01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5265 í B-deild Alþingistíðinda. (3515)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skildi hæstv. félmrh. þannig, og ég vona að hún leiðrétti mig ef ég hef misskilið það, að það hafi verið búið að senda lánsloforð fyrir því fjármagni sem vitað var að yrði til staðar á þessu ári. M.ö.o. hefur stjórnarliðið skorið það niður um 100 millj. sem á að svíkja fólkið um sem er með þetta í höndum. Svo koma hér menn upp og átelja ráðherra fyrir það að hún sé ekki ánægð með gang mála, en þó ég sé ekki vanur því að taka upp hanskann fyrir hæstv. félmrh. finnst mér þetta undarleg vinnubrögð og ósæmandi allt saman. Þó að hv. þm. Páll Pétursson segi ýmislegt, bæði viljandi og óviljandi, líklega meira óviljandi, réttlætir það sem hann hefur sagt hér ekki slík vinnubrögð, að gera ráðherrann og raunar stjórnarliðið allt ómerkt af því í raun og veru að senda út svona lánsloforð.

Það var rætt um það hér áðan hvort eitthvað óvenjulegt væri við það þó að svona væri staðið að málum eins og hæstv. félmrh. hefur gert og því var beint til þeirra sem eru búnir að vera lengi að það hafi skeð hér áður. Það er rétt sem hv. 17. þm. Reykv. segir að það skiptir í raun og veru ekki máli í þessu sambandi vegna þess að Sjálfstfl. tók það sérstaklega fram að ekki mætti leggja það fram öðruvísi en að búið væri að ná samkomulagi, ef ég hef tekið rétt eftir. Slíkt hefur hins vegar komið fyrir á undanförnum árum oft og tíðum og ég man meira að segja eftir því að við stjfrv. sem kom úr Ed. til Nd. voru gerðar 29 brtt. þannig að stundum eru gerðar meira að segja verulegar efnisbreytingar á frv. í nefnd. Eða til hvers eru þá nefndir ef þær eru ekki til þess? Ég spyr.

Nei, það er eðlilegt að rætt sé um þessi mál, sérstaklega um fjármögnunina. Ég er ekki alveg sammála hæstv. félmrh. um þessar kaupleiguíbúðir, t.d. í Svíþjóð. Ég tel að þær heiti það, tel það. Ég þekki fólk sem hefur verið í þessu kerfi. Það getur vel verið að það sé hægt að þýða það öðruvísi, en eins og ég skil það held ég að það sé. En það skiptir í raun og veru ekki máli. Það sem skiptir máli í þessu sambandi er meira fjármagn og að það sé staðið við það sem hefur verið lofað. Ég minni bara á í þessu sambandi að ýmsu hefur verið af þessari hæstv. ríkisstjórn lofað, ekki allt svikið, en mest af því. Það er sannleikurinn.