29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

Sala fiskiskipa frá Suðurnesjum

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Það hefur komið í ljós að þetta mál er tekið upp á réttum tíma. Það er ekki vanþörf á því að útgerðarmál Suðurnesja séu tekin hér til umræðu. Ég er með samantekt úr riti Fiskifélags Íslands, Útvegur 1986, og þar kemur mjög berlega í ljós að undanfarin ár hefur afli á Reykjanesi dregist verulega saman og það einnig á karfa. Árið 1977 veiddu Reyknesingar 67,27% af heildarafla af karfa, en veiða nú 37%. Hann hefur því minnkað um 30% af heildarafla landsmanna, þannig að það sést vel að full ástæða er til að taka þetta til umræðu nú.

Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvað hugsar ríkisstjórnin sér að gera til að byggja upp sjávarútveg að nýju á Suðurnesjum? Hefur ríkisstjórnin hugsað sér að veita leyfi á ný fyrir sjö togurum og 27 bátum sem hafa horfið af svæðinu?

Við þm. Reykjaness viljum gjarnan fá svör við þessu. Við viljum gjarnan að sjávarútvegur sé settur í það öndvegi sem hann áður var í. Einnig viljum við gjarnan að fiskvinnsla á Suðurnesjum sé sett í það öndvegi sem hún var áður í því að það er veruleg brotalöm í þeirri atvinnugrein vegna þess að fjárskortur hefur háð henni mjög. Menn vita að þegar úthlutað var úr Byggðasjóði á sinni tíð þá fengu Suðurnesin ekki þá fyrirgreiðslu til að byggja upp sjávarútveg á sínu svæði sem önnur byggðarlög fengu og þess vegna drógust þau aftur úr. Aflatölurnar frá Fiskifélaginu sýna þetta mjög skýrt og flótti fiskibáta af svæðinu sýnir þetta mjög vel. Þau litlu byggðarlög sem eru á Suðurnesjum þola ekki svona áföll. Það mun vafalaust verða atvinnuleysi þar ef ekki verður strax gripið til einhverra ráða í þessu máli.