29.10.1987
Sameinað þing: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

23. mál, einnota umbúðir

Flm. (Kristín Einarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um notkun einnota umbúða hér á landi. Till. flytja ásamt mér hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, Árni Gunnarsson, Valgerður Sverrisdóttir og Salome Þorkelsdóttir. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa frumvarp til laga um framleiðslu, innflutning og notkun einnota umbúða hér á landi.“

Notkun einnota umbúða hefur stóraukist hér á landi undanfarin missiri. Hér er aðallega um að ræða aukna notkun á plastflöskum, ál- og plasthúðuðum pappaumbúðum og áldósum fyrir gos, öl og svaladrykki. Einnota umbúðir úr léttum efnum hafa að sjálfsögðu nokkurt hagræði í för með sér fyrir bæði neytendur og framleiðendur og gæti í fljótu bragði virst að það jákvæða væri yfirgnæfandi. Umbúðirnar eru léttar, taka oft minna pláss og það þarf ekki að geyma þær og síðan skila eins og t.d. glerflöskum. En það er full ástæða til að staldra við og athuga málið aðeins nánar. Það hefur oft gleymst þegar kostir einnota umbúða eru metnir að aukin notkun þeirra hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir þá sem sjá um sorphirðu. Auk þess eykur það þörf fyrir landrými fyrir sorphauga en það er vaxandi vandamál bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Eitt þeirra vandamála, sem komið hafa upp hér á landi varðandi umbúðir, sérstaklega utan af drykkjarvöru, er að fólk fleygir þeim úti í náttúrunni án þess að hugsa um þá fyrirhöfn og þann kostnað sem það hefur í för með sér við hreinsun. Það þarf ekki að fara langt, ekki lengra en hér rétt út fyrir húsið til að sjá áldósir og pappaumbúðir á víð og dreif. En hvað er hægt að gera til að sporna við þessu?

Í nágrannalöndum okkar hafa víðast verið settar reglur um notkun, endurnýtingu og endurvinnslu umbúða. Áldósir eru t.d. alveg bannaðar í Danmörku. Ég tel alls ekki fráleitt að fara að dæmi Dana og banna einnig áldósir hér á landi en ef sú leið verður ekki valin tel ég nauðsynlegt að setja skilagjald á þær og jafnvel aðrar einnota umbúðir einnig.

Skilagjald er á flestum glerflöskum og ef gjaldið er nógu hátt safnar fólk þeim saman, skilar og fær gjaldið endurgreitt. Skilagjald verður því að vera það hátt að það hvetji fólk til að safna saman umbúðum og skila frekar en að fleygja.

Í skýrslu sænska umhverfismálaráðuneytisins um stjórn sorphirðu sem lögð var fyrir sænska þingið sl. ár kemur fram að eftir að tekið var upp skilagjald á áldósum þar í landi komu árið 1985 66% af keyptum dósum til baka sem verður að teljast góður árangur.

Einnig finnst mér eðlilegt að koma á einhvers konar framleiðslugjaldi sem yrði þá mishátt eftir eðli umbúðanna. Af þeim sem mestri mengun valda væri þá hægt að hafa hærra gjald og lægra af öðrum. Slíkt gjald mætti nota í þágu umhverfismála og til að stuðla að endurvinnslu og endurnýtingu.

Það er alveg ljóst að verð vörunnar með umbúðunum mundi hækka ef slík gjöld yrðu tekin upp. En við verðum að gera okkur ljóst að það þarf að greiða þessi gjöld og þau eru nú þegar greidd og hvorki framleiðandinn né neytandinn gerir það með beinum hætti á fyrstu stigum. En við verðum að gera okkur grein fyrir að nú er greitt hátt gjald vegna þessara umbúða. Spurningin er bara hvort gjaldtakan er á réttum stað. Nú verja sveitarfélög miklu til sorphirðu og sorpeyðingar sem við þurfum að sjálfsögðu að greiða úr sameiginlegum sjóðum. Enn meira fjármagni þyrfti að verja til hreinsunar því nú þegar eru einnota umbúðir á víð og dreif um allt landið okkur til háborinnar skammar. Það þarf að hreinsa þetta rusl og það getur kostað mikla fjármuni.

Undanfarin ár hafa margir lýst áhyggjum af þróun þessara mála hér á landi og sent frá sér yfirlýsingar varðandi einnota umbúðir. Á náttúruverndarþingum frá 1975 hafa þessi mál verið mikið rædd og á nýloknu náttúruverndarþingi var samþykkt áskorun til Alþingis um að setja sem fyrst lög og reglugerðir um notkun þessara umbúða. Margir fleiri hafa sent frá sér yfirlýsingar varðandi þetta vandamál. Í síðustu viku sendi Birgir Þórðarson hjá Hollustuvernd ríkisins mér drög að reglugerð um notkun einnota umbúða sem unnin hefur verið af fulltrúum frá Hollustuvernd ríkisins, Landvernd og Náttúruverndarráði. Mér líst vel á það sem þar kemur fram þótt ýmislegt þurfi nánari athugunar við. Í fyrstu grein þessara draga að reglugerð segir, með leyfi forseta:

„Reglugerð þessi gildir fyrir allar drykkjarvörur framleiddar hér á landi og innfluttar er flokkast sem öl (léttöl, maltöl og bjór), gosdrykki, þ.e. alla drykki sem innihalda kolsýru og aðra svaladrykki að undanskildum hreinum ávaxtasafa og grænmetisdrykkjum, mjólkurdrykkjum og hreinu vatni.“

Ég skil vel að hikað sé við að stinga upp á að setja aukagjald á ílát undan hollustudrykkjum svo sem mjólk, ávaxta- og grænmetisdrykkjum en það verður að fara varlega og hafa reglur mjög skýrar svo ekki sé hægt að komast fram hjá þeim. Það má t.d. spyrja hve mikið þynntur ávaxtasafinn má vera til að hann sé undanskilinn ákvæðum reglugerðarinnar. Ég vara við of mörgum undanþágum í þessum efnum.

Mjög auðvelt er að byggja á þessum ágætu tillögum í áframhaldandi vinnu og vegna þess sem þegar er búið að gera ætti að vera hægt á skömmum tíma að breyta þeim lögum sem nauðsynlegt er og setja reglur um þetta mál. Ég tel eðlilegt að lög og reglur um einnota umbúðir hafi forgang en í framhaldinu er eðlilegt að samin verði heildarlöggjöf um allar umbúðir og notkun þeirra hér á landi.

Ef við hefðum haft umhverfismálaráðuneyti þá tel ég að við værum nú þegar búin að taka á þessu máli sem og öðrum brýnum mengunar- og umhverfismálum. Deildir og stofnanir sem um þessi mál fjalla eru nú dreifð á mörg ráðuneyti en það getur skapað ringulreið og óskilvirkni, auk þess sem ég held að það sé mikið dýrara. Það er því brýnt að sameina í eitt ráðuneyti þessar deildir og stofnanir nú þegar ef árangur á að nást. Það yrði bæði hagkvæmara og árangursríkara.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til allshn.