29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5095 í B-deild Alþingistíðinda. (3447)

107. mál, lýsing á Suðurlandsvegi um Hellisheiði

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. 1. flm. að ég hafi ekki lesið tillöguna. Þessi könnun á kostnaði liggur fyrir og kemur fram í umsögn Vegagerðarinnar um þessa tillögu, þar sem Vegagerðin upplýsir hvað þetta muni kosta. Í seinni parti tillgr. segir:

„Jafnframt verði leitað leiða til framkvæmda við verkið.“

Þetta skil ég þannig að flm. ætlist til þess að innan skamms verði hafist handa um að framkvæma þetta. Leiðina hef ég bent á. Það er að taka hluta af vegafé Suðurlandskjördæmis þegar hv. þm. Suðurl. þykir að þeir hafi ekki brýnna við þá prósentu að gera sem þeir hafa úr Vegasjóði.

Í Norðurl. v. hefur verið lýstur einn vegarspotti og við tókum það bara af vegafé kjördæmisins og ég sé ekki að það sé eðlilegt að fara öðruvísi að í þessu tilfelli.