26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5003 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

294. mál, utanríkismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í upphafi máls míns að þakka hæstv. utanrrh. sérstaklega fyrir að leggja þessa skýrslu svona snemma fyrir þingið þannig að hér sé unnt að taka til umræðu utanríkismál í framhaldi af skýrslu hæstv. ráðherra í góðu tómi og gefa sér sæmilegan tíma til að fara yfir þau mál. Það hefur allt of oft viljað brenna við að þau mál hafa lent á hálfgerðum hrakhólum og verið rædd í tímaskorti undir þinglausnir að vori. Það er að sjálfsögðu miklu betri háttur og eftirbreytniverður að reyna að koma þessari skýrslu saman sæmilega snemma vetrar og gefa sér nægan tíma til að fjalla um hana.

Ég ætla aðallega að ræða þetta efni út frá skýrslunni eins og eðlilegt er og raða máli mínu nokkurn veginn í sömu röð og þar er gert, en ætla þó að byrja á kaflanum sem ég byrja oftast á að fletta upp á í þessum skýrslum og fjallar um herinn og umsvif hans hér í landinu. Ég sagði víst í fyrirspurnatíma í gærmorgun, hæstv. forseti, að mér þætti sem þíðublærinn, „glasnostið“ eða „perestrojkan“ eða hvað það nú er í skýrslunni færi minnkandi eftir því sem nær drægi hinu heilaga, sem er herinn og dvöl hans hér í landinu og umsvif, og þar bæri meira á kunnuglegu orðalagi frá fyrri tíð en víða annars staðar í skýrslunni. Því miður er þetta svo. Það er eins og hæstv. núv. utanrrh., sem hefur víða góða tilburði til að tala um málin og horfa á þau, að því er virðist, eða skoða frá frjálslyndissjónarmiði og í samræmi við þá þíðustrauma sem núna fara víða um lönd og álfur, verði dálítið feiminn þegar kemur nær herstöðinni. Það er líklega skiljanlegt út af fyrir sig því að hæstv. ráðherra er ekki einn í ríkisstjórn og í öðru lagi var hæstv. ráðherra einnig forsrh. í fjögur ár og þá gerðust ýmsir atburðir í þessari herstöð sem enn er ekki búið að gleyma. Þar er brugðið á þetta kunnuglega orðalag að tala um varnarhlutverkið og varnarstöðina og hér sé eftirlit og í raun og veru er orðalagið svipað því og menn væru að fjalla um einhverja fámenna björgunarsveit skáta einhvers staðar norður í landi sem væri að dunda við að æfa sig og tala í labb-rabb tæki og eitthvað svoleiðis og þetta sé allt ósköp saklaust.

En hvernig er þetta nú, hæstv. utanrrh., til að mynda með radarstöðvarnar og stjórnstöðina sem ráðherrann talar um að séu eftirlitstæki sem geti engan skaðað og allir hljóti að eiga að fagna og séu ekki á nokkurn hátt tengd hernaði eða stríði, ekki frekar en labb-rabb tæki björgunarsveitanna eða hvað. Við skulum aðeins fara yfir það hvernig þessar radarstöðvar og annar radarkerfisvígbúnaður Bandaríkjanna á norðurslóðum tengist yfirstjórn þeirra herafla og þó að Íslendingar vinni við að halda þessum stöðvum gangandi og þó að Póstur og sími flytji merkin vestan af Stigahlíð eða norðan af Gunnólfsvíkurfjalli til Keflavíkur stoppa merkin ekki þar. Hæstv. ráðherra veit væntanlega að þó að það sé unnið úr þeim að einhverju leyti í stjórnstöðinni halda merkin áfram því að öllum radarmerkjum af keðjunni er safnað saman og þau send áleiðis gegnum langdrægt fjarskiptakerfi Bandaríkjahers til höfuðstöðva kjarnorkuheraflans hjá því herveldi.

Þetta er þannig, og ég ætla að lesa þetta aðeins fyrir ráðherrann því að hann hefur gott af því að heyra þetta ef hann hefur ekki kynnt þetta þegar, að ratsjárstöðvarnar, sem hér hafa verið starfræktar og þær sem verið er að byggja og endurnýjun í hinum tveimur, í Rockville og Stokksnesi, eru austasti hluti svokallaðrar DEW-línu. Þetta stendur fyrir Distant Early Warning System. Þetta kerfi radarstöðva var sett upp á 6. áratugnum og það nær allt frá Point Bay nyrst og vestast í Alaska yfir þvert og endilangt Kanada og Grænland og um Ísland. Upplýsingar þær sem þetta kerfi aflar, allt þetta kerfi, þar með talið radarstöðvarnar á Íslandi, eru sendar til höfuðstöðva NORD, sem er skammstöfun fyrir North American Air Defense System í Cheyenne-fjalli í Colorado Springs og þar er unnið úr þessum boðum. Þetta er ákveðinn nafli í allri yfirstjórn bandarísks herafla, þ.e. þessi miðstöð sem er víst að hluta til neðanjarðar í fjallinu Cheyenne í Colorado Springs.

Síðan eru þessi boð send áfram enn lengra og til höfuðstöðva yfirstjórnar strategísks herafla bandaríska flughersins, hvorki meira né minna, sem er skammstafað SAC, Strategic Air Command, í Nebraska. Þetta er önnur æðsta stjórnstöð alls Bandaríkjahers. Það yrði úr þessari stöð SAC, yfirstjórnar strategísks herafla bandaríska flughersins, sem hugsanlegri kjarnorkustyrjöld Bandaríkjamanna við Sovétríkin yrði stjórnað. Þar yrðu ákveðin skotmörk bandarískra kjarnorkuvopna, m.a. á grundvelli þeirra upplýsinga sem DEW-línan aflar, hæstv. utanrrh. Ég get lesið áfram og frætt hæstv. ráðherra meira um hvernig boðin frá þessum kerfum ganga beina boðleið inn í höfuðstöðvar bandarísks herafla, þar á meðal yfirherstjórnar bandaríska flughersins í Nebraska sem ákveður skotmörk í kjarnorkustyrjöldum og metur á hverjum tíma hvernig á að beita bandaríska kjarnorkuheraflanum.

Síðan má enn rekja tengingu radarstöðvanna hér við evrópska radarstöðvakerfið og breska kerfið og það kerfi sem skammstafað er NADS og teygir sig alla leið frá Norður-Noregi suður til Tyrklands. Öll þessi mikla radarstöðvakeðja, sem meira og minna umlykur Sovétríkin vel að merkja, er tengd með einum eða öðrum hætti og boðin úr þessum radarstöðvum verða ekki undan dregin allri starfsemi þessa samtengda nets og yfirherstjórnarinnar sjálfrar. Það er óskaplegur barnaskapur að fjalla um þessar radarstöðvar sem eitthvert séríslenskt fyrirbrigði sem hafi verið sett upp bara til að fylgjast með einhverjum pínulitlum bletti hnattarins á Íslandi og komi engu öðru við. Það er óskaplegur misskilningur. Þetta er hluti af miklu stærra kerfi, tengt því og er hlekkur í keðju sem er eitt af því mikilvægasta í allri stjórnun herafla og mati á aðstæðum á hverjum tíma á átakatímum.

Ef hins vegar hæstv. utanrrh. vill koma hlutunum þannig fyrir að hann geti talað um radarstöðvarnar eins og hann gerði í gær, þá er til leið til þess. Þess vegna ætla ég að spyrja hæstv. utanrrh.: Er hann að segja að hann sé tilbúinn til þess að klippa á allt samband radarmerkjanna héðan úr íslenska kerfinu við umheiminn, þ.e. sjá til þess að þeim upplýsingum sem hér er aflað að nafninu til í þágu varna Íslands sé ekki dreift víðar þannig að við getum með fullum rétti sagt við hvern og einn: Við erum eingöngu að afla þessara upplýsinga fyrir Ísland og næsta nágrenni og við sjáum til þess og getum tryggt að þær upplýsingar fari ekki víðar, verði ekki notaðar af öðrum en okkur sjálfum og ekki í þágu annarra en okkar sjálfra. Það mundi breyta heilmiklu um eðli þessara stöðva og líka því hvernig ég lít á þær.

Spurningin er síðan, sem er auðvitað svo margrædd að það er kannski ekki ástæða til að hafa um það allt of mörg orð hér, hvort þetta sé varnarstöð, eftirlitsstöð eða árásarstöð. Ég veit ekki hvort ég legg út í þá umræðu núna. Það eru hins vegar til einfaldar leiðir til að sjá til þess að stöðvarnar séu ekki nema eftirlitsstöðvar og varnarstöðvar. Þær eru ekki nýttar. Ég ætla að minna hæstv. utanrrh. á það sem Spánverjar eru að gera þessa dagana. Hvað eru þeir að gera? Þeir eru að reka af höndum sér ákveðin bandarísk árásartæki í sínu landi, F-15 orustuþotur, sem er sama tegund flugvéla og komu hingað í forsætisráðherratíð hæstv. núv. utanrrh. Hvers vegna gera Spánverjar þetta? Vegna þess að þeir vilja ekki ögrandi árásartæki í sínu landi. Þeir hafa lýst því yfir. Þeir vilja takmarka umsvif bandaríska hersins, losna við hann eins og fleiri, helst, a.m.k. meiri hluti spænsku þjóðarinnar, og eitt það fyrsta sem þeir benda á eru F-15 orustuþoturnar. Hvers vegna? Vegna þess að þetta eru öflugustu flugvélar bandaríska flughersins. Þær eru búnar öflugustu ratsjánum, þær eru langdrægastar allra sprengjuflugvéla með orustuþotueiginleika sem geta borið kjarnorkuvopn. Veit hæstv. utanrrh. að F-15 orustuþoturnar geta farið í 5400 km langa árásarferð án þess að taka eldsneyti? Þær geta varpað sprengjum á Mílanó, þær geta varpað sprengjum á Leningrad og komið heim aftur án þess að taka eldsneyti. Þær geta borið a.m.k. tvær tegundir skammdrægra stýriflauga með kjarnorkuoddum. Ætla menn að segja að þessar vélar séu ekki árásartæki? Eru þær varnartæki eins og eitthvert batterí sem er steypt niður fast á landi? Auðvitað ekki. Það var grundvallarbreyting á árásargetu búnaðarins hér á Íslandi við komu F-I5 vélanna. Ef hæstv. utanrrh. vill vera sjálfum sér samkvæmur á hann að leggja til að þessar vélar fari héðan og í staðinn komi einhverjar skammdrægari vélar sem geta þjónað nákvæmlega sama varnarhlutverki en hafa ekki möguleika á því að fara í árásarferðir á fjarlægar heimsálfur. Veit hæstv. utanrrh. að það munar mjög litlu, nokkur hundruð km að íslensku F-15 orustuþoturnar hefðu getað gert sprengjuárásina á Trípólí í Lýbíu? Það munaði litlu. Ef KC-135 eldsneytistankvélin hefði fylgt þeim svolítið áleiðis suður í Atlantshafið og bætt þar á þær eldsneyti hefðu þær getað gert þessa árás einar og óstuddar. Þannig tæki eru hérna á Íslandi. Við skulum horfast í augu við það. Og ég hlusta ekki á röfl menntaðra manna, ég tala nú ekki um verkfræðinga, eins og hæstv. utanrrh. er, þegar menn hafa svona staðreyndir á borðinu. Það þýðir ekkert að neita því að þessi árásarflugsveit hér, sem getur geymt vélarnar sínar í sprengjuheldum flugskýlum og hefur tankvél á staðnum til að fylgja þeim áleiðis, er árásarflugsveit. Allir hljóta að líta þannig á, bæði við og ég tala nú ekki um einhverjir hugsanlegir óvinir okkar. Ég bið hæstv. utanrrh., vel menntaðan og ágætlega gefinn manninn, að hlífa mér við blaðri um varnarhlutverk þessara véla.

Hæstv. ráðherra getur auðvitað gert fleira ef hann vill reisa þá stefnu sína að hér sé ekki árásarstöð. Hann getur látið AWACS-þoturnar fara því þær eru stjórnstöð í kjarnorkuátökum. Það er viðurkennt. Ég get lánað hæstv. utanrrh. handbækur um stríðstól þar sem þessar vélar eru skilgreindar þannig. Hæstv. utanrrh. getur t.d. með einu einföldu skilyrði breytt miklu um eðli útbúnaðarins sem hér er. Ef hæstv. ráðherra má vera að því að hlusta á það ætla ég að útskýra það fyrir honum. Hæstv. ráðherra getur farið til yfirstjórnar bandarísku herstöðvarinnar hér og sagt: Ég fer fram á það í nafni íslensku þjóðarinnar að þær Orion PC-3 vélar sem eru hér á Íslandi séu af þeirri gerð sem ekki getur borið kjarnorkuvopn. Það er nefnilega þannig, hæstv. ráðherra, að Orion-vélar eru af tveimur mismunandi gerðum. Önnur gerðin og sú eldri er þannig útbúin að hún er ekki ætluð til að varpa kjarnorkuvopnum. Hin gerðin, sú nýrri, þar á meðal hollenska vélin sem hér kom í forsætisráðherratíð hæstv. núv. utanrrh., getur borið kjarnorkuvopn, þ.e. hún er þannig úr garði gerð, öryggiskerfið í vélinni er þannig hannað og áhöfn og stjórn vélarinnar er þannig að hún fellur undir þann hluta heraflans sem má og getur meðhöndlað kjarnorkuvopn. Er hæstv. utanrrh. reiðubúinn að kanna þetta mál samkvæmt minni ósk? Ætlar hæstv. utanrrh. að beita sér fyrir því að það verði athugað hvort unnt er að fá því framgengt og tryggja það að hér verði ekki aðrar kafbátaeftirlitsleitarvélar en þær sem ekki hafa mannafla og búnað og eru ekki ætlaðar til að bera kjarnorkuvopn? Við vitum að það hafa verið áætlanir uppi um annað og það biðu 48 kjarnorkudjúpsprengjur tilbúnar í Skotlandi viðbúnar því að fara til Íslands ef kallið kæmi. Þannig getur hæstv. utanrrh., ef hann vill gera alvöru úr tali sínu um varnar- og eftirlitsstöð, gripið til ýmissa þeirra ráðstafana sem sýna að honum er alvara. Þær eru miklu betri, hæstv. ráðherra, og það er meiri reisn yfir því en falleg orð þó að ég sé út af fyrir sig ekki að lasta þau.

Ég vil taka fyrir annað, herra forseti, sem ég hef reyndar rætt áður, og það er svonefnd ratsjárstofnun og fjallað er um í þessari skýrslu. Það verð ég að segja að mikið vorkenndi ég líka hæstv. utanrrh. þegar hann vék að því fyrirbrigði, þessari ratsjárstofnun. Það er verið að snúa því upp í eitthvert sjálfstæðis- og stoltsefni að það sé verið að búa til þessa íslensku ratsjárstofnun til að sjá um reksturinn á þessum hernaðarmannvirkjum. Hvers vegna í ósköpunum? Hvar eru sjálfstæðismennirnir þegar þessa ratsjárstofnun ber á góma? Voru það ekki þeir sem höfðu einu sinni þá stefnu að það ætti ekki að blanda saman vörnunum, eins og þeir kalla það, og viðskiptahagsmunum, peningum, það mætti ekki, það væri hættulegt? Þar með væru menn í raun og veru að grauta saman tvennu ólíku og menn mundu glata sjálfstæði sínu hvort á sínu sviðinu. En hvað er ratsjárstofnun, þetta aumlega fyrirbrigði? Það er nafn á deild sem tekur við peningum frá bandaríska hernum til að borga fyrir rekstur hernaðarmannvirkja. Menn muna hvernig ratsjárstofnunin er meðhöndluð í íslensku fjárlögunum, er það ekki? Það eru víst 385 millj. kr. tekjur frá bandaríska hernum og útgjöld upp á 385 millj. kr. á móti. Framlag Íslendinga til rekstrar þessarar miklu stofnunar er núll krónur. Það er svo mikið sem hún kemur okkur við, hv. formaður utanrmn. Þetta er ekki stoltsefni, þetta er ekki til að gleðjast yfir, að vera að þvæla þannig saman bandarískum hernaðarhagsmunum og rekstri hernaðarkerfisins og íslenskum stofnunum. Þetta er auðvitað dulbúin „aronska“ af verstu tegund og mun smátt og smátt leiða til þess, ef svo heldur sem horfir, að þó að þeir tímar komi að allir vilji herinn burt, ekki bara við sem höfum barist fyrir því, verður það hið versta mál að komast út úr því, því önnur hver stofnun í landinu er meira og minna komin á mála hjá þessum her. Og það verða fleiri en ratsjárstofnun. Póstur og sími fer á næstu árum að hafa umtalsverðar sértekjur af því að þjónusta bandaríska herinn í landinu, flytja radarmerkin milli landshluta o.s.frv. Halda menn að þegar þetta bætist við það hermang sem fyrir er og heldur Sambandinu gangandi og helstu forkólfum Sjálfstfl. að það auðveldi að koma hernum burt? Nei, það geta allir væntanlega skilið. Ég bið hæstv. utanrrh. að íhuga þetta ofurlítið betur ef hann er þá ekki kominn á þá skoðun að þessi her muni verða hér um aldur og ævi og það sé allt í lagi þó hér gerist ýmislegt í tengslum við dvöl hans sem ankeri hann þannig niður að hann verði enn fastari við íslenska berggrunninn en flugstöðin, og er hún þó vel njörvuð niður að sögn.

Ég ætla að hlaupa svo yfir það sem eftir er af þessum kafla um varnarliðið, nema ég ætla að nefna þennan „yfir sjóndeildarhringinn“ radar sem reyndar hefur nokkuð borið á góma. Ég fagna þeim ummælum sem hæstv. utanrrh. mun hafa haft um hann í gær. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur en hef fengið fregnir af því.

En vegna þess að þau mál hafa greinilega verið komin lengra en flestir gerðu sér grein fyrir ætla ég að gefa hæstv. utanrrh. ákveðnar upplýsingar sem ég hef undir höndum um þetta fyrirbrigði þar sem það kemur fram á ekki fleiri en þremur stöðum að nafn Íslands og uppbygging íslenska radarkerfisins er nefnt í sömu andrá og OTH-radarstöð, svonefnd „relocateable“ eða færanleg radarstöð bandaríska sjóhersins sem á að geta séð yfir sjóndeildarhringinn. Ég ætla líka að gefa honum innsýn í skýrslu þar sem fjallað er um OTH-radarstöðvauppbyggingu flughersins. Þar fékk ég yfirheyrslu bandarísks herforingja fyrir bandarískri þingnefnd. Ég hef oft áður skoðað slíka pappíra og er þeim býsna kunnugur eins og sumir hv. þm. e.t.v. vita, en ég hef aldrei fengið í hendur pappír með jafnmörgum eyðum. Ég hef aldrei skoðað plagg um jafnháhernaðarlegan og leyndardómsfullan hlut og þennan OTH-radar. Það eru í annarri hverri línu langar útstrokanir og eyður. Svo óskaplega leynt verður þetta að fara allt saman. Það eru þessir hlutir sem greinilega hafa verið uppi áætlanir um að setja niður á Íslandi.

Við könnumst við þessar áætlanir bandaríska hersins. Hæstv. fyrrv. utanrrh. Geir Hallgrímsson sagði einu sinni: „Þeir eru alltaf að gera svona áætlanir“ þegar hann var spurður út í áætlanir um að flytja hingað kjarnorkuvopn á ófriðartímum eða spennutímum. Þá sagði hæstv. ráðherrann fyrrv.: Þeir eru alltaf að gera einhverjar áætlanir. Þetta er náttúrlega ein af þessum áætlunum sem þeir eru alltaf að gera þarna fyrir vestan að reisa hérna risaradar. En ég ætla þá að spyrja hæstv. utanrrh.: Ætlar hann ekki að kanna hvort það hafi verið gerðar að Íslendingum forspurðum áætlanir um að setja hér upp risaradar? Og ætlar hann ekki að koma þeim skilaboðum á framfæri við bandarísk stjórnvöld að þau geti hætt að gera slíkar áætlanir því það standi ekki til af hálfu íslenskra stjórnvalda að leyfa slíkt mannvirki hér? Ég mundi fagna því mjög ef hæstv. utanrrh. gæti eftir nokkrar vikur upplýst þingið og þjóðina um að hann hefði komið alveg skýrum skilaboðum á framfæri við bandarísk stjórnvöld: Þið getið gleymt því strákar að vera að bollaleggja um þennan risaradar. Hann verður ekki byggður á Íslandi.

Ég mun þegar ég lýk máli mínu, herra forseti, afhenda hæstv. utanrrh. þessi gögn, sem ég hef undir höndum, ef honum eða einhverjum starfsmönnum hans kynni að vera í því eitthvert nýnæmi að fá þau í hendur.

Ég vil í þriðja lagi nefna möguleikana á kjarnorkufriðlýsingu Íslands og íslenskrar lögsögu. Auðvitað er maður þar fyrst og fremst með í huga hið pólitíska gildi og þetta sem framlag í þágu friðar í heiminum, en ég get ekki neitað því að á síðari árum hefur mér í raun þótt þessi möguleiki ekki síður spennandi sem aðferð til að reyna að firra okkur sjálfa þeirri ógn og vá sem stafar af nærveru kjarnorkuvopna og kjarnorkuknúinna farartækja við landið.

Í frv. til laga, sem ég hef flutt ásamt með hv. þm. Kristínu Einarsdóttur, eru ákvæði um að banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja eins og þar segir í 10. gr., með leyfi forseta:

„Sérhverju því farartæki sem að einhverju eða öllu leyti er knúið kjarnorku er bannað að koma inn á hið friðlýsta svæði.“ Hið friðlýsta svæði er til skilgreiningar fyrir hv. þm. íslenska landhelgin og lofthelgin, íslenska efnahagslögsagan og landgrunnið eftir því sem ýtrasti þjóðaréttur og fullveldisréttur okkar gefur tilefni og heimildir til.

Í 11. gr. er með svohljóðandi hætti fjallað um kjarnorkuúrgang og kjarnakleyf efni: „Öll umferð farartækja sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang er bönnuð innan hins friðlýsta svæðis. [Sbr. þá ákvæði 12. gr.] Losun kjarnorkuúrgangs eða annarra geislavirkra efna, hvort sem þau teljast hágeislavirk eða lággeislavirk, þar með taldir geislavirkir vökvar, er með öllu óheimil innan hins friðlýsta svæðis.“

Þetta eru að vísu greinar í stærra frv. sem gerir ráð fyrir friðlýsingu landsins með mjög víðtækum hætti fyrir bæði kjarnorku- og eiturefnavopnum, en ég vil segja það hér að ef um það gæti skapast samstaða í hv. utanrmn. að draga út úr frv. þessar greinar eða sambærileg ákvæði og flytja um það till. eða frv. sérstaklega er ég að sjálfsögðu tilbúinn til þess og mundi fagna því þó afgreiðsla frv. að öðru leyti kynni að bíða betri tíma.

Ég spyr hæstv. utanrrh.: Er hann tilbúinn til að láta kanna það og beita sér e.t.v. fyrir því að það verði gerð á því könnun hvaða möguleika við Íslendingar höfum, burt séð frá kjarnorkufriðlýsingu að öðru leyti, að takmarka með lagasetningu umferð kjarnorkuknúinna farartækja og flutning kjarnakleyfra efna og losun kjarnaúrgangs á okkar áhrifasvæði? Er t.d. hæstv. utanrrh. tilbúinn að láta kanna þó ekki væri nema afdráttarlausa friðlýsingu 12 mílna landhelginnar og lofthelginnar í þessu sambandi?

Menn kunna nú að koma upp unnvörpum og segja: Já, en hvernig á að hafa með þessu eftirlit? Þýðir nokkuð að setja svona lög nema unnt sé að tryggja framkvæmd þeirra o.s.frv.? En í mínum huga er það ekki réttlæting eða afsökun fyrir því að hafast ekki að í þessum málum þó menn kunni að telja okkur nokkuð vanmegnuga þess að tryggja framkvæmdina með ýtrasta hætti þegar í upphafi.

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh., þó með þeim fyrirvara að það kann að hafa komið eitthvað fram í umræðunni í gærkvöld, þeim hluta hennar sem ég náði ekki að fylgjast með, hver afstaða Íslands verður og hvort hún muni koma fram með skýrum hætti á t.a.m. leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel eftir fáeina daga, þ.e. afstaða Íslands gagnvart þeim hugmyndum sem uppi eru innan Atlantshafsbandalagsins um viðbrögð við fækkun meðaldrægra eldflauga í Evrópu.

Það hafa komið um það upplýsingar að innan NATO, bæði hjá einstökum aðildarríkjum og í klúbbnum sem slíkum, séu menn með alls konar vangaveltur um að friðurinn þoli ekki að þessum vopnum fækki svona mikið og það verði að koma upp einhverjum vopnum á móti einhvers staðar annars staðar. Í því sambandi hafa verið nefnd bæði skammdræg vopn og vígvallarvopn, stýriflaugar í kafbátum og skipum og sprengjuflugvélar, aukinn fjöldi þessara tegunda vopna. Mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. utanrrh. hafi uppi alveg skýra afstöðu Íslands í þessum efnum, að við viljum að sjálfsögðu að um raunverulega fækkun verði að ræða og að vopnunum verði ekki hlaðið niður einhvers staðar annars staðar í staðinn. Ég held að það sé gott að hæstv. utanrrh. fjalli rækilega um þetta við þessa umræðu og hafi helst stuðning Alþingis að baki sér þegar hann ásamt með hæstv. forsrh. heldur til Brussel á næstunni.

Ég veit að það stendur varla á talsmönnum flokkanna á Alþingi að lýsa stuðningi sínum við hæstv. utanrrh. verði afstaða hans á þá lund, sem ég tel að mest samstaða hljóti að vera um hér, að það komi auðvitað ekki til greina að setja upp kjarnorkuvopn í staðinn fyrir þau sem nú á að taka niður einhvers staðar annars staðar.

Ég vil víkja örlítið að Suður-Afríku þó það mál hafi verið rætt hér áður, bæði í fyrirspurnatíma og víðar, og sé til umfjöllunar í hv. utanrmn. Ég vil fyrst og fremst minna á að ástandið þar virðist nú því miður fara versnandi og þær horfur sem voru á því að friðsamleg andstaða kynni að fá einhverju áorkað, kynni að knýja einhverja breytingu fram, virðast nú vera að hverfa, verða að engu vegna harkalegra viðbragða stjórnvalda sem nýverið bönnuðu starfsemi flestallra almannasamtaka og félagasamtaka blökkumanna sem að mati fróðra manna og þar á meðal framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna munu því miður líklega hafa þau áhrif að menn gefist upp og hverfi unnvörpum frá því að reyna að beita friðsamlegri andstöðu við kynþáttaaðskilnaðarstefnuna til að knýja fram á henni breytingar.

Ég tel að þessir síðustu atburðir séu mjög alvarlegir og allt bendi til þess að því miður fari ástandið í Suður-Afríku versnandi en ekki batnandi og því sé enn meiri þörf fyrir samstöðu meðal þjóða heimsins um að berjast gegn þessari stefnu og knýja fram á henni breytingar. Sú aðferð sem hefur orðið fyrir valinu á alþjóðavettvangi, meðal Norðurlandaþjóða, hjá Sameinuðu þjóðunum og yfirleitt annars staðar þar sem þessi mál eru til umfjöllunar er að beita viðskiptaþvingunum. Menn kunna að hafa efasemdir og mismunandi skoðanir á ágæti þeirrar aðferðar og ég get alveg hlustað á slík rök, en það breytir ekki hinu, að menn hafa ekki fundið aðrar vænlegri leiðir. Það er ekki vegna þess að menn hafi ekki hugsað um þessi mál eða leitað eða skrifað þykkar skýrslur. Ég vil því enn hvetja hæstv. utanrrh. með tilvísun til nýjustu atburða til að láta virkilega á það reyna innan ríkisstjórnar og hér á Alþingi hvort ekki sé hægt að skapa samstöðu um viðskiptabann á Suður-Afríku. Ekki vegna þess að viðskipti Íslendinga við þá þjóð eða það land skipti sköpum fyrir okkur eða þá, heldur er hér á ferðinni spurning um siðferðislega afstöðu og þátttöku okkar í aðgerðum ásamt með öðrum þjóðum.

Af því að hæstv. fjmrh. hefur verið hér á flökti, hæstv. forseti, ætla ég að snúa máli mínu næst að honum lítillega og Efnahagsbandalagi Evrópu eða Evrópubandalaginu.

Það gladdi mig að sjálfsögðu að sjá hæstv. fjmrh. hér. Ég hef m.a.s. grun um að hann gæti hugsað sér að taka til máls í umræðunni hér á eftir vegna þess að orði hefur verið vikið að hæstv. fjmrh. í þessari umræðu af tilefni sem allir þekkja.

Ég ætla að vísu ekki að bæta miklu við í dómum um þau ummæli sem hæstv. fjmrh. viðhafði úti í Stokkhólmi á dögunum um framtíðina og sambúð okkar Íslendinga við Evrópubandalagið. Svo fáránleg sem þau voru þá dæma þau sig auðvitað best sjálf. Mér skilst auk þess að hv. þm. Kjartan Jóhannsson, meðlimur í utanrmn. og fyrrv. formaður Alþfl. og 4. þm. Reykn., hvorki meira né minna, hafi afgreitt þetta nokkuð snyrtilega í gær og einnig á forsíðu Alþýðublaðsins í morgun. Það er auðvitað miklu betra að sá hv. þm. afgreiði þennan flokksbróður sinn en að aðrir óviðkomandi heimilinu séu að skipta sér af þeim dellum eða blanda sér í þau efni. Ég get þó ekki annað en sagt að mér finnst í raun alveg furðulegur sá angurgapaháttur sem einkennir framkomu ráðherra í ríkisstjórn landsins með þessum hætti. Það er svo með ólíkindum að mínu mati að hæstv. ráðherrar skuli kunna við það á erlendri grund, ég tala nú ekki um ósköpin, að fjalla um viðkvæm málefni okkar og hagsmunamál með slíku ábyrgðarleysi að maður veit ekki almennilega hvaða lýsingarorð á að viðhafa í því sambandi.

Ég minni á að það hefur ekki verið minnst gæfa íslensku þjóðarinnar að menn hafa reynt að standa sæmilega saman um réttindamál sín út á við í þessum efnum. Það hefur oft tekist, t.a.m. í landhelgismálunum og mörg önnur dæmi má nefna. En halda menn að svona angurgapaháttur sé til þess fallinn að hjálpa upp á í þeim sökum? Ég held ekki. Þegar svo kemur í ljós að þessi ummæli eru einhverjar persónulegar fullyrðingar út í bláinn sem hafa engan stuðning ríkisstjórnarinnar, hafa ekki verið rædd þar og að því er manni skilst ekki einu sinni rædd í flokki hæstv. fjmrh., þá spyr maður auðvitað að því hvernig þetta var. Gekk hæstv. ráðherra á múrvegg einhvers staðar í Svíaríki og hljóp svo í ræðustólinn eða hvað skeði eiginlega? Það liggur við að maður álykti sem svo að það hljóti eitthvað að hafa komið fyrir manninn áður en hann fór þarna í ræðustólinn. Hv. síðasti ræðumaður var með þá tilgátu, sem var út af fyrir sig skemmtileg, að tungumálaerfiðleikar hefðu valdið því að hæstv. ráðherra hefði misskilist, honum hefði orðið fótaskortur á sænskunni. Ég veit ekkert um hvernig hæstv. fjmrh. er að sér í sænsku. (Gripið fram í: Hann er nokkuð góður í sænsku.) En eitthvað hefur farið úrskeiðis. Það eru alveg hreinar linur. Eitthvað hefur skolast til skulum við að minnsta kosti vona. (Gripið fram í: Hann hefur séð stjörnur.) Það væri e.t.v. ekki ástæða til að hafa fleiri orð um þessi fáránlegu ummæli hæstv. fjmrh. sem eru ömurlegt og niðurlægjandi sambland af „aronsku“ og heimsku því þetta gengur ekki upp. Hverjum lifandi manni dettur í hug að Evrópuþjóðirnar, sem reyna að ríghalda í þátttöku Bandaríkjamanna í vörnum meginlands Evrópu, séu á næsta leiti með að fara að borga stórfúlgur fyrir að fá að koma með her hingað til Íslands eða að taka þátt í vörnum hér? Síðan eru menn að tala um þetta í samhengi við hinn stóra evrópska markað og það að Evrópubandalagið verði innan tíðar bandalag allra Evrópuþjóða. Þá verður málið enn vitlausara því að þar með gengju hlutlausu þjóðirnar inn í Evrópubandalagið. Halda menn að það mundi auka möguleikana á því að þetta yrði að einhverju varnarbandalagi? Auðvitað ekki. Halda menn að Austurríkismenn eða jafnvel Svíar eða Svisslendingar, hlutlausar þjóðir, væru mjög spenntar fyrir því að gera Evrópubandalagið að einhverjum herklúbbi? Evrópubandalagið er þegar klofið í þeim efnum og á ekki samleið. Allar þjóðirnar eiga þar ekki samleið. Þetta er einhver sú mesta hugsanaskekkja og meinloka sem maður hefur lengi séð, þessi fluga sem fór þarna út úr höfðinu á hæstv. fjmrh.

En eitt að lokum um þetta mál sem mér finnst rétt að leggja hér áherslu á af því að menn eru sýknt og hellagt að blaðra hér, liggur mér við að segja, um samskipti okkar við Evrópubandalagið: Það fer í taugarnar á mér að hálf þjóðin virðist vera komin með þetta á heilann. Hvernig halda menn að samningsstaða okkar verði þá og þegar, ef við þurfum að fara að ræða í einhverri alvöru við Evrópubandalagið, ef menn eru alltaf að lýsa því yfir að við eigum ekki neinn annan kost en að ganga inn í það og það sé bara tímaspursmál hvenær við verðum að lúta höfði og skríða inn í Evrópubandalagið? Halda menn að það sé þannig sem við komum til með að semja sterkir við þá skilmála ef til kemur? Auðvitað er um vítavert tal að ræða hjá hæstv. fjmrh. og öðrum slíkum vegna þess að þetta grefur undan þeirri stöðu sem við höfum og er ágæt, en það er auðvitað hægt að mylja hana niður ef menn halda áfram sýknt og heilagt bæði innan lands og erlendis að röfla um að við séum í einhverri úlfakreppu og munum ekki innan tíðar eiga neinn annan kost en koma skríðandi á hnjánum og biðja um inngöngu og opna þá landhelgina eða guð má vita hvað. Svona hegða menn sér ekki ef þeir hafa hundsvit á því hvernig á að standa að samningum og verja sína hagsmuni. Þetta þættu ekki beysin vinnubrögð í kjarasamningum og má þó ýmislegt um það segja sem þar gengur á. Það er verst þetta rugl, bæði í hæstv. fjmrh. og öðrum slíkum, vegna þess að það veikir okkar stöðu í þessum efnum og menn eiga fram í rauðan dauðann, ef svo fer, að halda því fram að þetta sé í góðu lagi, við höfum sterka stöðu og það sé ekkert sem knýi okkur til að ganga inn í þetta Evrópubandalag. Við eigum að slá fram öðrum möguleikum á móti, segja sem svo: Við getum nú kannað hvort við með Grænlendingum og Færeyingum og jafnvel fleirum getum ekki myndað ákveðna blokk hérna sem getur staðið sjálfstæð og samið bæði í austur og vestur. Þetta gæti orðið mjög hagstætt fyrir okkur og alla aðila í staðinn fyrir þetta eymdarinnar tal. En nóg um það. Það verða e.t.v. einhverjir fleiri til þess að hjálpa til að jarðsyngja þessa vitleysu hæstv. fjmrh. og ég læt þetta duga fyrir minn part.

Ég hef yfirleitt rætt ofurlítið um þróunarsamvinnu þegar ég hef átt leið í ræðustólinn um utanríkismál og einnig við afgreiðslu fjárlaga og það er enn þá dapurlegra umræðuefni en ræða hæstv. fjmrh. í Stokkhólmi þannig að ég treysti mér ekki út í langar umræður um það efni nú. Ég vitna til minnar fyrri afstöðu í þeim efnum. Ég tek undir með hæstv. utanrrh. að það er afar dapurlegt að horfa upp á að framlög okkar á þessu sviði eru að lækka að raungildi og sem hlutfall af þjóðartekjum á sama tíma og þær hafa verið vaxandi þrjú eða fjögur ár í röð og eru nú einhverjar hinar hæstu í heimi, e.t.v. aðrar hæstu þjóðartekjur í heimi. Ég held að við getum ekki mjög vel bæði sleppt og haldið í þessum efnum, litið á okkur og verið velmegunarþjóð, tekið þátt í störfum slíkra, átt m.a. aðild að OECD-stofnuninni og auðvitað Sameinuðu þjóðunum og öðrum þeim samtökum sem við erum í og leggja mikla áherslu á þetta viðfangsefni. Norðurlandaþjóðirnar, Efnahags- og framfarastofnunin, Sameinuðu þjóðirnar - á öllum þessum vígstöðvum eru menn að reyna að sinna þessum verkum og eru hvattir til þess. Við Íslendingar viljum vera þar og vera menn með mönnum þannig að við eigum ekki margra kosta völ að mínu mati annarra en að hysja upp um okkur buxurnar í þessum efnum eða sækja þá um einhverja alveg sérstaka aðild að þessum stofnunum sem sé þannig til komin að vegna sérgæsku okkar og nísku og nirfilsháttar í þessum efnum verðum við að fá að vera aukaaðilar og undanþegnir kvöðum í þessum efnum eins og menn gætu hugsað sér að menn fengju að sækja um aðild að íslenska ríkinu án þess að þurfa að borga þar skatta og skyldur. Mér vitanlega hefur slíkt ekki verið tekið í mál hér á heimaslóðum og spurningin er: Getum við Íslendingar sem þjóð ætlast til þess að við fáum einhverja sérmeðhöndlun á þessum efnum í samfélagi þjóðanna? Það er ekki háreist afstaða.

Að lokum nokkur orð aftur, hæstv. forseti, um blæinn á skýrslu hæstv. utanrrh. Ég heyri það að menn hafa verið að velta því svolítið fyrir sér hvort þetta sé „glasnost“-skýrsla eða ekki. Ég held að það sé einfaldast að segja eins og er að hún er það að sumu leyti en öðru ekki eins og ég þykist reyndar hafa sýnt fram á. Ég fór í gömlu skýrslurnar, sem ég er nú búinn að fletta nokkrum sinnum og kann býsna vel, frá dögum þeirra hæstv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar og Matthíasar Á. Mathiesens og fór í kunnuglega kafla. Árið 1987 er kafli um varnarliðið og þar er talað um 170 sovéskar herflugvélar sem komið höfðu inn á íslenska loftvarnarsvæðið o.s.frv. og að sovéskar herflugvélar hafi komið að meðaltali á tveggja daga fresti o.s.frv. í alllöngu máli. Árið 1986 er sambærilegur kafli. Það er fyrsta skýrslan sem hæstv. núverandi samgrh. Matthías Á. Mathiesen lagði fyrir þingið sem utanrrh. Þar er komið dálítið nær kalda stríðinu, einu ári. Þar er hálf blaðsíða með alls konar kortum og fíneríi með um þennan gífurlega sovéska flugvéla- og kafbátaflaum og það er mikið af tölum. Það væri út af fyrir sig hægt að lesa þetta upp yfir mönnum. Árið 1985 kom síðasta skýrslan sem hæstv. ráðherra Geir Hallgrímsson lagði fyrir þingið sem utanrrh. Hvernig var þetta þar? Þá er komið einu ári enn nær kalda stríðinu, enda sér það á plagginu. Þar eru þetta tæpar tvær síður, útlistanir á þessari ógurlegu umferð flugvéla og kafbáta og Kola-skaganum og öllu þessu og orðbragðið er allt með talsvert öðrum blæ, verð ég að segja. Það er mikið talað um hættuna á árás og átökum og styrjöld og árásarsvipurinn eða átakasvipurinn er nokkuð auðséður á þessari skýrslu og þeim bls. sem fjalla um herinn eða varnar- og öryggismál eins og það heitir þar á þeim bæ.

Þegar maður tekur skýrslu hæstv. núverandi utanrrh. og ber hana saman með þessi hlutföll í huga er vissulega hægt að segja að það sé svolítið annar blær á henni. Þar er t.d. einna lengstu máli varið í mengun frá hernum sem er miklu neikvæðara í sjálfu sér en að herinn sé sífellt daginn út og daginn inn að stugga í burtu sovéskum herflugvélum. Það er greinilega öðruvísi áhersla að eyða a.m.k. jafnlöngu máli í mengun og sóðaskap frá þessum her og hæstv. fyrrv. ráðherrar gerðu í það hvað hann væri duglegur við að stugga burtu sovéskum herflugvélum. Menn geta því vissulega, ef þeir svo kjósa, túlkað þetta sem „glasnost“-skýrslu.

En orðin ein segja auðvitað ekki allt. Það eru athafnirnar og sú stefna sem í reynd ræður ferðinni sem skiptir máli. Hvernig er það ef við skoðum það aðeins í lokin eins og ég reyndar byrjaði á að fjalla hér um? Þá er hlutskipti okkar og hæstv. utanrrh. dapurlegt. Það er fyrst og fremst dapurlegt vegna þess að hæstv. utanrrh. tók við mjög slæmum arfi í sínu embætti og getur hann sjálfum sér um kennt því hann var forsrh. í þeirri ríkisstjórn sem undirbjó svo stórfelldar hernaðarframkvæmdir að annað eins finnst ekki samjöfnuður um nema á fyrstu árum eftir komu hersins, í miðju kalda stríðinu. Þetta er staðan í dag, því miður, og það er svo dapurlegt sem það er fyrir okkur Íslendinga, sem eigum ferðaglaðan utanrrh. sem er út um heiminn að boða „glasnost“ og „perestrojku“, að hér uppi á Íslandi sitjum við og hæstv. ráðherra kolföst í bullandi uppbyggingu hernaðarmannvirkja sem var að vísu að mestu leyti ákveðin áður en er samt staðreynd. Við horfum upp á milljónir og aftur milljónir dala fara í uppbyggingu hernaðarmannvirkja, í radarstöðvar, í stjórnstöð, í olíubirgðastöð, í ýmiss konar þjónustu og viðbúnað við árásarsveitunum sem hér eru o.s.frv. Þetta er hinn dapurlegi veruleiki þrátt fyrir skýrslu, þrátt fyrir ágætlega hlýlegt orðalag á köflum þar sem m.a.s. er lofuð upp í hástert ræða Mikhail Gorbatsjovs sem hefði einhvern tímann þótt tíðindi í skýrslum íslenskra utanrrh. En veruleikinn er þessi, því miður. Það er a.m.k. þannig með ræðumann, hvernig sem öðrum er farið í þessum efnum: Þó ég hafi alltaf gaman af því að heyra falleg orð töluð mun ég taka fyrst og fremst mark á athöfnum í þessum efnum. Ef hæstv. utanrrh. lætur ekki „glasnostið“ sitt ná heim til Íslands og upp á hólmann með þeim hætti að stöðva frekari uppbyggingu bandarísku hernaðarmaskínunnar á landinu verður hann næsta fjaðrafár í mínum augum, hæstv. ráðherra, þó hann sé einhvers staðar út um heiminn að boða „glasnost“.