26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5042 í B-deild Alþingistíðinda. (3420)

294. mál, utanríkismál

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu. Því er haldið fram og má kannski segja með sanni að hún sé með hefðbundnum hætti, en ef grannt er skoðað er hún með öðru yfirbragði en áður hefur verið. Ég hef flett þessum skýrslum undanfarin 4–5 ár. Það verður að segja að ég sé ekki betur a.m.k. en hæstv. ráðherra hafi í afstöðu sinni verið einarðari en hefur verið að undanförnu.

Hv. þm. Geir H. Haarde, sem var uppi í ræðustól síðast, talaði um að frystingartillögurnar um kjarnorkuvopn væru alveg óþarfar. Er ekki eitthvað af kjarnorkuvopnum þrátt fyrir þessa samninga? Er það virkilega svo að þessar tillögur séu taldar óþarfar? Hvað er það sem við Íslendingar höfum fyrst og fremst beitt okkur fyrir, ég held bæði hér á Alþingi og annars staðar? Það er að reyna að koma í veg fyrir styrjaldir og vinna að afvopnun. Þó að það sé mesta málið að þessum kjarnorkuvopnum sé eytt er það þó líka skárra en ekki ef það væri hægt að koma því þannig fyrir að þau yrðu fryst. Ég sé ekki samræmingu í því, ef menn eru sammala um að vinna að því með öllum okkar litla mætti að eyða vopnum og koma í veg fyrir styrjaldir, hvernig við ætlum að sitja hjá eða vera á móti þessum tillögum. Það sem ég finn að helst hjá hæstv. utanrrh. er að í sumum tilvikum finnst mér að það orki mjög tvímælis þegar er setið hjá eða jafnvel greitt atkvæði á móti slíkum tillögum.

Ég var á þingi Sameinuðu þjóðanna um þriggja vikna skeið, á 37. þinginu, og þeir sem hafa verið þar vita að sendinefnd Alþingis kemur á hverjum morgni til sendiherra og aðalmanns þar fyrir Íslands hönd á þinginu til að ræða um afstöðurnar og skilja hvernig á því stendur að svona og svona er greitt atkvæði. Ég verð að segja að ég fékk ekki nægar skýringar oft og tíðum hvernig á því stóð að Ísland sat hjá eða jafnvel greiddi atkvæði á móti. Ég fann að þessu og vildi fá frekari skýringar. Það er alveg rétt, sem hefur hér komið fram áður í þessum umræðum, að það var ekki nægur mannafli til að fara ofan í saumana á hverju máli og Íslendingar tóku oft mið af afstöðu Norðurlanda í ýmsum málum. En við hljótum að taka afstöðu til málefna, til hverra tillagna en ekki hverjir koma fram með þær eða hvernig aðrir greiða atkvæði. Ég held að lítilli þjóð eins og okkar sé nauðsyn til að halda reisn og virðingu að sýna fulla einurð gagnvart alþjóðamálum. Það hefur mér fundist stundum á undanförnum árum skorta og því vil ég segja að mér finnst nú hafa orðið nokkur breyting á og fagna því. — Er hæstv. fjmrh. einhvers staðar í kallfæri? Ég kann því illa (Forseti: Ég skal láta kanna það.) að tala til manna öðruvísi en að gera tilraun til þess að þeir séu viðstaddir.

Meðan er verið að leita að ráðherra ætla ég aðeins að minnast á það sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. Svavars Gestssonar í sambandi við alþjóðaeftirlit með þeim samningum og með vopnabúnaði ef hægt er að semja um það áfram sem allir vona. Ég held að það hljóti að vera eina skynsamlega leiðin ef hægt er að fá stórveldin til að fallast á að slíkt eftirlit sé fyrst og fremst í höndum Sameinuðu þjóðanna. Það er alveg rétt að það hefur gengið illa á undanförnum árum að gera Sameinuðu þjóðirnar að því sem menn væntu í stríðslokin, en nú er breyting að manni virðist á alþjóðavettvangi. Það er farið að semja um afvopnun og við hér hljótum að vonast til þess að slíkir samningar og samkomulag haldi áfram. En einhvern veginn verður að gera það eins öruggt og það er hægt að eftir þeim verði farið. Það ætti að vera nokkur trygging ef það væri hægt að setja einhverja nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna til þess að fylgjast með því. Það er enginn vafi á því að vopnakapphlaupið á undanförnum árum er fyrir ótta og tortryggni og þarf að gera ráðstafanir til að draga úr því hvoru tveggja. Ég sé a.m.k. ekki aðra skynsamlegri leið en að slíkt eftirlit sé á vegum Sameinuðu þjóðanna. Ég held að það sé nokkuð stórt atriði að hæstv. utanrrh. og stjórnvöld hér reyni að hafa áhrif í þá átt. E.t.v. eru það ekki aðrir sem eiga meira undir því en við að t.d. kjarnorkuvopnum sé eytt algjörlega. Það bendir a.m.k. margt til þess því við erum þannig staðsett á jarðarkringlunni. Því á Ísland að láta til sín heyra um þessi mál hvar sem möguleiki er á því.

Ég tek undir þá tillögu að það væri rétt að hafa sérstakan sendiherra í þessum málum. En það er ekki sama hvernig sá sendiherra er. Hann þarf að vera einarður til að halda okkar merki sem hæst á loft.

Ég vil líka segja um það sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. gagnvart aðförum Ísraelshers að það er ekki vansalaust að þjóðir heims láti ekki til sín heyra og fordæmi slíkar aðfarir. Ég vil taka sérstaklega undir að þeir séu látnir vita um hug þjóðanna í sambandi við það sem er að gerast í Palestínu.

En nú sé ég að hæstv. fjmrh. er genginn í salinn og ég kemst ekki hjá því að segja við hann nokkur orð vegná þeirrar ræðu sem hann flutti áðan og vegna þeirrar ræðu sem hann er sagður hafa flutt í Stokkhólmi fyrir skemmstu. Ég held að stjórnmálamenn og þeir sem eru ábyrgir verði að hugleiða hvað við getum alls ekki gert og hvers vegna. Ég lít svo á að það sé útilokað mál og það sé ekki hægt undir hvaða kringumstæðum sem eru að við göngum inn í Efnahagsbandalagið ef um leið fylgir það að Evrópuþjóðirnar geti farið inn á okkar fiskimið. Hvað er það sem við lifum á? Eru þessi auðæfi eitthvað sem við getum miðlað öðrum? Er það ekki lífsafkoma okkar sem byggist á þessum auðæfum? Ég held að það sé blátt áfram óþurftarverk, háskalegt, að hæstv. ráðherrar eða þingmenn eða forustumenn í flokkunum láti í sér heyra á þann hátt að þetta komi til greina. Ég er alveg sannfærður um að það bætir ekki samningsaðstöðu okkar ef ráðherrar og þingmenn gefa í skyn eða jafnvel segja að það komi virkilega til mála að við göngum inn í Evrópubandalagið og hlítum þessu skilyrði sem allir vita að er a.m.k. eins og er algjört skilyrði fyrir inngöngu í Evrópubandalagið. Það væri nær á opinberum vettvangi að láta menn vita að þetta kemur ekki til greina, ekki undir nokkrum kringumstæðum. Það er útilokað mál. Það er allt annað fyrir Norðmenn eða aðra þar sem þeirra fiskveiðar eru ekki nema lítið brot af þeirra útflutningi, þeirra tekjum. En hvað eru útflutningstekjur okkar af sjávarafurðum fyrir sl. ár? Minnir mig vera 77%. Við verðum nú að draga úr sókn á miðin í alla stofna. Hvernig dettur ráðamönnum slíkt í hug?

Ég er að vísu ekki hernaðarsérfræðingur eins og virðist vera að hæstv. fjmrh. sé og fleiri þm. sem hér hafa talað, en við getum ekki látið af þessari auðlegð og keypt það því verði. Það er útilokað mál. Ég tel að okkar staða sé þrátt fyrir allt þannig að við þurfum ekkert að vera mjög óttaslegin yfir því jafnvel þó að við stöndum einir af þeim sem eru í NATO utan við Evrópubandalagið ef rétt er haldið á okkar málum. En ég ætla ekki að fara út í það að þessu sinni.

Hins vegar finnst mér vera álitamál og raunar e.t.v. óumflýjanlegt að það verði rætt um þessa afstöðu okkar, það sé alveg sérstök umræða á hv. Alþingi, vegna þess hvað málið er alvarlegt og vegna þess hvað ráðamenn sumir hverjir tala gáleysislega um það. Það er ekki hæstv. fjmrh. einn. Ekki man ég betur en að einn af forustumönnum iðnaðarins, Víglundur Þorsteinsson, léti þau orð falla frekar tvisvar en einu sinni að það kæmi til mála og væri kannski óumflýjanlegt að við gengjum í Efnahagsbandalag Evrópu. Hæstv. fjmrh. minntist einnig á Magnús Gunnarsson í ræðu sinni áðan. Af þessum ástæðum er full ástæða til þess að taka upp sérstaka umræðu um þetta mál og sérstaklega með það í huga að menn séu ekkert að vefjast í vafa um afstöðu þjóðþings okkar til þessa máls, að það komi greinilega fram að það sé útilokað með öllu að við gerumst aðilar að Evrópubandalaginu.

Ég tók eftir því að hv. 13. þm. Reykv. ræddi dálítið um afstöðu okkar til þeirrar þróunar sem hefur orðið í hvalamálinu. Ég er henni og hennar skoðunum algjörlega andvígur og ég ætla að koma með rök fyrir því hvers vegna ég er það. Ég var einn af þeim sem greiddu atkvæði á móti því á sínum tíma, 1983, þegar var samþykkt að stöðva veiðar í atvinnuskyni. Það er vegna þess á hverju við lifum.

Og við erum að keppa við þessi dýr í sambandi við það sem sjórinn gefur. Svo einfalt er það. Ef á að takmarka eða jafnvel hætta veiðum á hval, hrefnu og sel er enginn vafi á að í okkar hlut kemur langtum minna. Við verðum þá að draga úr okkar sókn því að ekki tökum við það sem þessi dýr taka. Ég hef orðið vitni að því að yfir 100 kg af fiski hafa komið út úr einum hrefnumaga þannig að það er ekkert smáræði sem þessi dýr taka. Við vitum hvernig selurinn hefur það. Meira að segja tekur hann laxinn, hvað þá aðra fiska. Það er sannað mál. Ég ætla ekki að fara út í þessa sálma meira, en ég get ekki annað en minnst á þetta vegna ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Við verðum að athuga á hverju við lifum. Ég er ekki að tala um að ganga svo hart að þessum stofnum að þeir séu í einhverri útrýmingarhættu, það er bara allt annað mál, en við verðum að halda þessum stofnum í hæfilegri stærð. Og við erum allt öðruvísi stödd en t.d. Norðmenn og aðrar þjóðir m.a. vegna þess á hverju við lifum. Ég sagði áðan að um 77% af okkar gjaldeyrisöflun væru af sjávarafla. Hvað er það hjá Norðmönnum? Hvað er það hjá Japönum? Við höfum alveg sérstöðu í þessum málum og ég er ekki sammála því sem gert var, þ.e. að ríkisstjórn Íslands þurfi að leggja rannsóknaráætlun sína fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins og eigi allt undir afstöðu hennar í sambandi við þessar veiðar af þessum ástæðum. Ef það væru ekki nema 10% af okkar tekjum sem við fengjum frá sjónum væri þetta allt annað mál. Við sögðum í sambandi við landhelgisdeiluna við Breta að Bretar væru að vinna fyrir einum málsverði á meðan við vorum að berjast fyrir lífi okkar. Við hljótum að skoða þessi mál öll út frá því sjónarmiði á hverju við lifum og hvers vegna okkar lífsafkoma er þó eins góð og hún er og afstaða okkar hlýtur að byggjast á því, hæstv. fjmrh., bæði til Efnahagsbandalags Evrópu, en einnig í sambandi við að halda þessum sjávarspendýrum í hæfilegri stærð til þess að við þurfum ekki af þeim ástæðum að minnka okkar hlut í afla.

Það væri margt hægt að ræða um þessa skýrslu hæstv. utanrrh. og um varnarmál. Því hafa verið gerð góð skil af mörgum. Ég ætla að láta þetta nægja að sinni, en ítreka að endingu að hæstv. utanrrh. sjái til þess á næstunni þegar hægt er að það verði tekin umræða á Alþingi um afstöðuna til Efnahagsbandalags Evrópu, hvernig við eigum að halda á því máli þannig að það fari ekkert á milli mála. Og þó að hjáróma raddir komi hér og þar, sem ég tel þó alvarlegt að skuli heyrast, þurfi enginn að vera í vafa um okkar afstöðu í því máli: Engin skip inn í okkar fiskveiðilandhelgi.