29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5099 í B-deild Alþingistíðinda. (3456)

264. mál, húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. 264. mál á þskj. 563 er till. til þál. um húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að leita nú þegar leiða til að leysa húsnæðisvanda aðstandenda sjúklinga sem þurfa að dveljast langdvölum fjarri heimilum sínum.“

Flytjendur auk mín eru hv. þingkonur Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Sigríður Lillý Baldursdóttir.

Nýlega mælti ég fyrir frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar sem er nátengt þessu máli sem hér er nú á dagskrá þar eð bæði taka þau til aðstæðna vegna veikinda þar sem læknismeðferð hefur í för með sér mikla röskun á högum sjúklings og aðstandenda. Ég hreyfði þessu máli á sl. þingi með fsp. til hæstv. þáv. heilbrrh. um það hvernig háttað væri aðstoð við foreldra sjúkra barna um greiðslu fargjalda og fyrirgreiðslu varðandi húsnæði. Fsp. var svarað í Sþ. 27. jan. 1987 og svörin leiddu í ljós það sem ég raunar vissi að slík aðstoð er af afar skornum skammti og lítilla úrbóta von. Í framhaldi af því lögðum við kvennalistakonur fram till. til þál. samhljóða þeirri sem hér er nú til umræðu og hófum þá um leið vinnu við gerð þess frv. sem ég gat um áðan og felur í sér aukinn rétt sjúklinga og aðstandenda þeirra til þátttöku almannatrygginga í fargjaldi og dvalarkostnaði þegar ekki er hægt að veita nauðsynlega meðferð í heimabyggð. Auk þess er þar kveðið á um rétt til dagpeninga þegar veikindi náinna ættingja valda vinnu- og launatapi.

Nú er það svo því miður að ákaflega margir og sjálfsagt flestir verða einhvern tímann á ævinni fyrir því að veikjast alvarlega eða að einhver þeim nákominn þurfi á læknismeðferð og sjúkrahúsvist að halda. Slíkt er alltaf nógu erfitt í sjálfu sér þótt ekki bætist við langar fjarvistir frá heimili, húsnæðisvandi, aðskilnaður fjölskyldu, vinnutap, launamissir og margháttuð fjárútlát, m.a. vegna tvöfalds heimilishalds og auka barnagæslu, ferðalaga jafnvel oft á ári o.s.frv. Þetta er því miður reynsla margra, sérstaklega íbúa landsbyggðarinnar, sem þurfa að sækja sérhæfða læknisþjónustu til Reykjavíkur. Slík reynsla er ævinlega þungbær og oft afar dýr þar sem aðstoð af hálfu samfélagsins er af mjög skornum skammti og raunar til mikillar skammar. Um það hljóta menn að sannfærast ef þeir kynna sér þessi mál.

Sumpart má leysa vanda þessa fólks gegnum tryggingalöggjöfina, eins og við gerum till. um í frv. okkar á þskj. 562, hins vegar þarf engin lög til að leysa húsnæðisvanda þeirra sem hér um ræðir, til þess þarf aðeins vilja, samvinnu og framkvæmdir.

Hæstv. heilbrrh. tók þátt í umræðum um frv. okkar kvennalistakvenna á miðvikudaginn var og vék í leiðinni að þeirri till. sem hér er á dagskrá. Mér virtist hann hafa fullan vilja til að vinna að úrbótum á þessu sviði og raunar þegar byrjaður á því. En þegar við könnuðum þetta mál nú ekki alls fyrir löngu til þess að meta hvort við ættum að leggja þessa till. fram aftur eða ekki, þá hafði nákvæmlega ekkert gerst og þörfin síst minni en áður.

Við ræddum t.d. við forstöðumann Lindar, sem er sjúkrahótel Rauða krossins. Hann sagði okkur að þar væru rúm fyrir 28 sjúklinga, þ.e. í flestum tilfellum fólk sem getur ekki farið beint heim af sjúkrahúsi, en er ekki svo veikt að það þurfi að taka upp rándýr sjúkrarúm. Gestir Lindar eru ekki síður fólk úr Reykjavík sem býr eitt eða við erfiðar aðstæður og getur alls ekki eða illa séð um sig sjálft meðan það er að jafna sig eftir erfiðar aðgerðir eða meðferð á sjúkrahúsi. Það er full ástæða til þess að vekja athygli á þessari starfsemi sem er mjög hagkvæm og þörf og bráðnauðsynlegt að efla hana og auka því að það er ekki einasta að þarna sé komið til móts við sjúklingana og þeirra vandi leystur, heldur er þetta einnig miklu hagkvæmara og ódýrara en að veita slíka þjónustu á sjúkrahúsi eins og liggur í augum uppi.

Sjúkrahótelið annar ekki beiðnum frá sjúkrahúsunum og getur ekki leyst vanda aðstandenda sjúklinga utan af landi þótt vilji sé fyrir hendi.

Aðstandendur sjúklinga hafa hins vegar í afskaplega fá hús að venda að því er félagsráðgjafar á Landspítalanum tjáðu okkur og er raunar fljótlegt að telja upp þá kosti sem í boði eru: Það er lítil tveggja herbergja íbúð við Leifsgötu sem er til reiðu fyrir foreldra krabbameinssjúkra barna, en þessa íbúð gáfu Krabbameinsfélag Íslands, Kvenfélagið Hringurinn og Rauði krossinn í þessu skyni. Þar geta dvalist tvær manneskjur og yfirleitt í fremur skamman tíma að því er okkur var sagt. Það breytir því hins vegar ekki að þarna er um afskaplega lofsvert framtak að ræða. Þá er Þroskahjálp með húsnæði í Kópavogi þar sem foreldrar þroskaheftra barna geta dvalist með börnum sínum sem þurfa á meðferð að halda. En hér munu þá upptaldir þeir kostir sem fyrir hendi eru og má ljóst vera hversu fjarri lagi er að þeir svari þörfinni.

Herra forseti. Það er mikið talað um byggðamál - eða var það a.m.k. fyrir síðustu kosningar þótt slík umræða hafi nú heldur hljóðnað síðan. Þetta mál sem hér er til umræðu er ekki aðeins mannréttindamál, það er líka byggðamál. Á höfuðborgarsvæðinu er margvísleg þjónusta sem ekki er unnt að veita annars staðar á landinu, þar með talin sérhæfð læknisþjónusta af ýmsu tagi og reyndar ýmiss konar sérnám en það er nú annar handleggur.

Landsbyggðarfólk á ekki annars úrkosti en að sækja sérhæfða læknisþjónustu til höfuðborgarinnar og það skapar vitanlega umtalsverðan aðstöðumun sem nefna mætti mörg dæmi um. Húsnæðisvandinn er þar stór þáttur og raunar vaxandi vandi sem stafar einfaldlega af því að það er nú liðin tíð að landsbyggðarfólk eigi alltaf vísan samastað hjá ættingjum í höfuðborginni eins og áður var. Kemur þar hvort tveggja til að tengslin eru töluvert að rofna á milli höfuðborgarsvæðisins og dreifbýlisins. Því miður. Ættartengslin og fjölskylduböndin eru ekki jafnsterk og áður og svo hitt að heimavinnandi húsmæðrum hefur mjög svo fækkað og heimilin á höfuðborgarsvæðinu því ekki eins vel í stakk búin til að taka á móti gestum og gangandi og veita þeim húsaskjól og styrk sem þurfa að leita eftir þjónustu á þessu svæði. Þennan aðstöðumun er brýnt að leiðrétta og að því stefnir þessi tillaga.

Það þarf að kanna hversu marga um er að ræða til jafnaðar sem þurfa á húsnæði að halda vegna þess að ekki er nauðsynlega læknismeðferð að fá í heimabyggð. Á grundvelli slíkrar könnunar þarf að tryggja að alltaf sé til reiðu húsnæði sem aðstandendur sjúklinga geta fengið leigt á góðum kjörum svo að þeir þurfi a.m.k. ekki að vera þjakaðir af húsnæðisáhyggjum til viðbótar við alla aðra erfiðleika. Með góðum kjörum er vitanlega alls ekki átt við neitt markaðsverð á leiguhúsnæði heldur lægsta hugsanlega verð.

Flm. telja eðlilegt að heilbrmrn. leiti samstarfs við Samband ísl. sveitarfélaga og Rauða kross Íslands um lausn þessa vanda og æskilegast væri að okkar dómi að koma upp húsnæði sem næst Landspítalanum sem aðstandendur sjúklinga utan að landi geti gengið að sem vísu.

Ég vona að hv. þm. gefi sér tíma og ráðrúm til að kynna sér þetta mál, svo og frv. okkar á þskj. 562. Fengjust þessi mál afgreidd og samþykkt næðist með því mikilvæg leiðrétting á aðstöðumun landsmanna eftir búsetu.

Að lokinni umræðu um þetta mál, herra forseti, legg ég til að því verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.