29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5094 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs hér vegna þess að mér sýnist að ekki sé tímabært að gera þessa ályktun. Ef hv. þm. Suðurl. telja að vegafé Suðurlandskjördæmis sé best varið með því að lýsa heiðina, þá finnst mér að þeir eigi það við sjálfa sig og ég mundi ekki setja mig á móti því. En ég held að það þurfi ekki um þetta sérstaka ályktun Alþingis.

Ég hygg að það sé margt brýnna í vegamálum sem fyrir hendi er heldur en þessi framkvæmd. Vafalaust verður þetta einhvern tíma gert, en ég held að það verði ekki gert alveg á næstu árum. Mér finnst t.d. miklu brýnna að lýsa veginn upp í Mosfellssveit (Gripið fram í.) svo að höfuðfötum hv. þm. sé sæmilega borgið og ég legg áherslu á að það verði gert fyrst. Mér sýnist að þó að þessi tillaga beri vott um mikinn stórhug þá sé eðlilegt að láta ýmislegt annað sitja fyrir.