01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5229 í B-deild Alþingistíðinda. (3505)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get að verulegu leyti tekið undir orð hv. síðasta ræðumanns. Vil ég taka fram í upphafi að ég hef ekki haft ýkja mikinn tíma til að fara vandlega ofan í einstakar greinar frv. og enn síður að lesa þær saman við gildandi lög um húsnæðismál sem er nauðsynlegt ef maður á að fá að fullu glögga mynd af því hvernig þessi ákvæði koma til með að útfærast og falla inn í gildandi ákvæði um húsnæðislán.

Ég vil þá í upphafi ræða, og það er eiginlega óhjákvæmilegt að ræða það lítillega í upphafi vegna þess að það mun væntanlega hafa áhrif á afdrif þessa frv. og vegferð þess í gegnum hið háa Alþingi, hvernig það er tilkomið og þá sérkennilegu umræðu og jafnvel bréfaskriftir sem orðið hafa innan stjórnarliðsins út af þessu máli.

Það hefur komið fram í fjölmiðlum að a.m.k. þingflokkur Framsfl. hafði skrifað hæstv. félmrh. bréf. (PP: Sjálfstfl.) Og þingflokkur Sjálfstfl., í öllu falli, bréf sem lesið var upp áðan. Síðan hafa menn verið að svara þessum bréfum, starfsmenn ráðuneytisins o.s.frv. Ég vil út af fyrir sig segja um þessi bréfaskipti að mér þykir heldur vænt um að menn skuli leggja sitt af mörkum til að viðhalda þeim þjóðlega sið að skiptast á sendibréfum. Ég hef óneitanlega haft nokkrar áhyggjur af því á tölvuöld og póstfax- og telexöld að hinn gamli góði siður að skiptast á bréfum væri alveg að leggjast af. En það er greinilegt að ríkisstjórnin ætlar fyrir sitt leyti að sjá um að þetta menningarlega fyrirbrigði leggist ekki með öllu af. Það er spurning hvort væri ekki rétt að benda henni á að færa þessi bréf á skinn til að þetta væri enn þjóðlegra. Nóg er til af skinnunum, alla vega eru frændur okkar Grænlendingar aflögufærir með selskinn ef út í það yrði farið.

Það var engu líkara en hv. skrifari deildarinnar væri farinn að fara með kafla úr leynilögreglusögu þegar hann talaði áðan um síðustu sólarhringana, þessa afdrifaríku sólarhringa áður en frv. birtist á borðum þm. Meinsemdin ku vera sú að þó að Sjálfstfl. hefði í raun verið búinn að samþykkja frv. var hann ekki búinn að sjá hið endanlega orðalag, ef ég skildi hv. skrifara rétt. Þetta er út af fyrir sig mjög alvarlegt mál en varla tilefni til stórvægilegra árekstra í stjórnarsamstarfi ef það stjórnarsamstarf er heilt að öðru leyti.

Þessar uppákomur, svo skringilegar sem þær eru, væru af sjálfu sér harla ómerkilegar, en það má þó velta því fyrir sér hvort þær séu vísbendingar um aðra og alvarlegri bresti í þessu stjórnarsamstarfi og er svo sem von að menn spyrji sem svo.

Það sem mun fyrst og fremst ráða því hvort það frv. sem hér er flutt um kaupleiguíbúðir verður einhvern tímann barn í brók er auðvitað það fjármagn sem til afgreiðslu verður út úr húsnæðislánakerfinu á næstu árum og þá sá forgangur sem kaupleiguformið fær þar. Nú liggja fyrir þeir löngu biðlistar sem allir vita um og samkvæmt nýlegum upplýsingum, sem ég hef frá Húsnæðisstofnun ríkisins, geta þýtt að jafnvel forgangshóparnir, þ.e. þeir sem falla undir forgangshóp og sækja um lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í dag, mega vænta þess að þurfa að bíða í allt að tvö ár eftir því að fá fyrirgreiðslu. Þetta eru forgangsmennirnir, þeir sem eru settir í sérstakan forgang. Hinir verða þá væntanlega að bíða mun lengur.

Nú tók ég ekki svo glöggt eftir því hvort hæstv. félmrh. rakti í raun og veru í sinni framsöguræðu hvernig með kaupleiguflokkinn yrði farið að þessu leyti og hvort þar kynni að verða mismunur á annars vegar innan félagslega kerfisins eða frá Byggingarsjóði verkamanna og hins vegar um hinar almennu kaupleiguíbúðir. En sá vandi er mönnum hér á höndum að ef kaupleiguíbúðunum, t.a.m. hinu almenna kerfi, yrði veittur umtalsverður forgangur verður ásóknin í þá tegund eftir því, miðað við þá biðlista sem fyrir eru í kerfinu. Hér er alveg nauðsynlegt að fá skýr svör um: Liggur fyrir samkomulag um hvernig kaupleiguflokknum sem slíkum verður raðað með tilliti til forgangs og hvernig er þá það samkomulag?

Það er næsta nöturlegt fyrir hæstv. félmrh. að þurfa að standa hér í ræðustól í Nd. nákvæmlega á sömu mínútum og flokksbróðir hæstv. ráðherra, hæstv. fjmrh., er að mæla fyrir skerðingu á fjárveitingum til byggingarsjóðanna í Ed. og má næstum heyra á milli deildanna í hæstv. fjmrh. Þar er að vísu ekki um stórvægilega tölu að ræða, 100 millj. kr. sem ef ég man rétt úr grg. frv. skiptist þannig að 75 millj. skulu vera frá Byggingarsjóði ríkisins og 25 millj. frá Byggingarsjóði verkamanna, en það sýnir þó þann hug sem hæstv. ríkisstjórn virðist bera til húsnæðismálanna og þann skilning eða það skilningsleysi öllu heldur sem þeir sem gengu frá efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar hafa á ástandinu í húsnæðismálunum og þeim biðlistum t.a.m. sem ég hef gert grein fyrir. Ég get vel skilið að hæstv. félmrh., sem er í sömu andrá að mæla fyrir óskabarni Alþfl., kaupleiguíbúðunum, í Nd., sé mátulega hress með þær efnahagsráðstafanir sem birtast í sömu andrá.

Þetta kemur ofan í þá frystingu fjármagns frá lífeyrissjóðunum sem ákveðin var með fjárlögum eða lánsfjárlögum á þingi um áramótin og eykur enn á þann vanda og þá óvissu sem er í þessu kerfi. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé meiningin eða liggi fyrir neinar ákvarðanir um hvernig þessi viðbótarskerðing upp á 100 millj. skuli skiptast ef þá á að vera um nokkra skiptingu að ræða. En það er nauðsynlegt að hæstv. félmrh. svari því eins og öðru og jafnframt hvort tekin hefur verið frá ákveðin upphæð í kaupleiguflokkinn sem kemur þá væntanlega til með að skerða ráðstöfunarfé byggingarsjóðanna til annarra verkefna og lengja biðina þar eftir lánum sem því nemur. Ég vonast til þess að hæstv. félmrh. geti gefið hér svör um þetta efni núna strax við 1. umr. því það er alveg óhjákvæmilegt að sú nefnd sem fær þetta kaupleigufrv. til meðferðar, hv. félmn. deildarinnar, gangi út frá einhverjum ákveðnum staðreyndum í þessum efnum eða einhverjum ákveðnum upplýsingum þegar hún fer að skoða hvernig þetta vegur inn í húsnæðislánakerfið.

Ég vil að öðru leyti, herra forseti, hafa fyrirvara á um afstöðu mína til þeirrar útfærslu á kaupleigukerfinu sem hér er lögð til. Það hefur áður komið fram að við alþýðubandalagsmenn styðjum í sjálfu sér að þessi valkostur sé tekinn upp í hinum félagslega hluta húsnæðislánakerfisins. Hér er hins vegar lagt til að þetta verði vistað á báðum stöðunum, bæði í almenna kerfinu og hinu félagslega, og það er útfærsluatriði sem ég vil að svo stöddu ekki lýsa ákveðinni afstöðu til.

Ég vil í þessu sambandi einnig vekja athygli á því og í raun og veru harma - fer einstaklega vel á því að ræðumaður sem ber þetta nafn taki þannig til orða að hann harmi hlutina — að heildarendurskoðun hins félagslega hluta íbúðalánakerfisins er ekki inni í myndinni, er ekki á dagskrá að því er virðist.

Hér er flutt frv. um einn tiltekinn hluta, en ekki með nokkrum hætti tekið á því verkefni, sem löngu er brýnt og lofað var á árinu 1986, að tekið yrði á í beinu framhaldi af þeim breytingum sem þá voru gerðar á útlánareglum Byggingarsjóðs ríkisins og hinum almenna hluta húsnæðislánakerfisins. Það verk hefur setið algerlega eftir og er strandað. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. félmrh. enn þó hæstv. ráðherra hafi reyndar nýlega svarað fsp. um það efni: Hvernig miðar því verki? Hvað er á dagskrá í þeim efnum? Er þess að vænta að heildarendurskoðun hins félagslega hluta íbúðalánakerfisins líti dagsins ljós hér á næstu mánuðum?

Ég hefði talið það miklum mun æskilegra ef þess hefði verið kostur að fá frv. um kaupleiguíbúðir flutt á Alþingi sem hluta af heildarendurskoðun félagslega hluta íbúðalánakerfisins þar sem menn hefðu þá haft það fyrir framan sig í einu lagi hvaða breytingar yrðu á skipulagi verkamannabústaðakerfisins, leiguíbúðakerfisins og annarra þeirra ákvæða sem eru í lögum eða þyrfti að taka upp í lög við endurskoðun þessa málaflokks. Ég nefni búseturéttaríbúðirnar eða húsnæðissamvinnufélögin. Það er að mínu mati heldur hrakleg niðurstaða fyrir okkur öll, ekki síður hæstv. félmrh., sem var ötull baráttumaður fyrir búseturéttaribúðunum á sinni tíð og er vonandi enn, og fyrir Framsfl., það sem eftir er af honum, sem telur sig vera samvinnuflokk og tók undir hugmyndirnar um húsnæðissamvinnufélög og húsnæðissamvinnuformið þegar það var fyrst tekið upp af einhverjum þrótti á Íslandi fyrir nokkrum árum. Nú ættu þessir tveir aðilar saman, Framsfl. og Alþfl., að hafa sæmilega aðstöðu sem meirihlutaaðilar í þessari ríkisstjórn til að koma stefnu sinni í framkvæmd. Og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er þá niðurstaðan sú að ekkert örlar á því að þetta húsnæðisform, sem ég hefði talið ekki síður og reyndar jafnvel enn vænlegra en kaupleiguíbúðir, situr eftir? Er það e.t.v. vegna þess og eingöngu vegna þess að kaupleiguíbúðirnar voru kosningamál hjá Alþfl. og það tókst að koma einhverjum málmyndaákvæðum inn í stjórnarsáttmálann? Er þá ekki verið að segja í raun að hér sé fyrst og fremst verið að bjarga fyrir horn með þessum málflutningi en ekki tekist á við að móta heildarstefnu í þessu máli?

Ég þykist reyndar vita að hæstv. félmrh. hafi harla lélegan stuðning ýmissa samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn til að beita sér fyrir úrbótum á þessu sviði. Það er löngu kunnugt að ákveðnir hv. þm. og áhrifamenn innan Sjálfstfl. hafa beitt sér með öllum tiltækum ráðum gegn flestu því sem kalla mætti úrbætur í hinu félagslega húsnæðiskerfi. Sú niðurstaða sem hér er borin fram virðist benda til þess að hæstv. félmrh. hafi ekki sterka stöðu til að sigrast á þeim afturhaldsöflum og hér sé eingöngu um málamyndatillöguflutning að ræða sem píndur er fram með mismunandi mikilli ánægju ýmissa stjórnarliða á grundvelli ákvæða í stjórnarsáttmála til að bjarga ákveðnum kosningaloforðum fyrir horn.

Ég vil einnig taka undir það, sem síðasti hv. ræðumaður vék lítillega að, vegna þess að hæstv. félmrh. gerði kaupleigukerfið og stöðu sveitarfélaganna og landsbyggðarinnar sérstaklega að umræðuefni, að ég sé ekki í fljótu bragði hvernig kaupleigukerfið sem slíkt á að koma þeim sveitarfélögum sérstaklega til aðstoðar eða gera þeim kleift að hefja umtalsverðar húsnæðisbyggingar úti á landsbyggðinni sem hafa í raun fengið sig fullsödd af því að leggja fram sinn kostnaðarhlut í þeim félagslegu íbúðum sem byggðar hafa verið á undanförnum árum og eru sum hver með þungar byrðar af því kerfi, m.a. vegna endurkaupaskyldunnar. Þess vegna held ég að kaupleigukerfi þar sem gert er ráð fyrir a.m.k. 15% og jafnvel 30% fjármögnun framkvæmdaaðila með einum eða öðrum hætti geti ekki í raun og veru breytt miklu fyrir stöðu sveitarfélaganna í þessum efnum.

Nú sé ég ekki annað en að almennu lánin til almennu kaupleiguíbúðanna séu 70%. Síðan er þar heimild til 15% lánveitinga í viðbót að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Þó við gerum ráð fyrir að þeim skilyrðum sé yfirleitt fullnægt í tilfellum sveitarfélaga, sem ég sérstaklega ræði um, standa eftir 15% hvort heldur er í almenna kerfinu eða hinu félagslega. Með einhverjum hætti þyrfti framkvæmdaaðilinn, sem hæstv. félmrh. réttilega spáði að yrði í flestum tilfellum sveitarfélagið, að sjá fyrir þeim hlut. Ég held að jákvæðar undirtektir í könnun hæstv. félmrh. hjá sveitarfélögum víða í landinu hafi ekki í fullri hreinskilni sagt verið tilkomnar fyrst og fremst vegna þess að sveitarfélögin hafi um árabil trúað því að þetta eina form væri lausnarorðið, þ.e. kaupleiguíbúðir skyldu það vera og þess vegna væru þau tilbúin að segja: Við þurfum 50 eða 100 kaupleiguíbúðir, kaupleiguíbúðir, kaupleiguíbúðir. Ég held að sveitarfélögin hafi fyrst og fremst verið að segja: Við verðum með einhverjum ráðum að koma húsnæðisbyggingum á stað aftur á landsbyggðinni. Ef það á að taka upp eitthvert kaupleigukerfi erum við jákvæð að skoða það, viljum gjarnan vera með í því ef það mætti verða til þess að við komum íbúðabyggingum aftur á stað. Ég held að í raun og veru hafi sveitarfélögin fyrst og fremst verið að segja: Við erum tilbúin að vera með í eða skoða hvað eina, hvað sem það heitir, ef það verður til þess að við getum með einhverjum hætti brotist út úr þeirri úlfakreppu sem við erum í núna og felst í því að það er einfaldlega ekki verið að byggja úti á landi.

Ég mundi sem slíkur taka mönnum vara við því að fyllast nú heilagri innblásinni bjartsýni og trúa á að bara ef kaupleigufrv. fari í gegn verði þetta allt í lagi. Ég óttast að það þurfi meira til. Fyrst og fremst þyrfti að ráðast á rætur vandans sem er mikill og er kannski erfiðasta úrlausnarefni allra samanlagðra byggðamálanna. En það þarf í öðru lagi að tryggja að það húsnæðisform, félagslegt eða ekki félagslegt, sem menn leggja áherslu á í sinni stefnu á næstu árum, verði þannig að sveitarfélögin hafi bolmagn til þess, líka þau fátækustu, að taka þátt í því. Ég hefði þá viljað sjá, ef menn virkilega væru að taka á vanda þeirra sveitarfélaga sem erfiðast eru stödd í þessum efnum, heimildir til frekari fyrirgreiðslu en felast í ákvæðum frv. um kaupleiguíbúðir. Sama ætti við um önnur ákvæði um uppbyggingu félagslegs húsnæðis skv. gildandi lögum.

Það liggur reyndar fyrir hv. Alþingi annað frv. sem snertir Húsnæðisstofnun ríkisins og útlán úr þeirri stofnun og leggur til að binda ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna með tilteknum hætti við landshlutana til að forða því fjármagnsstreymi sem sannanlega á sér stað í gegnum gildandi lög, núverandi kerfi, af þeim svæðum þar sem minnst er byggt til þeirra svæða þar sem mest er byggt. Ég tel að það eigi að skoða í fullri alvöru. Einnig ætti að skoða í alvöru hvort ekki er nauðsynlegt að vera með sértækar ráðstafanir í gangi, t.d. innan félagslega kerfisins, til að aðstoða sérstaklega þau sveitarfélög, þau landsvæði sem eiga mest á brattann að sækja í þessum efnum. Það er ekki gert ráð fyrir neinu slíku eftir því sem ég hef best séð í þessu frv. Ég þykist því hafa rökstutt það nokkuð að fyrir þeirri miklu bjartsýni sem skilja mátti á hæstv. félmrh. að ríkti meðal sveitarfélaganna, ekki síst úti á landi, í tengslum við kaupleigukerfið séu ekki fullar innistæður, nema þá hér sé eitthvað á ferðinni sem ég hef ekki gert mér ljóst, einhverjar sérstakar ráðstafanir sem mér hafa yfirsést í fljótheitalestri á frv.

Herra forseti. Ég tel að svo stöddu ekki ástæðu til að hafa þessi orð mikið fleiri. Eins og ég segi hef ég fyrirvara á um þá útfærslu sem hér er lögð til, enda nokkuð verk að kynna sér til hlítar hvernig þetta kemur allt saman út.

Varðandi þá umræðu að texti frv. sé aulalegur og viðvaningslega fram settur er ég nú ekki sammála því. Ég tel að það sé sæmilega skýrt hvað við er átt hér. Það má um það deila að hve miklu leyti ítarleg útfærsluatriði eiga að vera í lögum og að hve miklu leyti þau eiga heima í reglugerð um húsnæðismál eins og önnur lög, en í þessum efnum er þó held ég erfitt að gagnrýna að menn fari frekar þá leiðina að hafa lagaákvæðin ítarlegri en öfugt. Ég held að menn verði að leggja það á sig og hv. þm. Páll Pétursson einnig að lesa dálitla texta þó að því sé að skipta. Það eru þó lög í landinu sem engu verður um breytt. Það kemur úr óvæntri átt ef hv. þm. Páll Pétursson hefur á móti því að lagaákvæði þau sem hæstv. félmrh. styðst við séu ítarleg og skýr. Það þýðir að sama skapi að reglugerðirnar þurfa ekki að vera mjög langorðar og minna vald er í raun framselt af hálfu löggjafans til þess hæstv. ráðherra sem fer með málin hverju sinni þannig að e.t.v. var þetta dulbúin traustsyfirlýsing af hálfu hv. þm. Páls Péturssonar þegar hann gagnrýndi þær löngu lagagreinar sem í frv. finnast. Það má hins vegar deila um hvort uppsetning eða prentun frv. er ekki óheppileg þar sem vantar í raun öll eðlileg greinaskil eða línubil til að skilja á milli hinna einstöku lagagreina. Það er uppsetningaratriði og verður varla fært á kostnað þeirra sem orðuðu frv.

Ég vil svo að lokum aftur segja að ég hefði gjarnan viljað sjá hér fyrir framan mig, og þó það hefði verið miklu þykkara frv., endurskoðun á öllum kafla húsnæðislaganna um félagslegt íbúðarhúsnæði. Ég minni á það starf sem átta almannasamtök hafa unnið á undanförnum mánuðum og lagt fram í tillöguformi þar sem þau leggja til gagngera uppstokkun á ákvæðum um félagslegt íbúðarhúsnæði í landinu og að stofnaður verði svonefndur félagsbúðasjóður. Því miður óttast ég að kaupleigufrv. komi að mjög takmörkuðu leyti til móts við óskir þessara samtaka eins og þær hafa a.m.k. verið kynntar mér. Sú vinna sem þar hefur verið innt af hendi og er góðra gjalda verð og merkileg er litlu nær settu marki en áður þrátt fyrir þetta frv.

Það er svo að lokum aðeins eitt atriði sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um efnislega til viðbótar þessu og varðar það hvort ég hafi skilið rétt að framkvæmdaaðilar í hinu almenna kaupleiguíbúðakerfi geti verið fyrirtæki í þeirri merkingu að lögaðili í einkaeigu, þ.e. einstaklingur sem stendur fyrir einhverjum atvinnurekstri, geti sem slíkur hafið byggingu kaupleiguíbúða og hvort sé þá ekki ástæða til að staldra nokkuð við það. Þó að ég geri mér grein fyrir því að það gengur ekki að mismuna fyrirtækjum í landinu út frá mismunandi eignarformi vakna vissar spurningar í mínum huga, hvort einstaklingur geti stofnað fyrirtæki og þar með verið orðinn lögaðili í þeirri merkingu að hann geti gerst framkvæmdaaðili og hafið byggingu kaupleiguíbúða. Mér sýnist fljótt á litið að þannig sé þessu varið. Ég vil þá spyrja hæstv. félmrh. um hvort hæstv. ráðherra telji engar ástæður til að setja þá einhverjar sérstakar reglur í þessu einstaka tilviki eða hvort þetta skuli vera jafnopið og ef um stór fyrirtæki eða félagasamtök væri að ræða.