26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5080 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

287. mál, tvöföldun Reykjanesbrautar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst koma að því að hv. flm.till. til þál. á þskj. 588 gat þess ekki í lok ræðu sinnar hvert hún gerði tillögu um að vísa till. Var það vegna athugasemda sem hæstv. ráðherra gerði um hina réttu málsmeðferð, en við höfðum hugsað okkur að þessari þáltill. yrði að lokinni fyrri umr. vísað til allshn., en hæstv. ráðherra benti á að á því væri formgalli og bæri að vísa henni til fjvn. Nú í millitíðinni hef ég haft samband við skrifstofu Alþingis og fengið það staðfest að hvort tveggja er rétt.

Þá hefur hæstv. ráðherra bent á formgalla á að flytja tillöguna þar sem vegáætlun er gerð á þann hátt sem hann greindi frá, að hæstv. ráðherra gerir þáltill. sem gildir til fjögurra ára og hv. fjvn. afgreiðir svo á fjárlögum fjármagn það sem ætlað er til þess að framkvæma tillögur ráðherra. Allt er þetta rétt. En ég sé ekkert í lögum sem bannar nýjum þm. eða hverjum sem er að flytja hvað sem hann vill, hvaða þá hugmynd sem hann samvisku sinnar vegna telur sig þurfa að flytja og telur sig vera að betrumbæta þjóðfélagið með. Eins og ég hefði getað túlkað öll þau varnaðarorð sem komu frá hæstv. ráðherra, sem er samþm. úr héraði við hv. flm., væri þá helst að skilja að þangað til 4000 bíla umferð bætist við það sem í dag er samfelld bílaröð þegar álagstími er hvað mestur frá Keflavík til Reykjavíkur, eins og kom fram hjá hv. frummælanda, gæti umferðin kannski nýtt það sem eftir er af gamla malarveginum ef menn vilja komast áfram.

Menn verða að þola að nýir vindar blási þegar nýjar hugmyndir koma inn í þessa gömlu sali eins og stormsveipur með ferskleika sem við erum kannski hættir að venjast. Ég var það lengi í Sjálfstfl. (Gripið fram í.), virðulegi Guðmundur H. Garðarsson, að það eru farnir að leika um mig ferskir vindar nýrra þm. (Gripið fram í.) En alla vega veit ég að hæstv. samgrh. er maður sem kann að meta þann ferskleika sem leikur um sali með þessari till., ég tala nú ekki um þegar á sama tíma er minnst á það sem er algjör nýjung hér þó að hún hafi oft komið til umræðna bæði hér og í borgarstjórn Reykjavíkur, að hugsanlega fari að koma að því að einteinungar eigi rétt á sér í umferðinni á Íslandi. En þeir hafa í áratugi verið hjá fjölmennum þjóðum eins og t.d. í Japan og víðar.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvert skynsamlegast er að beina fjármagni sem við höfum til ráðstöfunar til vegagerðar og á réttum tíma, þ.e. þegar fjvn. fjallar um málin. Ég held að það sé rétt hjá hv. frsm. að það er orðið tímabært borið saman við það sem talið var tímabært þegar farið var út í þá Reykjanesbraut sem nú liggur á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur, þá er orðið jafntímabært ef ekki meira að hugsa um stækkun á einhvern hátt, annaðhvort á þann hátt sem hér er lagt til eða á einhvern annan hátt. Það hefur umferðin sjálf sýnt og sannað.

Ég tek því hins vegar ekki að nokkur ráðherra geti tekið hugmyndaflugið af neinum þm. og sagt: Ég kom með þál. sem bindur þig, góða mín, í þessu tilfelli, til fjögurra ára og vegna þess að ég kom með tillögu sem er að vísu endurskoðuð árlega við fjárveitingagerð skalt þú bara vera róleg þangað til ég opna möguleika fyrir því að þú megir hugsa sjálfstætt.

Í þessari þáltill. kemur fram með leyfi forseta: „Þetta verkefni verði tekið út úr vegáætlun og meðhöndlað sem sjálfstætt verkefni óháð langtímaáætlun um vegagerð. Leitað verði leiða til þess að afla fjár til verksins utan vegáætlunar.“

Það hefur verið gert áður. Það var gert þegar hringvegurinn var byggður. Þá fannst sérstök fjáröflunarleið og það var virðulegur þm. Sjálfstfl. Jónas Pétursson sem átti þá hugmynd þó að hann hafi fengið litla viðurkenningu eða þakkir fyrir. Aðrir ætluðu að eigna sér hans verk því allir vildu þá Lilju kveðið hafa. Það er kannski ástæðan. Þessa Lilju vildu kannski einhverjir aðrir kveðið hafa.

Hæstv. forseti. Ég er hér með þingsköp Alþingis frá 1985 sem í gildi eru og eftir að hafa talað við starfsmenn Alþingis sem með þessi mál fara, túlkunarmál á fundarsköpum eða þingsköpum, er mér bent á að þessi till. sé að öllu leyti rétt fram borin, enda væri hún ekki komin á dagskrá væri hún það ekki og það komi tvær nefndir til greina skv. 15. gr. II. kafla, en þar segir:

„Fjárveitinganefnd fjallar um frv. til fjárlaga og fjáraukalaga og þáltill. sem til hennar kann að vera vísað og fara fram á útgjöld úr ríkissjóði.“ Seinna segir: „Til allsherjarnefndar skal vísa þeim málum sem þingið ákveður.“

Svo segir mér skrifstofa Alþingis að það sé hægt að velja á milli þessara tveggja nefnda. Að þessu sögðu og hafandi lesið það sem snertir þau rök sem ráðherra gat um hér í lögunum sé ég ekki að það sé neinn formgalli á þessu. Ég sé það ekki frekar en aðrir sem ég hef leitað til og legg til, virðulegi forseti, að þessari þáltill. verði vísað til allshn. og síðari umr. að lokinni þessari umræðu.