14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

8. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir ágætar undirtektir við þær hugmyndir sem hér eru fluttar um skattadómstól og meðferð skattsvikamála, rannsókn skattsvikamála. Ég skil hann svo að hann hafi mælt fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna allra þegar hann segir að ríkisstjórnin muni taka þessa hugmynd eins og aðrar til athugunar við endurskoðun á skattakerfinu sem nú standi fyrir dyrum. Ég tel því að undirtektir núv. hæstv. fjmrh. séu ívið jákvæðari í þessu efni en fyrirrennara hans. Ég fagna því. Ég hef tekið eftir því að honum veitir oft ekki af stuðningi í sambandi við einstök mál, sem hann hefur á prjónunum og eru um sumt ágæt mál, eins og fjármögnunarleigurnar sem íhaldið var að skamma hann fyrir. Ég tel ástæðu til að hæla honum fyrir það. Hann hefði auðvitað mátt ganga aðeins lengra í þeim efnum, en þetta var viðleitni. Hæstv. ráðherra fær hrós fyrir viðleitni í þessu efni. Það er sérstaklega ánægjulegt og í raun og veru staðfesting á því hvað hans ákvörðun var skynsamleg í þessu efni þegar Sjálfstfl. og Morgunblaðið mótmæltu henni. Ég tel ástæðu til að nefna þetta til þess að það komi fram að við fulltrúar Alþb. í þessari deild erum jákvæð í málflutningi og erum ekki einlægt að hjóla í stjórnina einvörðungu. Við tökum eftir því sem vel er gert og þökkum fyrir það (KP: Eins og verið hefur.) svo sem jafnan hefur verið eins og hv. þm., stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar Karvel Pálmason, nú benti á, virðulegi forseti.

Það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra í einstökum atriðum var býsna fróðlegt. Eitt af því sem ég tók eftir var að umtal hans um fjármunina í skattsvikunum var talsvert hógværara en fyrir kosningarnar og eftir flokksþing Alþfl. 1984 sem hann nefndi sem tímamót í þessu efni. Ég hygg að það sé reyndar misskilningur því að ég held að Alþfl. hafi verið farinn að hugsa um skattamál áður en Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. fjmrh., varð formaður Alþfl. Ég hygg að það hafi ekki gerst endilega á því þingi þó að hann telji eðlilegt að miða tímatalið við, ég segi nú ekki Kristburð, en við þá niðurstöðu sem varð á flokksþingi Alþfl. 1984.

Hæstv. fjmrh. hafði það fyrir sið, þegar hann var formaður Alþfl. í stjórnarandstöðu og var spurður hvar taka ætti peningana, hvar taka ætti peningana til að hækka eitt og annað, sem Alþfl. var býsna iðinn við að flytja tillögur um, að vísa óðar á þessa skattsvikapeninga og lét það koma fram aftur og aftur í ítarlegum og skemmtilegum ræðum hér í þinginu. - Mér þótti nokkuð af honum dregið sem ræðumanni hér áðan. Hann var oft mikið hressari hér áður. - Hann vísaði hér áður einlægt á þessa peninga. Það væri svo sem hægt á andartaki, ef dugmikill maður væri í stóli fjmrh., að ná þessu öllu saman inn í ríkissjóð. Það væri ekki nokkur einasti vandi. Og borga með því svo að segja alla reikninga, hallann á ríkissjóði, hækkun framlaga í húsnæðislánakerfið, sem Alþfl. sagði að vantaði í 7 þús. millj. kr. fyrir kosningarnar. Þetta átti allt saman að gera með þessum skattsvikapeningum. Þess vegna verður maður að ætla að ummæli ráðherrans nú séu byggð á ákveðinni sannfæringu þó að mér fyndist hann allur daufari í sambandi við niðurstöðu í þessu máli en hann var hér forðum og sakna ég nú vinar í stað, verð ég að segja, í þessu efnum.

Meginniðurstaða hans var sú, vitnandi í skýrslu skattsvikanefndarinnar, að fækkun undanþága væri í raun og veru kjarni málsins. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar kosið að fara öðruvísi í að fækka undanþágum en ég hefði gert. Það er ekki sama hvaða undanþágum er verið að fækka. Það má út af fyrir sig segja að það væri að fækka undanþágum að afnema tollaniðurfellingu á öryrkjabílum. Það er að fækka undanþágum. Það er alveg ljóst. En málið snýr ekki þannig við. Spurningin er: Hvaða undanþágur eru það sem geta skilað einhverjum verulegum peningum? Hvaða undanþágur eru hjá þeim sem eru með gras af seðlum og mikla fjármuni handa á milli? Það hefði verið eðlilegra að formaður „alþýðuflokks“ hefði byrjað á því að snúa sér að því að sópa í burtu þeim undanþágum. Dæmi: Undanþágur fyrirtækjanna sem ég hef ásamt öðrum hv. þm. Alþb. í þessari deild flutt um sérstakt frv. Þar hefði átt að byrja en ekki á matarskattinum. Það er vitlaust í hlutina farið. Og það er alveg sama hvað hæstv. fjmrh. flytur langar ræður um nauðsyn einföldunarinnar og þess að leggja söluskatt á alla skapaða hluti, hverju nafni sem það nefnist. Það er alveg sama hvað hann heldur margar ræður í þeim efnum. Auðvitað hefði verið eðlilegra að byrja á einföldun á skattlagningu fyrirtækjanna og þeirra sem hafa hirt fjármuni í góðærinu hér á undanförnum árum. Einföldun, einföldun. Það er út af fyrir sig gott og blessað, en þá verða menn að muna eftir því, a.m.k. þeir sem sitja í ráðherrastóli, að kjör fólksins, tekjur, eignir og lífsaðstaða eru ósköp einfaldlega mismunandi. Þess vegna hlýtur skattakerfið að taka tillit til þess. Skattakerfið líka en ekki aðeins hið félagslega velferðarkerfi þó að það verði aðallega að jafna í þeim efnum. Það hefur verið afstaða okkar jafnaðarmanna í gegnum tíðina að nota skattakerfið til að jafna, taka á mönnum með mismunandi hætti eftir mismunandi tekjum og mismunandi eignum. Þess vegna vara ég við þessu ýkta og ofstækisfulla einföldunartali „kerfisbýrókrata“ fyrst og fremst. Það er satt að segja alveg ótrúlegt afrek sem þeir hafa unnið, ágætir menn í fjmrn., á tiltölulega mjög stuttum tíma að skipta um forrit í þessum formanni jafnaðarmannaflokksins, Alþýðuflokksins, sem núna leggur ekki megináherslu á jöfnunarhlutverk skattakerfisins heldur einföldun, einföldun, einföldun. Þetta eru ræður sem oft er búið að halda yfir okkur af embættismönnum hér á undanförnum árum.

Auðvitað er ekkert óeðlilegt við það þó að fjmrh. leitist við í sinni stöðu að ná fram ákveðinni einföldun á þessum hlutum. En ofstæki í þeim efnum kann ekki góðri lukku að stýra. Mér fannst satt að segja glytta í það í ræðu hæstv. ráðherra hér áðan með talsvert öðrum hætti en kom fram í hans málflutningi hér á síðasta kjörtímabili.

Hæstv. ráðherra gat um það að í undirbúningi væru frumvörp varðandi einföldun á skattlagningu fyrirtækjanna, en þar er nú aldeilis þörf á einföldun vegna þess að þar er frádráttarfrumskógurinn svo rosalegur að það tekur engu tali og sérfræðingar í skattamálum eða þeir sem geta haft flesta endurskoðendur og lögfræðinga í vinnu hjá sér sleppa langbest frá sköttum.

Hvenær koma þessi frumvörp um breytingar á sköttum fyrirtækjanna? Fyrir árið 1988? Er ætlunin að þetta verði afgreitt á þessu þingi fyrir hátíðar áður en fjárlagafrv. verður afgreitt, eða hvað?

Ég fagna því sérstaklega, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, að ætlunin sé að verja auknu fé til að sinna skattaframkvæmdinni. Ég tel að það sé mjög jákvætt og mjög brýnt. Ég tók hins vegar eftir nokkru í ræðu hans áðan, sem er allt annað en kom upp hjá Alþfl. á síðasta þingi, varðandi virðisaukaskattinn. Á síðasta þingi flutti þáv. ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. frv. til laga um að taka upp virðisaukaskatt. Það frv. stöðvaðist í þinginu af ýmsum ástæðum, en m.a. kom þá fram í umræðum að Alþfl. var á móti frv. um virðisaukaskatt. Hann var algerlega andvígur því og það voru miklar stólræður haldnar hér handan við þilið um það mál bæði af mér og hæstv. núv. fjmrh. þar sem við lýstum andstöðu við fyrirkomulag virðisaukaskatts eins og það var lagt til, m.a. á sömu forsendum og verkalýðshreyfingin þar sem samhljóða var samþykkt í miðstjórn Alþýðusambandsins að segja sem svo: Þetta er vondur skattur vegna þess að hann íþyngir mest tekjulægstu fjölskyldunum. Nú hefur Alþfl. snúið við blaðinu að því er best varð heyrt á hæstv. ráðherra áðan. Nú hefur hann algerlega snúið við blaðinu, hefur að engu afstöðu verkalýðshreyfingarinnar í þessu efni og hefur allt aðra afstöðu en hann hafði á síðasta þingi og allt aðra afstöðu en hann tjáði kjósendum fyrir síðustu kosningar.

Þetta held ég að sé nauðsynlegt að rifja upp til að sýna fram á að þrátt fyrir að vafalaust hefur núverandi hæstv. fjmrh. að mörgu leyti góðan vilja í þessum efnum er það engu að síður svo að hann hefur snúist eins og skopparakringla frá kosningum og til þessa dags varðandi fjöldan allan af áherslumálum Alþfl. Það er kannski ekki skrítið þegar við ofurefli er að etja þar sem eru Framsfl. og Sjálfstfl. Ýmsir mætir menn hafa séð, eins og leiðarahöfundar Alþýðublaðsins og hv. þm. Karvel Pálmason, að hér er undarlega að hlutunum farið. Ég held að óhjákvæmilegt sé að draga þetta fram í þessari umræðu um skattamál, ekki vegna þess að þetta tilheyri frv. um skattadómstól, og ég ræddi þessi mal ekki í minni framsöguræðu fyrir því máli, heldur vegna þess að hæstv. fjmrh. taldi ástæðu til að hefja umræðu um þessi mál undir umræðu um frv. um skattadómstól og ég vildi bæta þar nokkru við en á meira í pokahorninu þegar kemur að 9. máli á dagskrá sem er frv. til laga. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég þrátt fyrir allt þakka fyrir það að ég tel að yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um frv. um skattadóm og meðferð skattsvikamála hafi verið jákvæðar. Ég skildi þær svo og vona að frv. fái meðferð samkvæmt því í hv. allshn. þessarar deildar.