01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5144 í B-deild Alþingistíðinda. (3487)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að hlýða á þá ræðu hæstv. fjmrh. sem hér var flutt áðan þar sem hann fagnaði mjög þeim niðurstöðum kjarasamninga sem núna liggja fyrir og eru að sumu leyti undirstaða undir þeim ákvörðunum sem nú eru gerðar tillögur um í efnahagsmálum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hann taldi að þetta væru tímamótasamningar, jákvæðir samningar, en hann fór engum orðum um það fólk sem verður að lifa á lægstu töxtunum, 31 500 kr. á mánuði, og hann vitnaði til samninganna í desember 1986 þar sem lægstu laun voru hækkuð úr 19 500 upp í um 26 000 kr. eða um 36–38% og taldi að þessir samningar væru að einhverju leyti sambærilegir. Það eru þeir ekki, fyrst og fremst vegna þess að þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir, gera ekki ráð fyrir þeirri sérstöku hækkun lægstu launa sem samningarnir 1986 byggðust á. Og staðreyndir málsins eru þær, hvað svo sem talnaflóði hæstv. fjmrh. líður, að kaupmáttur kauptaxta, hinna lægstu kauptaxta, mun skerðast frá árinu 1987 til ársins 1988 um 8–10% ef tekið er tímabilið nóvember 1987 til nóvember 1988. Ég hefði haldið að það væri í rauninni ekki sérstakt fagnaðarefni fyrir fjmrh. og formann jafnaðarmannaflokks að lýsa ánægju sinni með samninga með þeim hætti sem hann gerði hér áðan.

Forsendur kjarasamninga eiga að mínu mati að vera þessar, þ.e. sá mælikvarði sem maður mælir kjarasamninga á.

Í fyrsta lagi jöfnuður. Að hve miklu leyti stuðla kjarasamningar að jöfnun? Að hve miklu leyti stuðla þeir að því að dregið sé úr misvægi lífskjara í þjóðfélaginu? Það er algjört forgangsatriði, hlýtur að vera, fyrir þá sem aðhyllast jafnaðarstefnu, sósíalisma, eins og t.d. mig.

Annar meginmælikvarðinn á að vera þróun kaupmáttar með tilliti til þjóðhagsstærða að öðru leyti. Og menn geta auðvitað velt því fyrir sér og fullyrt og sagt sem svo að kaupmáttur launa hlýtur að taka mið af kaupmætti heildartekna þjóðarbúsins á hverjum tíma. Það er rétt. Staðreyndin er hins vegar sú að meðan kaupmáttur launa lækkar að jafnaði um 3% milli áranna 1987 og 1988 samkvæmt upplýsingum ríkisstjórnarinnar skerðast þjóðartekjur eða þjóðarframleiðsla hverfandi eða í kringum 1% hið mesta. Hér er sem sagt bersýnilega um það að ræða að það er verið að færa peninga frá launafólkinu í landinu yfir til annarra efnahagsþátta þjóðfélagsins. Það er verið að færa peninga frá þeim sem skapa verðmætin með vinnu sinni til hinna. Þetta er grundvallaratriðið í sambandi við þær efnahagsráðstafanir sem hér er verið að gera og á þennan mælikvarða hef ég alltaf metið niðurstöður kjarasamninga. Er það jöfnuður? Hvernig þróast kaupmáttur miðað við aðrar efnahagsstærðir þjóðfélagsins?

Mín skoðun er sú að samningarnir 1986 hafi að mörgu leyti verið kaflaskil, bæði í raun og veru samningarnir í desember og samningarnir í febrúar. Þar var um að ræða aukinn jöfnuð og aukinn kaupmátt launa. Þeim fylgdu auk þess ýmsar félagslegar ráðstafanir, sem voru jákvæðar, eins og t.d. í húsnæðismálum, þó að margt megi um það kerfi að öðru leyti segja sem þar er uppi. Þeim fylgdu auðvitað líka ráðstafanir sem ég fyrir mitt leyti átti mjög erfitt með að fella mig við. Það var lækkun innflutningsgjalda á bifreiðum, sem ég taldi í raun og veru mjög sérkennilega ráðstöfun miðað við þær aðferðir og aðstæður sem þá voru uppi í þjóðlífinu. En allt um það, þessir kjarasamningar hækkuðu lágan kaupmátt launa aðeins frá því sem var. Þess vegna voru þetta samningar sem hægt var að segja um ýmsa jákvæða hluti.

Þegar aftur á móti það gerist að kaupmáttur kauptaxta lækkar meira en nemur falli þjóðartekna eru það ekki kjarasamningar sem ég tel góða. Þess vegna tel ég að í rauninni sé mjög fráleitt að setja mál upp með þeim hætti sem hæstv. fjmrh. gerði ef hann vill láta taka sig sem talsmann jafnaðarstefnu en það dregur maður auðvitað mjög í efa í seinni tíð, óneitanlega.

Varðandi hin almennu atriði sem fram komu í ræðu hæstv. fjmrh. um þróun efnahagslífsins tók hann þannig til orða að um væri að ræða snöggversnandi ytri skilyrði. Það er auðvitað rangt. Ytri skilyrði hafa ekki versnað. Ytri skilyrði hafa, herra forseti, batnað. Olíuverðið hefur ekki hækkað, það hefur lækkað. Vörur okkar á alþjóðlegum mörkuðum hafa ekki lækkað í verði, þær hafa hækkað. Eftirspurnin hefur ekki minnkað, hún hefur aukist. Hvað er það þá sem veldur þeim vanda sem uppi er í þjóðfélaginu núna í efnahagsmálum eftir mesta góðæri, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það, eftir mesta hagvaxtarskeið sem þjóðin hefur upplifað? Hvað er það sem veldur vanda atvinnuveganna og launafólks? Það er tvennt, að mínu mati, fyrst og fremst að því er varðar atvinnuvegina. Það getur gengið undir samheitinu: Sá tollur sem frjálshyggjan hefur tekið til sín.

Það er í fyrsta lagi ört vaxandi fjármagnskostnaður í þjóðfélaginu, þannig að t.d. í fiskvinnslunni eða frystingunni var fjármagnskostnaður frystihúsa, Sambandsfrystihúsanna svokölluðu, orðinn 11% af rekstrartekjum núna fyrir fáeinum vikum samkvæmt uppgjörsyfirliti sem ég sá frá sjávarafurðadeild Sambandsins fyrir skömmu. Hæstv. utanrrh. sagði um sama leyti að raunkostnaður vaxta í frystingunni hefði hækkað um 70% á einu ári. Þessi tala var síðan höfð eftir hæstv. ráðherra í blaðinu Tíminn, sem ég veit að menn lesa samviskusamlega, og það kann að vera að þessi tala hafi verið eitthvað í hærri kantinum miðað við það sem ég sjálfur hafði ímyndað mér og reynt að reikna út, en a.m.k. var ljóst eftir þeim tölum sem ég sá frá Sambandsfrystihúsunum að það var gífurleg hækkun á fjármagnskostnaði. Ef við gerum ráð fyrir að í þessari tölu hæstv. utanrrh. hafi verið mjög of í lagt, hækkunin hafi ekki verið 70% heldur kannski 1/3, jafngildir það því að sömu upphæð og að laun hefðu hreyfst um 10–15%. Sem sagt, vaxtahækkunin étur upp kauphækkunarsvigrúm í frystihúsunum sem nemur 10–15%.

En það er annað sem í nafni frelsisins hefur verið innleitt í seinni tíð og það er hið dásamlega frjálsa fiskverð sem menn hafa keppst um að lofa og prísa um allt land úr öllum flokkum að mér hefur heyrst núna á undanförnum missirum í stórum stíl. Niðurstaðan þar er sú, svo að ég taki Sambandsfrystihúsin aftur sem dæmi, að raunhækkun fiskverðs frá janúar 1987 til janúar 1988 er 11%. Þessar hækkanir á vöxtum annars vegar og fiskverði hins vegar upp á 8% í afkomu frystihúsanna jafngildir 30–35% launahækkun og auðvitað er það ljóst að þessi tollur sem þarna er tekinn af frystingunni í landinu veldur því að hún á við stórkostlegan vanda að glíma. Það eru þess vegna heimatilbúnar ástæður ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem skapa þarna vandann. Ég heyrði að hæstv. fjmrh. var að klína þessu öllu yfir á fyrrv. ríkisstjórn í ræðu sem hann hélt hér áðan. Hann sagði að þessar tillögur væru harður dómur um hagstjórnina á undanförnum missirum. Það sem hann átti við og var bersýnilega að segja var það að hagstjórn hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hafi verið svo léleg í tíð síðustu ríkisstjórnar að núna séu menn að gera eilífar hallæris- og kreppuráðstafanir rétt ofan í mesta hagvaxtarskeið sem þjóðin hefur gengið í gegnum.

Staðreyndin er sú að frjálshyggjan hefur tekið þarna toll af kaupgreiðslusvigrúmi atvinnuveganna, af heimilunum sem hafa orðið að borga hærri vexti, af heimilunum sem hafa orðið að sætta sig við stóraukna vinnu til þess að bæta upp kjaraskerðinguna og af byggðunum í landinu, landsbyggðinni sérstaklega, þar sem um er að ræða svartsýni og vonleysi á stórum svæðum þar sem fólk sér ekki fram úr þeim vanda sem um er að ræða.

Ég hef á undanförnum árum farið oft um landið, heimsótt frystihús og atvinnufyrirtæki. Ég hygg að ég hafi sjaldan hitt menn öllu daufari í dálkinn í frysti- og fiskiðnaðinum í landinu en einmitt núna í janúarmánuði og ég tek fram að það er sama hvar maður kom, hvort það var á Norðausturlandi eða Suðurlandi eða Austfjörðum, það var alls staðar sama sagan. Það var döpur ásýnd sem blasti við manni á þeim stöðum.

Um þessar ráðstafanir að öðru leyti, herra forseti, ætlaði ég að draga saman nokkra aðalpunkta og segja þetta áður en ég fer út í einstök efnisatriði.

Í fyrsta lagi: Kaupmáttur kauptaxta lækkar, tekjur fólksins í landinu lækka mun meira en nemur falli þjóðartekna milli áranna 1987 og 1988 og það er engum manni bjóðandi að taka laun fyrir 8 tíma vinnu upp á 31 500 kr. á mánuði. Það er engum manni bjóðandi að búa við slík lífskjör. Við skulum ekki láta okkur detta það í hug, þó að menn haldi það örugglega hér, að fólk geti leyst þennan vanda með því að taka á sig stórkostlega yfirvinnu og aukavinnu. Í mörgum tilvikum er það þannig, t.d. þar sem konur eru einar með börn á framfæri, að þær geta ekki nema með takmörkuðum hætti bætt upp þennan vanda með aukinni yfirtíð. Hér er um að ræða fólk sem núna eftir vaktavinnu á spítölunum í Reykjavík og elliheimilunum er að taka inn laun sem eru 45 000 kr. á mánuði fyrir gífurlega mikla og erfiða vinnu. Það er aldrei hægt að vera ánægður með kjarasamninga sem dæma þetta fólk í örvinglun og örvæntingu og börn þessa fólks í lífsskilyrði sem ættu ekki að vera til í okkar ríka landi í dag.

Í öðru lagi, um ráðstafanirnar. Gengisstefna ríkisstjórnarinnar, fastgengisstefnan, er hrunin. Hornsteinninn mikli er hruninn. Það sem meira er: Hæstv. ráðherrar eru þegar byrjaðir að lýsa því yfir að það þurfi meiri gengislækkun. Hæstv. utanrrh. sagði í umræðum í þinginu í gær að í rauninni væri hér ekki nóg að gert. (KP: Hann hefur alltaf sagt það.) Ég er sannfærður um það, hv. þm. Karvel Pálmason, að þegar líður á árið muni forráðamenn útflutningsgreinanna aftur koma til ríkisstjórnarinnar og segja: Við ráðum ekki við dæmið.

Þá kem ég að þriðja þættinum sem ég vil nefna. Hann er þessi. Vandi atvinnuveganna, sá bráðavandi sem útflutningsframleiðslan á nú við að stríða, er ekki leystur með þessum ráðstöfunum. Það er auðvitað alveg augljóst mál að það eru áframhaldandi veruleg vandamál í útflutningsiðnaðinum og það er einnig augljóst mál að frystingin býr við verulegan halla. Það er kostulegt með þessi plögg frá þessum mönnum sem hæstv. fjmrh. hefur í vinnu í kringum sig, með einn á hverjum fingri, minnst, nýráðna krata þarna inni í fjmrn., að þegar verið er að senda manni pappíra er yfirleitt reynt að draga fjöður yfir veruleikann.

Hér er ég með pappír frá Þjóðhagsstofnun og ég heyrði tölurnar frá hæstv. fjmrh. áðan sem skartar með alls konar liði sem hann er búinn að ráða í fjmrn. að undanförnu, og væri fróðlegt að vita hvað kratalaunin eru há í fjmrn. í seinni tíð. Hér er niðurstaðan hins vegar sú að það er sagt: Vinnslan er hérna með mínus 11/2. En það segir ekki neitt. Það segir nákvæmlega ekki neitt vegna þess að frystingin er eftir sem áður rekin samkvæmt þeim tölum sem ég hef séð og sjálfur farið yfir. Hún er örugglega enn þá með halla á bilinu 4–6%. Þegar verið er að matreiða þessar tölur frá opinberum stofnunum eins og Þjóðhagsstofnun eða frá þessum kratahagfræðingum uppi í fjmrn. og þetta er si svona og dregin fjöður yfir það sem skiptir máli, þá segi ég: Þessir menn vinna ekki fyrir kaupinu sínu. Þeir eiga að framleiða þannig pappíra að sannleikanum sé haldið til haga jafnvel þó að hann kunni að vera óþægilegur fyrir þessa spekinga.

Það er satt að segja alveg óþolandi þegar verið er að rúlla hingað inn upplýsingum af þessu tagi eins og það sé, heyrist mér, nýlega búið að stofna eins konar þjóðhagsstofnun inni í fjmrn. því nú er ekki lengur um það að ræða að Þjóðhagsstofnun sendi ein frá sér pappíra um kaupmátt og viðskiptahalla og afkomu atvinnuveganna, sem hæstv. forsrh. les upp af gömlum vana hér í ræðustól í þinginu, heldur kemur svo líka niðurstaða frá hinni sérstöku innri þjóðhagsstofnun fjmrn. um það að í raun og veru sé allt vitlaust sem Þjóðhagsstofnunin í Seðlabankanum hefur skrifað niður. Hæstv. fjmrh. kemur hér með upplýsingar um það að viðskiptahallinn sé ekki 10 milljarðar heldur 8,5 og hann er með aðrar tölur varðandi ýmsa þætti hér í þessum efnahagsmálum en Þjóðhagsstofnunin af því að hann er búinn að setja upp einhverja prívat krataþjóðhagsstofnun þarna inni í fjmrn. Þetta er skrýtin lenska og væri kannski ástæða til þess að Alþingi setti upp sína þjóðhagsstofnun til þess að geta tékkað allar þessar þjóðhagsstofnanir sem ríkisstjórnin er að framleiða í öðru hverju ráðuneyti þessa dagana og borgar fyrir stórfé úr ríkissjóði til að halda þessu gengi uppi sem framleiðir svo svona pappír ofan í mann sem er meira og minna rugl og dregin fjöður yfir sannleikann í málinu. Ég vænti þess, herra forseti, að það sé alveg tryggt að þeir séu hérna einhvers staðar nærri til þess að heyra það sem hérna er sagt.

Hér er auðvitað ekki róið fyrir hverja vík að því er varðar vanda atvinnuveganna. Það er alveg augljóst mál. Og þeir munu koma aftur til ríkisstjórnarinnar þegar líður á þetta ár og þá verður enn þá einu sinni beðið um það að menn megi gera efnahagsráðstafanir einu sinni til. Þetta var þriðji þátturinn. Það fyrsta var um kaupmáttinn, annað gengisstefnuna, þriðja vanda atvinnuveganna og það fjórða sem ég nefni er viðskiptahallinn og verðbólgan.

Ég lýsi því hér yfir: Ég tel verðbólguspárnar ekki marktækar. Ég tel verðbólguspána frá Þjóðhagsstofnun hinni meiri, hinni eldri, ég tel hana ekki marktæka en þar er gert ráð fyrir því að verðbólgan í lok þessa árs verði komin niður í 6,4%. Ég hef ekki séð spána frá þjóðhagsstofnun fjmrn. en mér heyrðist að hún væri eitthvað aðeins önnur. Og að því er varðar viðskiptahallann vil ég hins vegar segja það að samkvæmt tölum Þjóðhagsstofnunar, sem starfar samkvæmt lögum, stefnir viðskiptahallinn í 10 milljarða, en samkvæmt þjóð,hagsstofnun fjmrn. eru þetta eitthvað 8,5-9 milljarðar kr. Hvor talan sem er rétt, þá er alveg ljóst að hér er um stóran vanda að ræða og ríkisstjórnin mun þegar kemur fram á árið koma til þingsins og segja: Það þarf að gera ráðstafanir til að rétta við þennan ofboðslega viðskiptahalla.

Ég hef nefnt hér fjóra þætti úr þessu frv. Í fimmta lagi vil ég nefna það úr þessum efnahagsráðstöfunum að ég tel það jákvætt að ríkisstjórnin beitir hér 11. gr. seðlabankalaganna um það að skipa bönkunum að lækka aðeins vextina. Ég tel það mikinn ósigur fyrir hæstv. viðskrh. sem hér fyrir örfáum vikum sagði að það væri alveg útilokað að ríkisstjórnin hefði neina skoðun á þessu máli, þar verður hin frjálsa hönd markaðarins, hin milda hönd markaðarins að fá að njóta sín. Staðreyndin er sú að þarna hefur ríkisstjórnin tekið ákveðna ákvörðun. Hún er að vísu lítil en hún fær örugglega einn fyrir viðleitni eða tvo og ég tel að það sé mikilvægt. Og það eru kaflaskil síðan lögin voru sett um viðskiptabankana og Seðlabankann á sínum tíma, það eru ákveðin kaflaskil um að það skuli vera tekin ákvörðun um að lækka aðeins vextina.

Ég fagna því síðan sérstaklega, herra forseti, að samkvæmt þessum ráðstöfunum, sem hér er verið að gera tillögu um, þá er verið að taka aftur nokkur frumvörp sem voru pínd hér í gegnum þingið fyrir nokkrum vikum. Það eru lögin um launaskatt, að hækka launaskattinn, og það er ákvörðunin um að greiða ekki uppsafnaðan söluskatt til sjávarútvegsins. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel það alveg sérstakt fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli vera svo þroskuð og vitur að hún étur þetta ofan í sig aðeins nokkrum vikum eftir að hún hefur keyrt þetta hér í gegnum þingið. Það gekk nú ekki svo litið á þegar við vorum að fara yfir þetta hér í þinginu. Stjórnarandstöðuflokkarnir voru á móti þessu, stjórnarflokkarnir keyrðu þetta í gegn. Og þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að atvinnuvegirnir þyldu þetta ekki, þá hlustuðu menn ekki, menn hlustuðu ekki frekar en venjulega þegar um stjórnarandstöðuna er að ræða. Það er „prinsipp“ að taka aldrei mark á stjórnarandstöðunni. En svo kemur veruleikinn einn góðan veðurdag, bankar upp á hurðina hjá þessum einangruðu mönnum sem sitja í þessum fílabeinsturnum sínum og veruleikinn segir: Góðan daginn. Góðan daginn. Ástandið er nákvæmlega eins og stjórnarandstaðan var að segja. Og þá verða menn að sætta sig við þennan veruleika og éta ofan í sig nokkur hundruð milljónir af þeim pinklum sem þeir voru að hlaða á sjávarútveginn hérna fyrir örfáum vikum.

Eins er það með iðnaðinn. Hæstv. iðnrh. taldi að þetta væri allt saman í lukkunnar velstandi, allt í lagi að leggja skatt á iðnaðinn. Kemur svo ekki frv. frá hæstv. iðnrh. um það nokkrum vikum seinna að það sé alveg óhjákvæmilegt að fella niður launaskatt af samkeppnisgreinum iðnaðarins. Svona er nú samkvæmnin í þessu liði. Ég bíð bara eftir því að þeir komi hérna eftir nokkra daga og taki eitthvað aftur af þeim vitleysum fleirum sem þeir hafa verið að gera að undanförnu. Þetta er kannski ekki skrýtið með ráðherrana. Þeir standa í þessu svona dálítið frá degi til dags. En stjórnarliðið að öðru leyti. Þvílíkt geðleysi! Einn daginn koma þeir með þetta inn í þingflokka stjórnarliðsins, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., og segja: Það verður að hætta við að greiða uppsafnaðan söluskatt í sjávarútvegi og það verður að leggja launaskatt á sjávarútveginn. Og þarna sitja menn eins og Guðmundur H. Garðarsson og Halldór Blöndal og allir þessir miklu snillingar, hv. þm., og segja já og amen og takk, leggjum launaskatt á sjávarútveginn. Nokkrum dögum seinna eru þeir kallaðir saman á krísufund í þingflokkunum og sagt: Nú verður að taka þetta allt saman aftur. - Eru þetta allt saman alveg geðlausar druslur, með leyfi hæstv. forseta, eða hvað? Alveg gjörsamlega geðlausar druslur? Kemur það aldrei fyrir að það sé tekið mark á almennum þm. stjórnarflokkanna inni í þeim þingflokkum? Aldrei? (HBI: Jú, það kemur nú fyrir.) Örsjaldan. Hv. þm. Halldór Blöndal man örugglega eftir því og var með það í huga sem gerðist í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn um áramótin, þar sem hann bjargaði ríkisstjórninni naumlega í horn og ber að þakka honum það út af fyrir sig.

Þetta er nú niðurstaðan af þessari sérkennilegu ríkisstjórn sem hér er að gera tillögur í efnahagsmálum og þá ætla ég að nefna sjöunda punktinn í þessum tillögum, áður en ég kem að einstökum atriðum í tillögunum, það er punkturinn sem ég kalla „sjálfsagðir hlutir“. Því er lýst yfir að það eigi að gera þetta og hitt sem búið er að vera lengi í bígerð og undirbúningi og sagt að ríkisstjórnin ætli að gera það áfram og það kemur engum á óvart. En það varð að hafa plaggið a.m.k. þrjár vélritaðar síður þannig að það þurfti að tína til eitt og annað drasl sem ríkisstjórnin var hvort sem er að gera í þessu áður en hún kynnti þessar ráðstafanir í efnahagsmálum.

Ég lít þá þessu næst, herra forseti, á þessar einstöku aðgerðir og tek fyrst aðgerðir til að bæta hag útflutningsgreina. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Hver er staða frystingarinnar eftir þessar aðgerðir? Ég fagna því að ríkisstjórnin tekur aftur þetta varðandi söluskattinn og eins launaskattinn. Ég fagna því. Það eru fyrstu liðirnir í þessu plaggi þar sem hún étur ofan í sig það sem hún var áður búin að afgreiða.

Í þriðja lagi gerir hún ráð fyrir vissum skuldbreytingum sjávarútvegsfyrirtækja við ríkissjóð og það er áætlað að þetta létti greiðslustöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta er auðvitað alveg dæmigerð kreppuráðstöfun, hallærisráðstöfun. Þegar fyrirtækin geta ekki borgað eftir þetta mikla góðærisskeið, þá er farið að framlengja hjá þeim í ríkissjóði og Fiskveiðasjóði - og allt gott um það. Allt gott um það.

Í fjórða lagi er sagt: Áfram verður unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja í útflutningsgreinum í samstarfi viðskiptabanka, Byggðastofnunar og annarra lánastofnana. Ja, þetta er það sem ég flokka undir „sjálfsagða hluti“. Ríkisstjórnin ætlar sem sagt áfram að vera til. Hún er ekki alveg að segja af sér. Hún ætlar eitthvað að gera. Hún ætlar áfram að vinna að þessu. Og það er engin frétt.

Fimmta yfirlýsingin er um það að ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir því að vaxtamunur sem bankarnir taka vegna gengisbundinna afurðalána lækki a.m.k. um 0,25%. Þetta er gott. Það er gott að ríkisstjórnin tekur þarna þessa rögg á sig þrátt fyrir andstöðu viðskrh. og bankamálaráðherra sem hefur komið hér fram aftur og aftur í þinginu á undanförnum vikum og mánuðum. Síðan er sagt: Seðlabankinn mun beina því til bankanna að þeir leysi með sveigjanlegum hætti rekstrarvandamál þeirra fyrirtækja sem þurfa á afurðalánafyrirgreiðslu umfram 75% af verðmæti birgða að halda. Ja, hefur verið einhver veruleg stífni í bönkunum í þessu máli, hæstv. sjútvrh.? Ég tel að þetta sé gott en það hefði nú ekki þurft sérstaka utandagskrárumræðu á Alþingi til að lýsa því yfir að ríkisstjórnin ætlaði allra náðarsamlegast að fara fram á það við bankana að þeir væru sveigjanlegir gagnvart viðskiptaaðilum sínum. Kannski hefur þetta verið sérstakt vandamál og yfirlýsingarefni og utandagskrárumræðuefni hér í þinginu í gær sem liður í þessum miklu efnahagsráðstöfunum.

Svo kemur hérna mikil snilld. Og nú vantar mig hæstv. landbrh. Væri hægt að hóa í hæstv. landbrh., hæstv. forseti? (Forseti: Hann er ekki staddur í húsinu.) Hann er ekki staddur í húsinu. Þá spyr ég hæstv. sjútvrh. um þetta. „Tilhögun á greiðslu vaxta og geymslugjald sauðfjárafurða verður endurskoðuð.“ Ég óska eftir því að fá upplýsingar um það hvernig á að endurskoða þetta. Hvaða endurskoðun er þetta? Það hlýtur að vera hæstv. sjútvrh. sem á að svara þessu. Framsfl. fer með þennan málaflokk.

Og svo er hér í síðasta lagi: „Olíuverð lækkar 1. mars með hliðsjón af stöðu innkaupajöfnunarreiknings, verði birgða og horfum um þróun olíuverðs á alþjóðamarkaði.“ Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Verðlagsskrifstofunni var alveg ljóst að þetta hlaut að gerast hvort eð var. Þetta hlaut að gerast hvort eð var. Spurningin var bara um það hvort það gerðist 1., 2., 5. eða 15. mars. (Dómsmrh.: Fyrirgefðu. Það er lögbundið að það gerist um mánaðamót. Engin tillaga hafði komið fram. Tillaga kom fram frá fulltrúa ríkisstjórnarinnar um 40 aura og hefur ...) (Forseti hringir.) - Hæstv. forseti. Ekki veit ég af hverju forseti hringir bjöllunni. (Forseti: Ég bið menn um að haga máli þannig að það sé aðeins ræðumaður í ræðustól sem heldur ræðu.) Mér þykir vænt um það að hæstv. viðskrh. heldur svona eina og eina ræðu meðan ég er að tala. Það gerir þetta allt saman svo miklu, miklu skemmtilegra að menn geti aðeins talast við. En að sjálfsögðu reynum við að hlíta þeim vinnureglum sem hér tíðkast.

Það sem gerðist varðandi olíuverðið var ósköp einfaldlega það að verðið á olíu hafði lækkað. Ákvörðun var hins vegar tekin um það að láta lækkunina renna í innkaupajöfnunarreikning olíunnar til þess að rétta hann af og það hlaut því að koma að því að verðlag á olíuvörum lækkaði hér til skipanna vegna þess að það var búið að lækka það erlendis.

Þá kem ég næst að kafla í yfirlýsingunni sem heitir „Bætt starfsskilyrði launafólks“. Og það er: „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir setningu laga um starfsmenntun verkafólks og mun ríkissjóður leggja fram fé“ — og annars staðar kemur fram 35 millj. kr. - „á árinu 1988 í þessu skyni.“ Ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því: Hverjir eru að undirbúa þessa lagasetningu? Er kannski hugsanlegt að stjórnarandstaðan fái að fylgjast eitthvað með því hvernig á að verja þessu fé? Ég óska eftir upplýsingum frá hæstv. fjmrh. um það efni.

Enn þá frekar vildi ég fá upplýsingar frá honum um seinna ákvæði þessa kafla þar sem segir: „Ákvæði laga og reglugerðar um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fastráðins fiskvinnslufólks verða endurskoðuð í samráði við hlutaðeigandi samtök.“ Hvað er hér ætlunin að gera? Menn þekkja hvað ríkisstjórnin gerði í sambandi við Atvinnuleysistryggingasjóð núna fyrir fjórum vikum? Hann var skorinn niður um 100 millj. kr. Á að skila því kannski aftur? Er það tilgangur þessarar endurskoðunar - eða hvað? Ég inni hæstv. fjmrh. eftir því.

Síðan kemur síðasti hluti yfirlýsingarinnar þar sem fjallað er um aðgerðir til að hamla gegn viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Í tilefni af því vil ég biðja um það að hæstv. félmrh. verði kölluð hér inn á þessa virðulegu deild því að mér skilst að hún standi ekki að stjfrv. sem hér er til meðferðar og ég mundi vilja fá að eiga við hana orðastað. - Það er ljót meðferðin á ýmsum málaflokkum hér í þessu frv. en verst er það nú á félmrn.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að ríkisútgjöld verði lækkuð um 300 millj. kr. á þessu ári. Þar af á að lækka útgjöld til vegamála um 125 millj. kr., framlög í byggingarsjóði ríkisins - þ.e. bæði Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, það eru báðir sjóðirnir sem á að skera niður — á að lækka um 100 millj. kr. og síðan önnur útgjöld um 75 millj. kr. Hver eru þessi önnur útgjöld? Það lítur sakleysislega út, en hvað er það sem hér á að gerast? Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma einhvers staðar í frv. er gert ráð fyrir því að skera niður framlög til K-byggingar Landspítalans um 20 millj. Það munu vera inni í þessari tölu 75 millj. Það á að lækka framlög til Ríkisábyrgðasjóðs um 25 millj. og síðan stendur hér: Framlög vegna lyfjakostnaðar og sérfræðiþjónustu. Hvað þýðir þetta og hvað ætli það séu margir þm. sem fá tæmandi upplýsingar um málið með því að lesa þennan texta? Ég hygg að þeir séu ekki margir. Það sem verið er að segja hér er: Það á að hækka lyf og læknisþjónustu um 30 millj. kr. umfram forsendur fjárlaga. Það er tillaga m.ö.o. um að sjúklingar, sem þurfa að greiða fyrir lyf og læknisþjónustu, taki þátt í því ríkisfjármögnunarátaki sem hér er uppi.

Ég geri ráð fyrir því að allir ráðherrar standi að þessu frv. En ég sá hæstv. heilbrrh. birtast hér í sölum fyrir skömmu. Ég vildi gjarnan fá hann líka hér inn, hæstv. forseti. Ég vil fá að vita hversu mikið hann ætlar að hækka lyf og læknisþjónustu ofan á þau 100% sem hann hækkaði lyfin og læknisþjónustuna núna um áramótin. Til viðbótar við þau 100% þá á að fara að plokka sérstaklega af þessu fólki. Það eru breiðu bökin náttúrlega sem ríkisstjórnin hefur fundið þarna, viðskiptamenn almannatrygginga, þá sem verða að kaupa lyf og borga fyrir læknisþjónustu. Ég satt að segja tel að þetta sé svo yfirgengileg tillaga að hún hljóti að hafa sloppið þarna í gegn fyrir einhver mistök. Og ég vænti þess að það verði hægt í meðförum málsins hér í þinginu að stoppa þetta. Hækkun á lyfjum og læknisþjónustu inni í máli af þessu tagi er óþolandi. Það er auðvitað margt vitlaust í þessum plöggum, en þegar menn hlaupa í svona lagað og ætla sér að plokka 30 millj. kr. af þeim sem neyðast til þess að kaupa meðul og læknisþjónustu, sérfræðiþjónustu, röntgengreiningu hér í þessu landi, þá eru menn að fara of langt. Þá eru menn að láta þau köldu lögmál reglustikunnar, sem oft virðast ráða í þessum innri þjóðhagsstofnunum ráðuneytanna, taka völdin af sér. Og ég skora á hæstv. fjmrh. eða heilbr.- og trmrh. að lýsa því yfir hér á eftir að þetta verði ekki gert. Þetta er óþolandi.

Síðan er gert ráð fyrir því í þessu frv. að skera niður framlög til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna um 100 millj. kr. Og svo kemur hæstv. fjmrh. hér í ræðustól og segir: Það verður að endurskoða húsnæðiskerfið. Það verður að hækka vexti á húsnæðislánum. Það var það sem hann sagði. Ég vil inna hann eftir því eða hæstv. félmrh., sem ég vona að forseti hafi gert ráðstafanir til að hóa í, ef hún kemur hér í salinn. (Forseti: Hún er upptekin við umræður í Nd.) Þá getum við frestað umræðunum hér á meðan þau ljúka umræðunni í Nd. (Gripið fram í.). Það er hægt að fresta umræðunni hér á meðan, nú eða í Nd. Það er auðvitað alveg óþolandi að vera að taka hérna fyrir málaflokka, herra forseti, þegar viðkomandi ráðherrar eru ekki við. Þetta frv. er alveg afbrigðilegt að því leyti að þetta snertir svo að segja hvert einasta ráðuneyti. (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til þess að heilbrrh. verði kallaður hingað. Félmrh. er upptekinn í bili. Við skulum sjá til hvort ekki rætist úr.) Það skulum við gera, herra forseti. Ég er samvinnuþýður maður og ætla þá að sleppa húsnæðismálunum aðeins í bili og sömuleiðis tillögunum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en það þarf aðeins að ræða við hæstv. félmrh. líka smástund.

Ég var að spyrja hæstv. sjútvrh. í fjarveru landbrh. um vaxta- og geymslugjöld sauðfjárafurða (Sjútvrh.: Ég skal segja honum það.) og hæstv. sjútvrh. er svo vinsamlegur og það er það gott samkomulag í Framsfl. að þeir geta talast við þannig að hann ber þá þessar upplýsingar. Það er annað en segja má um ríkisstjórnina að öðru leyti.

Varðandi síðan tillögu ríkisstjórnarinnar um að tvöfalda gjald á erlendar lántökur þá er það góð tillaga og ég mun greiða henni atkvæði fyrir mitt leyti, þetta er skynsamleg tillaga.

Síðan segir hér: „Tekjuskattur félaga verði hækkaður.“ Það er ágæt tillaga. En það er einnig athyglisvert með þessa tillögu eins og hinar að það eru ekki nema fjórar, fimm vikur síðan hæstv. fjmrh. lét lið sitt fella tillögu frá mér um nákvæmlega sömu hækkun á tekjuskatti fyrirtækja og hér er verið að leggja til núna. Batnandi manni er best að lifa. Kannski kemur hann með fleiri tillögur sem voru felldar fyrir stjórnarandstöðunni fyrir hátíðar.

Í fjórða lagi: Í þessum þætti málsins gerir hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn tillögur um að skera niður erlendar lántökuheimildir fjárfestingarlánasjóða og ýmissa annarra aðila og þar sem ég á sæti í þeirri þingnefnd sem mun fjalla um það mál mun ég ekki fara nánar út í það. Ég get vel ímyndað mér að sumt af þessum niðurskurði geti fyllilega staðist, a.m.k. að því er varðar Landsvirkjun. Um hina aðilana skal ég ekki segja á þessu stigi málsins.

Síðan segir í lok þessa kafla: „Fylgt verður fast eftir framkvæmd gildandi reglna um erlendar lántökur.“ Já, það er nefnilega það. Henni verður fylgt fast eftir. Ætli þetta hafi nú átt erindi inn í yfirlýsingu, að ríkisstjórnin ætlaði að fylgja fast eftir þeim reglum um erlendar lántökur sem hún sjálf setti?

Síðan segir: „Fiskveiðasjóði verður falið að fresta svo sem framast er unnt lánveitingum til nýsmíði og kaupa á fiskiskipum.“ Þetta er mál sem þarf að skoða og verður gert í þeirri nefnd sem fjallar um málið þar sem sjálfsagt er að kalla til fulltrúa Fiskveiðasjóðs.

Og að lokum segir: „Ríkisstjórnin mun beina því til sveitarfélaga og annarra framkvæmdaaðila að dregið verði úr framkvæmdum eftir því sem föng eru á. Mun ríkisstjórnin óska eftir viðræðum um þetta við Samband ísi. sveitarfélaga og aðra viðkomandi aðila.“ Þetta er nú satt að segja einn höfuðbrandari plaggsins. Ráðherrar eru áður búnir að lýsa því yfir að það sé alveg sérstakt keppikefli þeirra að skera niður þessar framkvæmdir sveitarfélaganna. Hvaða sveitarfélög ætli séu stödd í einhverjum þensluframkvæmdum? Ætli það séu Egilsstaðir? Eða hvaða sveitarfélög? Bolungarvík kannski eða Akranes? Reykjavík er í rauninni eina sveitarfélagið þar sem hæstv. ráðherrar hafa getað bent á ákveðnar þensluframkvæmdir. Menn hafa að vísu nefnt eitt og eitt annað sveitarfélag, en það er alveg ljóst að það er Reykjavík sem menn númer eitt eru að tala um. Er það þá þannig að hæstv. iðnrh., varaformaður Sjálfstfl., ætli að fara og kúska Davíð til þess að hætta við framkvæmdirnar við veitingahúsið hérna uppi á tönkunum og ráðhúsið hérna ofan í Tjörninni? En svo mikið flóir út úr af peningum hjá sveitarfélaginu Reykjavík að borgarstjórinn varð að finna þessar sérstaklega ódýru lóðir, uppi á hitaveitutönkunum og ofan í Tjörninni, til þess að geta komið fyrir þessum peningum sem eru að sprengja borgarsjóð, sprengja borgarsjóð. Mér er sem ég sjái minn ágæta vin, hæstv. iðnrh. og varaformann Sjálfstfl., þegar hann fer á vettvang og segir: Davíð, stoppaðu þetta og stoppaðu þetta. - Satt að segja, herra forseti, vildi ég gjarnan fá að vera þarna fluga á vegg ef kostur er en ég geri ekki ráð fyrir að mér standi það til boða.

En ætli það sé svo ekki líka þannig að þegar farið verður að tala við sveitarfélögin um að skera niður framkvæmdir þá muni sum sveitarfélögin koma og segja: Heyrðu, við erum hérna með mótreikning á ríkisstjórnina fyrir niðurskurð á framlögum til okkar upp á 267 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum fyrir árið 1988. Það er hins vegar mál sem ég ætla að ræða við nánar við hæstv. félmrh. þegar hún birtist hér í þessari virðulegu deild.

Ég sé að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur brugðið sér hingað inn í Ed. og er það vel. Það er ég sem á sök á því og tilefnið er það að í ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að hækka lyf og læknisþjónustu um 30 millj. kr. Og ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. að því hvort hann ætli að hækka lyf umfram þau 100% sem hann samþykkti í desember og læknisþjónustu umfram þau 100% sem hann samþykkti í desember, og krækja sér þannig í 30 millj. kr. þannig að sjúklingar geti tekið þátt í því að bjarga þeim vanda sjávarútvegsins sem er auðvitað undirstaða þeirra ráðstafana sem hér eru uppi. Það er matarholan, það eru breiðu bökin, eða hvað, sem hæstv. ráðherrar finna í þessum efnum.

Ég er fyrir mitt leyti algjörlega sannfærður um það að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur ekki áttað sig á því hvað menn voru þarna að gera. Ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti að hann veit og gerir sér nú grein fyrir því eftir að hafa lesið þetta í heild að hér sé um mistök að ræða og hlýtur þess vegna að leggjast í lið með okkur hinum og víking við að koma þessu í burtu úr þeim textum sem hér eru.

Sum mál eru þannig að það er stundum hægt að fá jafnvel harðsvíruðustu stjórnarliða til að taka við sér. Ég flokka hæstv. heilbr.- og trmrh. ekki í þann flokk þannig að ég verð að gera mér vonir um það að hann hlýði á þá beiðni sem hér er komin fram vegna þess að fyrir utan það að hann ætlar að hækka lyf og læknisþjónustu um 30% samkvæmt þessu, þá á að skera niður framlög til K-byggingar Landspítalans um 20 millj. kr. Engar upplýsingar liggja fyrir um það hvaða áhrif það hefur á framkvæmdir á Landspítalalóðinni varðandi þróun og uppbyggingu á ríkisspítalasvæðinu og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. En ég skora á hæstv. heilbr.- og trmrh. að svara því: Samþykkti hann það að lyf og læknisþjónusta yrðu hækkuð til að standa undir þessum hallærisráðstöfunum sem ríkisstjórnin er hér að gera tillögu um eftir eitthvert mesta hagvaxtarskeið sem þjóðin hefur lifað?

Síðasti kafli þessa frv., þessara tillagna eða þessarar yfirlýsingar, fjallar um vexti. Fyrstu tveir þættirnir byggjast á því að ríkisstjórnin hefur beitt 11. gr. seðlabankalaganna. Hér segir í þriðja lagi: „Í kjölfar efnahagsaðgerðanna verða raunvextir á spariskírteinum ríkissjóðs lækkaðir.“ Ég vil fá að vita hvernig og spyr hæstv. fjmrh. að því. Síðan er hér um að ræða það sem ég flokka undir „sjálfsagða hluti“ í þessum pappírum: „Seðlabankinn mun beina því til innlánsstofnana að þær reikni dráttarvexti sem dagvexti“ o.s.frv. Og svo stendur hér í síðasta lagi: „Lagt verður fram frv. um starfsemi fjármálastofnana annarra en innlánsstofnana.“ Þetta er búið að segja hundrað sinnum út um allan bæ og engin frétt og ekkert merkilegt við þetta. En eitthvað varð auðvitað að vera í þessu plaggi úr því að mennirnir fóru að gefa út einhverja yfirlýsingu, jafnvel þó þeir væru búnir að segja það margoft áður.

Niðurstaðan af þessu er sú að mér sýnist að sjávarútvegurinn fái í gegnum breyttar reglur varðandi söluskatt 587 millj. Iðnaður og sjávarútvegur fá samtals vegna lækkaðs launaskatts 200 millj. Í starfsmenntunarsjóð fara 35 millj. kr. Samtals sýnist mér að hér sé um að ræða útgjaldaauka fyrir ríkið upp á 822 millj. kr. Á móti því kemur niðurskurður upp á 300 millj. kr., tekjuskattur fyrirtækja er hækkaður um 130 millj. kr., gjald á erlendar lántökur er hækkað um 160 millj. kr. og síðan er lagður sérstakur skattur á sveitarfélögin upp á 267 millj. kr., þannig að heildartekjuöflunin í dæminu er upp á 857 millj. kr. en útgjaldahliðin er upp á 822 millj. kr.

Mismunurinn er 35 millj. kr. og það væri vel þegið, a.m.k. af minni hálfu þó að fátt annað breyttist í þessu, að þessi sérstaki meðalaskattur hæstv. heilbrrh. yrði strikaður út úr dæminu.

Ég ætla síðan, herra forseti, að víkja hér að einu atriði varðandi launaskattinn og vænti ég þess að hæstv. fjmrh. heyri mál mitt og hæstv. landbrh. sé ekki langt undan. Ég sé ekki betur en að með þessu frv. sé verið að leggja söluskatt, 3,5% söluskatt á fiskeldi. Ég sé ekki betur en að þegar allir 1%þættirnir eru strikaðir út, þá sé þar með verið að segja: Allir aðrir þættir eiga að borga 3,5%. Og ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því, og vona að hann heyri mál mitt, hvort það séu ekki örugglega mistök að setja málin þannig upp, eins og hér er gert, að fiskeldið fái á sig 3,5% launaskatt vegna þess að fiskeldið var í gamla 1%-flokknum. 1%-flokkurinn er felldur út, þá er bara eftir 3,5% launaskattur og þá hlýtur það að lenda á fiskeldinu. Ég er sannfærður um að þetta séu einhver mistök. Ég sé að hæstv. landbrh. er þarna líka þannig að ég held að það hljóti að vera að við getum sameinast um að breyta þessu.

Ég vil spyrja hvort hæstv. félmrh. sé ekki á leiðinni hingað. (Gripið fram í.) Þá getur hún bara frestað þeim umræðum. Hvort er mikilvægara kaupleigufrv. eða þetta? Ríkisstjórnin verður bara að gera það upp við sig. Það er ekki hægt að hengja hér upp umræður í báðum deildum á sama ráðherranum. Hæstv. félmrh. er hér með málaflokka inni í þessu frv., hvorki meira né minna en smámál eins og húsnæðismálin og samskiptin við sveitarfélögin. Hæstv. félmrh. segir í einhverjum fjölmiðlum að hún hafi bókað mótmæli við þessu. Það er skrýtið ef hæstv. fjmrh. flytur frv. sem heyrir undir félmrh. en hún er á móti. Ég sé ekki betur en hæstv. fjmrh. hafi þá tekið að sér að stjórna félmrn. líka og hafi með frv. í raun og veru rekið hæstv. félmrh. út úr ríkisstjórninni, þannig að ég held að það sé full ástæða til þess að fá að ræða við hæstv. félmrh. um þetta mál. (Forseti: Það mun verða athugað hvort hæstv. félmrh. er til staðar.) Ég hinkra þá augnablik. (Gripið fram í: Ekki slá metið.) (Gripið fram í: Gleymdu ekki skíðunum.) Skíðasambandsmetið? (Forseti: Hæstv. félmrh. mun vera bundinn í hv. Nd. þar sem einn hv. þm. er þar í ræðustóli og á erindi við hæstv. ráðherra á sama hátt og hv. 7. þm. Reykv. biður um að fá hæstv. ráðherra hingað, svo ég vildi spyrja hvort hv. þm. gæti ekki haldið máli sínu áfram og geymt það sem hann á ósagt við hæstv. félmrh. þar til hann kemur í salinn?) - Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessa ábendingu. Þannig er að ég ætlaði ekki að fara að tefja þetta mál með einhverjum löngum ræðuhöldum og hef lokið þeim meginatriðum sem ég ætlaði að fara yfir varðandi þetta frv. annað en það sem lýtur að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og húsnæðiskerfinu og er í nokkrum vanda staddur vegna þess að ef ég slít ræðu minni nú þá á ég ekki tök á því að koma hér aftur til að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra og síðan að svara henni þar sem aðeins er leyfilegt að tala tvisvar við þessa umræðu. Málið er því nokkuð vandasamt. Fyrir því munu engin fordæmi að þm. hafi gert hlé á ræðu sinni, umræðan hafi haldið áfram eftir sem áður og hann hafi þá geymt helminginn af ræðu sinni þar til síðar. Ég er reiðubúinn til að brjóta upp á þeirri nýlundu en ég hygg að hæstv. forseti sé ekki jafnnýjungagjarn og hæstv. aðalforseti. Þess vegna hyggst ég varpa nokkrum orðum að hæstv. fjmrh. og formanni Alþfl. út af þessum málum og ræða þá við hæstv. félmrh. síðar.

En þetta frv. sem hér liggur fyrir heyrir í raun og veru undir mörg ráðuneyti. Það heyrir undir fjmrn. að langstærstum hluta, en það snertir líka heilbrrn., það snertir landbrn., það snertir viðskrn. eða þær ráðstafanir sem hér er verið að gera, það snertir sjútvrn., það snertir iðnrn. og það snertir félmrn. Hér er því um að ræða mál sem í þingsögunni gengur oft undir nafninu bandormur, það eru margs konar lög út og suður sem verið er að breyta, og þegar það er þá er venjan sú að forsrh. flytji mál. Venjan er sú að forsrh. flytji mál. Hins vegar er það samkomulagsatriði milli ráðherra hver flytur mál ef forsrh. gerir það ekki, en ég hygg að það algengasta sé að hæstv. forsrh. mæli fyrir máli af þessu tagi. (Iðnrh.: Fyrir hv. ræðumann þá eru þetta lagaatriði sem heyra undir fjmrn. þó þau snerti ýmis önnur eins og fjárlög. Ég bendi hv. þm. á að þó að fjárlög snerti öll ráðuneytin, þá er það fjmrh. sem mælir fyrir þeim en ekki forsrh.) Það er út af fyrir sig alveg rétt að hér er um það að ræða, en auk þess er það venja, hæstv. ráðherra, við umræður um fjárlög að einstakir ráðherrar eru kvaddir til til þess að svara fyrir sína málaflokka, þannig að það er út af fyrir sig eðlilegur hlutur að þeir séu kallaðir hér til. Ég vona að ráðherranum finnist það ekki leiðinlegt, finnist það heldur skemmtilegt, að þeir séu kallaðir til, fái að vinna fyrir kaupinu sínu smástund með því að vera hér í deildinni því að í Nd. er mál sem þeim kemur ekkert við, kaupleigufrv., og hæstv. félmrh. sér um það. En hún hefur enn þá með þann málaflokk að gera þó það sé að öðru leyti búið að taka af henni húsnæðismálin að mér sýnist.

Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. sé ekki fjarri. Hann flytur hér frv. þar sem byggt er á þeirri forsendu að taka í raun og veru húsnæðismálin af hæstv. félmrh. Það er gert ráð fyrir því að skera niður framlög til Byggingarsjóðs ríkisins um 100 millj. kr. og Byggingarsjóðs verkamanna líka. Og hæstv. félmrh. segist vera á móti þessu. Hún segist vera á móti þessu en samt flytur fjmrh. frv. á þessum forsendum. Með þessu er auðvitað hæstv. fjmrh. að taka að sér húsnæðis- og félagsmálaráðuneytið að þessu leyti og reka hæstv. félmrh., segja henni að taka pokann sinn. Því það er auðvitað ekki hægt fyrir einstaka ráðherra að leika þann leik að segja: Heyrðu, ég er á móti helmingnum af frv. og ég bara bóka mótmæli og svo er ég farin heim. Annaðhvort eru menn í ríkisstjórn eða ekki og það á við hvern sem er.

Síðan kemur hér tillagan um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það ætlar ríkisstjórnin að éta ofan í sig í bili. Það á hins vegar að veita 130 millj. kr. til þessara verkefna á árinu 1988 en ríkisstjórnin ætlar svo að græða á því 267 millj, kr. með því að skerða Jöfnunarsjóðinn extra um 267 millj. kr. Er hæstv. félmrh. kannski á móti þessu líka? Er verið að vaða yfir hæstv. félmrh. í þessu máli líka? Styður hæstv. félmrh. þetta eða ekki? Það er alveg óhjákvæmilegt að það komi fram upplýsingar um það.

Síðan kemur hér hæstv. fjmrh. og rekur húsnæðismálin og segir: Það er búið að setja húsnæðismálin í nefnd hinna vísustu manna. Og það var nefndur einn vís maður úr þeim hópi, fyrrv. formaður Alþfl., Kjartan Jóhannsson. Hverjir aðrir eru hinir vísu menn sem eiga að taka við stjórn húsnæðismála af hæstv. félmrh. núna næstu mánuðina þegar kerfið er að hrynja? Kerfi sem hún sagði á síðasta kjörtímabili að væri ekki nokkur vandi að leysa, ekki nokkur vandi að laga. Það væri bara aumingjadómur þeirra sem höfðu haft með þetta mál að gera á árunum á undan að þeir skyldu ekki vera búnir fyrir löngu að leysa þessi húsnæðismál. Og þegar Alþfl. væri kominn í húsnæðismálaráðuneytið þá væri þetta allt saman leyst á einni nóttu. Niðurstaðan er svo sú að það er flutt frv. um kaupleiguíbúðir. Það mál er skorið niður um 100 millj. kr. Það er skipuð nefnd í málið og félmrh. segist vera á móti ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað alveg augljóst mál að Alþfl. hefur ákveðið að taka húsnæðismálin af henni, hæstv. félmrh.

Framkoman við hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur í þessu máli, sem á góðan stuðning þm. úr öllum flokkum sem hafa séð hana glíma við flokksbræður sína á undanförnum mánuðum, framkoman við hana er auðvitað alveg yfirgengileg. Þessar árásir, sem birtist núna þegar hæstv. ráðherra reynir að segja sig frá málinu, en samt flytur fjmrh. það og formaður Alþfl., er auðvitað alveg fráleit meðferð og fráleitt að nokkur ráðherra skuli láta bjóða sér það. Því að auðvitað gat hæstv. félmrh. sagt: Þetta verður ekki flutt. Auðvitað gat hún það. Auðvitað hefur hún ráðherramyndugleika og vald til að segja: Þetta verður ekki svona. Hún ræður því. En þrátt fyrir mótmæli hennar er frv. prentað og keyrt hér inn í þingið og talað um málið eins og þetta sé ekki nokkur vandi og hinir „vísustu“ menn hafi í raun og veru tekið við þessu máli af hæstv. félmrh.

Ég vil fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann svari þessum hlutum varðandi húsnæðismálin, hvað það á að þýða að taka húsnæðismálin af Jóhönnu Sigurðardóttur eins og verið er að gera. Og ég vil líka inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann telur rök mæla með því að skera niður Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um 267 millj. kr. en á síðasta kjörtímabili greiddi Alþfl. alltaf atkvæði gegn þeim niðurskurði. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.