29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skil vel áhyggjur Suðurnesjamanna og þm. Reykjaneskjördæmis yfir þeirri stöðu sem uppi er á Suðurnesjum. Það er óskemmtilegt, bæði fyrir íbúana þar og þm. kjördæmisins, að sjá lífsbjörgina selda burtu eða sjá hana sigla burt með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég hef verið talsmaður þess að reyna með einhverjum hætti að binda aflamark við byggðarlög eða tryggja hagsmuni þeirra með einhverjum hætti og ég hygg að þetta dæmi, sú útreið sem Suðurnes hafa fengið, sanni réttmæti þeirrar hugsunar. Hins vegar er það svo að stjórnvöld, sem setja reglur á borð við veiðikvóta, verða auðvitað að axla ábyrgð af afleiðingum þeirrar stefnu.

Það er ekki tími hér til að hefja almennar umræður um fiskveiðistefnu og verður gert seinna á hinu háa Alþingi á þessum vetri, en það er auðvitað þannig að innan þess ramma sem stjórnvöld setja með mörkun fiskveiðistefnu reynir hver að sjá sínum hagsmunum borgið. Útgerðarfélag Akureyringa hefur um áratuga skeið verið eitt stærsta og um leið best rekna útvegsfyrirtæki í landinu. Fyrirtækið lagði fyrir nokkrum árum einum af togurum sínum, sem var þá gamall og úreltur, og hefur lengi haft hug á að fá skip í hans stað. Reyndar hefur það verið skoðun forráðamanna fyrirtækisins og eigenda þess að fyrirtækinu bæri réttur til að smíða annað skip í stað þess togara sem lagt var á sínum tíma.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi fram vegna þess tiltekna máls sem hér hefur orðið tilefni til umræðna og ekki að ástæðulausu.