29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5106 í B-deild Alþingistíðinda. (3462)

265. mál, launabætur

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. 16. þm. Reykv. hefur áratuga reynslu af verkalýðs- og samningamálum. Hún hefur áunnið sér þann sess og þá tiltrú og virðingu með störfum sínum og framkomu að þar fari manneskja sem meini það sem hún segi og vilji raunverulega bæta hag þeirra sem ævinlega hafa fengið minnstu bitana af nægtaborði þjóðfélagsins. Það hljóta því margir að kynna sér þessa tillögu, sem hún er 1. flm. að, og meðfylgjandi grg. með það í huga að þarna sé raunverulegur kostur og rétta leiðin til að bæta hag hinna tekjulægstu. Raunar er þessi hugmynd ekki ný af nálinni. Ég minnist þess t.d. að hafa heyrt hv. 10. þm. Reykv. lýsa því yfir fyrir rúmum fjórum árum, þegar verulega var hart í ári hjá þeim lægst launuðu, að hún væri búin að gefa upp á bátinn að atvinnurekendur fengjust nokkurn tíma til að bæta lægstu launin svo að dygði og því yrði ríkið að koma til og greiða launabætur sem hún kallaði þá, ef ég man rétt, tekjutryggingu eða afkomutryggingu. Þeirri leið hefur Kvennalistinn hafnað alveg frá upphafi. Slík leið er að okkar mati ófær nema maður fallist á að það verði aldrei unnt, aldrei nokkurn tíma, ekki einu sinni í fjarlægri framtíð mögulegt, að tryggja fólki laun fyrir unna vinnu sem dugar til framfærslu. Slík afstaða er að okkar mati uppgjöf, sorgleg uppgjöf.

Ef farið er út í að ríkið greiði uppbætur á laun að ákveðnu marki er verið að greiða niður laun fyrir atvinnurekendur, þá er verið að fallast á að þeir séu með vonlausan atvinnúrekstur sem geti aldrei greitt mannsæmandi laun, en þó atvinnurekstur sem ríkinu beri að halda uppi. Við mundum festast í slíku styrkjakerfi og það er ekki nokkur einasti vafi á því að slíkt kerfi mundi útiloka allar leiðréttingar af hálfu vinnukaupenda í framtíðinni. Þeir mundu að sjálfsögðu velta ábyrgðinni og byrðunum yfir á ríkið. Það er líka augljóst að launabætur frá ríkinu eru engin trygging fyrir lágtekjufólk. Að því kæmi fyrr en síðar að ríkið vildi lækka þessar bætur eða fella niður því hér er vissulega um talsvert fé að ræða og það er óvíst og raunar ótrúlegt að saman fari þörf ríkisins til þess að losna við þessar greiðslur og hæfni atvinnuveganna til að taka við þeim. Það má því ekki gera fólki þann grikk að koma á niðurgreiðslum á laun.

Það er sígild lágmarkskrafa að laun fyrir dagvinnu eigi a.m.k. að duga fyrir brýnustu nauðsynjum. Það er ekki hægt að segja annað en að það sé hógvær krafa og fullkomlega eðlileg krafa að fólk geti séð fyrir sér og helst sínum líka með fullri vinnu. Að mati okkar kvennalistakvenna er þetta beinlínis spurning um siðferði. Það er siðferðislega rangt að kaupa fulla vinnu fólks slíku lágmarksverði að það dugi því ekki einu sinni til framfærslu einstaklings. Þetta er því miður ömurleg, bláköld staðreynd í allt of mörgum fyrirtækjum og margir bregðast við á þann hátt að bæta við sig vinnu til að auka tekjurnar en margir geta ekki einu sinni farið þá leið eða eigum við að segja margar því að í þeim hópi eru konur í yfirgnæfandi meiri hluta af ýmsum ástæðum sem óþarft ætti að vera að rekja. Þetta ástand er óþolandi. Um það er ég hjartanlega sammála hv. flm.

Hv. þm. þekkja vafalaust hvernig Kvennalistinn hefur viljað taka á þessum vanda. Við erum sama sinnis og flestir aðrir að samningar um kaup og kjör eigi að vera frjálsir og á ábyrgð þeirra sem semja. Hins vegar hlýtur löggjafinn að setja ákveðnar reglur eins og gert er um svo margt í þessu þjóðfélagi sem varðar daglegt líf okkar og afkomu. Og séu aðilar vinnumarkaðarins ófærir um að tryggja fólki sómasamlegar tekjur fyrir fulla vinnu með samningum er það skoðun okkar að við eigum að setja lög sem hreinlega kveði á um að óheimilt sé að greiða lægri laun fyrir fulla dagvinnu en sem dugi til framfærslu. Þetta þekkja hv. þm. Kvennalistinn hefur tvívegis flutt frv. um þetta og við settum þessa kröfu fram í viðræðum um myndun ríkisstjórnar eftir síðustu kosningar.

Auðvitað er hugsanlegt að fara aðra leið, aðeins mýkri en vafalaust miklu seinvirkari, og það getur t.d. ríkisvaldið gert án þess að setja lög. Það má einfaldlega gera í samningum við ríkisstarfsmenn. Ríkið gæti sett sér viðmiðun um lágmarkstekjur og einfaldlega ákveðið að greiða sínu fólki ekki lægri laun fyrir fulla dagvinnu en þessi viðmiðun kveður á um. Þar með setti það aðilum vinnumarkaðarins fordæmi og viðmiðun sem erfitt væri að ganga fram hjá. Slíka viðmiðun þarf auðvitað að finna og segja má að ríkisvaldið hafi gefið tóninn og viðurkennt lágmarkstekjur í lögum um tekju- og eignarskatt. Það viðurkennir að skattfrjálsar tekjur skuli vera nokkuð yfir 40 þús. kr. - nú man ég ekki töluna hárnákvæmt, en það er nú einmitt nálægt því sem margir telja algert lágmark. Það er óréttlátt og rangt að greiða nokkrum laun undir þessu marki. Um það erum við sammála flm.

Það væri líka hægt að skilgreina þetta lágmark og mæla það samkvæmt því. Annað eins er nú unnið í öllum þessum hagfræðistofnunum okkar. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að fá slíkt gert. Við kvennalistakonur höfum lengi reynt að fá slíka útreikninga frá Hagstofunni en ekki fengið og raunar er furðulegt hvernig menn bregðast við í umræðum um þessi atriði og þá er ég ekki endilega að tala um Hagstofuna heldur svo marga aðila sem við höfum rætt við. Það er t.d. útbreitt viðhorf að það sé algerlega óraunhæft að setja nokkra viðmiðun um það hvað þurfi til lágmarksframfærslu. Menn segja bara blákalt með tölustafi í augunum að framfærslan ráðist af tekjunum. Þá er nú stutt í dæmisöguna um hestinn sem hv. 18. þm. Reykv. sagði í jómfrúrræðu sinni um daginn. Ef einhverjir þm. skyldu hafa misst af því, þá var hún um bónda sem gerði tilraun með hvað hesturinn hans kæmist af með lítið fóður. Tilraunin heppnaðist vel þangað til hesturinn dó daginn áður en matarskammturinn fór niður í ekki neitt.

Við kvennalistakonur vorum satt að segja orðnar þreyttar á því að fá þessa viðmiðun út úr kerfinu, þ.e. hver væri eða ætti að vera framfærslukostnaður einstaklings. Við bjuggum þá til okkar eigin lista yfir það sem við teljum að hver einstaklingur eigi kröfu til þess að geta veitt sér án alls óhófs og báðum um nákvæma útreikninga á því hvað það þýddi háa fjárhæð á mánuði. Enn er reyndar kerfið stirt og ekki höfum við fengið þessa útreikninga enn og má vera að við verðum að sætta okkur við það að opinbera stimpilinn vanti og gera þetta sjálfar.

Ég vil aðeins ítreka og leggja áherslu á að við erum hjartanlega sammála hv. flm. þeirrar tillögu sem hér er á dagskrá um að þetta ástand er óviðunandi og það verður að fást leiðrétting. Lágtekjufólk verður að fá leiðréttingu sinna mála og sú viðmiðun sem sett er upp hér á töflu í grg. er síst of há. Markmiðið með þessari tillögu er gott. Þetta fólk þarf launabætur, en þær launabætur eiga þeir að greiða sem kaupa vinnu þessa fólks. Ég reikna með að Kvennalistinn leggi innan tíðar fram frv. um lágmarkslaun.