01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5267 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti, sem talaði hér áðan, mælti af miklu mannviti hollar ráðleggingar til hv. stjórnarliða sem ég held að þeim hefði verið viturlegra að fara eftir. Það lá í orðum hæstv. forseta að honum þyki nokkuð á skorta uppeldið í stjórnarsamstarfinu. Er þá náttúrlega nærtækast að spyrja hvort stjórnin ætli sér ekki að bæta úr því með því að senda stuðningsmenn sína á námskeið, einhvers konar námskeið í samskiptatækni, þannig að jafnkostulegar uppákomur og hér hafa orðið í dag þurfi ekki að tefja þingstörfin dögum saman, því hér hafa langar ræður snúist um jafnfurðulega léttvægan hlut og þann hvort nákvæmlega formlega rétt voru borin boð á milli þingflokka stjórnarliðsins eða ekki. Og það merkilega við allan lopann er að hér hefur sáralítið komið fram um það að einhver efnislegur ágreiningur sé á ferðinni, heldur er hér nöldrað fram og til baka um eitthvert form í samskiptum stjórnarliðsins innbyrðis sem ég hélt nú satt best að segja að væri yfirleitt ekki efni til þess að fara með hér í ræðustól. Út af fyrir sig stendur ekki á mér að mælast undan því að hlusta á stjórnarliðið hér þrasa og nöldra um það hvort þetta eða hitt hafi verið nákvæmlega rétt gert. Ef það vill bera slíkt á borð fyrir þingið og þjóðina þá má það svo sem mín vegna. En ég tel að almennt séu þetta hlutir sem menn eigi að leysa fyrir sig. Ef ekki er verið að ræða um einhverja efnislega meðferð á málinu eða efnislegan ágreining, þá er það auðvitað alveg ótrúlegt að það skuli þurfa að kosta hv. stjórnarliða hvern um annan þveran margar ferðir í ræðustólinn að pexa nú um þetta fram og aftur og er kostulegt, alveg kostulegt.

Það má líka spyrja sig að því: Hvað er þetta lið, með leyfi þínu herra forseti, að ég taki nú svo til orða, að hanga saman í ríkisstjórn, ef þetta er allt svona óskaplega leiðinlegt og erfitt og vinnubrögðin svona óvönduð á alla kanta og enda? Hvers vegna í ósköpunum létta menn þessu oki ekki af sjálfum sér með því að hætta þessu? Maður hlýtur að fara að spyrja sem svo. Þetta virðist vera slík kvöl mönnum upp til hópa að búa við að það er ekki hægt að gefa mönnum neitt annað ráð en það að létta þá þessari pínu af sjálfum sér.

Varðandi athugasemdir hæstv. félmrh. við það sem ég spurði um, um áhuga og útkomu sveitarfélaganna eða annarra framkvæmdaaðila í þessu kaupleiguíbúðadæmi, þá ætla ég að segja að það skiptir að sjálfsögðu ekki nokkru máli hvort lántakandinn heitir einstaklingur eða félag. Það kostar engu að síður peninga. Það þarf peninga til að greiða út ef það á að veita einhverjum lán, hvort sem hann heitir Jón Jónsson eða sveitarfélag einhvers staðar á Ströndunum. Og það er spurningin um þá peninga, sem fara í þetta verkefni ef það verður barn í brók, hvaðan þeir koma og hvaða áhrif þeir hafa þá á útlánagetu byggingarsjóðanna að öðru leyti. Er búið að taka frá, er samkomulag um kannski 300 millj. kr. á næsta ári eða 500 millj. kr. eða eitthvað slíkt af því fé sem þegar er í raun og veru búið að ráðstafa að mestu leyti með lánsloforðum? Og hvað á þá að gera? Til hvaða ráðstafana á þá að grípa á móti?

Eins er það með framkvæmdaaðilana, sveitarfélögin væntanlega í flestum tilfellum, þann sem á að leggja fram og sjá fyrir þeim 15%, eða 30% eftir atvikum, sem vantar upp á að lánin dugi fyrir kostnaðarverði. Það bindur vitanlega fé þessa aðila hvort sem um er að ræða óafturkræft framlag eða lán eða eignarhlut sem getur síðar orðið að verðmæti. Það er spurningin um þessa fjárbindingu held ég sem sveitarfélögin munu fyrst og fremst horfa á. Það þarf til peninga sem eru ekki til hjá þessum sveitarfélögum í mjög miklum mæli. Við höfum heyrt hvernig ástandið er hjá hinum ýmsu sveitarfélögum, að slepptum fáeinum ríkum sveitarfélögum hér á þenslusvæðinu, höfum við heyrt það hvernig þeim hefur gengið að koma saman sínum fjárhagsáætlunum undanfarna mánuði eða vikur. Það eru ekki til milljónir á milljónir ofan í þessum sveitarfélögum víða úti um landið sem hér er sérstaklega verið að tala um. Það þarf að afla þeirra með einhverjum hætti. Þessi sveitarfélög, eru yfirleitt með alla sína möguleika í botni fyrir. Ég spái því að það muni koma í ljós að þarna sé um þröskuld að ræða sem mörgum sveitarfélögum reynist ókleift að stíga yfir ef ekki verður með einhverjum sértækum ráðstöfunum séð fyrir því að þau kljúfi þennan þröskuld. Og þá skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort um er að ræða óafturkræft framlag eða lán eða eignarhlut sem einhvern tímann síðar gæti komið góða.

Ég minni á að í þessu kerfi er líka kaupskylda, kvöð á framkvæmdaaðilanum að lágmarki til fimm ára, ef ég hef lesið þetta rétt, og í mörgum tilfellum mun lengri kvöð, nákvæmlega hliðstæðs eðlis og er í verkamannabústaðakerfinu í dag og er hvað erfiðast fyrir þau sveitarfélög sem hafa á undanförnum árum staðið fyrir mikilli uppbyggingu á því sviði. Að því leytinu til er hér í raun og veru um enga úrlausn, enga breytingu að ræða eftir því sem mér sýnist fyrir sveitarfélögin.

Ég held að hæstv. félmrh. verði að rökstyðja það einhvern veginn miklu betur en hann gerði þegar hann svaraði mér, ef hann á að sannfæra mig um að þessi breyting leiði til þess að sveitarfélög sem hafa verið að kikna undan því að reka félagslega íbúðarkerfið hjá sér undanfarin ár sjái betri tíð og blóm í haga í gegnum þetta kerfi.