29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5104 í B-deild Alþingistíðinda. (3461)

265. mál, launabætur

Flm. (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem ég flyt ásamt öðrum hv. þm. Borgarafl., þeim Guðmundi Ágústssyni, Albert Guðmundssyni, Júlíusi Sólnes og Óla Þ. Guðbjartssyni. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa nú þegar frv. um hækkun persónuafsláttar við álagningu tekjuskatts í 19 360 kr. á mánuði. Jafnframt verði teknar upp launabætur þannig að ónýttur persónuafsláttur verði greiddur úr ríkissjóði til launþega.“

Frekar segir í greinargerð:

„Þessi þáltill. felur í sér að skattleysismörk fyrir einstaklinga verði hækkuð upp í 55 000 kr. á mánuði miðað við 1. jan. 1988 og þeir sem tekjur hafa undir þeim mörkum og sitja eftir með ónýttan persónuafslátt fái hann greiddan sem bætur úr ríkissjóði, þeim mun hærri upphæð sem launin eru lægri.“

Eins og margoft hefur komið fram tala allir sem um láunamál fjalla á þá leið að það þurfi að leiðrétta kjör þeirra sem verst eru settir hvað sem öðru líður. Þær auknu þjóðartekjur vegna góðæris til lands og sjávar undanfarin 2–3 ár hafa engan veginn skilað sér til hins almenna launamanns yfirleitt og koma harðast niður á þeim sem lægstu launin hafa.

Almenna verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur nú starfað í 70 ár. Baráttan fyrir betri lífskjörum var löngum hörð. Þrátt fyrir marga áfangasigra hefur í raun og veru aldrei náðst sá árangur að hægt sé að lifa á átta stunda vinnudegi. Nú á síðari árum velferðar og ríkidæmis hefur ástandið í launamálum á margan hátt versnað. Launamisréttið hefur stóraukist. Satt að segja finnst mér launamisréttið í landinu orðið svo mikið að það sé hættulegt þjóðinni. Við lifum í fámennu þjóðfélagi, þjóðfélagi þar sem í rauninni allir nærri því þekkja alla og mismunurinn verður kannski enn þá áþreifanlegri og sjáanlegri. Ég hygg að það ástand sem við búum við og fer síversnandi sé jafnvel að verða stórhættulegt þjóðarsálinni sjálfri.

Fólk tekur ekki laun eftir umsömdum launatöxtum. Víða er unnið eftir kaupaukakerfi og yfirborganir eru geðþóttaákvörðun atvinnurekenda. Það er vitað mál og það vita það allir, sem hafa verið á almennum vinnumarkaði t.d., að á sumum vinnustöðum þorir enginn að gefa öðrum upp hvað hann fær greitt í laun. Atvinnurekandinn greiðir fólki eftir því sem honum sjálfum sýnist, en hundsar kauptaxtana nema við þá sem geta neytt réttar síns. Vitanlega skapar þetta afar erfitt andrúmsloft á vinnustöðum. Það getur hver sagt sér sjálfur þó hann hafi ekki við það búið, auk þess sem þetta slævir félagsþroska manna og stéttarvitund og gerir fólk almennt óánægt með það sem það býr við. Verkalýðshreyfingunni hefur þrátt fyrir vel skipulögð samtök ekki tekist að hamla gegn þessu og aldrei verr en á síðustu árum.

Á síðasta ári, góðærisárinu mikla, má segja að launamálin hafi algerlega farið úr böndunum. Kauptaxtarnir voru aldrei haldnir. Það hafa aldrei verið eins mikil brögð að því og árið 1987 hvað þeir voru sniðgengnir og hvað menn buðu í þá sem þeir vildu hafa og þurftu að hafa en á kostnað þeirra sem minnst hafa.

Það eru notuð fín orð um þetta misrétti, svo sem eins og launaskrið og þensla og þess háttar, enda náttúrlega reynt í þessu sem öðru að fara fram hjá því að nefna það sem raunverulega er. En þegar svona er unnið er ósköp einfaldlega verið að svíkja samninga. Þegar menn standa ekkert við það sem þeir skrifa undir heldur fara eftir sínum eigin geðþótta eru þeir að svíkja samninga.

Ég veit með vissu að þeir sem eru fjölmennastir í launalægsta hópnum eru konur. Það vita allir að á suðvesturhorninu hefur verið mikil vinna sl. ár. Fólk hefur unnið meira en nokkru sinni fyrr og þar af leiðandi kannski haft úr meiri peningum að spila en það á almennt að venjast. Þó eru hreinlega ekki allir sem hafa getað notað sér þetta góðæri og þessa miklu vinnu vegna þess að vinnustaðir eru svo illa mannaðir og álagið er svo gífurlega mikið á fólkinu sem þar vinnur að það hefur ekki orku til að bæta við sig fram yfir ákveðinn vinnudag.

Enn sem fyrr verða konur þarna langverst úti. Þau erfiðu kjör sem hér eru í boði eiga mestan þátt í því hve erfiðlega gengur að manna barnaheimili og sjúkrahús. Það er nöturlegt til þess að vita að eins og ástandið er í málefnum aldraðra, ekki síst hér á Reykjavíkursvæðinu, skuli ekki vera hægt að opna deildir á sjúkrahúsum, langlegudeildir fyrir aldraða, vegna þess að það fæst ekkert fólk til að vinna þar.

Fiskvinnslufólk hefur mjög látið í sér heyra sl. ár, enda taldi það sig verða illa úti í samningunum 1986 þegar niður féllu aldurshækkanir. Ég hef alltaf litið á það sem einstakt slys og mér liggur við að segja fáfræði að fella niður starfsaldurshækkanirnar. Það er ekki hægt að óvirða fólk þannig að það sé ekkert tillit tekið til þess hvað það hefur lagt af mörkum til vinnunnar.

Við þessar aðstæður settist fólk nú til kjarasamninga og satt að segja hafa þær kröfur sem heyrst hafa lítillar samúðar notið, bæði hjá atvinnurekendum og ríkisvaldi. Okkur finnst því meira en mál til þess komið að löggjafinn grípi inn í og geri ráðstafanir til að bæta hag þess fólks sem verst er sett án þess að hægt sé að bendla þær aðgerðir við aukna dýrtíð eða verðbólgu. Við bentum á í grg. hvar hægt er að taka fjármagn til að bæta það sem ríkissjóður leggur fram, þ.e. frá þeim sem hafa fengið óeðlilega mikið í sinn hluta eða eins og það er sagt: „Til að fjármagna það sem á kynni að vanta til að bæta upp tekjumissi vegna hærri skattleysismarka og kostnað við greiðslu launabóta er bent á sérstakan hátekjuskatt eða hærra tekjuskattsstig á tekjur yfir 2 millj. kr. á ári og veltuskatt á fjárfestingarfélög, fjármagnsleigur og verðbréfamarkaði, auk banka og tryggingafélaga. Það á auðvitað að leita fjár í auðugs garði og sækja skattpeninga þaðan sem þeir velta í stríðum straumum og safnast upp fyrir augum allra, m.a. stjórnvalda, en ekki mergsjúga lífæðar þjóðfélagsins, heilbrigða athafnasemi og stritandi fólk.“

Nú hafa stærstu erfiðismannasamtök landsins, félagar í Verkamannasambandi Íslands, nýlokið kjarasamningum. Ég ætla ekki að gera þá kjarasamninga að umtalsefni undir þessum lið. Það gefst vonandi tækifæri til þess síðar. En mér finnst þeir kjarasamningar, sem við höfum nú öll heyrt og öll lesið um, gefa miklu frekar tilefni til þess að þessi tillaga sé samþykkt en ekki.

Að mínu viti hafa svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins fyrir löngu misst áttir í launamálum. Mér er ekkert ljúft að segja þetta. Verkalýðshreyfingin er stór þáttur í lífi mínu, en öllu má nú ofbjóða.

En hvers vegna að fara með þessi mál fyrir löggjafann? Kemur Alþingi það við þó fólk sem vinnur samviskusamlega í átta stundir á dag beri ekki nóg úr býtum fyrir brýnustu lífsnauðsynjum? Kemur Alþingi við sú upplausn heimilanna sem óhóflegur vinnudagur foreldra leiðir oft af sér? Kemur Alþingi við að sá hópur erfiðisfólks fer stækkandi sem gefst upp áður en það kemst á ellilaunaaldur? Kemur Alþingi það við að æ stærri hópur ungs fólks neyðist til að hverfa frá námi eða hefur aldrei framhaldsnám vegna þess að aðstæður eru þannig á heimilunum að það er ekki hægt að styrkja það í námi? Ég segi hiklaust já. Það fólk sem ég er að fjalla um á sama þegnrétt í þjóðfélaginu og við hv. alþm. Þó óhóflega langur vinnudagur ræni það möguleikum á að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni á það kosningarrétt og kjörgengi og óspart er talað til þess á vinnustaðafundum fyrir kosningar. Við þm. Borgarafl., sem þessa tillögu flytjum, viljum leggja því fólki lið sem svo illa er leikið. Okkar tillaga er um að ríkisvaldið skili til launamanna hluta af því sem af þeim hefur verið tekið. Við erum svo sannarlega ekki andvíg frjálsum kjarasamningum, en við viljum ekki una því launamisrétti sem sífellt fer vaxandi. Aðilar vinnumarkaðarins ráða ekki við málin og hafa reyndar margir úr þeirra röðum viðurkennt það. Menn greinir enn á um hvaða leið á að fara svo verulegur bati náist. Við teljum, þm. Borgarafl., þá leið vænlegasta til árangurs sem hér er bent á.