01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5243 í B-deild Alþingistíðinda. (3508)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þessi húsnæðismál okkar eru nú í þeirri úlfakreppu að fram úr þeim málum sér maður ekki í dag. Hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni þegar hún fylgdi þessu frv. úr hlaði að fyrir lægju 12 þúsund umsóknir og 70% af þeim væru hér af höfuðborgarsvæðinu. Síðan hefur það verið upplýst að í kringum 26% af þeim umsóknum sem eru af landsbyggðinni séu frá umsækjendum sem ætla að byggja hér á höfuðborgarsvæðinu. Það liggur því fyrir að af þessum 12 þúsund sé fyrirhugað að byggja 9366 íbúðir á þessu svæði. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur það hvert viðhorf landsbyggðarinnar er til þess hvernig þjóðfélaginu er stjórnað í dag. Það er þetta sem það segir manni. Þetta er harður dómur. Fólk, sem vill ekki fara hingað suður, vill vera úti á landi, leggur ekki í það að byggja þar vegna þess að ef illa fer, þá veit það að það getur ekki losnað við íbúðirnar á kostnaðarverði. Ég held að hæstv. ráðherrar og stjórnarliðið yfirleitt ættu að hugleiða þetta mál í þessu ljósi. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Ég var lengi í félmn. og hef kynnt mér nokkuð það kerfi sem er í Svíþjóð. Ég var að mörgu leyti hrifinn af því þó að um það megi deila hvar mörkin eigi að vera. En frammi fyrir þeim staðreyndum stöndum við nú að eins og nú horfir þá verður ekki búið að leysa úr umsóknum fyrr en líklega á árinu 1991. Og það liggur alls ekkert fyrir hvað lífeyrissjóðirnir sumir hverjir ætla að gera. Þetta er sem sagt algjört strand, algjört gjaldþrot í þessum málum. Þetta frv. út af fyrir sig leysir ekki málið.

Ég var mjög ánægður með það sem hæstv. félmrh. sagði í sambandi við landsbyggðina og þörfina fyrir það að leysa þau mál. Það gerist ekki að mínu mati með þessu frv., því miður. En ég er þakklátur fyrir hug hennar í sambandi við þetta mál. Og ég ætla ekki að kasta steini að henni í sambandi við afstöðu hennar til þessara mála hér undanfarna daga, það geri ég ekki. Ég held að stjórnarliðið ætti að reyna að horfa raunsætt á hvernig þessi mál standa í dag. Á sama tíma sem þetta kemur til umræðu er verið að tala um það að skerða nú fjármagnið til húsnæðismála. Það á að leysa það með því. En svo vil ég segja eitt við hæstv. félmrh.: Sveitarfélögin úti á landi eru þannig í stakk búin mörg hver að þó að þau fegin vildu, þá mundu þau ekki geta notfært sér þessa löggjöf, jafnvel þótt peningar væru fyrir hendi, jafnvel þó það væri hægt að fá lán, hvað þá ef þarf að bíða í fleiri mánuði eða ár eftir því að fjármagnið komi eins og nú horfir.

Ég var fyrir nokkrum dögum að spyrja um það hjá húsnæðismálastjórn hvenær fengist lán fyrir fólk sem er þó í forgangshópnum sem sótti um í apríl á sl. ári. Hvert haldið þið að hafi verið svarið? Í fyrsta lagi á næsta ári. Einhvern tíma á næsta ári í fyrsta lagi.

Fólk, sem var að koma frá námi erlendis, er að reyna að komast yfir íbúð norður á Akureyri. Þetta fólk hefur aldrei átt íbúð áður. Þau vissu ekki um þennan frumskóg sem hér er og sóttu ekki um lán fyrr en rétt eftir að þau komu í október sl. Mér er sagt að það sé borin von að þau fái lán fyrr en eftir rúm tvö ár. Mér er tjáð það. Ætli þau neyðist ekki til að flytja suður? Því hér er þó frekar hægt að fá keypt húsnæði því hér er fjármagnið og hér byggja margir og virðast vaða í peningum.

Ef hæstv. félmrh. vill reyna að leysa þessi mál landsbyggðarinnar, sem ég efast ekkert um að hún vilji, þá verður bara að breyta þessu þannig að þó að það séu færri umsóknir þaðan, þá verði umsóknafjöldinn miðaður við fólksfjölda á hverjum stað en ekki eftir því hversu margar umsóknir liggja fyrir. Ég sé ekki betur en það verði mjög lítið byggt úti á landsbyggðinni öðruvísi en að einhverju leyti verði horfið frá þessu kerfi, nema peningar komi. En hver trúir því eins og nú er? Ekki ég. Því miður. Staðan er sem sagt sú að fyrir fátækara fólkið er eins og nú horfir ekki hægt að sjá að þetta leysist í náinni framtíð, a.m.k. ekki meðan þessi hæstv. ríkisstjórn situr að völdum.

Nei, því miður, hæstv. félmrh., þetta mundi ekki leysa mál landsbyggðarinnar nema á þeim stöðum þar sem er mikil atvinna, á þéttbýlisstöðum, einstaka stað e.t.v., þar sem þarf að inna það mikið af hendi af fjármagni í þessar íbúðir miðað við það frv. sem hér er.

Af þeim ástæðum sem ég hef hér komið inn á hef ég ekki farið efnislega ofan í þetta frv., af því að ég sé ekki að það leysi þann vanda sem við blasir nema aukið fjármagn komi til. Og ef aukið fjármagn kemur í þetta, þá mundu bara þeir sem eru búnir að sækja um og ekki eru í forgangshópi lenda í þessu kerfi, og þá mundi bara enn lengjast halinn.

Mig langar til að leggja fyrir hæstv. ráðherra fyrst og fremst tvær spurningar eða þrjár. Mér skilst í sambandi við þessar nýju ráðstafanir sem er verið að gera sem munu líklega standa eitthvað fram á vorið ef ríkisstjórnin situr það lengi, hálfvegis liggja í loftinu að það eigi að hækka vextina af húsnæðisstjórnarlánum. Verða þessir vextir hækkaðir, liggur það fyrir og hvað þá?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja: Hvað eru það margir lífeyrissjóðir sem eru búnir að skrifa undir samninga í sambandi við greiðslur til Húsnæðisstofnunar ríkisins á næstu árum? Ég veit að það er búið í ár.

Í þriðja lagi: Ef nú verða skornar þessar 100 millj., sem mér skilst, er það þá ekki rétt skilið hjá mér að það sé búið að lofa það miklu, mörgum umsóknum á þessu ári að það verði ekki hægt við það að standa? Ég veit að hæstv. félmrh. hefur mótmælt þessu og hún á heiður skilið fyrir það. En hafa hinir hugsað um það, hinir, eins og hv. 17. þm. Reykv. sem talaði mikið um lítið mál, þ.e. þessi olnbogaskot sem eru í flokkunum og milli flokkanna um öll möguleg mál. Og ef ástæður er ekki fyrir hendi, þá er reynt að finna upp ástæður eins og ræða hans áðan bar glöggt merki.

Í síðasta lagi stendur hér í 4. gr. frv., með leyfi forseta: „Með almennum kaupleiguíbúðum er átt við íbúðir, byggðar eða keyptar á vegum sveitarfélaga, viðurkenndra félagasamtaka eða fyrirtækja.“

Hvernig á að skilja þetta? Hvernig á að skilja þetta „viðurkenndra félagasamtaka“? Hvernig á að skilja þetta með fyrirtækin? Er það þegar eitthvert sterkt fyrirtæki sem hefur peninga - að þó að einstaklingur eigi það þá geti hann farið að byggja þessar íbúðir? Eða við hvað er átt? Því miður skil ég þetta ekki eða þarf að fá útskýringar á þessari málsgrein eins og hún er hér í frv. Ég hef ekki lesið grg., það kann að vera að útskýringar séu þar á því hvernig beri að skilja þetta eins og það er sett í textann, en alla vega finnst mér þetta vera ónákvæmt svo ekki sé meira sagt.

Það lítur út fyrir það að þeir sem komast yfir fjármagn geti haldið áfram að byggja hér upp á það að fólkið komi áfram í stórum stíl utan af landsbyggðinni og með einhverjum ráðum komist yfir - eða fái þá leigðar þessar íbúðir.

Ég held að í umfjöllun um þetta frv. og um húsnæðismálin yfirleitt ætti að ræða út frá þeim sjónarhól sem hæstv. fyrrv. félmrh., 1. þm. Vesturl., benti á áðan. Ég get ekki betur séð en að í raun og veru þurfi ekki ný lög eða lagafyrirmæli. Það sem vantar er vilji og fjármagn. Það er það sem vantar og að því höfum við orðið vitni undanfarna daga.