01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5128 í B-deild Alþingistíðinda. (3479)

Framvinda þingfundar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er nýlunda í sögu þingsins að fresta fundi þegar ekkert mál er á dagskrá. Ég vek athygli á þessu brautryðjendastarfi stjórnarmeirihlutans og hæstv. forseta og tel nauðsynlegt að það komi fram þannig að þingheimi megi vera ljóst hvílíkur viðburður er hér á ferðinni undir forustu Alþfl. hér í þessari hv. deild, sögulegur viðburður. Mér gengur auðvitað gott eitt til, eins og venjulega þegar ég er að tala við þá alþýðuflokksmenn, er ekki með neinn meiri háttar uppsteyt við hæstv. forseta af þessu tilefni, en vil aðeins vekja athygli á þessum sögulegu kaflaskiptum að hann er að fresta fundi án þess að það sé neitt mál á dagskrá fundarins. Auðvitað ræður forseti þessu. Það er fullkomlega reiðilaust af minni hálfu þó að hann fresti fundi án þess að neitt mál sé á dagskrá. En ég var aðeins að vekja athygli deildarinnar á því hvað við ættum nýjungagjarnan forseta hér í þessari virðulegu deild.