26.02.1988
Sameinað þing: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5082 í B-deild Alþingistíðinda. (3429)

287. mál, tvöföldun Reykjanesbrautar

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af orðum hv. 5. þm. Reykv. vil ég meta það svo að hann hafi misskilið mína ræðu áðan þegar ég reyndi að benda á þá formgalla sem mér sýndist vera á tillöguflutningnum og benti m.a. á með hvaða hætti skynsamlegast væri að fara með till. til þess að hún gæti náð þeim markmiðum sem ég væri sannfærður um að flm. hefðu í sambandi við till. Þeir eru tveir, en eins og 1. flm. orðaði það var það fyrir hönd þm. Borgaraflokksins.

Það er Alþingi sem samþykkir vegáætlun en ekki samgrh. sem slíkur. Hann er stjórnvaldið og leggur fram tillögu, en það er auðvitað Alþingi sem ákveður hvort heldur er tekjurnar eða útgjöldin.

Hann vék að sérstakri fjáröflun til hringvegarins og það er alveg rétt. Við munum eftir því. Það voru lög sett um þá fjáröflun. Hér er ekki verið að setja lög.

Við getum deilt um það í hvaða nefnd tillagan ætti að fara. Út af fyrir sig var ég ekki að deila um það. Ég benti á að tillögur um fjárveitingar til vegagerðar, þ.e. vegáætlunin, till. til þál. um vegáætlun, fer til fjvn. einfaldlega vegna þess að hérna er um að ræða útgjöld ríkissjóðs og ég benti á að mér fyndist skynsamlegra og skynsamlegast að þangað væri þessari till. vísað. Við gerum ekkert eftir því sem mér sýnist hér og nú á þessum fundi og miklu skynsamlegra að á milli funda athugi menn hvað sé best að gera og hvað þjóni best þeim málstað sem hér er verið að vinna fyrir. Ég er alveg sammála hv. þm. um það. Hitt er svo annað mál að það eru engar nýjar hugmyndir að tvöfalda Reykjanesbraut, hvort heldur það er fyrir sunnan Hafnarfjörð eða hérna megin við Hafnarfjörð. En það er ævinlega gott að fá stuðningsmenn þess að fá meira fé til vegaframkvæmda. Enginn getur glaðst meira yfir því en einmitt samgrh. og hann auðvitað vill benda á hvernig skynsamlegast er að fara með hlutina og í hvaða farveg þeir eigi að fara. Vegna tímans í dag munum við að sjálfsögðu ekki geta afgreitt málið og fram á næsta fund finnst mér langeðlilegast að flm. velti fyrir sér hvernig afgreiðsla væri til nefndar.