01.03.1988
Neðri deild: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5269 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hv. 17. þm. Reykv. að hann gagnrýndi afstöðu félmrh. til þeirrar ákvörðunar ríkisins að minnka fjármagn til húsnæðislánakerfisins. Hv. 5. þm. Norðurl. v. taldi að það væri hægt að standa við öll loforð sem gefin hafa verið til húsbyggjenda þrátt fyrir þennan niðurskurð ef af yrði. Ég ræddi um það hér í ræðustól að ég efaði að svo væri. Ég vissi ekki betur en það hefði verið búið að ráðstafa fjármagninu með bindandi loforðum, því sem til væri til ráðstöfunar á árinu 1988. Og ég tók það fram að ég teldi að Húsnæðisstofnun ríkisins gæti orðið skaðabótaskyld ef þau loforð yrðu svikin.

Mér þykir nú rétt að óska eftir því að félmrh. upplýsi það hér hvort hægt verður að standa við öll gefin loforð Húsnæðisstofnunar á árinu 1988 ef þessi skerðing á sér stað. Það hlýtur að vera hagstætt að þingheimur fái sem fyrst svar við þeirri spurningu og ég vil að það komi alveg skýrt fram að ef ekki er hægt að standa við loforðin með því að skerða um 100 milljónir, þá tel ég að sú skerðing sé algjörlega út í hött og geti ekki átt rétt á sér. Ég vil benda á það að þeir eru ekki svo fáir opinberir aðilar sem hafa bundið greiðslur frá ríkinu með samningum núna í upphafi ársins fastar til þess eins að koma í veg fyrir að þær greiðslur yrðu skornar. Ég fæ ekki séð að það séu heilagri plögg en loforð sem opinber stofnun gefur til einstaklinga. Og komi það til að þetta sé á þann veg sem ég tel að þetta sé, þá treysti ég mér ekki til að styðja það ákvæði í bandormi ríkisstjórnarinnar að skera þetta niður um þessa upphæð. En ég óska eindregið eftir að félmrh. upplýsi þetta.