að allir viðmælendur okkar vildu að við yrðum áfram Evrópuþjóð og þeir vildu ganga langt í samningum við okkur. Þar á meðal var raunar Gallagher sá sem hingað hefur oft komið og þótt harður í horn að taka í sambandi við einhvers konar réttindi til fiskveiða. Mér fundust hans kröfur ekki vera mjög miklar. Við áttum fund við hann og rifumst dálítið við hann náttúrlega, en hann sagði undir lokin að auðvitað yrði hann að túlka stefnu bandalagsins en þar með væri ekki sagt að það væru gerðar allar sömu kröfur til okkar. Og hann margundirstrikaði það, sem að við vissum fyrir fram, að í viðræðum áður hafði ekki farið fram neitt annað en það sem þeir kalla „dialogue“, þ.e. bara umræður, viðtöl, að skiptast á skoðunum. Annað hafði ekki gerst og kem ég nánar að því á eftir.

Hér í gær var af mörgum ræðumanna fjallað mjög ítarlega um Evrópubandalagið og Evrópuþingið og ekki síst í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, sem ég gat tekið undir held ég í einu og öllu, nema eitt. Það var orð sem hann notaði æðioft og það var hagstjórnartæki. Það orð fer gífurlega í taugarnar á mér. Ég held að öll þessi tæki til hagstjórnar hafi reynst okkur þannig þessi síðustu 15–20 ár að við ættum að hafa þau sem fæst. Það er kannski eina frjálshyggjan — sem þó er vitlaust orð. Frjálshyggja þýðir trúleysi og ekkert annað í íslenskum orðabókum og á ég þær held ég allar.

Ég vil segja um það að í peningamálum er óheimil stjórnun eins og t.d. við þurfum að búa við hér. Ég held að við ættum að leggja þessi tæki á hilluna mörg hver sem hefur verið beitt bæði hér og annars staðar. En auðvitað ráðum við því í samningum við Evrópubandalagið, ef við ekki förum að álpast til að sækja um inngöngu þar, hvaða fjármagnsflutningar verða milli þess og okkar. En hitt er annað mál að peningar í gömlu merkingunni eru nú að hverfa úr umferð. Þetta er allt meira og minna komið í tölvur og telexa o.s.frv. og enginn veit hver skuldar öðrum. Þegar er verið að segja að Íslendingar skuldi mikið eða Bandaríkjamenn séu stórskuldugir: Hvaða eignir eiga þeir annars staðar á móti o.s.frv.? Einhvern tíma var sagt að ef lagðar væru saman allar skuldir allra þjóða heims og hins vegar allar eignir væru skuldirnar miklu meiri en eignirnar. Þetta er kannski brandari en öll þessi umræða er þannig að við höfum ekki haft mikið gagn af þessum tækjum hvort sem það eru hamrar eða einhver önnur tæki, skrúfstykki o.s.frv. Þetta var útúrdúr.

Þá langar mig að greina frá því að undir lokin hittum við sjálfan de Clercq, sem bauð okkur, og hann flutti yfir okkur ræðu og gaf sér litla stund til að ræða við okkur og raunar hafði einn af hans nánustu samstarfsmönnum, de Lainge, verið með okkur meira og minna og við haft mjög góð tækifæri til að ræða við hann bæði á fundum og utan funda og skýra okkar sjónarmið. Hann flutti ávarp sem mér þótti mjög vinsamlegt í okkar garð, en þó var það svo að í því var a.m.k. ein eða tvær málsgreinar sem ekki féllu mér í geð eða okkur neinum held ég. Það gerðist síðan morguninn eftir, og það var í eina skiptið sem það gerðist, að ræða hans, sem heitir Speaking note og ég er með hér í höndum, frágengið eintak af því, var lagt á okkar borð okkar og var þar um morguninn þegar við komum og þá hafði myndast eyða þar sem féll niður það sem ég held að hafi ekki fallið okkur í geð, en síðan er bætt við skriflegri síðu sem var ekki í upphaflega ávarpinu. Mig langar til að lesa upp í lauslegri þýðingu það sem þar segir og sýnir þann velvilja, að ég vil meta svo, sem nægir okkur til að geta haft mjög vinsamlegt samband við bandalagið og ná þeim samningum sem okkur hentar. Við höfum raunar æðigóða samninga nú þegar eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh. í gær. Þessa skriflegu viðbót verður að líta á að sé hinn endanlegi texti og er ekki merkt sem neitt trúnaðarmál, en í mjög lauslegri þýðingu hljóðar þessi handskrift á þennan veg:

„Í vaxandi fjölbreytni og samkeppni er lífsnauðsyn að við Evrópubúar tökum höndum saman til að viðhalda og auka velmegun þjóðanna. Rödd Vestur-Evrópu á að vera gildandi í heimsmálum. Þetta verður því aðeins unnt að við treystum samstöðuna. Ekkert framlag, sem einstök ríki geta boðið, á að vanmeta. Þetta á einnig við um land ykkar sem er kannski lítið ef miðað er við mannfjölda en er mjög þýðingarmikið vegna legu þess og auðlinda. Í ferð minni til lands ykkar hafði ég tækifæri til að sannfæra mig um evrópsk viðhorf ráðamanna og fólksins. Ykkur finnst augljóslega að þið tilheyrið okkur. Á sama hátt hef ég getað metið jákvæð viðhorf yfirvalda ykkar í samstarfi við EB og EFTA. Loks hef ég á sama hátt skilið að Íslendingar eru opnir fyrir tvíhliða jákvæðum viðræðum, dialogue, við bandalagið. Við fögnum þessari framvindu.“

Þetta er innskotið og síðan eru lokaorð þessarar ræðu á þennan veg, með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu:

„Við aftur á móti viljum skoða sérstaka hagsmuni ykkar lands. Stundum muldrið þið“ - „grumble“ er það á enskunni - „dálítið yfir fiskveiðistefnu EB. En lítið á viðskiptaskýrslurnar. Þið getið ekki með sanngirni rökstutt það sjónarmið að við opnum ekki markað okkar fyrir þessum lífsnauðsynlega útflutningi ykkar lands. Í Reykjavík samþykktum við að opna umræðu aftur [eða dialogue] til að leysa vandamál sem fyrir hendi eru á þann hátt sem báðir aðilar geta sætt sig við. Við erum enn þeirrar skoðunar að þetta sé sú leið sem fara á. Milli félaga eins og við erum getur slík umræða, þar sem hvor aðili um sig getur sett fram skoðanir á sérstökum vandamálum sínum, aðeins orðið jákvæð. Leyf mér að draga saman.

Bandalagið hefur orðið mikilvægur vettvangur evrópskrar sameiningar. Samhliða vill bandalagið í samræmi við venjur sínar færa út samstarfið við félagana í Vestur-Evrópu. Það mun þá skapa margbrotin vandamál á báðar hliðar. Í þessu átaki þarfnast ríkisstjórnir stuðnings þjóða sinna þar sem raddirnar heyrast á þjóðþingum og berast til Evrópuþingsins. Það er verkefni fram undan að því er þetta varðar. Ég er sannfærður um að Alþingi mun sinna jákvæðu hlutverki sínu. Til að það takist þurfum við að hafa samband reglulega. Ég vona innilega að í kjölfar þessarar fyrstu heimsóknar muni fylgja fleiri.“

Þetta voru orð de Clereq.

Ég vil geta þess að önnur aðalröksemd okkar í öllum viðræðum, öllum ræðum sem þar voru fluttar og einkaviðræðum, var sú að við Íslendingar hefðum bæði sögulegan og lagalegan rétt til sérstöðu að því er fiskveiðar varðaði í okkar landhelgi. En svo er mál með vexti að þegar á annarri hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Genf 1960, kom fram sú skoðun að þjóðir sem mjög væru háðar fiskveiðum ættu að hafa sérstök réttindi. Allar götur síðan 1960 höfðu Íslendingar haldið þessu fram og flutt um þetta tillögu og sú tillaga hefur fengið verulegan stuðning. Að vísu var hún felld með naumum meiri hluta, ef ég man rétt 1960, en síðan alltaf haldið áfram, en það að hún var felld þá varð til þess að við greiddum atkvæði á móti skertum 12 mílum, með tíu ára sérréttindum. Hún féll á einu atkvæði. Ef við hefðum verið með og tillaga okkar hefði verið samþykkt og við hefðum greitt atkvæði með 12 mílunum þess vegna, sem voru 6 og 6, þ.e. á ytra belti áttu að vera hefðbundin réttindi í tíu ár væri hugsanlegt að 12 mílurnar hefðu orðið að alþjóðalögum og væru það kannski enn. Svona geta örlögin verið. En það sem ég hygg að allir alþm., þegar þeir hitta erlenda menn og sérstaklega þá sem eru áhrifamenn í Evrópubandalaginu, eigi að hamra á er að við eigum þarna sögulegan rétt allt frá 1960. En ekki bara það. Í uppkasti hafréttarsáttmálans frá upphafi, gegnum alla fundina, sem voru víst 20 og eitthvað, hefur þetta ákvæði, sem heitir íslenska ákvæðið í munni allra þeirra sem á réttarráðstefnunni voru, staðið óskert og enginn reynt að hnika við því. Það er 71. gr. hafréttarsáttmálans, sem er undantekning frá gildi 69. og 70. gr., sem eru greinar sem heimila öðrum ríkjum en strandríkinu sjálfu, því sem efnahagslögsöguna á, ákveðnar veiðar innan þess efnahagslögsögu, en að vísu með ákveðnum takmörkunum. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ákvæði 69. og 70. gr. gilda ekki gagnvart strandríki ef efnahagur þess er í mjög miklum mæli háður hagnýtingu hinna lífrænu auðlinda í sérefnahagslögsögu þess.“

Þetta heitir og hét á hafréttarráðstefnunni alla tíð íslenska ákvæðið og allir vissu hvaða land var átt við. Þessu eigum við auðvitað að halda fram. Það má segja að eftir þrengsta skilningi laga megi vefengja að þetta gildi nú þó að þetta hafi verið sett inn á sínum tíma fyrst 1960 og síðan aftur strax í upphafi hafréttarráðstefnu. En hitt er alveg ljóst, og það viðurkenndu a.m.k. sumir viðmælendur okkar, að ef það væri rétt, sem þeir segðu, að þeir vildu að Ísland gæti notið réttinda í bandalaginu og yrði áfram Evrópuþjóð en yrði ekki hrakið í vesturveg, gætu þeir a.m.k. notað þessi rök gagnvart þeim sem kynnu að gagnrýna þá fyrir að láta okkur njóta þeirra sérréttinda að engar fiskveiðakröfur yrðu gerðar á okkar hendur. Þeir viðurkenndu að auðvitað væru þetta rök. Þess vegna get ég þessa hér að allir hér inni, sem hafa meira og minna einhver samskipti við erlenda menn, bein og óbein, noti þessi rök, þessi sérréttindi okkar sem allar þjóðir heims, allar þjóðir á hafréttarráðstefnunni nema þær sex sem greiddu atkvæði á móti samþykktu og enginn gerði tilraun til að hrófla við þó að allir vissu við hvaða land væri átt.

Í framhaldi af þessu, og skal ég nú ljúka máli mínu, herra forseti, fagna ég þeim kafla sem fjallar um Evrópubandalagið í skýrslu hæstv. utanrrh. og einkum og sér í lagi umræðunum sem hann átti einmitt við de Clercq og reyndar líka um samskipti EFTA og Efnahagsbandalagsins. Ég veit að hæstv. ráðherra beitti sömu rökum og við gerðum og ég efa ekki að heimsókn hans til Evrópubandalagsins muni bera árangur og hafi verið til mikils gagns.

En niðurstaðan er þessi: Auðvitað störfum við áfram innan EFTA og reynum að koma málum þar fram, og þá fyrst og fremst fríverslun með fiskafurðir, og erum að vinna að því. En við höldum líka áfram beinum viðræðum við Evrópubandalagið og notum öll tækifæri til að túlka okkar málstað. Nú hefur það gerst fyrir nokkrum dögum að sú nefnd sem ég vitnaði til áðan, þ.e. nefndin sem hefur með að gera sérstaklega Norðurlöndin, mun koma til Íslands á næsta sumri. Það kom til greina að henni yrði boðið strax í fyrra. Ég taldi það allt of mikið óðagot og við þyrftum ekki að láta líta svo út að við værum alveg í öngum okkar út af því sem væri að gerast. Þvert á móti lögðum við áherslu á að við fögnuðum því mjög ef Evrópa gæti sameinast í sterka efnahagsheild. En auðvitað ber að endurgjalda boð til okkar og svo vel vill til að ég hygg að það muni vera ákveðið að þessi þingmannanefnd komi hingað í sumar. Ég veit að utanrrn. og starfsmenn þess halda stöðugu sambandi við bandalagið, afla þar upplýsinga og kynna okkar sjónarmið. Það er eitt af meginverkefnum þings og þjóðar á næstunni að tryggja þessi réttindi, að við losnum ekki úr tengslum við okkar nánustu viðskiptavini og nágrannaþjóðir heldur höldum þannig á málum að við getum með fullri reisn haldið öllum þeim réttindum sem við höfum hingað til talið helgust. Um það erum við öll sammála.