29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5115 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Þingflokkur framsóknarmanna hefur samþykkt þessar aðgerðir, sem hæstv. forsrh. hefur lýst, í trausti þess að þær verði til þess að þeir samningar, sem forustumenn vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar hafa náð, verði staðfestir. Við teljum að samningar þessir séu langsamlega besti grundvöllurinn til að snúa við þeirri efnahagsþróun sem verið hefur nú upp á síðkastið. Við teljum rétt að vinna að endurbótum á þessu sviði í samráði við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur.

Við fögnum því að samkomulag hefur náðst um það í ríkisstjórninni að hverfa á ný að því ráði að endurgreiða söluskatt í sjávarútvegi sem ákveðið var í fyrri ríkisstjórn. Við fögnum því að ákveðið hefur verið að hverfa frá því að leggja launaskatt á útflutningsatvinnuvegina og samkeppnisatvinnugreinar. Við fögnum því að samkomulag er um að taka til endurskoðunar vaxta- og geymslugjald, sem hefur íþyngt mjög ýmsum samvinnufélögum og vinnslustöðvum landbúnaðarins víða um land, og við treystum því að þessi endurskoðun verði til þess að jafnræði verði með slíkum vinnslustöðvum og greiðslustaða þeirra bætt.

Við fögnum því mjög að fram undan er nokkur lækkun á vöxtum, en þótt ég taki undir það með síðasta hv. ræðumanni að lækkunin mætti vera meiri, og væntanlega verður hún það, og áreiðanlega ef verðbólga lækkar svo sem Þjóðhagsstofnun telur.

Okkur er fyllilega ljóst að teflt er á tæpasta vaðið, t.d. með grundvöll útflutningsatvinnuveganna, eins og kom fram í þeim upplýsingum sem hæstv. forsrh. flutti hér. Þó er það staðreynd að með þessum aðgerðum er fallist að langmestu leyti á óskir þessara sömu atvinnuvega eftir þá samninga sem hafa náðst.

Þó er ljóst að á næstu mánuðum verður að fylgjast mjög vandlega með þróun útflutningsatvinnuveganna og stöðu þeirra og ríkisstjórnin áreiðanlega að vera tilbúin að bæta hana ef t.d. hallar undan fæti á erlendum mörkuðum svo að eitthvað sé nefnt.

Alveg sérstaklega teljum við alvarlegt að viðskiptahalli verði enn eftir sem áður um 10 milljarðar kr. Við fögnum því að þessar aðgerðir verða til að draga úr fyrirsjáanlegum viðskiptahalla um 3 milljarða, en ég hygg að öllum megi vera ljóst að svo mikinn viðskiptahalla þolir þjóðin ekki til lengdar. Honum verður hins vegar ekki náð niður á einu ári.

Ég er þeirrar skoðunar jafnframt að svo kunni að reynast að draga verði enn meira en þessar aðgerðir gera ráð fyrir úr þeirri þenslu sem er í þjóðfélaginu og alveg sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, en á það mun reyna þegar viðræður verða nú upp teknar við sveitarfélögin um framkvæmdaáætlun þeirra.

Ég lýk þessum fáu orðum mínum með því að leggja áherslu á að í samkomulagi við vinnuveitendur og verkalýðshreyfinguna geta menn gert sér vonir um að snúa við þeirri erfiðu stöðu sem orðin er í okkar efnahagsmálum.