01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5129 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 631 um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum árið 1988. Um þetta mál hafa þegar spunnist nokkrar umræður í Sþ. þannig að efni frv. er hv. efrideildarþingmönnum þegar kunnugt.

Tilgangurinn með þessu frv. er sá að bæta starfskjör fólks og fyrirtækja í sjávarútvegi, einkum fiskvinnslu og öðrum útflutningsgreinum. Hér er um að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar aðgerðir á sviði gjaldeyrismála, ríkisfjármála, lána- og peningamála og tilgangurinn er að bæta starfsskilyrði útflutningsatvinnuveganna og hamla gegn viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun, eins og segir í inngangsorðum yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsrh. kynnti þingheimi í gær.

Þessum tilgangi er náð með aðgerðum sem segja má að séu þríættar. Í fyrsta lagi er um að ræða aðgerðir til þess sérstaklega að bæta hag útflutningsgreina. Í annan stað eru sérstakar aðgerðir til þess að bæta starfsskilyrði launafólks. Í þriðja lagi eru aðgerðir á sviði ríkisfjármála og peninga- og vaxtamála sem miða að því að draga úr viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun.

Helstu þættir þessara aðgerða felast í endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti, afnámi launaskatts frá miðju næsta ári, skuldbreytingum í sjávarútvegi og lækkun tilkostnaðar vegna afurðalána í sjávarútvegi. Þessar aðgerðir ásamt með breyttri gengisskráningu krónunnar, sem felur í sér 6,38% hækkun á verði erlendra gjaldmiðla, þýða rúmlega þriggja milljarða styrkingu á fjárhag sjávarútvegsins og annarra útflutningsgreina. Þar af má meta áhrif gengisbreytingarinnar upp á 2 milljarða kr., en aðrar aðgerðir til þess að styrkja fjárhag sjávarútvegs og fiskvinnslu sérstaklega má meta upp á um 1250 millj. kr. Auk þess eru ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar sem bæta hag útflutningsgreinanna með óbeinum hætti eins og t.d. lækkun vaxta, lækkun tilkostnaðar vegna afurðalána, sem og þær aðgerðir sem gripið er til til þess að draga úr fjárfestingu, einkum og sér í lagi í framkvæmdum, sem einnig stuðla að því að draga úr því misgengi sem að undanförnu hefur bitnað á útflutningsgreinunum sérstaklega.

Það er ástæða til að fara nokkrum orðum um þann sérstaka efnahagsvanda sem við höfum átt við að stríða á undanförnum mánuðum. Í umfjöllun um þennan vanda er oft lögð áhersla á það að hér sé fyrst og fremst um að ræða kreppu útflutningsgreinanna. Í raun og veru erum við þó að fást við sérstakt afbrigði af góðærisvanda. Það er ástæða til að rifja upp hver aðdragandinn er að þessum efnahagsvanda og hvernig hann hefur birst okkur á undanförnum mánuðum.

Það er alkunna að á undanförnum árum hafa Íslendingar notið einstæðs góðæris. Hagvöxtur hefur verið með því mesta sem þekkist hjá sambærilegum þjóðum. á undanförnum þremur til fjórum árum hefur þjóðarframleiðsla Íslendinga aukist um rúmlega fimmtung en það eru verðmæti sem meta má til um 50 milljarða kr. Þetta góðæri á rætur sínar að rekja til sjávarútvegsins. Þar fóru saman á undanförnum árum einstaklega hagstæð ytri skilyrði. Það birtist okkur í stórauknum afla, í hækkandi verði á helstu mörkuðum okkar, í lækkandi tilkostnaði um langt skeið, bæði vegna lækkunar olíuverðs og lækkunar vaxta á erlendum mörkuðum. Við þetta bættust síðan kjarasamningar í tvígang á árinu 1986 sem ásamt með samstilltum aðgerðum leiddu til þess að það tókst að nýta þessi hagstæðu ytri skilyrði til þess að halda aftur af verðbólgu um skeið.

Á hitt er svo að líta að frá og með hausti 1986 eða í allra seinasta lagi í upphafi árs 1987 voru sýnileg ytri merki þess að þetta hagvaxtarskeið væri að snúast upp í verðbólguskeið og kom þar margt til. Á árinu 1987 var ljóst að hallinn í ríkisfjármálum var mikill og fór vaxandi og um mitt ár mældist hann tæpir 3,5 milljarðar kr. Verðbólguáhrif af þessum sökum eru sýnileg. Auk þess var ljóst að í kjölfar góðæris undangenginna ára höfðu forsvarsmenn í atvinnulífi spennt bogann býsna hátt að því er varðaði fjárfestingar og nýframkvæmdir. Þetta leiddi til þess að inn í landið streymdi erlent lánsfjármagn langt umfram það sem áætlanir höfðu gert ráð fyrir eða rúmlega 5 milljarðar kr. á árinu 1987. Hömlulítil lánsfjáröflun, hallinn í ríkisfjármálum og hátt framkvæmdastig í sumum greinum íslensks atvinnulífs, allt leiddi þetta til sívaxandi þenslu. Á vinnumarkaðnum ríkti uppboðsástand. Launaskrið var mjög mikið. Og það tókst ekki við þessar aðstæður að standa við megintilgang kjarasamninganna frá því annars vegar í febrúar 1986 og síðan í desember 1986 um það að láta hækkun lægstu launa hafa forgang umfram aðrar hækkanir. Í raun og veru má segja að víða í hagkerfinu hafi kjarasamningar gilt sem lágmarkssamningar, en atvinnulífið hafi að öðru leyti brugðist við spennunni á vinnumarkaðnum með því að bjóða upp vinnuaflið með þeim afleiðingum að þegar liða tók á árið varð augljóst sívaxandi misgengi milli annars vegar útflutningsgreinanna og hins vegar þjónustugreina sem fyrst og fremst eru fyrirferðarmiklar í Reykjavíkurhagkerfinu ef svo má að orði komast.

Þessi þróun mála leiðir í ljós að það hefði verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða á sviði ríkisfjármála og peningamála strax í upphafi árs 1987. Sú staðreynd að það gerðist ekki leiddi til þess að vandinn varð mun verri viðureignar þegar ný ríkisstjórn kom til valda um mitt sl. ár. Við þetta bætist síðan að á sl. hausti urðu snögg umskipti til hins verra. Þetta birtist okkur m.a. í því að við stóðum frammi fyrir umtalsverðu falli á gengi dollars, sem hefur óvenjumikil áhrif í okkar utanríkisviðskiptum. Jafnframt er sýnt að fiskveiðistefna þessa árs byggir á forsendum um nokkurn aflasamdrátt. Í þriðja lagi má nefna að horfur á erlendum mörkuðum eru tvísýnar. Þegar hefur komið til nokkurrar verðlagslækkunar, en að öðru leyti hafa menn áhyggjur af þróun mála á erlendum mörkuðum, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði. Á sama tíma og þetta gerðist urðu umtalsverðar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum í byrjun október á sl. ári. Niðurstaðan varð því sú að kostnaðarhækkanir innan lands, einkum á síðari hluta ársins, urðu til mikilla muna meiri en samrýmst gat horfum um tekjuöflun, sérstaklega í útflutningsgreinunum, þannig að umskiptin urðu tiltölulega snögg og þess fór að gæta þegar líða tók á sl. haust og í byrjun þessa árs.

Þensluástandið gerði stöðu útflutningsgreinanna erfiðari viðfangs vegna þess að þær reyndust ekki hafa burði til þess að keppa um vinnuaflið eins og þær greinar sem selja vöru sína og þjónustu á innlendum markaði og gátu hindrunarlítið velt þessum aukna kostnaði út í verðlagið. Með þessum hætti ágerðist tilhneiging til eftirspurnarverðbólgu sem hefur verið einn meginvandinn sem við er að fást ásamt með þessu misgengi milli annars vegar útflutningsgreinanna og starfskjara fólks í útflutningsgreinum og hins vegar þess einstaka góðæris sem ríkti í öðrum geirum þjóðfélagsins og þá einkum og sér í lagi hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar ríkisstjórnin kom til valda um mitt sl. ár hófst hún þegar í stað handa um aðgerðir til að vinna bug á þessum vanda. Þær aðgerðir voru einkum og sér í lagi á sviði ríkisfjármála og peningamála. Ríkisstjórnin hóf feril sinn þegar í stað með því að koma í framkvæmd nýrri tekjuöflun. Sú tekjuöflun þýddi að fjárhagur ríkissjóðs var styrktur sem svaraði u.þ.b. einum milljarði króna strax á árinu 1987. Í annan stað beitti ríkisstjórnin sér fyrir því á grundvelli fjárlaga og lánsfjárlaga að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og jafnframt bar lánsfjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar öll einkenni verulegs aðhalds að því er varðaði lánsfjáröflun á vegum opinberra aðila. Það birtist m.a. í því að ríkisstjórnin hafði ekki uppi áform um neinar nýjar erlendar lántökur ríkissjóðs, hún dró verulega úr lánsfjáröflun opinbera geirans í heild. En eftir sem áður lá fyrir að fjárfestingaráform í atvinnulífinu voru mikil sem síðan hefur staðfest líka þegar birst hafa tölur um fjárfestingaráform sveitarfélaga sem óneitanlega eru býsna háreist. Á sama tíma og ríkið stefndi þannig að samdrætti í fjárfestingum ríkis og opinberra aðila um sem svaraði tæplega 15% stóðu menn frammi fyrir fjárfestingaráformum sveitarfélaga sem stefndu til aukningar upp á 43% og reyndar má nefna sérstaklega fjárfestingaráform höfuðborgarinnar sem ætlað er að stefni í að vaxi milli ára um hvorki meira né minna en 63%.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar var því yfirlýst að æskilegt væri, að því er varðaði kjarasamninga sem lausir voru á seinustu áramótum, að reynt yrði að stefna saman í einn tímapunkt ákvörðunum sem vörðuðu bæði starfskjör fyrirtækja í sjávarútvegsgreinunum og leiðréttingu á kjörum fiskvinnslufólks og annarra þeirra launþega sem ekki höfðu setið við veisluborð launaskriðsins á undangengnum mánuðum.

Þessi áform hafa nú staðist. Við stöndum frammi fyrir því að gerðir hafa verið tveir stefnumarkandi kjarasamningar, fyrst kjarasamningarnir sem tókust á Vestfjörðum og því næst nú kjarasamningar milli atvinnurekenda og Verkamannasambandsins sem byggja jafnframt á þeim forsendum að ríkisstjórnin beiti sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að styrkja greiðslugetu og samkeppnishæfni sjávarútvegsgreinanna. M.ö.o.: Það er ljóst að forsenda þess að þessir kjarasamningar gátu tekist var sú að ríkisstjórnin hafði í tæka tíð gert ráðstafanir til að styrkja svo mjög stöðu ríkisfjármálanna að henni var gert kleift að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins um það að styrkja fjárhag þessara greina sérstaklega.

Í ljósi þessa er ég ekki í nokkrum vafa um það að ríkisstjórnin fylgdi réttri stefnu þegar hún beitti sér einarðlega fyrir því að styrkja fjárhag ríkissjóðs og jafnframt beitti sér fyrir því að auka aðhald að erlendum lántökum og lánsfjárnotkun opinbera geirans eins og það birtist í lánsfjárlögum. Hefði þetta ekki verið gert efast ég stórlega um það að forsendur hefðu verið til staðar til þess að ná samningum um það að gera hvort tveggja í senn: styrkja stöðu útflutningsgreinanna og skapa forsendur fyrir því að það mætti leiðrétta kjör þess fólks sem í þessum greinum starfar.

Það er ástæða til að spyrja þeirrar spurningar hvort ekki hefði eins mátt fara einhverjar aðrar leiðir til þess að leysa þennan vanda. Það er ekkert launungarmál að það voru uppi stífar kröfur af hálfu ýmissa aðila í atvinnulífinu um það að ganga lengra í gengislækkunarátt. Íslendingar hafa á undanförnum árum og áratugum langa reynslu af því hvað slíkar kollsteypur í efnahagsmálum þýða og á hverjum þær bitna þyngst öðrum fremur.

Meiri háttar gengisfelling hefði ekki verið vænleg raðstöfun. Ef við litum sérstaklega á hag fiskvinnslu og fiskvinnslufólks, þá er það alkunna að hráefniskostnaður er hvað stærsti útgjaldaliður fiskvinnslunnar eins og nú er komið. Launin eru á bilinu fimmtungur til fjórðungur, en erlendur kostnaður er líka býsna hár. Meiri háttar gengisfelling við þessi skilyrði hefði auðvitað þýtt meiri fjármagnstilfærslu til atvinnurekenda frá launafólki. Meiri háttar gengisfelling við þessi skilyrði hefði útilokað það að menn hefðu getað gert sér vonir um að ná samkomulagi um leiðréttingu á kjörum hinna lægst launuðu með von um það að halda í við launabreytingar upp allan launastigann. Gengisfelling af þessu tagi hefði vissulega bætt hag útflutningsgreinanna en mjög skamma stund vegna þess að laun, fiskverð, hráefniskostnaður og erlend aðföng hefðu hækkað jafnóðum í verði. Verðbólgumarkmiðin hefðu verið fyrir bí, vonin um það að ná auknum stöðugleika með hjöðnun verðbólgu á seinni hluta ársins hefði farið forgörðum og niðurstaðan er sú að innan skamms tíma hefðu bæði fyrirtækin í sjávarútvegi og fiskvinnslu, sem og fólkið sem við þessar greinar starfar, verið í verri stöðu eftir en áður.

Ég hika því ekki við að fullyrða að það er rétt stefna sem í þessum ráðstöfunum birtist, að hafa hamlað gegn ýtrustu kröfum um gengisfellingu, en byggt fremur á traustum fjárhag ríkissjóðs til þess að styrkja hag þessara greina og halda í vonina og fyrirheitið um að það takist að ná hjöðnun verðbólgu á seinni hluta ársins. Það er meginmarkmið þessara raðstafana. Það er stærsta hagsmunamál hvort heldur er útflutningsgreinanna, atvinnurekenda í þeim greinum og launafólksins í þessum greinum.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þeir sem halda því fram að það hefði átt að fara aðrar leiðir, og þá fyrst og fremst grípa til stórtækari gengisfellingar, hafi ekki rétt fyrir sér. Ég held að ríkisstjórnin hafi valið þá leið sem miðað við allar aðstæður sem við nú búum við er hin rétta.

Vissulega er það harður dómur um hagstjórn í okkar þjóðfélagi að menn skuli þurfa að grípa til gengisfellingar með svo litlum fyrirvara nú þegar við horfum fram á að einhverju mesta hagvaxtarskeiði sem íslenska þjóðin hefur upplifað á undanförnum árum er að ljúka. Af því má marga lærdóma draga og þar er mér efst í huga að hlutverk opinberrar hagstjórnar hlýtur að vera það að grípa í tæka tíð til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að hlutirnir fari úr böndunum eins og við höfum orðið að upplifa einn ganginn enn. Það er mikill munur á því hvort gripið hefði verið til þessara ráðstafana í upphafi árs 1987 eða hvort ekki var hægt að komast til þessara verka fyrr en upp úr miðju ári eins og niðurstaðan varð. En því segi ég þetta að ég vil leggja á það áherslu að við erum ekki að fást við efnahagsvanda sem er alvarlegur í þeim skilningi að það sé einhver allsherjar kreppa í íslenskum þjóðarbúskap. Við erum að fást við afleiðingarnar af því að ekki var gripið í taumana í tæka tíð, að góðærisvandinn var látinn þróast upp í verðbólguvanda með þessum hætti.

Alkunna er að þegar menn fjalla um efnahagsmál á Íslandi grípa menn til mats á helstu stærðum sem kenna má við meðaltöl og á það jafnt við þegar menn eru að reyna að meta afkomu fyrirtækja og greina innan sjávarútvegs og fiskvinnslu sem og launaþróun og ýmsar aðrar stærðir. Ég leyfi mér að vekja athygli manna á því að þrátt fyrir óvefengjanlegar staðreyndir um ört versnandi afkomu fiskvinnslunnar á undanförnum mánuðum var það svo að útgerðin í landinu hefur búið um langt skeið við býsna mikið góðæri. Hún naut að verulegu leyti fastgengisstefnunnar við þau skilyrði að afli var vaxandi og verðlag fór hækkandi á erlendum mörkuðum, sem og tilkostnaður lækkandi. Hagur útgerðarinnar hefur verið býsna góður, óvenjulega góður á undanförnum árum og það er ástæða til þess að nefna það að a.m.k. að'/s hlutum er um það að ræða í einu eða öðru formi að útgerð og fiskvinnsla eru rekin í nánum innbyrðis tengslum, þ.e. ef ekki sömu fyrirtækin, þá á grundvelli skyldra fyrirtækja. Á sama tíma og snögg breyting á ytri skilyrðum kallaði á þetta mikinn hallarekstur hjá fiskvinnslunni er það engu að síður svo að fjárfestingaráform þeirra aðila sem starfa í fiskvinnslu og útgerð eru óneitanlega mjög háspennt. Í því efni hafa verið nefnd dæmi um að útgerðaraðilar stefna að nýsmíði fiskiskipa og meiri háttar endurbótum á fiskiskipum á þessu ári í framhaldi af mjög miklum fjárfestingum á síðasta ári sem metið er einhvers staðar á bilinu 3–4 milljarðar kr.

Auðvitað er hægt að nefna líka dæmi um það að menn hleypa sér út í miklar fjárfestingar þegar afkoma er sæmileg og menn horfa fram á batnandi tíma. Dæmi um það má t.d. nefna í fjárfestingu í rækjuvinnslu. Fyrir um það bil fimm árum voru rækjuvinnslur um það bil 20 talsins en eru núna eitthvað um 50. Þarna hefur verið ráðist í mjög mikla fjárfestingu. Auðvitað hefur orðið um að ræða mikla aukningu í veiðum og vinnslu sem bendir til þess að hagur í sjávarútvegi var til skamms tíma býsna góður.

Það er gamalt vandamál í íslensku efnahagslífi hvernig menn ætla sér að reyna að hafa taumhald á hagsveiflu í sjávarútvegi sem fyrst og fremst ræðst að verulegu leyti af skilyrðum sem eru utanaðkomandi. En ég staldra enn við þá staðreynd að við höfum á undanförnum árum þrátt fyrir allt náð hér hagvexti í þessu þjóðfélagi, aukningu þjóðarframleiðslu, sem á fyrst og fremst rætur sínar að rekja til sjávarútvegsins og batnandi skilyrða í sjávarútvegi og arðurinn af þeim hagvexti er ekki minni en um 50 milljarðar kr. Spurningin er: Hvernig nýttist þessi hagvöxtur? Hverjum kom hann í hag? Hvernig stendur á því að atvinnulíf á landsbyggðinni stendur ekki traustari fótum þegar hagvöxturinn er fyrst og fremst þaðan kominn á undanförnum árum? Hvað getum við lært af því?

Sjávarútvegur og fiskvinnsla eru keppinautar þjónustu og byggingarstarfsemi og annarrar framleiðslustarfsemi hér á höfuðborgarsvæðinu og af því að ekki var gripið í taumana í tæka tíð er það einfaldlega svo að sjávarútvegurinn og útflutningsgreinarnar, sem eiga afkomu sína undir verðlagsþróun á erlendum mörkuðum og gengisþróun, urðu undir í þessari samkeppni. Það hlýtur að vera eitt meginhlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að reyna að sjá fyrir slíka þróun og grípa í taumana í tæka tíð og reyna að skapa sem jöfnust starfsskilyrði fyrir atvinnulífið í heild sinni. Að því miða þessar aðgerðir. Þær hefðu hins vegar ekki tekist ef ríkisstjórnin hefði ekki í tæka tíð gert ráðstafanir til þess að treysta fjárhag ríkissjóðs þannig að hann gæti á réttum tímapunkti skorist í leikinn og lagt sitt af mörkum til þess að endurreisa jafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap.

Viðskiptahalli sem hlotist hefur af þessari efnahagsþróun undangenginna mánaða og verðbólga eru nú eins og oft áður þau vandamál sem yfirgnæfa önnur að því er varðar hagstjórnina. Ég legg áherslu á það að þessum erfiðleikum mætum við þó við önnur og betri skilyrði en oftast áður. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa vaxið hröðum skrefum eins og ég hef nefnt tölur um á síðustu fjórum árum. Það er líka staðreynd að launatekjur hafa hækkað enn hraðar en nemur vexti þjóðartekna. Að raungildi hækkuðu atvinnutekjur um 45% á síðustu þremur árum, þar af um ekki minna en 17% á síðasta ári. Launatekjur voru liðlega 70% sem hlutfall landsframleiðslu á seinasta ári og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra.

Á þessu ári eru hins vegar horfur á því að þjóðarframleiðslan dragist nokkuð saman, en öllum má ljóst vera að við erum að kljást við góðærisvanda fremur en hallæris. Það sem ég sagði áðan um misgengið milli atvinnugreina skýrir hins vegar það að tekjuþróunin hefur endurspeglað þá þróun. Við höfum búið við misskiptingu tekna í allt of ríkum mæli og við þurfum að leiðrétta það og við gerum það ekki nema á grundvelli aukins jafnvægis í efnahagsmálum.

Herra forseti. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur nú kynnt og birtast í þessu frv. og hæstv. forsrh. kynnti þingheimi í gær koma bæði við tekju- og gjaldahlið fjárlaga fyrir árið 1988. Jafnframt snerta þær niðurstöður lánsfjárlaga fyrir árið 1988. Á gjaldahlið vegur þyngst sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að endurgreiða að fullu uppsafnaðan söluskatt sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 1988, en við afgreiðslu fjárlaga var einungis gert ráð fyrir að um þriðjungur yrði endurgreiddur. Þetta hefur í för með sér tæplega 600 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð á þessu ári. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið að fella niður launaskatt í sjávarútvegi og samkeppnisgreinum iðnaðar frá 1. júlí nk. Útgjaldaauki ríkissjóðs af þeim sökum er 200 millj. kr. Til þess að standa undir þessum útgjaldaauka og hvika jafnframt ekki frá því meginmarkmiði efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að reka ríkissjóð án halla var nauðsynlegt að gera hvort tveggja í senn: Lækka ríkisútgjöld og afla ríkissjóði viðbótartekna. Þetta hefur verið ákveðið með því að lækka ríkisútgjöld um 300 millj. kr. frá því sem ákveðið var í fjárlögum og þá fyrst og fremst fjárfestingarútgjöld með vísan til þeirra áforma að draga úr framkvæmdum og fjárfestingum sem eru þensluvaldur.

Framlög til vegagerðar eru þannig lækkuð um 125 millj. kr. Á fjárlögum var gert ráð fyrir 2,9 milljörðum til vegagerðar. Samkvæmt því lækka framlög til vegagerðar í 2775 millj. kr. á árinu 1988. Að vísu er það matsatriði hvort tekjur Vegasjóðs af bensíngjaldi, einkum og sér í lagi, kunni að verða eitthvað meiri, kannski á bilinu 70–90 millj. kr. fyrst og fremst vegna fjölgunar bifreiða á sl. ári, en hver sem svo niðurstaðan verður í því efni má ætla að framlög til vegaframkvæmda verði að hámarki um 2860 millj. kr.

Þá eru framlög til byggingarsjóða lækkuð um 100 millj. kr. og aðrar fjárveitingar ýmsar um 75 millj. kr.

Að því er varðar húsnæðismálin er rétt að staldra við þau lítillega. Eins og hv. þm. muna var fjáröflun til húsnæðismála stórlega aukin við afgreiðslu seinustu fjárlaga. Þar skiptu ekki mestu út af fyrir sig framlögin sjálf, þ.e. í Byggingarsjóð ríkisins. Þó voru framlög til Byggingarsjóðs verkamanna tvöfölduð, en einkum og sér í lagi byggðist þetta á því að ráðstöfunarfé lífeyrissjóða, sem samkvæmt samningum er varið til byggingarlánasjóðanna, fór stórlega vaxandi. Þetta þýðir að fjármagn til byggingarlánasjóðanna hefur aukist mjög verulega. Jafnframt búum við við kerfi þar sem niðurgreiðsla vaxta á húsnæðislánum er mjög mikil og langt umfram það sem áformað var þegar þetta kerfi var upphaflega sett af stað þar sem menn gerðu ráð fyrir því að vaxtamunur milli vaxta á fengnum lánum frá lífeyrissjóðunum og hins vegar veittum lánum byggingarsjóðanna mætti vera á bilinu 11/2–2% ef ekki ætti að stefna fjárhag byggingarsjóðanna í framtíðinni í hreina og klára hættu.

Öllum er kunnugt um að vextir hafa farið hækkandi í undangengnu þensluástandi sem hefur þýtt að þessi vaxtamunur er orðinn mjög mikill. Jafnframt hefur það þýtt að sjálfvirk afgreiðsla lána til húsnæðismála - stór hluti þjóðarinnar er ósköp einfaldlega í biðröð eftir húsnæðislánum, nánar tiltekið án tillits til þess hversu brýn þörfin er. Hér er um að ræða niðurgreitt lánsfé af stærsta eða helsta skyldusparnaði þjóðarinnar sem að sjálfsögðu veldur mjög mikilli eftirspurn eftir slíkum lánum og það á sinn þátt í því að spenna upp vexti á öðrum sviðum lánamarkaðarins.

Hæstv. félmrh. hefur þegar skipað nefnd vísra manna til þess að taka núgildandi lög og reglur og reyndar stefnu í grundvallaratriðum að því er varðar húsnæðismál til gagngerðrar endurskoðunar. Þessi nefnd starfar undir forustu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Þess er að vænta að hún skili fyrstu grg. sinni innan um það bil 10 daga.

Ég hygg að um það sé ekki mikill ágreiningur að við stöndum nú á tímamótum í húsnæðismálum. Við þurfum að taka þar á næstu mánuðum ákvarðanir um grundvallaratriði, hvernig við ætlum að haga húsnæðisfjármálunum, fjáröflun húsnæðislánakerfisins, og hvernig við ætlum að móta stefnu að því er varðar húsnæðislánafyrirgreiðslu í framtíðinni. Þessi samdráttur sem nú er að því er varðar þessar 100 millj. kr. mun hafa litla þýðingu að því er varðar það sem gerist á þessu ári. Að langmestum hluta til hefur þegar verið ráðstafað því fé sem veitt er til húsnæðislána á þessu ári í formi skuldbindandi lánsloforða, þó ekki að öllu leyti. Það sem hins vegar mestu skiptir, og er eitt stærsta umbótamál sem bíður þessarar ríkisstjórnar á næstu mánuðum, er að móta nýja stefnu á þessu sviði.

Þá er þess að geta að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fresta áformum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga um eitt ár. Við þetta losnar fé sem renna átti til sveitarfélaganna um Jöfnunarsjóð, tæplega 400 millj. kr. Á móti koma aukin útgjöld vegna tilflutnings verkefna til ríkisins, um það bil 130 millj. kr., þannig að samanlagt styrkir þetta fjárhag ríkissjóðs um 260 millj. kr.

Ég dreg enga dul á það að mér þykir mjög miður að þessum fyrri áfanga í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skuli hafa verið frestað í eitt ár, en ég legg á það ríka áherslu að hér er um að ræða frestun því að ríkisstjórnin er engan veginn fallin frá áformum sínum um að standa við þær tillögur sem unnar voru í samráði við samtök sveitarfélaga í landinu um að koma á nýjum samskiptareglum ríkis og sveitarfélaga. Tilgangurinn með því er að láta drauma og óskir sveitarstjórnarmanna á undanförnum áratugum um að auka hlut sveitarfélaganna í stjórnsýslunni rætast um leið og fjárhagur sveitarfélaganna verði styrktur.

Það er ekkert leyndarmál að þetta frv. hefur mætt mikilli andstöðu á þingi, þ.e. frv. um fyrri áfanga þessarar verkaskiptingar, og ekki hvað síst úr röðum ýmissa stjórnarþm. Það lá reyndar fyrir að ekki næðist samkomulag um það að koma frv. heilu í höfn. Menn ræddu um samkomulag um það að taka til baka veigamikla þætti sem þýddi að þá var svo lítið eftir af þáttum sem þetta frv. tók á að það var einsætt að fresta þessari framkvæmd hvort heldur hún leiðir til þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því fyrir næsta haust að taka þessar verkaskiptingartillögur til framkvæmda í hellu lagi, í einum áfanga eða ekki.

Þeir menn sem hafa hins vegar haldið því fram að fjárhagur sveitarfélaga hefði verið rýrður við þessar aðgerðir standa nú frammi fyrir því að svo er að sjálfsögðu ekki, enda á ég von á því að jafnvel sömu mennirnir, sem hvað mest gagnrýndu tillögurnar um þennan þátt verkaskiptingarinnar, bendi nú á að þegar þær eru teknar til baka skerðist að sjálfsögðu fjárhagur sveitarfélaganna sem því svarar. Staðreyndin var nefnilega sú að fjárhagur sveitarfélaganna hefði stórlega styrkst við framkvæmd þessara tillagna.

Þetta styðst hins vegar við þau rök að fjárfestingaráform sveitarfélaganna eru til mikilla muna hærri milli áranna 1987 og 1988 en í hinum opinbera geira og því er yfirlýst í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að efna skuli til viðræðna við sveitarfélögin um það að fá þau til þess að draga úr fjárfestingum sínum og þá á ég auðvitað sérstaklega við forsvarsmenn Reykjavíkurborgar en einnig í einstökum tilvikum önnur sveitarfélög. Sú staðreynd að sveitarfélögin verða við frestun verkaskiptingarinnar af tekjum sem samsvara um 260 millj. kr. verður auðvitað til þess, m.a., að stuðla að ákvörðunum á vettvangi sveitarstjórna um frekari samdrátt framkvæmda.

Til þess að mæta þeirri fjárþörf sem eftir stendur hefur verið ákveðið að afla ríkissjóði aukinna tekna. Sú tekjuöflun er í því formi að það eru lagðar auknar álögur á fyrirtæki í þeim greinum sem annars vegar er ástæða til að ætla að skili auknum tekjum, þ.e. tekjuskattur fyrirtækja er hækkaður, þeirra sem hagnaði skila, og hins vegar er erlenda lántökugjaldið hækkað sem mun þá fyrst og fremst leggja álögur á þau fyrirtæki sem hyggjast fjármagna framkvæmdir sínar með auknum erlendum lántökum. M.ö.o. eykur tekjuöflunin hlut fyrirtækjanna og kemur það til móts við það að ríkið fellur frá álagningu launaskatts á öll fyrirtæki sem ekki er tekjutengdur sem svarar 200 millj. kr.

Með þessu móti er tryggt að meginmarkmið fjárlaganna, að þau verði hallalaus á árinu 1988, standist, enda er það forsenda þess að dregið verði úr þenslu innan lands, viðskiptahalla, og þar með stuðlað að hjöðnun verðbólgu á síðari hluta árs. Enn frekari aðgerða er þörf til að draga úr innlendri eftirspurn og erlendum lántökum. Í því skyni er gjald á erlendar lántökur tvöfaldað eins og áður sagði og gildir það ákvæði til næstu áramóta. Í því felst hvatning til fyrirtækja um að fresta lánsfjármögnuðum fjárfestingaráformum fram yfir næstu áramót í trausti þess að þá hafi slegið það myndarlega á þensluna og það geti þannig stuðlað að jafnvægi. Jafnframt eru erlendar lántökuheimildir til langs tíma lækkaðar um 300 millj. kr. Erlendar lántökur opinberra aðila lækka um 100 millj. kr. Þar af eru 75 millj. kr. vegna framkvæmda Landsvirkjunar og 25 millj. kr. í Þróunarfélag Íslands. Þá er lántökuheimild til smíði Vestmannaeyjaferju lækkuð um 75 millj. kr. á árinu 1988, en um þá framkvæmd gildir að öðru leyti sú samþykkt Alþingis við afgreiðslu lánsfjárlaga að áður en til framkvæmda eða lánsfjáröflunar verði stofnað verði það mál endurskoðað sérstaklega að frumkvæði fjmrh., samgrh. og formanns fjvn.

Að lokum eru erlendar lántökuheimildir atvinnuvegasjóða lækkaðar um 175 millj. kr., þar af hjá Fiskveiðasjóði um 75 millj. kr., Iðnlánasjóði 75 millj. kr. og Iðnþróunarsjóði 25 millj. kr.

Um þetta má kannski segja að með þessum aðgerðum er stefnt að því að draga úr þeim slaka í lánsfjárlögum sem varð niðurstaða hv. Alþingis við umfjöllun lánsfjárlaga. Að þessum aðhaldsaðgerðum loknum eru lánsfjárlög nær því eins og þau voru fram sett í upphafi þings sem bendir til þess að menn hafi farið óvarlega í þá átt að slaka á aðhaldssemi lánsfjárlaga rétt fyrir jólin miðað við þær aðstæður sem þá voru öllum mönnum augljósar í okkar þjóðarbúskap. Framangreindar ráðstafanir fela í sér að erlendar lántökur þjóðarbúsins til langs tíma lækka úr 9574 millj. kr. í 9274 millj. kr.

Að undanförnu hefur það verið viðtekin skoðun að horfur um viðskiptahalla á þessu ári séu mun lakari en á sl. ári. Hér hafa verið nefndar tölur allt upp í 10–12, jafnvel 13–14 milljarða kr. eða sem svarar til 4% eða yfir 5% af landsframleiðslu. Með þeim efnahagsaðgerðum sem nú hafa verið ákveðnar er stefnt að því að hamla gegn vaxandi viðskiptahalla, snúa þessari þróun við og draga úr viðskiptahalla sem svarar um 3 milljörðum kr.

Það er ástæða til þess að geta þess að stærsti liðurinn sem skýrir þennan þráláta og mikla viðskiptahalla, skýrist af fortíðarsyndum. Stærsti liðurinn er m.ö.o. halli á vaxtajöfnuði þjóðarbúsins upp á 6,3 milljarða kr. Þetta er afleiðing af ótæpilegri sláttumennsku fyrri ára. Að vísu má segja að í góðæri og með auknum hagvexti hefði þjóðarbúið átt að vera þess umkomið að greiða skuldir sínar niður örar en reynslan sýnir, en umræðan um viðskiptahallann hlýtur að taka tillit til þess að um er að ræða gjaldabyrði á þjóðarbúskapnum sem er afleiðing af löngu teknum ákvörðunum og löngu gerðum hlutum. Í þeim skilningi er það rétt að aðgerðir til þess að koma viðskiptajöfnuði á aftur munu óhjákvæmilega taka lengri tíma en eitt ár.

Það er líka ástæða til að nefna að í þessum tölum um viðskiptahalla má gera ráð fyrir því að sérstakur innflutningur skipa og flugvéla nemi hvorki meira né minna en 31/2 milljarði kr. þannig að ef við tökum saman óhagstæðan vaxtajöfnuð og sérstakan innflutning skýrir það eitt út af fyrir sig viðskiptahallatölur upp á meira en 9 milljarða. Þjónustujöfnuðurinn er aftur á móti áætlaður hagstæður um a.m.k. 11/2 milljarð. Tölur sem nefndar hafa verið á undanförnum mánuðum um viðskiptahalla hafa breyst svo ört að það er ósköp eðlilegt að menn festi ekki mikinn trúnað á slíkar spár, hvort heldur þær hafa komið frá Þjóðhagsstofnun eða öðrum aðilum. En það sem ég vil leggja áherslu á í þeirri umræðu er fyrst og fremst það að við getum enn ráðið allmiklu um niðurstöðuna, hver hún verður. Hér er ekki bara um að ræða einhvern sjálfvirkan framreikning á orðnum hlutum.

Það er t.d. staðreynd sem hefur farið býsna mikið fram hjá mönnum að innan sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar hafa auðvitað þegar verið gerðar ráðstafanir í ljósi gengisbreytinga til þess að draga úr framleiðslu fyrir Bandaríkjamarkað í dollurum og að auka útflutning og framleiðslu á Evrópumarkað, en Evrópugjaldmiðlar hafa hækkað í hlutfalli við aðrar myntir. Þá er einnig á það að líta að þær aðgerðir sem nú hefur verið gripið til til að styrkja fjárhagslega stöðu fiskvinnslunnar munu væntanlega leiða til þess að verðmæti útflutningsframleiðslunnar verði meira heldur en það ella hefði orðið.

Loks er þess að geta að gangi menn fram af sæmilegri einbeitni í því að draga úr lánsfjármögnuðum fjárfestingaráformum er það hvað áhrifamesta aðgerðin sem við getum gripið til til þess að hamla gegn viðskiptahallanum. Í því efni hafa menn auðvitað staldrað við mikil fjárfestingaráform Reykjavíkurborgar, en það má nefna miklu fleiri aðila. Ég nefni t.d. í þessu samhengi að nú er í undirbúningi útboð vegna byggingar á um það bil 250 íbúðum á Keflavíkurflugvelli sem er fjárfestingaráform upp á 11/2 milljarð kr., fjárfestingaráform af því tagi sem kallar á mikinn mannafla og er fjármagnsfrekt. Sama er að segja um ýmis önnur einstök fjárfestingaráform sem öll rök eru til að unnt sé að fresta, sérstaklega ef menn hyggjast fjármagna þau með erlendum lánum og greiða af þeim aukna skatta. Niðurstaða mín er því sú að menn taki varlega einstökum spám um viðskiptahalla. Þessar aðgerðir munu hafa sitt að segja til þess að draga úr þeirri þróun og það mun líka mjög ráðast af því hvernig viðbrögð annarra aðila en ríkisvaldsins verða við tilmælum um það að draga saman seglin í lánsfjármögnuðum fjárfestingum.

Staða flestra sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið erfið. Það er tilefni þessara aðgerða. Það var mat manna miðað við 6% arðkröfu að frystingin hefði verið rekin með 7–8% halla að meðaltali og söltun og útgerð rétt hangið fyrir ofan núllpunkt. Með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið batnar afkoma fiskvinnslunnar verulega. Lausleg áætlun leiðir í ljós að frystingin gæti verið komin upp undir núllpunktinn og söltun að sama skapi í nokkurn hagnað. Hins vegar hefur afkoma útgerðar heldur versnað, einfaldlega vegna þess að gengisfelling leiðir tiltölulega fljótt til aukinna útgjalda í útgerð og má reikna með því að þar verði nokkur halli. En hallinn er þá fyrst og fremst í bátaútgerð, en rekstur togara verður væntanlega í járnum.

Herra forseti. Í byrjun janúar fór fram verðupptaka vegna útreiknings framfærsluvísitölu, aðallega á tveimur fyrstu dögum eftir að til framkvæmda komu hinar umfangsmiklu skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á Alþingi fyrir sl. áramót. Þegar þessi verðtaka fór fram hafði söluskattsbreytingin komið til framkvæmda, en verðlækkanir af völdum tolla og vörugjaldslækkunar ekki. Þessi verðmæling sem þá sýndi 3,71% hækkun framfærsluvísitölu benti til hraða verðbreytinga langt umfram það sem eðlilegt gat talist og villti mönnum sýn. Sumir höfðu þá á orði að verðbólguþróunin stefndi í yfir 50%. Við útreikning framfærsluvísitölu nú í byrjun febrúar kom á daginn að vísitalan hafði einungis hækkað um 0,84% sem svarar til 10,6% verðbólgu á hellu ári en um 25% verðlagshækkunar síðustu 12 mánuðina. Þetta er minnsta hækkun framfærsluvísitölu frá því vorið 1986 í kjölfar kjarasamninganna þá í febrúar og lækkunar olíuverðs. Jafnframt hefur vísitala byggingarkostnaðar nú lækkað tvo mánuði í röð um alls 0,55%, en slíkt hefur a.m.k. ekki gerst áður á þessum áratug. Þá hækkar lánskjaravísitala einungis um 0,51% frá febrúar til mars og enn verðum við að fara tvö ár aftur í tímann til þess að finna dæmi um svo litla hækkun lánskjaravísitölu. Þetta ber því að sama brunni. Þessi þróun staðfestir ótvírætt að fjölþættar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á seinustu mánuðum eru farnar að skila árangri.

Þessar aðgerðir hafa einkum beinst að tvennu: Að jafna mikinn halla á ríkissjóði og hins vegar að því að draga úr erlendum lántökum og koma á jafnvægi á lánsfjármarkaði. Með þessum hætti hefur markvisst verið unnið að því að draga úr þenslu og verðbólgu. Þessum aðgerðum hefur verið fylgt eftir með auknu aðhaldi og upplýsingastarfi á sviði verðlagsmála og nú erum við að uppskera árangur af því striti.

Strax í kjölfar þess að síðustu upplýsingar um verðbreytingar lágu fyrir lækkuðu viðskiptabankarnir útlánsvexti á óverðtryggðum lánum yfirleitt um 2–4%. Þá lækkaði Seðlabankinn dráttarvexti úr 4,3% í 3,8%. Nú um þessi mánaðamót lækka bankarnir vexti á óverðtryggðum útlánum enn frekar, að meðaltali líklega um 2%. Bankastjórn Seðlabankans hefur ákveðið lækkun á vöxtum bankans á viðskiptum hans við innlánsstofnanir hans um 2%. Þannig hafa nafnvextir því lækkað á 10 dögum um 4–5%.

Jafnframt eru sýnileg teikn á lofti um það að vaxtalækkun á öðrum vettvangi fjármagnsmarkaðarins er í vændum. Mikil og jöfn sala á spariskírteinum ríkissjóðs og ríkisvíxlum er einnig til marks um aukið jafnvægi á þessu sviði. Þessar fregnir af verðlags- og vaxtamálum sem hér hafa verið raktar hafa áreiðanlega orðið samningamönnum vinnumarkaðarins nokkur hvatning til þess að taka þær ákvarðanir sem hvort tveggja í senn tryggðu hag þeirra launamanna sem ekki nutu launahækkana til samræmis við það sem almennt gerðist á síðasta ári, en fyrst og fremst til þess að tryggja að ekki riði yfir þjóðina ný alda verðhækkana. Slíkt hefði haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér, bæði fyrir fólk og fyrirtæki. Við vorum því stödd á vendipunkti í efnahagsmálum okkar sem leystist í einu með kjarasamningum og þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin hafði lýst yfir að myndu fylgja í kjölfarið og hér hafa verið birtar. Það hefur ótvírætt sannast á síðustu árum að við Íslendingar getum kunnað fótum okkar forráð í efnahagsmálum ef við höfum nægilega einbeittan pólitískan kjark til þess að fylgja fram ráðstöfunum í tæka tíð. Það hefur sannast að verðbólga er ekkert náttúrulögmál eða álög á íslensku efnahagslífi þótt vitaskuld verði menn að viðurkenna að hagstjórn er hér vandasamari en í flestum öðrum löndum, einfaldlega vegna þess að efnahagslíf okkar er einhæfara og sveiflukenndara, viðkvæmara fyrir sveiflum ytri skilyrða en flest önnur lönd sem kalla má þróuð iðnríki.

Þrátt fyrir slíkar sveiflur er það svo að við ráðum býsna miklu um það sjálf í hvaða efnahagslegu umhverfi við störfum. Verðbólgan hefur oft og lengi sett mark sitt á þjóðfélagið og einkum þjakað þá sem mest eiga undir högg að sækja. Fyrir því höfum við óræka reynslu.

Þegar gengið var til þeirra samningaviðræðna Verkamannasambandsins og atvinnurekenda sem nú er lokið voru menn á einu máli um að höfuðverkefni samninganna væri að leiðrétta misgengi sem orðið hefði í launaþróun. Almenn kaupmáttaraukning á síðasta ári var hins vegar meiri en dæmi eru um. Hlutur launa í þjóðartekjunum hefur aldrei verið jafnhár. Vandinn var því sá að einstakir hópar launafólks ekki síst í fiskvinnslu höfðu ekki fengið þann hlut sem eðlilegur var. Þetta setur sitt mark á þessa nýju kjarasamninga.

Samningarnir markast einnig af því að afkoma útflutningsgreinanna var ákaflega veik. Þessar sérstöku aðstæður, þar sem saman fór almenn viðurkenning á því að rétta þyrfti sérstaklega hlut fiskvinnslufólks og slök afkoma frystingarinnar, hlutu að gera samningana ákaflega erfiða. Það er því fagnaðarefni að nú skuli hafa náðst niðurstaða án ófriðar á vinnumarkaði. Við ríkjandi aðstæður í efnahagsmálum er ljóst að hörð átök á vinnumarkaði hefðu getað orðið illskeyttari en oftast áður og vandinn að sama skapi torleystari og vonin um árangur að sama skapi minni. Það er ánægjulegt að með þessum samningum hefur hlutur fiskvinnslufólks verið réttur sérstaklega.

Í kjölfar þessara kjarasamninga hefur á vegum fjmrn. verið gerð sérstök verðlagsspá. Niðurstaða hennar er sú að verðhækkun frá upphafi til loka þessa árs verði rétt tæplega 16% á mælikvarða framfærsluvísitölu. Jafnframt dregur verulega úr hraða verðbreytinga þegar komið er fram yfir mitt ár og áhrif gengisbreytingarinnar og upphafshækkunar launa á kjarasamninga hefur komið fram. Ef ekkert óvænt kemur upp má reikna með því að verðbólguhraðinn verði kominn niður undir 10% á seinasta ársfjórðungi samanborið við um og yfir 30% nú um áramót.

Í þeim kjarasamningum sem þegar hafa verið gerðir felst að kaupmáttur dagvinnulauna verkafólks geti haldist óbreyttur frá upphafi til loka þessa árs 1988. Kaupmáttur lægstu launa gæti jafnvel heldur aukist. Hins vegar verður kaupmáttur launa að meðaltali augljóslega nokkru lægri á þessu ári en í fyrra, ef menn nota mælikvarðann að bera saman meðaltal 1987 við meðaltal 1988. Sú lækkun kaupmáttar launa að meðaltali gæti verið um það bil 3% á mann. Hér þarf hins vegar að hafa í huga að árið 1987 var um margt afar sérstakt. Þar fóru saman mjög hagstæðar ytri aðstæður og mikil mannekla á vinnumarkaði. Hvort tveggja kynti undir mikilli þenslu og kröftugri hækkun launa, en fyrst og fremst hjá hinum betur settu á vinnumarkaðinum. Jafnframt hefur skattlausa árið vafalaust stuðlað að aukinni ásókn í aukavinnu. Allt þetta lagðist því á sömu sveif og leiddi til mikillar hækkunar launa og einnar mestu kaupmáttaraukningar á einu ári sem orðið hefur.

Herra forseti. Síðustu verðmælingar sýndu svo að ekki varð um villst að aðgerðir ríkisstjórnarinnar síðasta missirið voru að skila árangri. Verðbólgan fór lækkandi. Í kjölfarið hafa vextir lækkað eins og þegar hefur verið rakið. Það verður að tryggja að aðgerðum verði nú þannig hagað að við horfum til þess að verðbólga, vextir og fjármagnskostnaður fari lækkandi á næstu mánuðum. Þetta er unnt að gera og að þessu marki stefna aðgerðir ríkisstjórnarinnar nú. Nýgerðir kjarasamningar eru þess vegna tilefni til þess að við getum horft sæmilega björtum augum til framtíðarinnar. Það hefur mjög hamlað efnahagsstjórn á síðustu mánuðum að mikil óvissa hefur ríkt um framvindu mála á vinnumarkaði, en þeirri óvissu hefur nú að verulegu leyti verið eytt, en í því efni vek ég athygli á því sem segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forsenda þessa er að þeirri almennu stefnu sem mörkuð hefur verið í þeim kjarasamningum, sem þegar hafa verið gerðir, verði fylgt í öðrum samningum.“

Ástæða er, herra forseti, til að staldra við þessa setningu af sérstöku tilefni. Aðilar vinnumarkaðarins, ekki hvað síst talsmenn Verkamannasambandsins, hafa ítrekað sagt að stjórnvöld hafi brugðist í framhaldi af gerð desembersamninganna þegar þeir féllust á meiri launahækkanir til annarra aðila en meðlima verkalýðshreyfingarinnar í þeim kjarasamningum sem gerðir voru á fyrri hluta ársins 1987. Það verður því að líta svo á og segja það fullum fetum að ríkisstjórninni ber skylda til að læra af því og miða launastefnu sína í þeim samningum sem fram undan eru við þá launastefnu sem aðilar vinnumarkaðarins sjálfir hafa markað, annars vegar með Vestfjarðasamkomulaginu og hins vegar með nýgerðum kjarasamningum Verkamannasambandsins.

Herra forseti. Það er ástæða til þess að minna á það að kjarasamningarnir í febrúar 1986, sem gerðir voru við mun hagstæðari ytri skilyrði en nú, höfðu í för með sér meiri aukningu kaupmáttar í raungildi en dæmi eru um áður. Til þeirra samninga hefur oft verið vitnað sem tímamótasamninga að því er varðaði vinnubrögð, en staðreyndin er sú að þeir skiluðu launþegum miklum árangri. Um þessa nýju samninga er það að segja að við þá er ugglaust vandlifaðra fyrir alla aðila, bæði launafólk, atvinnurekendur og ríkisvaldið, en kannski er það einmitt til marks um það að tónninn í þeim sé nokkur salómonsdómur þegar tekið er tillit til allra aðstæðna.

Herra forseti. Ég held að ég hafi með því sem þegar er sagt gert í stórum dráttum grein fyrir aðalatriðum í þeirri stefnumörkun í efnahagsmálum sem felst í þessum aðgerðum. Fjarri er því að allur vandi sé leystur með þessum aðgerðum og auðvitað verður margt að fylgja á eftir. Í almennri hagstjórn er það vafalaust viðskiptahallinn sem við verðum fyrst og fremst að einbeita okkur að að ná niður þó að ég hafi reyndar þegar fært rök að því að honum verði ekki náð niður með nokkru móti á einu ári, einfaldlega af þeirri ástæðu hvað vaxtajöfnuðurinn er þar stór þáttur. Vafalaust verða margir til þess líka að segja að grípa þurfi til frekari aðgerða til þess að jafna hag fólks. Ekki hvað síst er nú mikil umræða í þjóðfélaginu um það misræmi sem er í raunverulegum lífskjörum heimila eftir búsetu í landinu og þá er ekki hvað síst bent á sívaxandi orkukostnað heimilanna sem þurfa að nýta raforku til húshitunar. Einn þáttur þessara aðgerða sem hér hefur verið gripið til er lækkun olíuverðs sem eykur þann mun enn að nokkru og leiðir til þess að við verðum nú að leita allra leiða til þess að leiðrétta þetta misvægi í kjölfar þessara aðgerða. Það mál er nú sérstaklega til athugunar þótt ekki sé hún svo vel á veg komin að unnt sé að skýra frá niðurstöðum að svo stöddu.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ed.