01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5246 í B-deild Alþingistíðinda. (3509)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jón Sæmundur Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. félmrh. til hamingju með fram komið frv., ekki aðeins henni einni heldur henni fyrir hönd þess fjölda fólks sem nálægt samningu þessa frv. hefur komið, hinna færustu manna og kvenna úr nánast öllum pólitískum flokkum sem hafa lagt þar gjörva hönd að verki. Ég tel þetta frv. vera mikið framfaraspor í félagslegri sögu okkar Íslendinga og fagna því að það skuli vera hér fram komið.

Áður en ég fer efnislega ofan í frv. sjálft langar mig til að gera nokkrar athugasemdir við það sem hv. ræðumenn á undan mér hafa látið orð falla um, hina og þessa punkta sem orðið hafa á leið okkar í afgreiðslu þessa frv.

Hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson var að vonum ekki ánægður með grein mína í Morgunblaðinu í dag og segir mig ekki jafnast við meistara Þórberg. Ég viðurkenni það mjög fúslega. Ég geri alls ekkert tilkall til þess. Mín grein var miklu fremur þurr lýsing á því sem skeð hafði hér fyrir tíu dögum, en hún var engu að síður, og það hugsa ég að meistara Þórbergi hafi líka verið annt um í sínum skrifum, sönn. Hv. þm. kallaði það ófyrirgefanlega aðferð að fulltrúar stjórnarflokkanna hafi ekki beinlínis komið nálægt samningu þessa frv. Það má vel vera að þetta hafi verið ókostur, eins og hann kallaði það líka, að fulltrúar stjórnarflokkanna fengu ekki að vera með við samninguna. Nú er þetta e.t.v. siður sem ráðherrarnir ættu að temja sér, að kalla til fulltrúa stjórnarflokkanna, hinna samstarfsflokkanna til að vera við samningu frv. Ég skal ekkert segja um það. Hins vegar er þetta mjög hefðbundin aðferð sem við þekkjum vel bæði úr þessu samstarfi og hv. þm. þekkir áreiðanlega frá því að hann var sjálfur ráðherra. Svona hefur þetta viðgengist í gegnum tíðina.

Mér er minnisstætt kvótafrv. sem kom hér fram fyrir jólin og var aldeilis ekki þess eðlis að fulltrúar stjórnarflokkanna hefðu nokkurn skapaðan hlut fengið að fetta fingur út í samningu þess frv. eða þær breytingar sem á því áttu að vera í samræmi við samkomulag stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar, þannig að hv. þm. ætti kannski að líta í eigin barm og síns flokks.

Það hefur verið talað um það hversu snemma frv. kom fram. Það var 7. des. sl., fyrir einum þremur mánuðum, þannig að ærinn tíma hefur tekið að skoða þetta frv. Í sambandi við það var sagt að það hafi komið fram á mesta annatíma þingsins og þess vegna hafi ekki verið möguleiki á að líta á það. Það væri fróðlegt að líta á mælendaskrár frá því í desember og kynna sér það hversu oft stjórnarþm. hafa tekið til máls í þeim mánuði, hversu önnum kafnir þeir voru við þingstörf, hvað það var sem hélt þeim frá því að stúdera þetta frv. þannig að gagn væri að. Ég held að menn hafi frekar ráfað hér um sali, verið heldur verklausir meðan stjórnarandstaðan hélt uppi málþófi. Þannig leit það mál út. (Gripið fram í.) Þetta kom úr hörðustu átt.

Hv. þm. las upp athugasemdir Framsfl. sem komu fram í undirbúningshópnum tveimur dögum eftir að sjálfstæðismenn lögðu fram sínar athugasemdir og athugasemdir framsóknarmanna voru alveg :nákvæmlega eins. Ef menn hafa borið sig saman um athugasemdir, þá furða ég mig á að ekki skuli hafa verið lagður fram sameiginlegur pappír. En eins og atvik höguðu til býður mér í grun að samráðið hafi verið heldur lítið.

Síðan voru lesnar upp ýmsar athugasemdir sem mér er ekki kunnugt um að hafi nokkurn tímann borið á góma í þessum undirbúningshópi og þess vegna alveg lífsins ómögulegt að taka formlega fyrir. Ýmsar af þessum athugasemdum hins vegar, sem ég var að heyra núna, eru þegar leystar eins og t.d. það að hafa samráð við ýmsa aðila við samningu frv. og vil ég, með leyfi forseta, lesa hér upp úr athugasemdum um þetta lagafrv. þar sem segir:

„Tillögur frv. voru kynntar á samráðsfundum með fjölmörgum aðilum, m.a. húsnæðisnefnd og sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands, fulltrúum frá BSRB og Vinnuveitendasambandi Íslands, forráðamönnum Sambands ísl. sveitarfélaga og átta almannasamtaka sem starfa að húsnæðismálum.“

Þá kom fram athugasemd um könnun á þörf fyrir þessar íbúðir, en það er held ég rækilega tekið fram hvað eftir annað í frv. að slík könnun skuli fara fram. Þá sagði einnig í athugasemdum hv. þm. að það hafi verið algjört skilyrði framsóknarmanna að breyta lánstímanum á leiguíbúðum skv. b- og c-lið 33. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins úr 31 í 43 ár. Aldrei nokkurn tíma kom það til tals á þessum nótum, heldur hitt að þetta mál skyldi skoðast í sambandi við þetta frv. í nefnd. Umsagnir hinna ýmsu aðila sem hv. þm. taldi upp eiga auðvitað heima í nefnd og eiga að skoðast þar. Ég get hins vegar upplýst, hvað þetta mál snertir, að það er auðvitað alls engin fyrirstaða hjá okkur alþýðuflokksmönnum, hitt þó heldur, þannig að ég á von á að við getum leyst þetta mál farsællega í nefnd þegar frv. kemur þar til umsagnar.

Hv. 17. þm. Reykv. kom upp nokkuð snemma í umræðunni og sagði sig ekki vilja liggja undir grun um að hafa ekki unnið af heilindum í undirbúningsnefndinni. Mér er bæði ljúft og skylt að staðfesta að frá mínum sjónarhóli hefur hv. þm. unnið af fullum heilindum og hef ég aldrei vænt hann um annað. Hitt er svo annað mál, og það kom fram í grein minni í Morgunblaðinu í dag, að greinilegt er að misskilningur hafi orðið út af boðleiðum og atriðum sem auðveldlega má koma í lag en ótrúlegur hávaði hefur verið gerður út af. Og hafi menn haldið að við alþýðuflokksmenn ætluðum að sitja þegjandi undir þeim hávaða sem var magnaður gegn okkur, þá er það misskilningur. Þessi grein var ekki ætluð til annars en að lýsa nákvæmlega því sem skeði.

Í ljósi þessa misskilnings verður að skilja ummæli hv. 17. þm. Reykv. þegar hann segir að óðagot ráðherra hafi verið svo mikið að komið hafi verið fram með frv. áður en þingflokkarnir fengu það til athugunar. Þetta var hluti af þeim misskilningi sem var uppi, við stóðum í þeirri trú að þessi nefnd væri til þess gerð að jafna efnislegan ágreining, en ekki fara ofan í frumvarpstexta og frumvarpstextinn sjálfur stæði því ekki til athugunar. Það að boðleiðir fóru á mis ber að harma, en auðvitað hefði þetta ekki þurft að vera neitt mál eins og hv. þm. sagði. Við hefðum óskað, að þegar þessi misskilningur kom upp, þá hefði þetta mál verið tekið upp við okkur, eins og á að gera í samskiptum milli samstarfsflokka, og málin rædd en ekki vaðið út til fjölmiðla og barðar bumbur.

Það sem tekið var sem dæmi um það sem hefði mátt leiðrétta í texta frv. var í sambandi við gjaldfellingu 15% láns úr 25 árum í 5 ára lánstíma við kaup í almenna hluta kaupleigunnar, að við gjaldfellinguna skuli hinir hagstæðari vextir breytast yfir í markaðsvexti. Á því þótti ekki þörf, og það ætti hv. þm. að þekkja, að taka þetta beinlínis fram í lagatexta vegna þess að það segir í 30. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins, með leyfi forseta:

„Vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins skulu vera breytilegir. Ríkisstjórn Íslands tekur ákvörðun um vexti af hverjum lánaflokki á hverjum tíma að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabankans. Lántökugjöld og aðrar þóknanir af lánum sjóðsins skulu ákveðnar með reglugerð.“ Þannig að eftir því samkomulagi sem við gerðum í sambandi við þetta atriði hefði þetta mál auðvitað átt að koma fram í reglugerð og ég held að við leysum þetta mál á þeim nótum nema það sé sérstök ósk um að einmitt þetta atriði standi endilega í lagatextanum, þá skulum við auðvitað athuga það. En lögin sem eru og munu gilda um þetta efni kveða á um að ákvæði um vexti skuli koma fram í reglugerð, enda ákveðin af ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma.

Ég held að ég sé ekki að elta ólar frekar við það sem hefur komið fram hjá samstarfsfélögum mínum. Ég held að við ættum e.t.v. að temja okkur betri siði í umgengni hver við annan og þá þurfa svona hnökrar ekki að koma upp.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon hafði uppi grunsemdir um að brestir væru í stjórnarsamstarfinu vegna þessa máls og þetta væri e.t.v. merki þess. Ég vil aðeins minna hv. þm. á að þar sem heflað er þar falla einnig spænir og niðurstaðan er oftast hin allra besta smíð, þannig að ég held að okkar annars ágæta samstarf, þó við fljúgumst stundum á, sé ekki verulega í hættu.

Hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson gerði því skóna að Húsnæðisstofnun ríkisins væri e.t.v. skaðabótaskyld vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið núna í sínum efnahagsaðgerðum við mótmæli félmrh. að strika út 100 millj. kr. í fjárveitingum til Húsnæðisstofnunarinnar og að stofnunin hafi þegar ráðstafað öllu þessu fjármagni til lántakenda. Um þetta er það að segja að í fyrsta lagi breyttum við tilhögun lánsloforða Húsnæðisstofnunar í breytingu á lögum nú rétt fyrir jól þannig að lánsloforð eru ekki beinlínis lánsloforð heldur nokkurs konar ávísun á það að viðkomandi eigi rétt á loforði. (ÓÞÞ: Það var búið að ráðstafa öllu 1988 þannig að þetta á ekki við, herra þm.) Við skulum nú athuga þetta svolítið betur. (ÓÞÞ: Já, það er nauðsynlegt.) Já, ég held það. En vegna þessara 100 millj. sem öllum ræðumönnum hér eða flestum sem talað hafa þótti leitt að skyldi tekið frá Húsnæðisstofnun ríkisins, þá vil ég aðeins segja þetta í öðru lagi, að ef um er að ræða minnkun á framlagi til Húsnæðisstofnunar ríkisins eða stærri gengisfellingu þá er ekki nokkur vafi í mínum huga hvort ég kýs frekar og þykir mér þó vænt um framlög til byggingarsjóða ríkisins. Ekki nokkur vafi. Ég hefði viljað koma í veg fyrir gengisfellingu hvað sem það kostaði, nánast að segja, með stærri tekjutilfærslum á fjárlögum ríkisins, en svo virtist sem hóf væri best í öllu.

Hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson kom einnig inn á það að menn sem dvelja á Norðurlöndum komi e.t.v. ekki heim til Íslands vegna húsnæðismálanna. Nú er það einmitt svo með fólk sem býr á Norðurlöndunum að ef það hefur greitt í lífeyrissjóð þar þá er það jafnrétthátt fólki á Íslandi sem greitt hefur í lífeyrissjóði varðandi lánsrétt og aðra slíka hluti þannig að ég held að fyrir flesta þá sem dvelja á Norðurlöndunum eigi þetta ekki við. Því er að minni hyggju þannig farið.

Með þeirri leið í húsnæðismálum sem hér er lagt til að farin verði opnast nýir möguleikar í húsnæðismálum sem tryggja fleiri kosti fyrir fólk til þess að koma sér þaki yfir höfuðið. Auk þess gæfi slíkt fyrirkomulag láglaunafólki og fólki með meðaltekjur möguleika á að eignast sitt eigið húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ein meginástæða þess hvernig komið er í húsnæðismálum er sú að fólk hefur lítið sem ekkert val haft í húsnæðismálum og er oft knúið nauðugt viljugt til að eignast eigið húsnæði þó það hafi ekki til þess fjárhagslegt bolmagn. Afleiðing þess er sú að mörg heimili í landinu eru að kikna undir oki gífurlegra fjárhagsskuldbindinga. Lítið framboð er á leiguhúsnæði og langt í land að fullnægt sé þörfinni fyrir íbúðir í verkamannabústöðum. Á sl. fimm til sex árum hafa mjög fáar leiguíbúðir verið byggðar á vegum sveitarfélaga og þrátt fyrir ákvæði í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, um að Byggingarsjóður verkamanna skuli fjármagna a.m.k. 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna, hefur hvergi nærri verið staðið við það markmið.

Ljóst er að langt er í land að fullnægt sé þörfinni fyrir íbúðir í verkamannabústöðum sem segja má að sé eini möguleikinn í húsnæðismálum fyrir láglaunafólk og fólk með meðaltekjur. Byggingarsjóður verkamanna lánar nú allt að 85% af byggingarkostnaði staðalíbúðar og er hlutur kaupanda 15%. Í sérstökum tilfellum er heimilt að hækka lánshlutfallið í allt að 90% sé um erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæður að ræða. Framlag kaupanda getur því orðið 600 þús. kr. sé miðað við 4 millj. kr. kaupverð íbúðar. Og ef heimildargreinin er nýtt verður framlag kaupanda 400 þús. kr.

Þó að íbúðir í verkamannabústöðum séu með hagstæðustu kjörum sem bjóðast í húsnæðismálum er ljóst að greiðslukjörin eru engu að síður mörgum ofviða. Þeir sem fá lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins þurfa einnig að brúa verulegt bil milli kaupverðs og lána.

Kostir kaupleiguíbúða eru ótvíræðir. Nýir möguleikar skapast í greiðslukjörum og menn fá jafnframt að velja sér eignar- eða leigufyrirkomulag í húsnæðismálum. Auðvelt á að vera að gera fólki kleift að flytja með sér áunnin réttindi. Með því móti er fólki auðveldað bæði að stækka og minnka við sig íbúðir, sem og að flytjast milli sveitarfélaga ef það svo kýs.

Þetta er alveg nýr valkostur. Það er grundvallaratriði í þessum valkosti að fólk kaupi um leið og það leigir. Það eykur valfrelsi einstaklingsins. Það gefur einstaklingnum miklu meiri möguleika en talið er upp í lögunum um Húsnæðisstofnunina, þar sem taldir eru upp einir níu möguleikar til lána hjá Byggingarsjóði ríkisins og þrír möguleikar hjá Byggingarsjóði verkamanna. Þarna er keypt um leið og leigt er. Fólk hefur völina að leigja, leigja áfram, eða eiga kost á því að fá að kaupa seinna. Það hefur kost á því að leigja með hlutdeild eða afnotarétt. Og það hefur valfrelsi. Það hefur frelsi til að velja á milli hinna ýmsu kosta.

Þetta er gæfulegur kostur fyrir láglaunafólkið. Það er ekki nauðsynlegt í þessu kerfi að hafa mikið fjármagn milli handa. Útborgun er engin, heldur mánaðarlegar greiðslur á viðráðanlegum kjörum. Engar fyrirframgreiðslur, eins og tíðkast hér á leigumarkaði, heldur greiðslur mánuð fyrir mánuð. Láglaunafólk hefur eins og aðrir sama val um kaup eða leigu.

Þá er þetta alveg sérstakur kostur fyrir landsbyggðina. Þetta frv. gefur möguleika á að snúa byggðaþróun á landsbyggðinni við. Við sjáum öll af skýrslum hver byggðaþróunin hefur verið, hver byggingarþróunin hefur verið á landsbyggðinni. Hún hefur í sannleika sagt verið eymdarleg. Allt það sem gefur von um að hægt sé að snúa þessari þróun við ætti að vera tilefni sérstaklega fyrir landsbyggðarmenn til að standa að baki þessu frv.

Það er nauðsynlegt öllum byggðum á landsbyggðinni að halda uppi menningarlífi, að hafa vissan hlut af fagfólki, kennurum, tónlistarkennurum, hjúkrunarkonum, fóstrum, sjúkraþjálfurum, vélstjórum og stýrimönnum. Ég vil minna á fsp. sem kom hér fyrir nokkrum dögum frá varaþingmanni, hv. 4. þm. Suðurl. Ragnari Óskarssyni, til heilbrrh. um það hvort ráðherra hafi uppi einhver áform um að grípa til ráðstafana til að bæta úr skorti á hjúkrunarfræðingum víða um land. Ég þekki það að þetta er mikið vandamál víðs vegar á landsbyggðinni. Og stór hluti af því vandamáli stafar einmitt af því að ekki tekst að finna húsnæði fyrir þetta fólk. Það er hluti af þess kjörum. Að ætla sér að fá þetta fólk til starfa án þess að það hafi í nokkurt hús að venda gerir dæmið óleysanlegt. Þannig að þessi fsp. er ekki án tilefnis.

Aðkomufólk með mikla fagþekkingu, sem nauðsynleg er á þessum stöðum, vill kannski ekki skjóta rótum í hinum ýmsu byggðarlögum, vill þess vegna ekki festa fjármagn í húsnæði. Það á þarna möguleika til að koma inn með leigu en með það í huga, ef það kann við sig, að geta keypt á eftir og þá samkvæmt föstum fjármögnunarreglum, sem gerir því auðvelt að taka þá ákvörðun.

Það þarf einnig að gefa lífeyrissjóðum landsbyggðarinnar tækifæri til að 55% af þeirra ráðstöfunarfé fari til heimabyggðar, þannig að sá hluti gagni þeim einnig í hlutverki þeirra sem framkvæmdaaðila ásamt öðrum félögum eða fyrirtækjum. Sú gagnrýni hefur einmitt komið fram hjá einum aðalforustumanni annars helsta landssambands lífeyrissjóða að það sé veruleg tregða hjá lífeyrissjóðum landsbyggðarinnar að horfa á eftir öllu sínu fjármagni hingað suður á suðvesturhornið, að það sé tregða í þeim lífeyrissjóðum sem hann stendur fyrir að greiða fjármagn til Byggingarsjóðs verkamanna. Ef þessum sjóðum er gefið tækifæri til að fjárfesta á eigin landsvæðum þá held ég að myndin mundi breytast mjög mikið fyrir þá aðila sem taka ákvarðanir um fjárfestingar þessara lífeyrissjóða.

Það þarf ekki að spyrja að því að eftirspurnin eftir þessum íbúðum hefur verið gífurlega mikil. Í könnun, sem gerð var af félmrn. um þörfina fyrir kaupleiguíbúðir, kom fram að hin ýmsu byggðarlög - og eru þá Reykjavík og Akureyri ekki talin með - töldu þörfina vera tæplega 1100 íbúðir sem þau höfðu í hyggju að byggja með þessu formi, þannig að menn skyldu ekki óttast að þörfin sé ekki fyrir hendi. Og menn geta einnig séð að könnun hefur farið fram, en einhver var að biðja um hana hér áðan.

Ég hef þá skoðun, þrátt fyrir að markað fjármagn sé ákveðið til kaupleigu og til Byggingarsjóðs verkamanna og þá væntanlega það sem eftir er til Byggingarsjóðs ríkisins, að eftirspurn eigi að ráða, að þarna megi ríkja eins konar markaðsástand. Þar sem þörfin er mest, þar sem eftirspurnin er mest, þannig ætti að deila út fjármagni til hinna ýmsu forma húsnæðismöguleikanna.

Sveitarfélögin hafa einmitt valfrelsi á hinum ýmsu formum sem þau eiga að taka ákvörðun um sem framkvæmdaaðilar. Vilja þau verkamannabústaðakerfið? Vilja þau kaupleigukerfið? Það eru þau fyrst og fremst sem taka ákvörðun um hvaða form kemur til með að vera ríkjandi í húsnæðiskerfinu. Ég hef þá trú að kaupleigufrv., ef það verður að lögum og þegar það verður að lögum, komi til með að opna nýjan markað og auka valfrelsi bæði einstaklinga og félaga á góðu húsnæðisformi.