26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5073 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

287. mál, tvöföldun Reykjanesbrautar

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Fyrir hönd þm. Borgarafl. Reykjaneskjördæmi mæli ég hér fyrir till. til þál. um að tvöfalda Reykjanesbrautina frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta hefja nú þegar undirbúning að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Skal gert ráð fyrir því að lögð verði önnur akbraut við hliðina á hinni gömlu þannig að fullkomin hraðbraut með algerlega aðskildum akstursstefnum og tveimur akreinum í hvora átt tengi saman þessa tvo staði. Stefnt verði að því að ljúka verkinu fyrir árslok 1990. Þetta verkefni verði tekið út úr vegáætlun og meðhöndlað sem sjálfstætt verkefni óháð langtímaáætlun um vegagerð. Leitað verði leiða til þess að afla fjár til verksins utan vegáætlunar.“

Reykjanesbrautin milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur er fyrsti vegakafli þjóðvegakerfisins á Íslandi með bundnu slitlagi. Lagning vegarins á árunum 1963–1965 markaði tímamót í sögu vegagerðar á Íslandi. Ekki mátti draga það öllu lengur að leggja fullkominn veg milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur. Þegar fyrir 20 árum var umferðin á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins orðin svo mikil að malarvegurinn gamli var að syngja sitt síðasta. Með tilkomu vegarins varð mikil breyting til batnaðar og stórt skref stigið til að bæta samgöngur við Suðurnes.

Flutningsgeta jókst gífurlega og öll umferð bíla milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins varð miklu greiðfærari. Það olli straumhvörfum í öllum samskiptum milli íbúa þessara svæða og átti sinn þátt í því að efla atvinnulíf á Suðurnesjum. Um svipað leyti og nýi vegurinn var tekinn í notkun var öllu millilandaflugi beint til Keflavíkurflugvallar. Hafa allir flugfarþegar, sem koma og fara frá Íslandi, lagt leið sína um Reykjanesbrautina allar götur síðan. Reykjanesbrautin er því þjóðvegur allra landsmanna.

Umferð um Reykjanesbrautina hefur farið stöðugt vaxandi, bæði fólksflutningar og vöruflutningar. Mikil aukning hefur orðið á farþegaflugi til og frá landinu, enda munu nær allir flugfarþegar í millilandaflugi fara um Reykjanesbrautina fram og til baka. Þá hefur einnig orðið mikil aukning á vöruflutningum með flugvélum til og frá landinu um Keflavíkurflugvöll.

Á árunum 1982–1987 voru lendingar flugvéla á Keflavíkurflugvelli og fjöldi aðkomu- og brottfararfarþega sem hér segir: Árið 1982 voru lendingar 3580, farþegar frá landi 150 887, farþegar til landsins 152 411; 1983: Fjöldi lendinga 3 269, farþegar frá landi 145 557, farþegar til landsins 144 628; 1984: Fjöldi lendinga 3460, farþegar frá landi 165 276, farþegar til landsins 168 470; 1985: Fjöldi lendinga 4045, farþegar frá landi 182 393, farþegar til landsins 183 469; 1986: Fjöldi lendinga 4337, farþegar frá landi 213 254, farþegar til landsins 211 539; 1987: Fjöldi lendinga 5377, farþegar frá landi 265 254, farþegar til landsins 260 192.

Athyglisverð er hin mikla aukning á flugumferð sem verður milli áranna 1986 og 1987, nærri 25%, og má þar greina áhrif af tilkomu nýju flugstöðvarinnar. Á seinni árum hefur komið til vaxandi samstarf atvinnufyrirtækja á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu sem hefur haft í för með sér aukna umferð. Bættar samgöngur eru höfuðforsenda þess að tengja atvinnulíf þessara tveggja landsvæða saman þannig að Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið geti runnið saman í eitt og sama atvinnusvæði. Þetta skiptir höfuðmáli í sambandi við byggðaþróun á Suðurnesjum og möguleika til þess að nýta til fullnustu þá kosti sem hin nýja Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur upp á að bjóða. Hefur verið talað um tollfrjáls atvinnusvæði í námunda við flugstöðina og eins um byggingu miðstöðvar fyrir erlend viðskipti.

Atvinnulíf hefur átt erfitt uppdráttar seinni árin á Suðurnesjum. Mikill samdráttur hefur verið í útgerð og iðnaður og verslun ekki styrkst að sama skapi. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar mundi gjörbreyta allri aðstöðu fyrir Suðurnesjamenn og næg réttlæting er fyrir því að hraða þessari framkvæmd. Reykjanesbrautin í núverandi mynd fullnægir hvergi nærri þeim kröfum sem nú verður að gera til höfuðsamgönguæðar milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins.

Með vaxandi umferð hefur umferðarslysum farið fjölgandi. Akstursskilyrði á Reykjanesbraut eru oft mjög slæm. Í rigningu og þoku eru umferðaróhöpp tíð. Á veturna myndast oft mikil hálka á örfáum mínútum. Umferðarslys orsakast þá af framúrakstri og útafakstri vegna þess að vegurinn er með umferð í báðar áttir.

Allra síðustu árin hefur mikil fjölgun bifreiðaeignar landsmanna sett sinn svip á umferðina um Reykjanesbraut. Umferðaröryggi hefur minnkað og slysum fjölgað. Reykjanesbrautin er nú að verða einn hættulegasti vegarkafli landsins. Í töflu 1 í grg. með þáltill. er yfirlit yfir þróun umferðar og slysatíðni á Reykjanesbraut frá því að hún var tekin í notkun í núverandi mynd. Þar kemur fram að umferð á Reykjanesbraut fer greinilega ört vaxandi eftir nokkra stöðnun á árunum 1978–1982. Það er stutt í það að mesta sólarhringsumferð um brautina verði 8 þúsund bílar, en það er einmitt sú viðmiðun sem við höfum til þess að ákveða hvenær það er nauðsynlegt að aðskilja akstursstefnur, það að hafa tvær aðskildar brautir.

Fyrir 20 árum var orðið nauðsynlegt að leggja veg með bundnu slitlagi milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Nú er orðið nauðsynlegt að huga að lagningu fullkominnar hraðbrautar með aðskildum akstursstefnum. Hið fyrsta þarf að hefja undirbúning að þeirri framkvæmd að fullgera aðra vegbraut og gera nauðsynleg umferðarmannvirki þannig að nýja flugstöðin við Keflavík og höfuðborgarsvæðið tengist með hraðbraut samkvæmt bestu erlendu fyrirmyndum, hraðbraut sem þolir mikla umferð og aksturshraða við hagstæð skilyrði.

Það skref sem yrði stigið með því að tvöfalda Reykjanesbrautina er ekki endanlegt. Gera verður ráð fyrir því að með stórauknum samgöngum og vöruflutningum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar muni eflaust áður en langt um líður kallað á enn fullkomnari samgöngur. Hugsanlega eigum við eftir að sjá hraðlest á einteinungi fara á milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarsvæðisins á 10–20 mínútum.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins er talið að lagning nýrrar akbrautar við hliðina á hinni gömlu með nauðsynlegum lagfæringum og ráðstöfunum vegna flokkunar vegarins muni kosta um 1 milljarð kr. Þetta kann mörgum að virðast miklir fjármunir og meiri þörf fyrir þá annars staðar. Það er þó athyglisvert að hér er um nokkurn veginn sömu fjárhæð að ræða og hvarf vegna umframkostnaðar við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Úrtölumennirnir munu að sjálfsögðu finna þessari tillögu allt til foráttu og telja að ekki sé þörf fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar í bráð. Þeir sem voru á ferðinni milli Keflavíkur og Reykjavíkur síðla dags sl. sunnudag í súld og blautu veðri eru áreiðanlega ekki sama sinnis. Má segja að bílalestin á leiðinni til Reykjavíkur hafi verið samfelld alla leiðina frá Keflavík. Flm. leggja áherslu á að leitað verði leiða til að fjármagna þetta verkefni án þess að ganga á annað takmarkað fé til vegagerðar.

Sjálfsagt er að bjóða þetta verkefni út til stórra verktakafyrirtækja og láta þau koma með tillögur um fjármögnun. Þá má varpa þeirri spurningu fram hvort hér sé ekki um framkvæmd að ræða sem snertir öryggismál Íslendinga.