29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5102 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

264. mál, húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga

Guðrún Helgadóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni. Ég vil ekki að þetta mál fari til nefndar án þess að ég lýsi stuðningi við það. Það er alveg ljóst að fólki er mikill vandi á höndum sem þarf stundum langtímum saman að fara frá heimilum sínum og dveljast með sjúkum börnum og oft helsjúkum þar til yfir lýkur hér á Reykjavíkursvæðinu og auðvitað ósæmandi að til viðbótar því, svo og vinnutapi og kostnaði þurfi fólk að vera í húsnæðisvandræðum. Ég harma það satt að segja mjög, virðulegur forseti, að hæstv. heilbr.- og trmrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðu sem þessa. Þó nokkrar umræður hafa farið fram um þetta mál á undanförnum árum og foreldrar reynt að vekja athygli á þessum vanda. Við verðum einfaldlega að gera ráð fyrir, með það í huga að við búum í landi sem er eins í laginu og okkar, að það er mikill aðstöðumunur fólks eftir því hvar það býr á landinu. Við verðum einfaldlega að bera af því kostnað að hér eru stóru sjúkrahúsin, sem fást við erfiðustu sjúkdómstilvikin, og annað eins er látið af fé í aðrar framkvæmdir svo að ég held að þetta vandamál ætti að vera hægt að leysa. Vitaskuld má hugsa sér ýmsa samninga við t.d. minni hótelin eða hvernig sem menn vildu leysa það. Ég fylgist nú sjálf með hv. félmn.og mun þar af leiðandi fá málið þangað og vil lýsa því yfir hér að ég mun berjast fyrir því að það verði samþykkt. En vitaskuld hefði verið nauðsynlegt að eiga nokkurn orðastað við hæstv. ráðherra um þetta mál. Þar sem það getur ekki orðið vænti ég þess og mun reyna að beita mér fyrir því að hv. félmn. taki þetta mál til gaumgæfilegrar meðferðar og treysti því að það geti orðið samþykkt á þessu þingi.