26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5060 í B-deild Alþingistíðinda. (3423)

294. mál, utanríkismál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Í framhaldi af ræðu hæstv. fjmrh. tel ég bæði rétt og nauðsynlegt að fram komi að ég er gersamlega ósammála þeim sjónarmiðum sem hæstv. fjmrh. setti fram í ræðu sinni áðan varðandi Evrópubandalagið, þar á meðal um kaupskap í öryggis- og varnarmálum út á tollfríðindi.

Í fyrsta lagi tel ég að ekki eigi að blanda þessum tveimur málaflokkum saman og í öðru lagi tel ég að hugmyndin um kaupskapinn gangi ekki upp.

Það er eiginlega ekki nema von að niðurstaðan af hugleiðingum ráðherrans sé röng þegar saman fer eins og þar að hann gefur sér rangar forsendur og að hinu leytinu er vitlaust reiknað. Ráðherra gefur sér að staða okkar sé vonlaus ef Noregur gangi í Evrópubandalagið og í öðru lagi og jafnframt gefur hann sér með sama hætti að staða okkar sé líka vonlaus meðan við veitum ekki EB aðgang að fiskveiðilögsögunni. Út frá þessu tvöfalda vonleysi er síðan hafin leit að einhverju öðru til að bjóða upp á í staðinn. Sú leit endar með.þeim niðurstöðum sem þinginu er kunnugt. En þessi leit er óþörf, enda á misskilningi byggð af því að forsendan um þetta tvöfalda vonleysi er ekki rétt. Staða okkar er alls ekki vonlaus í hvorugu þessu tilviki þegar af þeirri ástæðu að við höfum góðan samning við Evrópubandalagið, sem nær yfir stærstan hluta af útflutningsafurðum okkar, og auk þess tel ég að við höfum ágæta stöðu til þess að semja við Evrópubandalagið að öðru leyti og þurfum ekki að óttast það.

Í annan stað hefur ráðherra misskilið Evrópubandalagið og þá þróun sem þar á sér stað eða annað verður ekki fundið af orðum hans. Í fyrsta lagi eru varnarmál einmitt svið sem Evrópubandalagið er ekki um. Að hinu leytinu er það svo að ráðherra talar um Evrópubandalagið út frá viðskiptasamningum einum saman. En Evrópubandalagið snýst um allt annað og meira eins og kom fram í ræðu minni í gær.

Við verðum að gæta að því að tala ekki um Evrópubandalagið eins og það sé eingöngu um saltfisk. Það er kannski skiljanlegt að Magnús Gunnarsson tali um Evrópubandalagið af þeim sjónarhóli, en við þurfum að líta á málin af víðari sjónarhóli og í heild sinni. Það er grundvallaratriði til þess að menn nálgist málin með réttum hætti. Þá kemur að reikniverkinu. Sú kenning að Evrópubandalagið sækist svo mjög eftir að taka að sér að greiða kostnaðinn af varnarstöðinni hér að þeir kaupi þessi viðbótarútgjöld sín því verði að láta viðskiptaívilnanir í kaupbæti gengur alls ekki upp. Þetta er reikningsskekkja. Hér eiga tveir mínusar að gera plús. Það gildir að vísu í margföldun en ekki í samlagningu sem á frekar við í þessu sambandi.

Evrópubandalagið hefur áreiðanlega ekki áhuga á að taka að sér útgjöld af varnarstöðinni á Íslandi og ég tei að við höfum ekki áhuga á því að þýskir, ítalskir, portúgalskir eða grískir dátar leysi hið bandaríska varnarlið af hólmi. Við höfum komið varnarmálum okkar fyrir með farsælum hætti með aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin og þetta hefur gefist vel. Það er ekkert sem bendir til að þessu verði betur fyrir komið með öðrum hætti og við eigum ekki að raska þessu fyrirkomulagi.

Ég tel mjög varasamt að blanda saman öryggismálum og viðskiptamálum. Ef við gerum það erum við komin út í hreinar ógöngur. Eigum við t.d. að gefa undir fótinn með að viðhorf okkar í öryggismálum sé komið undir því hvernig viðskiptasambönd eða viðskiptasamningar ganga við Sovétríkin? Svarið er vitaskuld nei. Og þá er svarið líka nei við því að blanda þessu tvennu saman. Öryggismálin eru eitt. Evrópubandalagið varðar hins vegar viðhorf í efnahagsmálum og efnahagsstjórn og styrkingu á samkeppnisstöðu með því að skapa samræmda heild á markaði hvort heldur er fyrir vöru eða þjónustu, fólk eða fjármagn, vísindi, rannsóknir eða menntun. Þær aðgerðir sem Evrópubandalagið vinnur nú að byggja á þessari forsendu. Við verðum að nálgast Evrópubandalagið út frá skilningi á þessu. Hlutverk okkar er að ákveða hvernig við lögum okkur að þessari stefnu Evrópubandalagsins, þar á meðal vissulega um viðskipti og í viðskiptum við Evrópubandalagið en það er einungis einn þátturinn.

Ég er alls ekki svartsýnn á stöðu okkar og ekkert vonleysi tel ég vera í henni. Ég er bjartsýnn á hana eins og kom fram í ræðu minni hér í gær. Þá gerði ég líka grein fyrir því hver ég tel að stefna Íslands eigi að vera gagnvart Evrópubandalaginu og hvernig við eigum að halda á okkar málum í því sambandi og ég vísa til þess og mun ekki endurtaka það. Ef við stöndum saman um þá línu sem ég lagði þar tel ég að við munum ná góðri niðurstöðu og við skulum snúa okkur að hinu raunverulega verkefni en láta ekki dæmi sem er vitlaust reiknað rugla okkur í ríminu.