29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þetta mál komi til umræðu á Alþingi, en hins vegar meira álitamál hvort það sé tímabært nú þegar endurskoðun fer fram á fiskveiðistefnunni með aðild allra þingflokka. Það er ekki með öllu rétt að þau vandkvæði sem hér hefur verið lýst séu bundin við Suðurnesin eða Suðurlandið eitt. Við þm. annarra landshluta þekkjum einnig dæmi um slíka hluti úr okkar kjördæmum. Sem dæmi má nefna að reynsla Patreksfirðinga af fiskveiðistjórnunarkerfinu er mjög svipuð reynslu þeirra á Suðurnesjum þannig að það er ekki með öllu rétt að þetta sé eitthvert einstakt fyrirbæri hvað varðar Suðurnes eða Suðurlandið. Við hinir þekkjum einnig dæmi um nákvæmlega sömu þróun.

Ég vil aðeins í lokin vekja athygli á því sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. að hafi verndunarsjónarmiðið verið forsenda þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem notað hefur verið sl. fjögur ár þá stenst sú forsenda ekki í ljósi reynslunnar því að eins og hann benti á hefur á þessum fjórum árum verið tekinn umframafli, umfram það sem Hafrannsóknastofnun lagði til, sem nemur u.þ.b. eins árs afla þannig að hafi forsendur fyrir þessu stjórnunarkerfi verið réttar þá ætti ástandið á miðunum að vera miklum mun alvarlegra en það er. Þessi meginforsenda stjórnunarkerfisins stenst því ekki dóm reynslunnar.

Að öðru leyti vil ég, hæstv. forseti, aðeins vekja athygli á því sem hv. 2. þm. Reykn. sagði hér áðan varðandi endurskoðun á þeirri fiskveiðistefnu sem fylgt hefur verið sl. fjögur ár. Hann sagði, og ég til taka undir þau orð hans, „þeirri fiskveiðistefnu verður ekki fylgt óbreyttri áfram“.