29.02.1988
Sameinað þing: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5125 í B-deild Alþingistíðinda. (3470)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, í dag er 29. febrúar, hlaupársdagur, og það er vel við hæfi að ríkisstjórnin komi með þessa tilkynningu á þeim degi. Bæði ég og aðrir sem ræddu mikið um fjárlög og lánsfjárlög fyrir áramót margfullyrtum að það mundi ekki líða langt á árið þangað til yrði gerður uppskurður á þessum frv. Nú liggur það fyrir og það í verulegum mæli. Annað er dálítið athyglisvert. Við höfum átt umræður um vaxtamál og um hvaða áhrif hæstv. ríkisstjórn geti haft á þau mál. Það hefur verið fullyrt að það verði að fylgja framboði og eftirspurn. Ég sé ekki betur en þessi tilkynning um ráðstafanir feli í sér að hæstv. ríkisstjórn sé nú komin á aðra skoðun í því máli þó að margt megi svo segja um vextina í því sambandi. En ég hef stuttan tíma og get ekki farið mikið út í það frekar.

Ég vil taka fram að á fyrstu síðu er sagt að Seðlabankinn, með leyfi forseta, beiti sér einnig fyrir því að umsjónar- og eftirlitsgjald vegna afurðalána verði lækkað í fyrra horf hjá þeim bönkum sem hækkað hafa gjaldið 1987. Búnaðarbankinn hækkaði ekki þetta gjald.

Það er sagt frá því að Seðlabankinn hafi ákveðið að lækka eigin vexti í viðskiptum við innlánsstofnanir um 2%. Þetta er ekki skilgreint frekar, en í umræðunum á morgun óska ég eftir því að það komi betur fram við hvað er átt og hvort muni ekki koma eitthvað til baka eða það verði þá tekið upp um bindiféð, sem bankarnir binda í Seðlabankanum, að farið verði að borga af því einhverja vexti.

Þar sem ég hef mjög lítinn tíma vil ég spyrja aðeins um það sem hér segir í síðasta punktinum: „Jafnframt verður lagt fram frv. um skattskyldu fjárfestingarlánasjóða og veðdeildir bankanna.“ Skil ég það rétt að það eigi t.d. að fara að leggja skatt á Stofnlánadeildina til þess að hún sé síður þess umkomin að halda áfram að borga niður vexti hjá skuldugum bændum og reyna að koma þar á móts við hinar brýnu þarfir sem þar eru? Ég óska einnig eftir því að fá svar við því á morgun í umræðunum.

Að öðru leyti mun ég ræða vaxtamálin í umræðunum á morgun og reyna að færa að því rök að sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur fylgt hafi leitt til þess að nú sé búið að ákveða að fella gengið. En tíma til þess hef ég ekki nú.

Í hinni gráu bók, sem ég er með hér fyrir framan mig, er sagt m.a.: „Leitast verður við að mæta vanda þeirra bænda sem búa við sérstaka erfiðleika, erfiða lánsfjárstöðu, með skuldbreytingum o.s.frv.“ Ekki kemur fram í þessu að það sé neitt hugsað til þess að standa við þetta fyrirheit. Ég vil einnig fá svar við því.

Að endingu vil ég segja þetta: Það eru mikil vonbrigði hvernig er tekið á þessum málum þjóðarinnar. Það er ekki verið að hugsa um réttlæti hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég viðurkenni að það er erfitt að lyfta launum láglaunafólksins í samningum, en það var hægt í sambandi við þær aðgerðir, sem nú er verið að gera, að gera eitthvað til þess að láglaunafólkið hafi meiri tekjur með einhverjum hætti en það hefur því það er til skammar. Það er til skammar okkur öllum og ekki síst ríkisstjórninni að viðhalda því misrétti sem er í þjóðfélaginu.

Ég geri ráð fyrir að ég sé búinn með mínar fimm mínútur og læt þessu lokið.