01.03.1988
Efri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5164 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Það kemur ekki á óvart að þurfa að hefja á nýjan leik þá fjármála- og efnahagsmalaumræðu sem við áttum um hátíðarnar og áramótin á maraþonlöngum fundum þar sem var fjallað um öll þessi mál frá öllum hliðum. Það var alveg ljóst þá þegar að það yrði stutt í að það þyrfti að taka alla þessa umræðu upp á nýjan leik. Á þetta bentum við, þm. stjórnarandstöðunnar. Við færðum sterk og góð rök fyrir því að flestöll frv. ríkisstjórnarinnar sem voru samþykkt um áramótin voru með þeim endemum að það hlaut að þurfa að brjóta allt fjármálakerfið upp aftur.

Nú eins og þá er nákvæmlega það sama uppi á teningnum. Það leikur nokkur vafi á því hvort hér sé um stjfrv. að ræða eða einfaldlega þmfrv. hæstv. fjmrh. Í tengslum við skatta- og fjármálafrv. ríkisstjórnarinnar um hátíðarnar heyrðist maldað í móinn af hálfu ýmissa ráðherra og sumir gengu svo langt að lýsa beinlínis yfir andstöðu sinni við veigamikla þætti þessara frumvarpa. Hér hefur nákvæmlega það sama gerst, að hæstv. félmrh. hefur látið bóka mótmæli sín við ýmsa þætti í þessu nýja frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Það er því spurn: Er þetta frv. hæstv. ríkisstjórnarinnar, stjfrv., eða er þetta einungis þmfrv. hæstv. fjmrh.?

Þessi ríkisstjórn hefur ekki náð neinum tökum á efnahagsmálunum frá því að hún kom til valda í júlímánuði á sl. ári. Ef eitthvað hefur málum stórlega hrakað því að það er eins og ævinlega að þegar ljóst er að fram undan eru erfiðleikar í efnahags- og viðskiptamálum hlýtur að þurfa að grípa til einhverra ráðstafana til þess að kippa því í lag. Það er hins vegar alveg ljóst að þetta hefur blessuð ríkisstjórn hæstv. ekki megnað að gera. Þetta sem verið er að gera núna er eitt hálfkákið enn ofan á þær aðgerðir sem fyrst komu síðla sumars 1987, síðan með skatta- og fjármálafrumvörpunum nú um hátíðarnar og svo kemur þessi bandormur sem við erum að ræða hér nú. Ég væri ekki hissa þó að eftir svo sem eins og einn mánuð eða undir þinglok þurfi á nýjan leik að taka til við einhverjar hliðstæðar aðgerðir þegar það hefur komið í ljós að allt er á sömu bókina lært. Efnahagsástandið hefur ekkert lagast. Það hefur væntanlega versnað. Að vísu eru nokkrir þættir þessara ráðstafana sem við þm. Borgarafl. getum tekið undir, enda er um að ræða ábendingar og raunar í sumum tilvikum afstöðu Borgarafl. sem kom fram með því að við andmæltum ýmsu í frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem voru til umræðu um áramótin. Auðvitað var ekkert hlustað á það né tekið tillit til þeirra mótmæla okkar, en nú er skyndilega verið að taka upp sumt af því sem við sögðum og breyta þeim frv. sem voru samþykkt um áramótin eins og við lögðum til. Svo að ég taki eitt dæmi er verið að tala um að fella niður launaskatt í sjávarútvegi og í samkeppnisgreinum iðnaðar frá og með 1. júlí 1988. Við lögðumst gegn launaskatti yfirleitt og teljum að það sé aðeins aðferð til þess að flækja skattkerfið sem er orðið nógu slæmt fyrir. Þegar hæstv. fjmrh. er alltaf að tala um þessa einföldun og hvað skattkerfið eigi að vera skilvirkara og réttlátara á maður raunverulega að túlka þau orð hans á þann veg að það eigi að gera skattkerfið miklu flóknara þannig að enginn botni upp né niður í því, fjölga alls kyns sköttum, leggja helst skatt á alla skapaða hluti. Þá fyrst er skattkerfið orðið einfalt og skilvirkt þegar það er orðið nógu andskoti flókið þannig að enginn skilur það.

Annars er eitt sem vekur hvað mestan ugg í brjósti allra sem hugsa um þessi mál og það er hinn geigvænlegi viðskiptahalli sem stefnir í á þessu ári. Það var skelfilegt að heyra orð hæstv. forsrh. þegar hann gerði grein fyrir þessum efnahagsaðgerðum og kynnti þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er fskj. með þessu frv. Hann sagði að það stefndi í 13–14 milljarða viðskiptahalla á árinu og með þessum aðgerðum tækist að vísu að ná honum niður í 10 milljarða. Nú segir hæstv. fjmrh., ef ég hef hlustað rétt á, að þetta sé ekki rétt og viðskiptahallinn muni ekki verða mikið meiri en 8–81/2 milljarður kr. Mér þykir það vera nóg samt og spurningin er: Hefur þá nokkuð verið tekið á þessu veigamikla vandamáli sem að mínum dómi skapast einfaldlega af því að hingað flæðir inn til landsins ódýrt erlent skran meðan útflutningur landsmanna á undir högg að sækja vegna rangrar gengisskráningar? Gengisfellingin, 6%, mun breyta litlu um, enda er það alveg ljóst eins og þróun mála hefur verið undanfarið meðan þjónusta innan lands og kostnaður útflutningsgreinanna vex hröðum skrefum - það var talað um að kostnaður útflutningsgreinanna hefði vaxið um u.þ.b. 30% á einu ári meðan fastgengisstefnan hélt útflutningsverðinu nánast föstu - hefur innflutningsverslunin átt sína gósentíð þannig að innflutningur er með því mesta sem við höfum nokkurn tíma upplifað í þessu þjóðfélagi. Bílar og alls kyns varningur streymir inn í landið, enda má segja að slíkur varningur sé nánast á útsöluverði miðað við það sem áður hefur tíðkast í þessu landi.

Fastgengisstefnan hefur verið einn meginhornsteinn þessarar ríkisstjórnar og þá er gjarnan talað um að það þýði ekkert að höggva í sama knérunn og áður fyrr, en þá var alltaf byggt á því að þegar útflutningsverslunin taldi að rekstrarskilyrði hennar væru með þeim hætti að nú gengi þetta ekki öllu lengur var gripið til þess ráðs að fella gengið. Hér er ekki um það að ræða heldur einfaldlega það að gengismálin hafa þróast þannig á alheimsmörkuðum. Dollarinn hefur fallið mjög í verði og það hefur fyrst og fremst komið illa við íslenska útflutningsverslun. En mönnum hefur ekki dottið í hug að leiðrétta það á einn eða annan hátt. Það þarf ekkert að tala um gengisfellingu í því sambandi, hæstv. viðskrh. Það væri hins vegar hægt að hugsa sér einfaldlega að leiðrétta vægi dollarans í myntkörfunni þannig að betur yrði hugað að hagsmunum útflutningsverslunarinnar sem mestöll selur afurðir sínar á erlendum mörkuðum í dollurum.

Það er talað um að þessar ráðstafanir, sem hér hafa verið kynntar, muni leysa málin að mestu leyti og þess er skemmst að minnast að fyrir nokkru börðu hæstv. ráðherrarnir sér á brjóst hér í sjónvarpinu og töluðu um að nú væri afraksturinn af þeirri breytingu sem orðið hefur á skatta- og fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar eða ríkisins farinn að skila árangri. Vextir færu nú lækkandi og verðbólga væri snarlækkandi. En nú er spurt: Hafa vextir eitthvað lækkað? Vextir af lánskjaravísitölulánum eru eftir sem áður 91/2%. Nafnvextir skuldabréfa hafa að vísu lækkað. Það er rétt. En hafa þeir nokkuð lækkað öðruvísi en að aðlagast raunvöxtum sem eru nú 91/2% umfram lánskjaravísitölu? Flestallir sem hafa tekið lán undanfarið hafa orðið að taka lánskjaravísitölulán og þeir verða ekki varir við neina vaxtalækkun. Það kann vel að vera að á pappírunum hafi verið um einhverja vaxtalækkun að ræða, á skuldabréfum. Það kemur einfaldlega fram í því að vextir hafa verið leiðréttir til þess að raunvextir séu þessi 91/2% á lánskjaravísitölulánum. Þannig er raunverulega um algjöra blekkingu að ræða þegar talað er um að vextir hafi lækkað. Þeir hafa ekki lækkað nokkurn skapaðan hlut. Vextir eru í dag 91/2% á lánskjaravísitölulánum og verða það áfram að því er best er vitað. Það hefur ekki verið boðuð nein vaxtalækkun á raunvöxtum lánskjaravísitölulána. Ef eitthvað er verið að boða vaxtahækkun á húsnæðislánum, þannig að þessi umræða um lækkun vaxta virðist vera ein blekking.

Þá er það rétt að um síðustu mánaðamót og aftur um þessi mánaðamót hefur framfærsluvísitala, byggingarvísitalan og lánskjaravísitalan hækkað minna en um alllangan tíma að undanförnu. Þetta er ofur eðlilegt. Tollalækkunin hlaut að skila sér og breytingin á vörugjaldi sem út af fyrir sig var mjög jákvæð, enda mæltum við mjög með þeim breytingum á sínum tíma þegar þessi tvö frv. voru til umræðu hér um áramótin. Að vísu bentum við réttilega á að frumvörpin voru barin hér í gegn, þ.e. frv. til breytinga á tollalögum, svo og vörugjaldið sem við út af fyrir sig erum algjörlega mótfallnir sem slíku því að það er enginn vandi að fella vörugjaldið inn í tollana. En látum það vera. Þrátt fyrir allt var um verulega tollalækkun að ræða á ýmsum innfluttum vörum, m.a. byggingarvörum. Það hlaut því að skila sér fyrr eða seinna þó að það léti nú bíða eftir sér eins og öllum er kunnugt. En ég er ekki viss um að þetta endist mikið lengur en þessi tvö mánaðamót. Ég er ansi hræddur um að framfærsluvísitalan og byggingarvísitalan fari á fullt skrið aftur þannig að það er ekki víst þeir verði eins bólgnir hæstv. ráðherrarnir um þarnæstu mánaðamót.

Eitt af því sem lögð er höfuðáhersla á í þessum ráðstöfunum er breyting á lántökugjaldi vegna erlendra lána. Það er einn annar hornsteinn ríkisstjórnarinnar, þ.e. að reyna að draga úr erlendum lántökum sem framast er unnt. Það er út af fyrir sig gott markmið í sjálfu sér og ekki skal ég mæla gegn því. Það er hins vegar ekki sama hver tekur erlendu lánin að minni hyggju. Sá aðilinn sem ætti aldrei að taka erlend lán er ríkisstjórnin sjálf og opinberir aðilar. Þeir eiga að nota þær tekjur sem þeir afla til framkvæmda og ekkert annað. Hins vegar tel ég að það sé ekkert eðlilegt að vera að amast við því að atvinnufyrirtæki taki erlend lán til fjárfestinga til þess að skapa ný atvinnutækifæri og til þess að styrkja útflutningsgreinarnar. Ég tel að aðgangur slíkra aðila eigi að vera tiltölulega frjáls að erlendu lánsfjármagni og kynni það að verða til þess að lækka hér vexti því að raunvextir á Íslandi eru langtum hærri en gerist í nágrannalöndunum. Ég hygg að flestir mundu vilja, ef þeir ættu þess kost, fá að taka erlend lán á miklu lægri raunvöxtum beint án þess að ríkisvaldið væri nokkuð að skipta sér mikið af því. En ég vil ítreka það og undirstrika að ef á að takmarka erlendar lántökur er það fyrst og fremst ríkið og hinir opinberu aðilar sem eiga að minnka erlendar lántökur sínar. Það á ekki að amast við því þó að atvinnufyrirtæki taki erlend lán til þess að renna styrkari stoðum undir atvinnulífið og skapa fleiri atvinnutækifæri, þar með styrkja útflutningsgreinarnar.

Dýrtíðin er nú komin á fullt í þessu landi. Ég held að flestir launþegar geti verið sammála um það að það hefur aldrei verið dýrara að lifa á Íslandi en einmitt þessar vikurnar. Fólk, sem ég hef talað við, og það á jafnt við um lágtekjufólk og fólk með allgóð laun, lýkur upp einum rómi um það að það minnist þess ekki um áraraðir að það hafi verið jafnerfitt og dýrt að lifa á Íslandi eins og þessa mánuðina og vikurnar. Fólki blöskrar hreint og beint. Til gamans má taka að tryggingagjöld sem vísitölufjölskyldan þarf að inna af hendi á hverjum mánuði vegna venjulegra trygginga af þeim bifreiðum sem hún á og, rekur slaga hátt upp í mánaðartekjur hennar. Ég minni á það að það var einn liður í kjarasamningum 1986 að allir áttu að kaupa sér bíla, öðruvísi gátu þeir ekki fengið þær kjarabætur sem þeir samningar báru með sér svo að það er ekkert hægt að amast við því þó að fólk eigi núna fleiri bíla en á undanförnum árum. En af þessum bílum þarf að borga tryggingar og tryggingaútgjöld einnar fjölskyldu slaga hátt upp í þær mánaðartekjur sem fjölskyldan hefur til að lifa fyrir þannig að hún á ekkert eftir þegar hún er búin að borga tryggingagjöldin.

Mig langar rétt til þess að vekja athygli á einu sem hefur því miður lítið komið til umræðu eftir að hæstv. félmrh. hætti að sinna þeim málaflokki eftir að hún komst í ráðherrastól, en það er kostnaður við tannlækningar. Ef láglaunamaður, og jafnvel þótt um sé að ræða aðila með sæmilega góðar tekjur, verður fyrir því að þurfa að fara í viðamiklar tannviðgerðir er fjárhagur hans þar með kominn í rúst. Hann hefur raunverulega ekki efni á því að láta gera við tennurnar í sér lengur því að það kostar tvenn, þrenn mánaðarlaun að fara í slíka aðgerð. Fólk býr því við mikið óöryggi og í flestum fjölskyldum er núna fyrst og fremst rætt um það hvernig á að láta enda ná saman. Ég endurtek og ítreka það að ég minnist þess ekki að hafa heyrt jafnmarga kvarta yfir því að launin hrökkvi hvergi nærri fyrir brýnustu nauðsynjum þessa mánuðina.

Það er höfuðárangur þeirrar ríkisstjórnar sem kom til valda hér 8. júlí 1987 að eftir rúmlega hálfs árs valdatímabil er svo í pottinn búið að fólk hefur aldrei átt erfiðara með að lifa í þessu landi.

Í þessu ljósi verður að skoða þá kjarasamninga sem voru gerðir í síðustu viku og reyndar þá kjarasamninga sem voru gerðir á Vestfjörðum, sem frægt er orðið, í byrjun febrúar. Mikið var um það rætt að þar virtust tengsl hæstv. ráðherra Alþfl. í ríkisstjórninni vera mjög áberandi og menn vörpuðu þeim spurningum fram hvort þessar niðurstöður væru samkvæmt pöntunum hæstv. ráðherranna. Það er hins vegar alveg ljóst að þær litlu launahækkanir sem samið var um í þessum kjarasamningum, bæði í Vestfjarðasamningunum og í nýgerðum kjarasamningum, sem var verið að samþykkja í gær í stærsta verkalýðsfélagi landsins, Dagsbrún, með naumum mun að vísu, skila nákvæmlega engu því að með þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur nú gripið til í kjölfarið á þessum kjarasamningum er búið að taka nákvæmlega allt aftur sem ávannst. Ef eitthvað, þá er búið að taka ívið meira. Ég leyfi mér að fullyrða að það verkafólk sem var verið að semja um kaup og kjör fyrir núna fyrir helgina var mun betur sett fyrir mánuði en það er nú eftir að hafa fengið þá launahækkun sem um var samið og fá síðan ofan í þær ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Ég held að þessu fólki hafi verið mun betur borgið án nokkurra samninga og án þessara ráðstafana. Því held ég að það hljóti að verða mjög ákveðin og hávær krafa, sem við þurfum að taka afstöðu til á næstunni, hvort það verði ekki að grípa til sérstakra aðgerða til að hækka lægstu laun lágtekjufólksins í landinu. Ég bið hæstv. ríkisstjórn að kynna sér vel tillögur Borgarafl. í þeim efnum. Í gær var mælt fyrir þáltill. um sérstakar launabætur til handa lágtekjufólkinu í Sþ. sem þm. Borgarafl. flytja. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að kynna sér þessa till. vel og athuga hvort ekki sé hægt að notfæra sér þessa hugmynd til að rétta við hag þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst að samkvæmt framfærsluvísitölunni þarf vísitölufjölskyldan rúmlega 115–120 þús. kr. til þess að lifa á hverjum mánuði, en það er ekki víst að hún hafi nema um 80 þús. kr. til þess. Ég veit ekki hvernig fólk ætlar að fara að á næstunni.

Það er talað um að það hafi orðið miklar launahækkanir á síðasta ári og víst er rétt að sumir hópar hafa náð umtalsverðum launahækkunum. Það hefur verið mikið launaskrið hjá vissum hópum og kaupmáttur jókst að meðaltali hjá mönnum, að því er talið er um 17%. Þetta er allt saman rétt, en ég er hræddur um að þetta meðaltal kunni að verða með þeim hætti þegar það er greint niður á hina ýmsu hópa að í raun hafi gerst það að launamisréttið hefur aukist hröðum skrefum í landinu.

Ég held að við Íslendingar höfum öll árin eftir stríð getað stært okkur af því að hér væri um minna launamisrétti að ræða í þjóðfélaginu en í flestum öðrum löndum Vestur-Evrópu. Við gátum verið stoltir yfir því að hér var ekki sá hrikalegi launamismunur sem þekkist víða í hinum háþróuðu iðnríkjum Vestur-Evrópu þar sem forstjórar hafa margföld laun verkafólks. Það má margfalda með fleiri tugum laun þeirra miðað við það sem lágtekjufólkið hefur. Þannig var þetta allar götur fram til síðustu ára á Íslandi. En á eins og 3–4 árum hefur það gerst að launamismunur hefur vaxið hröðum skrefum á Íslandi og nálgast nú það sem mest gerist í nágrannalöndunum þannig að hér er orðinn gífurlegur launamunur á milli þeirra hæst launuðu og þeirra tekjulægstu. Hér hefur orðið breyting til hins verra. Það er ekki hægt að ásaka einn eða neinn fyrir þessa þróun nema menn hefðu hugsanlega átt að sjá þetta fyrir og reyna að grípa til aðgerða fyrr. En þetta er mál sem við verðum að ganga í að leysa. Við verðum að komast aftur til fyrra ástands, sem við vorum stoltir yfir, að hér ríkti minna launamisrétti og meiri launajöfnuður en gerist meðal annarra vestrænna þjóða.

Undanfarin ár hafa verið einhver bestu ár sem við Íslendingar höfum lifað frá stríðslokum. Það hefur verið mikið góðæri til lands og sjávar. Fiskafli hefur verið mikill og verð á fiski og fiskafurðum hefur verið mjög hátt á erlendum mörkuðum. Í raun og veru er ekkert sem bendir til þess að þetta ástand breytist mjög mikið. Þó svo að það sé rétt að gert er ráð fyrir ívið minni botnfiskafla samkvæmt núgildandi fiskveiðistefnu en var á síðasta ári og það er vissulega ótryggt ástand á sumum mörkuðum held ég að þegar á heildina er litið sé ekki um svo ýkjamikla breytingu að ræða. Góðærið hvað varðar ytri skilyrði er því enn þá fyrir hendi. Það sem er að er að sú ofstjórn sem hér er á efnahagsmálum er að fara með allt til verri vegar. Þannig bendir allt til þess að ef það væri haldið vel á málum gætum við lifað hér ágætu lífi og við ættum að geta haldið uppi háum launum og góðri lífsafkomu allra sem þetta land byggja ef við byggjum ekki við þá óstjórn sem hefur ríkt í langan tíma.

Eitt af því sem ég held að við ættum að athuga gaumgæfilega á næstunni, og mér er sama hvort hæstv. ríkisstjórnin gerir það eða hvort við hjálpum henni til þess, er að fara aftur ofan í saumana á öllu tekjuöflunarkerfi ríkisins. Mér óar við því sem er fram undan. Það er verið að innleiða hér flókin skattakerfi, sem eru tekin að láni frá tugmilljónaþjóðfélögum, sem ekkert erindi eiga í þetta fámenna þjóðfélag norður í Dumbshafi. Það er boðað að á næstunni verði lagt fram frv. til l. um virðisaukaskatt. Ég hef haldið nokkrar ræður um virðisaukaskatt hér í þinginu og mun væntanlega halda því áfram. Það er dæmigert fyrir skattkerfi sem á ekkert erindi til Íslands. En ég veit að það verður barið hér í gegn eins og annað, enda er það að verða svo að fólk stynur undan því kerfi sem er búið að hlaða yfir það. Ef fer sem fer endar þetta þannig að almenningur og allir þeim sem koma nálægt rekstri hafa ekkert annað að gera en að fylla út alls konar skýrslur fyrir ríkissjóð og ríkisvaldið og mega síðan hlíta því að ríkið verður með eftirlitssveitir út um allt til að fylgjast með því að fólk hafi fyllt þessar skýrslur út og skilað því sem því ber. Ég veit eiginlega ekki hvers konar þjóðfélagi við stefnum að ef fer sem horfir.

Ég vildi vara við þessu og ég vildi kannski nota tækifærið og benda á að hinum eldri og reyndari þm. hættir dálítið til að fjalla um fortíðina. Það er alltaf verið að fjalla um hvað þessi og hinn hv. þm. sagði fyrir mörgum árum. Hverju máli skiptir það? Er það ekki framtíðin sem skiptir öllu máli? Er það ekki okkar verkefni á þingi að reyna að leysa framtíðarverkefnin, reyna að setja skynsamlega löggjöf sem gerir lífvænlegra að búa í þessu landi fyrir fólkið sem hér á heima?

Það var minnst á húsnæðismál og mig langar til að fara örfáum orðum um þau hér. Um það er mikill ágreiningur auðheyrilega innan ríkisstjórnarinnar. Hér er skerðing á framlagi í byggingarsjóði ríkisins. Það er ekki sundurgreint. Ég hef ekki náð að lesa þetta svo vel yfir að ég sjái með hvaða hætti það gerist. Það kannski skiptir ekki máli. En framlag til byggingarsjóða ríkisins verður lækkað um 100 millj. Hæstv. fjmrh. taldi að þetta gerði ekki svo mikið til þar sem ráðstöfunarfé lífeyrissjóða mundi vera stórum meira en við hefði verið búist. Það hefur aukist verulega. Það er rétt. En þá vaknar spurningin: Hvað hafa margir lífeyrissjóðir gert bindandi samninga við Húsnæðisstofnun um skuldabréfakaup? Hér kemur aftur að því að okkur sárvantar hæstv. félmrh. í deildina til að spyrja hana um ýmis atriði varðandi húsnæðismálin, en eins og hefur komið fram áður er hæstv. félmrh. upptekinn í hinni deildinni og verð ég því að beina þessum spurningum til hæstv. fjmrh. í staðinn.

Eftir því sem hæstv. ráðherrann sagði er í lagi að minnka framlag til byggingarsjóðanna með því að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hefur aukist svo mikið. Það er þá búist við því væntanlega að framlag sem kemur með skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna muni aukast að sama skapi. Þess vegna spyr ég: Hvernig gengur að fá lífeyrissjóðina yfirleitt til að gera samninga við Húsnæðisstofnun um skuldabréfakaupin? Hér um daginn heyrðist manni að lífeyrissjóðirnir væru mjög tregir til þessa. Það er reyndar mjög athyglisvert að hvorki lífeyrissjóður alþingismanna né lífeyrissjóður ráðherra hefur gert bindandi samninga um slík skuldabréfakaup við Húsnæðisstofnun, bara til glöggvunar fyrir hv. þm. í deildinni.

Það var mikið brambolt hér fyrir jólin þegar var verið að berja í gegn húsnæðisfrv. hæstv. félmrh. sem varð að fá algjöran forgang hér á undan öllum öðrum málum. Það var nánast sagt að ef þetta frv. yrði ekki samþykkt færu öll húsnæðismálin í hnút. Allt fólkið biði eftir úrlausn og það yrði að samþykkja þetta til þess að hægt væri að byrja að afgreiða þessi lán. Nú samþykktum við þetta frv. og það fékk mjög skjóta meðferð í þinginu, en málin sýnast vera alveg í sama hnútnum eftir sem áður. Ef eitthvað, þá hefur hnúturinn herst. Eftir því sem best er vitað munu nú bíða um 9000–12000 umsóknir úrlausnar hjá Húsnæðisstofnun. Það eina sem þetta ágætisfrv. hæstv. félmrh. hefur leitt af sér er að fólk fær tilkynningu um það bréflega hvort umsóknin hafi verið rétt útfyllt eða ekki, en það fær ekkert frekar að vita um það hvort það fái einhvern tímann lán. Það er síðari tíma mál sem enginn fær neitt frekar að vita um.

Það er því ágætt að heyra að húsnæðismálin skuli komin í hendurnar á mjög vísum mönnum og ber síður en svo að lasta að það skuli hafa verið skipuð nefnd vísra manna til að endurskoða húsnæðislögin. Ég vil ráðleggja þeirri nefnd að kynna sér tillögur Borgarafl. í húsnæðismálum og er ekki víst að þeir þyrftu þá að eyða mikilli vinnu í þessa endurskoðun því að sú endurskoðun liggur fyrir. Þeir þurfa ekkert að gera annað en að taka þær tillögur, sem við lögðum fram á þingi fyrir jólin, og fella þær inn í sínar eigin og skal það vera reiðilaust af okkar hálfu þó að þeir leggi þessar tillögur okkar fram sem eigin tillögur með stjfrv. þar um á næsta þingi. Það er oft svo að það er eina leiðin fyrir stjórnarandstöðuna að koma sínum tillögum á framfæri að setja þær fram og fá síðan stjórnarliðana óbeint til að taka þær upp og gera þær að sínum eigin, enda er um að ræða í þessum efnahagsráðstöfunum mörg slík mál þar sem stjórnarandstaðan fær sínar tillögur í gegn að lokum. Þó að allar ábendingar hennar og brtt. hafi verið felldar á sínum tíma birtast þær allt í einu hér sem aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig til að fara örfáum orðum um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það mál komst satt að segja aldrei í hv. Ed. Það gufaði upp í hv. Nd.

Ég rifja það upp meira kannski til gamans að á fundi sem var haldinn með þingflokksformönnum og fulltrúum ríkisstjórnarinnar með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar rétt fyrir jólin, þessi fundur var að mig minnir haldinn laugardagskvöldið 20. des., var stjórnarandstöðunni boðið upp á að ríkisstjórnin skyldi fresta verkaskiptingarfrv. fram yfir áramót, reyndar átti að greiða einhverja hungurlús niður af fiski með, ef stjórnarandstaðan vildi nú halda sér saman og hleypa öllum frv. í gegn fyrir jól með því bara að rétta upp hönd með eða á móti þegar til atkvæðagreiðslu kæmi. Það var mjög hlálegt að daginn eftir upplýstist að þetta hvort tveggja hafði ríkisstjórnin ákveðið að gera hvort sem var. Það er eins og verið sé að bjóða manni eitthvað sem þegar er búið að gefa honum, bjóða honum að versla með hlut sem er búið að ákveða að gefa honum. Það var ekki von að fulltrúar stjórnarandstöðunnar vildu sætta sig við þetta tilboð. En að lokum er málið gert endanlegt með því að öll áform um að ljúka verkaskiptingarfrv. eru úti og eftir skilin í reiðuleysi fjármál sveitarfélaga.

Það er mjög athyglisvert að í frv. sem er verið að ræða hér er gert ráð fyrir að framlag ríkisins til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð verði skert um 260 millj. kr. Hér hefur reikningsmeisturunum eitthvað orðið á í samlagningunni og frádrættinum vegna þess að ég get ómögulega séð annað en að skerðingin sé 380 milljónir. Í fjárlögum, sem voru samþykkt fyrir 1988, var gert ráð fyrir framlagi upp á 123 millj., sem fjárveitingu vegna tilfærslu verkefna til sveitarfélaga. Í þeirri endurskoðun sem hér fer fram er gert ráð fyrir að hækka þessa upphæð um 18 millj., upp í 139 millj. 970 þús. Síðan er sagt að framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði lækkað um 398 millj. Ef maður dregur þá mismuninn frá, þær 18 millj. sem ríkið ætlar að færa til viðbótar til sveitarfélaganna vegna sérstakra verkefna, er eftir sem áður um 380 millj. að ræða sem ríkið tekur af sveitarfélögunum. Það er ekki verið að taka 260 millj. af sveitarfélögunum. Það er verið að taka 380 millj. af sveitarfélögunum.

Það kann vel að vera að Reykjavíkurborg þoli þetta. Hún getur þá væntanlega frestað öldurhúsinu sem á að byggja uppi á Öskjuhlíðinni. En hvernig á að fara á litlu stöðunum úti á landi? Hvernig á að fara á stað eins og Tálknafirði, en menn eru þar að berjast við að reyna að klára íþróttamannvirki? Þangað komum við þm. Borgarafl. í sumar sem leið og skoðuðum fallegt íþróttamannvirki sem var langt komið, en það er alveg ljóst að slíkt lítið sveitarfélag úti á landi má ekki við því að framlög í Jöfnunarsjóð verði skert um 380 millj. en ekki 267 millj. eins og er sagt í frv.

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé um að ræða lognið á undan storminum. Þessar aðgerðir eru að mínu viti ekki nema hálfkák eins og ég sagði áðan þannig að hinar raunverulegu aðgerðir, þegar þær að lokum birtast og sjá dagsins ljós, hugsanlega áður en þingi lýkur, kannski ætlar ríkisstjórnin þó að bíða eftir því að losna við þingheim og geta þá leyst þetta með bráðabirgðalögum, verða þeim mun þungbærari sem það er lengur dregið að gera eitthvað raunhæft í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin tók að vísu við ríkissjóði í mikilli óreiðu undir stjórn hæstv. núverandi forsrh. sem fráfarandi fjmrh., en ástandið var þó ekki svo slæmt að það hefði ekki verið hægt að ná strax tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar í því góðæri sem við bjuggum við og við enn búum við. Það er eitthvað meira en lítið skrýtið í þessu þjóðfélagi að það er alveg sama hvað vel árar til lands og sjávar, að ævinlega skal þeim sem fara með völdin takast að klúðra málum þannig að eftir situr öll alþýða þessa lands, allur almenningur upp til hópa og býr við lakari lífskjör en hann þyrfti að gera ef landinu væri almennilega stjórnað.