01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5209 í B-deild Alþingistíðinda. (3502)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Með því frv. sem hér er mælt fyrir um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er lagt til að opna nýja leið í húsnæðismálum landsmanna.

Kaupleiguíbúðir eru skv. frv. þessu íbúðir byggðar eða keyptar á þeim forsendum að íbúar eigi kost á að velja um leigu eða kaup á íbúðinni með jöfnum mánaðarlegum greiðslum. Í frv. er lagt til að kaupleiguíbúðirnar verði með tvennum hætti, félagslegar kaupleiguíbúðir og almennar kaupleiguíbúðir.

Félagslegar kaupleiguíbúðir verða eingöngu á vegum sveitarfélaga eða félagasamtaka sem þurfa að byggja kaupleiguíbúðir fyrir láglaunafólk, eða aðra þá sem af félagslegum ástæðum þurfa aðstoð við húsnæðisöflun. Gert er ráð fyrir að Byggingarsjóður verkamanna láni til félagslegra kaupleiguíbúða 85% lán til 43 ára með sömu vaxtakjörum og almennt gilda hjá sjóðnum.

Framkvæmdaaðili skal sjá um að útvega lán til 15% fjármögnunar, t.d. með sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða eða annarra fjárfestingarlánasjóða. Sá sem fær úthlutað félagslegri kaupleiguíbúð getur valið um að gera kaupsamning strax í upphafi eða gera leigusamning með kauprétti. Skv. frv. hefur leigjandi a.m.k. fimm ára umhugsunarfrest varðandi kaup á íbúðinni. Þeir sem koma til greina við úthlutun félagslegra kaupleiguíbúða verða að uppfylla skilyrði 44. gr. núgildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, en þar eru almenn skilyrði varðandi tekjumörk og eignarstöðu þeirra sem eiga kost á félagslegum íbúðum.

Leiga í félagslegri kaupleiguíbúð greiðist mánaðarlega og miðast við afborgun og vexti af láni Byggingarsjóðs verkamanna, auk vaxtakostnaðar af 15% framlagi framkvæmdaaðila að viðbættum almennum rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaaðili miði þau vaxtagjöld af 15% framlaginu sem renna í leigu við þau vaxtakjör sem gilda hjá Byggingarsjóði ríkisins en á móti því kemur sú eignamyndun framkvæmdaaðila sem verður við afborgun 85% lánsins.

Ef hins vegar leigjandi festir kaup á íbúðinni og gerir samning við framkvæmdaaðila um endurgreiðslu 15% framlagsins er gert ráð fyrir að miðað sé við sömu vaxtakjör og framkvæmdaaðili býr við gagnvart lánardrottnum sínum, enda fá þeir sem kaupa íbúðir sérstaka aðstoð, húsnæðisbætur fyrir milligöngu skattakerfisins.

Leigjandi á kost á að kaupa íbúðina á kjörum Byggingarsjóðs verkamanna að því tilskildu að skilyrðum varðandi lánveitingar úr sjóðnum sé fullnægt. Kaupandi gerir þá samning við sveitarfélagið eða félagasamtök um endurgreiðslu á 15% framlaginu. Lagt er til að endurgreiðsla geti farið fram á allt að 30 árum með mánaðarlegum greiðslum sem er þá eins konar viðbót við leigu. Þegar kaupandi hefur endurgreitt framkvæmdaaðila framlag hans fær viðkomandi afsal fyrir íbúðinni og yfirtekur eftirstöðvar áhvílandi lána.

Mikilvægt nýmæli varðandi félagslegar íbúðir er ákvæði um endurskoðun vaxtakjara. Lagt er til að átta árum eftir að kaup eru gerð skuli endurskoða vaxtakjör á láni úr Byggingarsjóði verkamanna með hliðsjón af tekjum viðkomandi. Ef kaupandi er kominn yfir tekjuviðmiðun félagslega kerfisins þegar endurskoðun fer fram skal breyta vaxtakjörum lánanna til samræmis við gildandi kjör á almennum lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Endurskoðun vaxtakjara fer fram átta árum eftir undirritun kaupsamnings eins og áður sagði, en síðan á fimm ára fresti eftir það. Þetta er gert til að tryggja að hin mikla niðurgreiðsla vaxta sem á sér stað í félagslega kerfinu fari sem best eftir þörfum og verði hætt þegar hagur íbúðareigenda gefur tilefni til þess og lúti þá ákvæðum vaxtakjara í Byggingarsjóði ríkisins.

Gert er ráð fyrir að félagslegar kaupleiguíbúðir lúti flestum þeim skilyrðum sem sett eru um aðrar lánveitingar til félagslegra íbúða úr Byggingarsjóði verkamanna. Í þessu sambandi má nefna kaupskyldu sveitarfélaga og félagasamtaka sem gildir í 15 ár og síðan forkaupsréttur. Þessi skilyrði eru eins og kunnugt er til að tryggja að félagslegar íbúðir þjóni áfram tilgangi sínum í þágu láglaunafólks.

Í frv. er lögð rík áhersla á skýr ákvæði um ábyrgð framkvæmdaaðila. Frumkvæði framkvæmdaaðila um byggingu félagslegra kaupleiguíbúða og ábyrgð þeirra eru í frv. mjög samtvinnaðir þættir. Fyrirkomulag þetta er með öðrum hætti en í verkamannabústaðakerfinu, en þar er gert ráð fyrir að frumkvæði og framkvæmd verði á vegum stjórnar verkamannabústaða, en í félagslegum kaupleiguíbúðum er frumkvæði, ábyrgð og úthlutun íbúða á vegum framkvæmdaaðila sem ætla má að séu í flestum tilfellum sveitarfélögin.

Þegar undirbúningur að gerð frv. hófst í júlí 1987 var sveitarfélögum og félagasamtökum sem starfa að húsnæðismálum sent dreifibréf til kynningar. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um stöðu félagslegra íbúðabygginga, áætlaða þörf fyrir kaupleiguíbúðir og einnig var beðið um ábendingar varðandi útfærslu hugmynda um kaupleiguíbúðir.

Viðbrögð við dreifibréfi félmrn. voru mjög jákvæð og augljóst að mörg sveitarfélög og félagasamtök telja þennan kost henta vel við núverandi aðstæður í húsnæðismálum landsmanna. Svör bárust frá yfir 90 sveitarfélögum og átta félagasamtökum, þar á meðal samtökum aldraðra og fatlaðra, Búsetahreyfingunni og frá samtökum námsmanna. Ábendingar sveitarstjórnarmanna og forráðamanna félagasamtakanna, sem fram komu í þessari könnun, voru mjög gagnlegar og höfðu víðtæk áhrif á tillögur þessa frv. Má þar benda á að með frv. þessu er opnað fyrir nýjan möguleika á samstarfi sveitarfélaga og einstaklinga eða félagasamtaka og fleiri aðila um lausn húsnæðisvandans á landsbyggðinni. Leiguíbúðir byggðar á félagslegum forsendum eru ekki eingöngu bundnar við þá sem af félagslegum ástæðum þurfa aðstoðar við húsnæðisöflun heldur einnig opnað fyrir leiguíbúðir í almenna húsnæðislánakerfinu.

Lögð er áhersla á í frv. nauðsyn þess að sveitarfélög geti boðið leiguíbúðir fyrir aðkomufólk sem ekki er viðbúið því að fjárfesta um leið og það flyst á viðkomandi stað en hefði þann möguleika opinn án þess að þurfa að skipta um íbúð. Jafnframt er í frv. lagt til grundvallar mikilvægi þess að nýtt fyrirkomulag taki mið af eðli fasteignamarkaðar á landsbyggðinni og þeirri áhættu sem fylgir íbúðafjárfestingu ef viðkomandi hefur ekki staðfastan ásetning um framtíðarbúsetu á staðnum. Af þessu er ljóst að ábendingar frá landsbyggðinni og sveitarstjórnum að því er frv. þetta varðar höfðu víðtæk áhrif á gerð frv. og ákvæði þess.

Til viðbótar þessu má benda á þörf sveitarfélaga á leiguhúsnæði til eigin nota fyrir starfsfólk sitt vegna tímabundinna starfa aðkomufólks, vegna ungs fólks sem er að stofna heimili og fyrir aldraða sem vilja aðlaga húsnæðismál sín breyttum aðstæðum á efri árum, en af þessum sjónarmiðum markast einnig það frv. sem hér er mælt fyrir.

Tillögur frv. um almennar kaupleiguíbúðir byggja mjög á þessum viðhorfum einnig, sem hér hefur verið lýst, og gert er ráð fyrir lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins í því skyni. Auk þess sem íbúar geta valið um kaup eða leigu á íbúðum fjármögnuðum úr Byggingarsjóði ríkisins er gert ráð fyrir að leigjendur geti tryggt sér afnotarétt á íbúð með því að kaupa hlut í íbúðinni. Framkvæmda- og ábyrgðaraðilar að almennum kaupleiguíbúðum geta verið sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki eða þessir aðilar í sameiningu.

Lagt er til að fyrrnefndir framkvæmdaaðilar, sem þurfa af sérstökum tilgreindum ástæðum að auka framboð íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu, eigi kost á 70% hámarksláni úr Byggingarsjóði ríkisins til að kaupa eða byggja almennar kaupleiguíbúðir auk viðbótarláns úr sama sjóði. Í þessu skyni er gerð tillaga um að stofnaður verði sérstakur lánaflokkur í Byggingarsjóði ríkisins, lán til almennra kaupleiguíbúða, ætlaður sveitarfélögum eða öðrum framkvæmdaaðilum sem þurfa af sérstökum tilgreindum ástæðum að auka framboð húsnæðis í sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að lánað verði allt að 15% kostnaður skv. þessum lánaflokki og lánstími verði 25 ár. Framkvæmdaaðili skuldbindur sig til að útvega 15% kostnaðar eða kaupverðs og gert er ráð fyrir að fjárins sé aflað með sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða eða annarra aðila.

Í fjárlögum fyrir árið 1988 er gert ráð fyrir 273 millj. á útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins sérstaklega vegna kaupleiguíbúða. Framlög til Byggingarsjóðs verkamanna munu aukast á þessu ári og ætla má að útlánageta sjóðsins nær tvöfaldist miðað við árið á undan. Í tillögunum er gert ráð fyrir að sveitarfélög eða félagasamtök geti fjármagnað eigið framlag með sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða einstaklinga eða fleiri aðila.

Ef byggðar verða 300 kaupleiguíbúðir, svo dæmi sé tekið, og skuldabréf seld lífeyrissjóðum vegna framlags sveitarfélaga væru þau skuldabréfakaup rétt rúmlega 1% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða á þessu ári. Skv. upplýsingum Seðlabanka Íslands er ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna áætlað fyrir árið 1989 13,4 milljarðar. Því yrði um að ræða, ef til kæmu skuldabréfakaup frá lífeyrissjóðum til sveitarfélaga, 134 millj. samtals til að standa að fullu undir framlagi sveitarfélaga miðað við að byggðar verði 300 kaupleiguíbúðir. Ég tel að hér sé um raunhæfa áætlun að ræða að ætla að lífeyrissjóðirnir væru tilbúnir í slík skuldabréfakaup við sveitarfélögin þegar til þess er litið að þá mundi fjármagn lífeyrissjóðanna frekar haldast á stöðunum úti á landsbyggðinni.

Samkvæmt tillögum frv. getur sá sem fær úthlutað almennri kaupleiguíbúð valið um leigu eða kaup á íbúðinni. Er það eitt af mikilvægustu ákvæðum frv. Sá sem velur leigu strax í upphafi hefur skv. ákvæðum a.m.k. fimm ára umþóttunartíma til að ákveða kaup, en sveitarfélög eða framkvæmdaaðilar geta framlengt leigutímann ef þau svo kjósa. Leigugjald fyrir almennar kaupleiguíbúðir greiðist mánaðarlega og miðast við afborganir og vexti af almennu láni, 70% láninu, og sérstöku viðbótarláni, 15%, úr Byggingarsjóði ríkisins auk vaxtakostnaðar af framlagi framkvæmdaaðila og almenns rekstrarkostnaðar. Óski leigjandi þess að kaupa íbúðina á hann rétt á því að uppfylltum skilyrðum um iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóð. Þegar leigjandi óskar að kaupa íbúðina gerir hann samning um afborganir af lánum úr Byggingarsjóði ríkisins og endurgreiðslur á framlagi framkvæmdaaðila. Gert er ráð fyrir að sérstaka viðbótarlánið fyrir 15% kostnaði greiðist upp á allt að fimm árum frá dagsetningu kaupsamnings.

Þegar kaupandi hefur greitt framlag sveitarfélagsins eða samstarfsaðila þess fær viðkomandi afsal fyrir íbúðinni og yfirtekur eftirstöðvar láns úr Byggingarsjóði ríkisins. Rík áhersla er lögð á ábyrgð sveitarfélaga og annarra framkvæmdaaðila að almennum kaupleiguíbúðum auk þess sem forsendur fjármögnunar, framkvæmdir og rekstur íbúðanna grundvallast á félagslegum sjónarmiðum. Því er lagt til að á framkvæmdaaðila hvíli kaupskylda í fimm ár frá útgáfu afsals. Eftir það er gert ráð fyrir að framkvæmdaaðili eigi forkaupsrétt.

Þriðji valkosturinn í almenna kaupleigukerfinu er hlutareign í leiguíbúð. Framkvæmdaaðilum er heimilt að selja einstaklingum skuldabréf sem með kaupum á þeim vilja tryggja sér afnotarétt af íbúð. Þegar um er að ræða aldraða eða öryrkja verður heimilt að selja leigjendum 15% hlut í eigninni, en almenna reglan í þessu sambandi er 30% hlutareign.

Skuldabréf sem seld eru gegn tryggingu á afnotarétti skulu vera tryggð skv. lánskjaravísitölu en vaxtalaus. Heimilt verður að setja í skuldabréfin ákvæði um að skylt sé að innleysa þau ef eigandi þeirra segir upp leigusamningi á íbúðinni svo og við andlát hans. Þá er hlutareign endurgreidd með verðbótum en án vaxta. Leiguíbúðir með hlutareign í almenna kerfinu eru hér útfærðar með svipuðum hætti og eru nú fyrir hendi í félagslega kerfinu skv. 33. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Fjölmörg sveitarfélög og félagasamtök bentu á nauðsyn þess að hafa þennan kost í almenna kerfinu. Þetta fyrirkomulag hentar vel hvað varðar fjármögnun og rekstur íbúða fyrir aldraða og öryrkja. Fyrir aldraða sem vilja aðlaga húsnæðismál sín breyttum forsendum á efri árum og komast í sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða verða íbúðaskiptin auðveldari með þessum hætti. Hlutareign gefur jafnframt möguleika á þátttöku leigjenda í stjórnun eða rekstri íbúðanna og sameinar þannig kost eignar- og leigufyrirkomulags.

Við gerð þessa frv. um kaupleiguíbúðir hefur sérstök hliðsjón verið höfð af húsnæðismálum á landsbyggðinni eins og áður er sagt. Í frv. er tekið mið af þeim sérstaka vanda sem landsbyggðin á nú við að glíma í húsnæðismálum. Á sl. árum hefur dregið úr íbúðabyggingum. Tímabilið 1976–1980 voru fullgerðar árlega að meðaltali um 2200 íbúðir. Sl. sex ár er meðaltalið hér á landi um 1660 íbúðir á ári. Árið 1986 voru íbúðabyggingar í algeru lágmarki en þá var byrjað á aðeins 1163 íbúðum. Framkvæmdir við nýjar íbúðir hafa ekki verið jafnlitlar allar götur síðan 1969.

Það sem einkennir þessa þróun er að samdráttur sl. ára tekur nær eingöngu til landsbyggðarinnar. Árið 1986 fóru um 82% almennra byggingarlána Byggingarsjóðs ríkisins til höfuðborgar- og Reykjanessvæðisins. Félagslegum íbúðabyggingum á landsbyggðinni hefur einnig fækkað sl. ár. Þegar heildarútlán Húsnæðisstofnunar ríkisins á árinu 1986 eru athuguð sést að rúmlega 3 af hverjum 4 krónum fóru til þéttbýlissvæðisins við Faxaflóa, höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness.

Ef ekkert er að gert blasir við að landsbyggðin mun ekki rétta hlut sinn í húsnæðiskerfinu á næstu árum. Þetta sést meðal annars á því að af þeim rúmlega 12 000 umsóknum samkvæmt nýja húsnæðiskerfinu sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur borist frá 1. sept. 1986 eru um 70% frá umsækjendum sem búa í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Augljóst má vera að nýja húsnæðislánakerfið hefur ekki náð að þjóna landsbyggðinni sem skyldi og því nauðsynlegt að bæta stöðu landsbyggðarinnar í húsnæðismálum. Frv. hefur þessar forsendur að leiðarljósi.

Í tillögunum er gert ráð fyrir að lán verði veitt á þeim forsendum að auka þurfi framboð húsnæðis í sveitarfélaginu og við úthlutun lána taki húsnæðismálastjórn mið af stöðu húsnæðismála í viðkomandi sveitarfélagi. Í kaupleigufyrirkomulaginu er gert ráð fyrir að framkvæmdaaðili geti fjármagnað framlag sitt með sölu skuldabréfa t.d. til staðbundinna lífeyrissjóða. Með þeim hætti getur lífeyrissjóður heima í héraði stuðlað að nauðsynlega auknu framboði íbúðarhúsnæðis og um leið aukið hluta byggðarlagsins í útlánum húsnæðiskerfisins.

Þó þessa sé getið í ákvæðum í frv. um sölu skuldabréfanna er slíkt ákvæði ekki nauðsynlegt í lagatexta og reyndar um það skiptar skoðanir, en það hefur verið sett þarna sem leiðbeinandi ákvæði.

Erfiðleikar landsbyggðarinnar eru af ýmsum toga og margar ástæður liggja til grundvallar. Þróun atvinnulífs og afkoma íbúanna er oft mjög sveiflukennd. Áhrif þessa eru mun meira afgerandi á fasteignaverð á landsbyggðinni en á þéttbýlissvæðum við Faxaflóa. Íbúðafjárfesting er því áhættumeiri á landsbyggðinni, enda er nú svo komið að fólk vill ekki byggja eða kaupa þó svo að afkoma sé góð og tekjur gefi tilefni til þess.

Augljóst er að við þessar kringumstæður þarf að leita að fleiri valkostum en nú eru fyrir hendi. Það er von mín að kaupleigukerfið geti aukið möguleika landsbyggðarinnar gagnvart húsnæðiskerfinu. Tilgangurinn er að auka sveigjanleika húsnæðiskerfisins með tilliti til mismunandi þarfa fólks eftir aldri, búsetu og félagslegri stöðu. Af viðbrögðum sveitarfélaga við könnun félmrn. vegna undirbúnings þessa frv. má ráða að fjöldi sveitarfélaga telur kaupleiguíbúðir henta vel við þær aðstæður sem nú eru í húsnæðismálum úti á landsbyggðinni. Þessi sjónarmið koma einnig fram í máli bæjarstjórans á Ísafirði á ráðstefnu sem Byggðastofnun stóð fyrir á Selfossi í nóvember 1987 undir nafninu: Hefur byggðastefnan brugðist? Bæjarstjórinn á Ísafirði fjallar um húsnæðisvandann á landsbyggðinni í grein sem birtist í Sveitarstjórnarmálum, nr. 51987, og kemst að eftirfarandi niðurstöðu. Ég vitna í orð bæjarstjórans á Ísafirði, með leyfi forseta:

„Með öflugu kaupleigukerfi tel ég að hægt verði að finna lausn á húsnæðisvanda landsbyggðarinnar, enda verði fólki tryggð sömu verðmæti í íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni og á Reykjavíkursvæðinu.“

Fram kemur í grein bæjarstjórans einnig, sem rituð er í Sveitarstjórnarmál, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Reynsla mín frá Ísafirði er sú að fólk er ekki tilbúið að flytja út á land og byrja á því að fjárfesta í íbúð. Það vill a.m.k. fyrst um sinn taka húsnæði á leigu.

Í skýrslu byggðanefndar þingflokkanna, sem gefin var út í júlí 1986, segir eftirfarandi um húsnæðismál: „Aðgerðum í húsnæðismálum hefur ekki verið beitt til að hafa áhrif á byggðaþróun með búsetujöfnun. Bygging mikils fjölda félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur áreiðanlega haft áhrif til aukinna flutninga til svæðisins. Húsa- og íbúðaverð er verulega lægra utan höfuðborgarsvæðisins og á einstöku stöðum eru fasteignir illseljanlegar eða óseljanlegar eins og nú horfir. Að einhverju leyti hefur lægra verð hvetjandi áhrif á flutning frá höfuðborgarsvæðinu en í raun vegur hitt miklu þyngra að fólk hættir öllu sínu með því að fjárfesta í húseign úti á landi sem reynst gæti óseljanleg. Þetta hefur því í raun mjög letjandi áhrif á búsetu á landsbyggðinni. Ef unnt væri t.d. með kaupleigufyrirkomulagi eða einhverjum öðrum hætti að tryggja auðveldari eignaskipti og jafnara fasteignaverð mundi það hafa veruleg áhrif til byggðajöfnunar.“

Herra forseti. Auk þess sem kaupleigukerfið hefur, eins og ég hef hér lýst, ótvíræðan kost fyrir landsbyggðina er kosturinn fyrir fólkið sem á að njóta þessara íbúða einkum fólginn í tvennu:

1. Vali fólksins um hvort það vill leigja eða kaupa íbúðina.

2. Eingöngu er um fastar mánaðargreiðslur að ræða af hálfu leigjanda eða kaupanda og viðkomandi þarf ekki að fara út í þungar lántökur til að standa undir íbúðinni.

Þetta tvennt er fyrst og fremst þeir kostir sem kaupleigukerfið hefur fram yfir t.a.m. verkamannabústaðakerfið.

Að því er varðar einstakar greinar frv. skal vikið að því helsta.

Í 1. gr. er kveðið á um stofnun sérstaks lánaflokks sem heimilar lánveitingu allt að 15% kostnaðar til viðbótar 70% láni sem gert er ráð fyrir í 2. og 3. gr. frv.

Í 2. gr. er kveðið á um lánsheimild fyrir allt að 70% byggingarkostnaðar til handa sveitarfélögum, félagasamtökum eða fyrirtækjum sem af sérstökum tilgreindum ástæðum þurfa að auka framboð húsnæðis í sveitarfélaginu.

Í 3. gr. er sams konar lánsheimild vegna kaupa á notuðum íbúðum sem kaupleiguíbúðir og er í 2. gr. um nýbyggðar kaupleiguíbúðir.

Í 4. gr. er fjallað um skilgreiningu og fyrirkomulag almennra kaupleiguíbúða.

Að gefnu tilefni, herra forseti, er nauðsynlegt að skýra uppsetningu á frv. nánar. En í Morgunblaðinu 26. febr. sl. er haft eftir þingflokksformanni Framsfl. eftirfarandi, með leyfi forseta, þar sem hann er að fjalla um kaupleiguíbúðir, en þar segir Páll Pétursson:

„Ef menn skoða það er lagatextinn ákaflega viðvaningslega gerður, ógreinilegur og undarlegur. T.d. eru sumar greinar margar blaðsíður.“

(SJS: Vill ráðherrann endurtaka þetta, lesa þetta aftur?) Það er sjálfsagt. Þetta er tilvitnun í Pál Pétursson, þingflokksformann Framsfl., um kaupleiguíbúðir í Morgunblaðinu 26. febr.:

„Ef menn skoða það er lagatextinn ákaflega viðvaningslega gerður, ógreinilegur og undarlegur. T.d. eru sumar greinar margar blaðsíður.“

Það gengur auðvitað ekki, þó að reynt sé að koma höggi á mig, að hitta um leið fyrir starfsfólk ráðuneytisins sem af fyllstu samviskusemi hefur lagt á sig mikla vinnu í marga mánuði til að skila vönduðu verki.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna f bréf sem tveir starfsmenn félmrn. sendu í dag til Páls Péturssonar alþm. til að skýra út það sem hann segir um að sumar greinar frv. séu margar blaðsíður.

Í bréfi starfsmanna ráðuneytisins til Páls Péturssonar kemur eftirfarandi fram:

„Í grein í Morgunblaðinu 26. febr. 1988 undir fyrirsögninni „Kaupleigufrumvarp félagsmálaráðherra veldur deilum“ segir eftirfarandi og er þar eftirfarandi haft eftir yður: „T.d. eru sumar greinar margar blaðsíður. „Hér virðist gæta nokkurs misskilnings og viljum við undirrituð, sem unnum að smíð þessa frumvarps, koma eftirfarandi athugasemd á framfæri:

Í umræddu frv. er lagt til að í lög um Húsnæðisstofnun ríkisins bætist 35 nýjar greinar. Annars vegar er um að ræða nýjan undirkafla, „Lán til almennra kaupleiguíbúða“, með 18 nýjum greinum. Hins vegar nýjan VI. kafla, „Félagslegar kaupleiguíbúðir“, með 17 nýjum greinum. Ljóst var að við uppsetningu þessa frv. komu fleiri en ein leið til álita. Frv. var m.a. sent til yfirlestrar hjá starfsmanni Alþingis sem lagði til að uppsetningu þess yrði breytt þannig að hvor undirkafli, kafli fyrir sig, yrði ein grein í frv., annar með 18 nýjum greinum en hinn með 17 nýjum greinum eins og áður segir. Slík uppsetning er í samræmi við þá venju að þegar skotið er inn köflum með mörgum nýjum greinum eru nýju greinarnar settar upp sem stafliðir og voru lög nr. 90/1984 nefnd sem dæmi. Ákveðið var að fara eftir tillögu þessari.

Með hliðsjón af framangreindu felur 4. gr. frv. í sér 30.–47. gr. væntanlegra laga og 8. gr. felur í sér 85.–105. gr. þeirra. Jafnframt viljum við vekja athygli á því að mikill tími og vinna voru lögð í það að vanda til verksins. Í því sambandi voru m.a. lögfræðingar utan ráðuneytisins fengnir til að yfirfara frv. áður en það var lagt fram. Er það von undirritaðra að með bréfi þessu sé sá misskilningur, sem hér virðist hafa átt sér stað, úr sögunni.

Virðingarfyllst,

Ingi Valur Jóhannsson og Þorgerður Benediktsdóttir.“

Hér lýkur tilvitnun í bréf sem var sent þingflokksformanni Framsfl. í dag af tveim starfsmönnum ráðuneytisins sem eru auðvitað vandir að sinni virðingu og vilja ekki liggja undir því að hafa ekki vandað til þessa verks. Þetta er það fólk sem hefur borið hitann og þungann af því verki sem hér hefur verið unnið. Er það auðvitað ótækt að þetta fólk þurfi að sitja undir því að hafa verið með viðvaningsleg vinnubrögð við þetta mál þegar annað liggur ljóst fyrir, að þetta fólk hefur lagt mikla vinnu í að skila vönduðu verki af sér eins og reyndar frv. ber með sér sem hér liggur fyrir þinginu og hér er til umræðu.

Ég vona að þetta skýri út þá uppsetningu sem er á frv., en ákvæði frv. verða síðan felld inn í heildarlöggjöf um húsnæðismál.

Í 4. gr. á í frv. er skilgreining á almennum kaupleiguíbúðum, hverjir geta verið framkvæmdaaðilar og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess. Í 4. gr. b er fjallað um sérstaka 15% viðbótarlánið, lánstíma og lánskjör. Rétt er að vekja athygli á að í frv. er jafnan vísað í 30. gr. laga um Húsnæðisstofnun þegar fjallað er um vexti á lánum byggingarsjóðanna. Þar er kveðið á um að ákvörðun um vexti af hverjum lánaflokki skuli ríkisstjórnin taka að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands.

Vaxtakjör á lánum Húsnæðisstofnunar ríkisins eru þó samkvæmt lögunum ákveðin af ríkisstjórn og því ekki kveðið á um vaxtakjör einstakra lánaflokka í frv. Skv. þeim tillögum sem frv. þetta byggir á er gert ráð fyrir að þegar íbúðin er keypt, þ.e. almennar kaupleiguíbúðir, breytist vaxtakjörin og er ekki óeðlilegt að vextir af 15% viðbótarláninu verði þeir sömu og af skuldabréfum lífeyrissjóðanna til Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Í e-lið er gerð grein fyrir skilyrðum fyrir lánveitingum vegna almennra kaupleiguíbúða og lögð er rík áhersla á góðan undirbúning framkvæmda. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika að við úthlutun lána sé jafnan tekið mið af þörf á auknu framboði íbúða í sveitarfélaginu samkvæmt fyrirliggjandi gögnum um stöðu byggingarmála í viðkomandi sveitarfélagi.

Í d-lið er fjallað um stærðarmörk og fleiri skilyrði lánveitinga, en þar kemur fram að ekki skuli veitt lán til nýbygginga sem eru stærri en 130 fermetrar brúttó.

Í e-lið er fjallað um fyrirkomulag fjármögnunar almennra kaupleiguíbúða. Þar eru einnig ákvæði um sölu á hlutareign í íbúð til leigjenda sem vilja tryggja sér afnotarétt á íbúð, sem er nýmæli í almenna kerfinu, en þessi kostur gæti hentað vel, eins og áður kom fram, fyrir marga, eins og t.d. aldraða. Hér er fyrst og fremst um að ræða að viðkomandi tryggir sér afnotarétt eða leigurétt af íbúðinni svo lengi sem hann kýs. Hætti hann afnotum af íbúðinni verður framlagið, sem viðkomandi lagði fram, endurgreitt með verðbótum en án vaxta.

Í f-lið er fjallað um ráðstöfun á almennum kaupleiguíbúðum.

Í g-lið er kveðið á um þá þrjá kosti sem um er að ræða fyrir þann sem fær úthlutað íbúð í almennri kaupleiguíbúð. Það er leiga með kauprétti, leiga með kaupum á eignarhluta eða kaup á íbúð. Hér er um að ræða eitt af mikilsverðustu nýmælum þessa frv., en það er það val sem fólk hefur samkvæmt ákvæðum þessara laga.

Í h-lið er fjallað um leigu á íbúð þar sem leigutaki á rétt á að kaupa íbúðina innan tilskilins frests. Framkvæmdaaðili ákveður hver sá frestur skuli vera. Hann skal þó eigi vera skemmri en fimm ár. Mikilvægt er að leigjanda sé ljóst hvaða kjör verði í boði ef hann neytir kaupréttarins. Því er lagt til að um þetta atriði verði kveðið á í leigusamningi að svo miklu leyti sem upplýsingar þar að lútandi liggja fyrir á þeim tíma. Ljóst er að kjör á lánum Byggingarsjóðs ríkisins geta breyst. Hins vegar á framkvæmdaaðili að geta veitt upplýsingar um það þegar við gerð leigusamnings hver verði kjör vegna 15% framlagsins.

Í i-lið eru ákvæði er lúta að kaupum leigjenda á hlutareign, en meginreglan er sú að eignarhluti nemi 30% af kostnaðarverði eða kaupverði íbúðar. Þegar um elli- og örorkulífeyrisþega er að ræða getur eignarhlutinn numið lægra hlutfalli, þ.e. 15%.

Á kaupum á eignarhluta hvílir tiltekin kvöð um afnotarétt leigutaka. Hér er því einungis um persónulegan rétt hans að ræða og geta því aðrir ekki nýtt sér þann rétt. Falli leigutaki frá eða hætti afnotum af íbúð skal eignarhlutinn endurgreiddur með fullum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu en án vaxta.

Í j-, k- og l-liðum eru ákvæði um skilyrði og kjör þegar íbúðin er keypt. Í j-lið er kveðið á um að ákveði leigutaki innan tilskilins frests að neyta kaupréttar á íbúð sé gerður kaupsamningur milli aðila. Kaupsamningur kveður á um eftirfarandi greiðslur: Í fyrsta lagi ársvexti, afborganir og verðbætur af áhvílandi láni Byggingarsjóðs ríkisins. Í annan stað endurgreiðslur á 15% framlagi sem útvegað hefur verið af hálfu framkvæmdaaðila. Í þriðja lagi vaxtakostnað af 15% framlagi. Hafi svo verið ákveðið við gerð leigusamnings að einungis hluti af vaxtakostnaði framlagsins félli undir leigu er framkvæmdaaðila nú heimilt að ákveða að kaupandi greiði hærri vexti af framlaginu en hann greiddi við leigu, allt að þeim vöxtum sem hann greiðir lánardrottni sínum. Rök fyrir því að kaupandi greiði hærri vexti en leigjandi byggjast á því skattahagræði sem íbúðarkaupandanum er búið og vísast um það atriði til almennra athugasemda með frv.

Í k-lið er kveðið á um að við útgáfu afsals yfirtaki kaupandi áhvílandi veðskuldir. Allt fram til þess tíma hefur sveitarfélagið eða annar framkvæmdaaðili séð um skuldaskil milli kaupanda og Byggingarsjóðs ríkisins og kaupandinn því snúið sér til framkvæmdaaðila með allar greiðslur og afborganir.

Lagt er til að þeim sem fest hafa kaup á almennri kaupleiguíbúð sé óheimilt að leigja út íbúðina nema að fengnu samþykki framkvæmdaaðila.

Að því er varðar ákvæði næstu sex greina eða liði merkta m-r er m.a. fjallað um fimm ára kaupskyldu framkvæmdaaðila, forkaupsrétt og önnur atriði er lúta að endursölu almennra kaupleiguíbúða. Framkvæmd endursölu verður með svipuðum hætti og gildir nú um félagslegar íbúðir sem koma í endursölu.

Í 5. gr. er kveðið á um að sérstakt lán til almennra kaupleiguíbúða skuli vera með jafngreiðslufyrirkomulagi og að afborgun hefjist strax á fyrsta ári.

Í 6. gr. er opnuð heimild til að lána úr Byggingarsjóði verkamanna til kaupleiguíbúða.

Í 7. gr. er kveðið á um að félagslegar kaupleiguíbúðir heyri ekki undir stjórn verkamannabústaða. Í 8. gr. er fjallað um nýjan kafla með fyrirsögninni „Félagslegar kaupleiguíbúðir“. Í þessari grein eru 17 nýjar greinar um félagslegar kaupleiguíbúðir.

Í a-lið er skilgreining á félagslegum kaupleiguíbúðum og kveðið á um hverjir geta verið framkvæmdaaðilar, þ.e. sveitarfélög eða félagasamtök.

Í b-lið eru ákvæði um undirbúning að byggingu félagslegra kaupleiguíbúða og hvaða skilyrði sveitarfélög eða félagasamtök þurfi að uppfylla til að eiga kost á láni.

Í c-lið er fjallað nánar um undirbúning og síðan þau stærðarmörk sem gilda um kaupleiguíbúðir, en um er að ræða 130 fermetra íbúð eða það sama og í almenna kerfinu.

Í d-lið er fjallað um lánshlutfall og lánskjör vegna félagslegra kaupleiguíbúða. Lánskjör verða með sama hætti og gildir um lán vegna íbúða í verkamannabústöðum með tveimur mikilvægum undantekningum. Í fyrsta lagi er kveðið á um að átta árum eftir að kaupsamningur er gerður skuli fara fram endurskoðun vaxtakjara. Ef tekjur kaupandans eru yfir tekjumörkum félagslega lánakerfisins skal lánskjörum breytt til samræmis við þau kjör sem gilda um almennar kaupleiguíbúðir. Í öðru lagi verða lánskjör þegar við kaupsamning þau sömu og gilda um almennar kaupleiguíbúðir ef leigjandi sem gerir kaupsamning er yfir tekjumörkum félagslega kerfisins.

Í e-lið er kveðið á um að framkvæmdaaðili skuli útvega 15% kostnaðarverðs félagslegra kaupleiguíbúða.

Í f-lið er kveðið á um ráðstöfun íbúðanna. Framkvæmdaaðili skal ráðstafa íbúðunum og koma þeir einir til greina sem þurfa af félagslegum ástæðum á aðstoð að halda við að útvega sér húsnæði, sbr. 44. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Í g-lið er kveðið á um þá tvo kosti sem sá sem fær úthlutað félagslegri kaupleiguíbúð getur valið um, þ.e. leiga með kauprétti eða kaup. Þar sem lögð er áhersla á val fólks í þessum efnum er framkvæmdaaðila óheimilt að ákveða fyrir fram hvort íbúð verði leigð eða seld.

Í h-lið er fjallað um leigu á íbúð með kauprétti. Eins og í h-lið 4. gr. frv. er lögð áhersla á að leigjandanum sé ljóst hvaða kjör verða í boði ef hann neytir kaupréttar.

Í i-lið er síðan fjallað um kaup á félagslegum kaupleiguíbúðum og í j-lið er lagt til að kaupanda félagslegra kaupleiguíbúða verði ekki gert að greiða stimpilgjald af afsali líkt og gildir um íbúðir í verkamannabústöðum.

Í k-lið er lagt til að þeim sem festa kaup á félagslegri kaupleiguíbúð sé óheimilt að leigja út íbúðina nema að fengnu samþykki framkvæmdaaðila. Hér er höfð hliðsjón af þeim reglum sem gilda um íbúðir í verkamannabústöðum.

Í l-lið eru ákvæði um kaupskyldu fyrstu 15 árin frá útgáfu afsals og forkaupsrétt framkvæmdaaðila. Hér er höfð hliðsjón af reglum hjá Byggingarsjóði verkamanna einnig um íbúðir í verkamannabústöðum.

Með ákvæðum um kaupskyldu og forkaupsrétt er verið að tryggja að félagslegar kaupleiguíbúðir haldist í félagslegri eign og þjóni áfram upphaflegum tilgangi sínum.

Í m-lið er lagt til að útreikningar á söluverði íbúðanna þegar til endursölu kemur verði á hendi sveitarfélaganna sjálfra eða viðkomandi félagasamtaka.

Í n-lið er stuðst við ákvæði laga um útreikning á endursöluverði og eignarhluta seljanda í verkamannabústöðum sem byggðir eru eftir 1980, að því undanskildu að ekki er tekið mið af markaðsverði íbúðar á hverjum stað. Með greininni er seljanda tryggt að við endursölu íbúðar fái hann endurgreitt það sem hann hefur lagt í íbúðina en engan söluhagnað.

Í o- og p-lið eru ákvæði um heimild til nafnaskipta á íbúðum án sölu og um réttarstöðu framkvæmdaaðila ef félagsleg kaupleiguíbúð er seld á nauðungaruppboði. Þessi ákvæði eru í samræmi við það sem gildir um íbúðir í verkamannabústöðum.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir því frv. sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.